2008
Verða vitni Krists
Mars 2008


Verða vitni Krists

Ljósmynd
Elder D. Todd Christofferson

Postular eru, sökum eðlis prestdæmisembættis þeirra, útnefndir sem sérstök vitni Krists fyrir allan heiminn (sjá K&S 107:23). Vitnisburður þeirra er ómissandi í verki sáluhjálpar. En postularnir eiga ekki að standa einir og það gera þeir ekki. Við öll, sem erum skírð og staðfest, höfum tekið á okkur nafn Jesú Krists með skuldbindingu um að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar, hvar sem [við kunnum] að vera“ (Mósía 18:9). Við getum öll verið vitni hans. Vissulega reiðir Drottinn sig á að „hinir veiku og einföldu“ boði fagnaðarerindið (sjá K&S 1:19, 23) og hann þráir að „hver maður [mæli] í nafni Guðs Drottins, já, frelsara heimsins“ (K&S 1:20).

Hugleiðum hvernig þegnar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu geta verið vitni Krists.

Við erum vitni Krists þegar við hljótum öruggan vitnisburð um að hann lifir.

Að vera vitni Jesú Krists er í grundvallaratriðum það að eiga öruggan og persónulegan vitnisburð um að hann sé sonur Guðs, frelsari og lausnari heimsins. Postularnir til forna vissu að Jesús var hinn fyrirheitni Messías og töluðu af eigin reynslu um bókstaflega upprisu hans. Vitni Krists þurfa þó ekki að hafa séð hann eða komið í návist hans. Þegar Pétur vitnaði fyrir Jesú: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs,“ svaraði Drottinn að þessa vitneskju hefði Pétur ekki hlotið vegna návistar hans við Jesú eða reynslu hans með honum, heldur sagði hann að faðir hans á himnum hefði opinberað honum hana (sjá Matt 16:15–17). Jesús gerði Tómasi ljóst að mögulegt væri að öðlast sömu trú og vitnisburð og Tómas hlaut án þess að snerta eða sjá hann: „Jesús segir við hann: Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó“ (Jóh 20:29).

Vitnisburður okkar um Krist hefst oft á því að aðrir bera okkur vitni—fólk sem við þekkjum eða þekkjum til og treystum. Við höfum skráðan vitnisburð postulanna um að „þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess“ (Post 2:32). Við höfum Gamla og Nýja testamentið um forvígslu hans, þjónustu og friðþægingu. Við höfum annað vitni, Mormónsbók, sem hefur að megin tilgangi að „sannfæra Gyðingana og Þjóðirnar, um að Jesús er Kristur, hinn eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum.“1 Við höfum vitnisburð spámannsins Josephs Smith um að hann heyrði í föðurnum og sá hann benda á Jesú og lýsa yfir: „Þetta er minn elskaði sonur.“ (Joseph Smith—Saga 1:17) og síðar bar spámaðurinn vitni: „Eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, Að hann lifir! Því að við sáum hann, já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins“ (K&S 76:22–23). Við höfum á okkar tíma sérstök vitni meðal okkar, sem við getum séð og hlýtt á og hlotið staðfastan vitnisburð fyrir. Margir njóta einnig þeirrar blessunar að geta hlýtt á vitnisburð foreldra, afa og ömmu og trúfastra vina.

Þeir sem taka á sig skírnarsáttmálann hljóta sérstaka gjöf trúar á Jesú Krist og með gjöf heilags anda kemur staðfesting um að vitnisburðurinn sem við höfum hlotið um Krist er sannur. Nefí staðfesti að þetta myndi gerast: „Og þá eruð þér á hinum krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs. Já, þér eruð komnir inn fyrir hliðið. Þér hafið hlýtt boðorðum föðurins og sonarins, og þér hafið tekið á móti heilögum anda, sem vitnar um föðurinn og soninn til uppfyllingar fyrirheitinu, sem hann gaf og sagði, að yður mundi veitast, ef þér gengj-uð inn á þennan veg“ (2 Ne 31:18; leturbr. hér).

Það er andleg gjöf að trúa orðum annarra og önnur gjöf „er [gefin] fyrir heilagan anda að vita, að Jesús Kristur er sonur Guðs og að hann var krossfestur vegna synda heimsins“ (K&S 46:13).

