Umlukin elskuríkum örmum hans
Þegar sonur okkar, Nolan, var aðeins eins árs fékk hann heilablóðfall sem fylgikvilla mænuhimnubólgu. Nú, þegar hann er orðinn 14 ára, er hann með lágþrýstikera, stríðir við námsörðugleika, og er með helftarlömun.
Þrátt fyrir erfitt líf hefur Nolan farið fram úr væntingum okkar. Allir hans sigrar færa okkur mikla gleði. Hann hefur þroskað með sér þolinmæði og einurð sem vert er að taka sér til fyrirmyndar.
Ég og eiginmaður minn, Ryan, ásamt hinum fimm sonum okkar, höfum þroskast andlega af samskiptum okkar við Nolan. Stundum verðum við kvíðin og áhyggjufull yfir framtíð hans, en síðan teljum við sælustundir okkar, skynjum elsku og umhyggju föður okkar á himnum og sonar hans fyrir okkur öllum og minnumst bænheyrslu þegar Nolan var sex ára.
Kvöld eitt, þegar við hjónin vorum óviss um hvernig taka átti á erfiðleikum Nolans, krupum við saman í bæn fyrir velferð hans. Í bæn okkar til Drottins létum við í ljós áhyggjur af hegðun Nolans og hvernig hann skynjaði eigið sjálfsmat. Við báðum þess af einlægni að Nolan fengi að upplifa elsku frelsarans og hlyti skilning á því hve dýrmætur hann er sem barn Guðs.
Morguninn eftir kom Nolan rakleiðis í eldhúsið, þar sem ég var að taka til morgunmatinn. Áður en hann borðaði morgunmatinn var hann vanur að leika við bræður sína eða hoppa á sófanum. En hann virtst einbeittur þegar hann klifraði upp á stól við eldhúsborðið, leit á mig og sagði: „Mig dreymdi draum í nótt.“
Ég skynjaði alvöruna að baki orða hans og áhugi minn vaknaði þegar.
„Er það?“ spurði ég. „Hvað gerðist í draumnum?“
„Jesús var þar,“ svaraði Nolan blátt áfram, „og hann hélt á mér.“
Ég á vitnisburð um að okkar ástkæri faðir á himnum bænheyrir okkur og að frelsari okkar er málsvari okkar hjá föðurnum. Hann þekkir sérhvert okkar