Slík staðfesting kemur oft sem tilfinning—bruni í brjósti, friður, fullvissa, uppljómun. Drottinn veitti Oliver Cowdery vitnisburð um Mormónsbók með andlegri tilfinningu sem staðfesti „að orðin eða verk það, sem [hann hafði] verið að skrá, [væri] sannleikur“ (K&S 6:17). Drottinn bætti svo við: „Ef þú þráir frekari vitnisburð, hugleiddu þá nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu til að fá að vita um sannleiksgildi þessa hluta. Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“ (K&S 6:22–23). Vitnisburður hlýst ekki aðeins með því að andinn veiti hugarró, heldur er engan stærri vitnisburð að fá en þann sem kemur frá Guði. Á sama hátt og við getum látið reyna á orð Krists í ritningunum, getum við „vottað, að [við höfum] heyrt rödd [hans] og [þekkjum] orð [hans]“ (K&S 18:36)

Við erum vitni Krists þegar við endurspeglum kenningar hans með lífi okkar.

Þegar frelsarinn þjónaði í Vesturheimi gaf hann þetta boðorð: „Haldið því ljósi yðar á loft, til að það lýsi heiminum. „Ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft—það sama og þér hafið séð mig gjöra“ (3 Ne 18:24). Fólk ætti að geta séð í okkur einhverja eiginleika Jesú Krists. Framkoma okkar, málfar, útlit og jafnvel hugsanir, ættu að endurspegla hann og veg hans. Alma orðaði það svo, að við upplifðum gjörbreytingu hjartans og hefðum mynd hans greypta í svip okkar (sjá Alma 5:14). Á líkan hátt bauð Drottinn að við ættum að vera eins og hann er (sjá 3 Ne 27:27). Þótt við höfum ekki verið við hlið Jesú er hann þjónaði, getum við séð hann og það sem hann sagði og gerði, er við könnum ritningarnar. Og þegar við tileinkum okkur kennslu hans, berum við vitni um hann.

Ég minnist fordæmis kaþólsks prests sem ég kynntist þegar við störfuðum saman við þjónustuverkefni í Nashville, Tennessee. Faðir Charles Strobel kom á verkáætlun til að fá heimilislausa af götunum, fáeina í senn, með því að fá þá til að taka þátt í endurhæfingu til að efla kunnáttu þeirra og starfshæfni. Hann helgaði ómældan tíma í að hjálpa þessu fólki að breyta lífi sínu varanlega til hins betra og verða sjálfbjarga. Ég furðaði mig á því er ég komst að því að móðir hans hafði verið myrt af heimilislausum manni fyrir ekki all mörgum árum. Faðir Strobels hélt áfram að sýna kristilegan kærleika, jafnvel meðal manna sem voru úr hópi þess sem grimmilega hafði tekið líf dýrmætrar móður hans.

Megin boðskapur postulanna og spámannanna á öllum tímum er mikilvægi þess að iðrast til að hljóta fyrirgefningu syndanna fyrir friðþægingu Jesú Krists. Okkar eigin iðrun ber vitni um hann og mátt náðar hans til að fyrirgefa og hreinsa okkur. Við þurfum ekki að hafa náð fullkomnun til að vitnisburður okkar sé gildur, svo lengi sem við aðeins reynum að laga líf okkar að reglum frelsarans. Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) veitti okkur þá skynsamlegu leiðsögn að sýna þolinmæði og kostgæfni í þessu ferli:

„Að líkjast Kristi er ævilangt viðfangsefni og felur oft í sér hægan þroska og breytingar, næstum ómerkjanlegar… .

„ … Fyrir hvern Pál, fyrir hvern Enos, fyrir hvern Lamoní konung, eru hundruð og þúsundir manna sem upplifa frelsi iðrunar mun hægara og ómerkjanlegra. Dag eftir dag færast þeir nær Drottni og verða lítið varir við að þeir eru að færa líf sitt til guð-legs vegar. Þeir lifa hljóðu lífi góðvildar, þjónustu og skuldbindingar. Þeir eru líkt og Lamanítarnir, sem Drottinn sagði að hefðu verið „skírðir með eldi og heilögum anda vegna trúar sinnar, þegar þeir snerust, en þeir vissu það ekki“ (3 Ne 9:20; leturbr. hér).“2

Við erum vitni Krists þegar við hjálpum öðrum að koma til hans.

Nefí sagði í fögnuði: „Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“ (2 Ne 25:26). Við getum einnig í verki hjálpað öðrum að koma til Krists, einkum börnum okkar.

Í orðum Nefís „vér tölum um Krist“ felst að við eigum ekki að vera treg til að tala um tilfinningar okkar varðandi frelsarann í umræðum og á óformlegum vettvangi. Oft á slíkt sér stað undir fjögur augu, þar sem við getum opinskátt og í vinsemd rætt um Krist, hvað hann gerði og kenndi og hvatt aðra til að fylgja honum og elska hann.

Í orðunum „vér fögnum í Kristi“ felst að við geislum frá okkur þeirri hamingju sem endurspeglar trú okkar á Krist. Við vitum að náð hans nægir til að endurleysa okkur frá dauða og synd og að fullkomnast í honum (sjá Moró 10:32–33). Þegar við verðum fyrir vonbrigðum eða jafnvel hörmungum, vitum við að eilíf hamingja okkar er tryggð vegna hans. Þegar trú okkar á Jesú Krist endurspeglast í okkur, sýnum við þeim sem „erfiði [hafa] og þungar byrðar“ hvernig finna á hvíld í honum (sjá Matt 11:28–30).

Orðin „vér prédikum um Krists“ eru vissulega skírskotun til alls trúboðsstarfs kirkjunnar, en í þeim felst einnig það sem við gerum á tilbeiðslusamkomum okkar, í námsbekkjum sunnudagaskólans og á öðrum fundum, þar sem hann er viðfangsefni kennslu okkar og fræðslu. Þátttaka okkar, bæði sem kennara og nemenda, er hluti af því að bera vitni um hann og persónulegt nám okkar sem liggur að baki þátttökunni ber enn fremur vitni um trú okkar.

Í orðunum „vér spáum um Krist“ felst að við gefum vitnisburð okkar með krafti andans (sjá 1 Kor 12:3). „Vitnisburður [um] Jesú er andi spádómsgáfunnar“ (Op 19:10). Líkt og þeir sem til forna spáðu um fyrri komu Krists, staðfestum við einnig í orði og verki spádómana um síðari komu hans. Með því að framkvæma skírnir og aðrar helgiathafnir fyrir ættmenni okkar, með því prestdæmisvaldi sem endurreist var fyrir tilverknað Elía, áður en „hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins“ kemur (Mal 4:5–6; sjá K&S 2; 128:17–18), berum við vitni um að Kristur kemur að nýju og að snúa verði hjörtum okkar til feðranna til að allt sé til reiðu fyrir komu hans (sjá Mal 4:6; K&S 2:2).

Í orðunum „vér færum spádóma vora í letur“ felst svo sú viska að skrá varanlega vitnisburð okkar um Krist. Okkur skilst að sá vitnisburður sem við gefum sé „skráður á himni fyrir englana að líta, og þeir gleðjast yfir [okkur]“ (K&S 62:3). Okkar eigin afkomendur og aðrir geta lesið hinn skráða vitnisburð okkar um Krist og fagnað yfir honum, sem ritaður er þeim til gagns, jafnvel áður en þeir fæðast.

Þegar við upplifum að heilagur andi staðfestir og endurstaðfestir fyrir anda okkar vitnisburð um Krist, við hin ýmsu tækifæri, er við leggjum kapp á að halda ljósi fordæmis hans á lofti í okkar daglega lífi, og miðlum öðrum vitnisburð okkar og hjálpum þeim að læra um hann og fylgja honum, erum við vitni Jesú Krists. Guð veitti okkur þá þrá hjartans, að teljast meðal þeirra „sem veittu vitnisburðinum um Jesú viðtöku“ (K&S 76:51) og „trúir höfðu verið vitnisburðinum … meðan þeir lifðu hér á jörðu“ (sjá K&S 138:12).

Heimildir

  1. Titilsíða Mormónsbókar.

  2. „A Mighty Change of Heart,“ Tambuli, mars 1990, 7.

Prenta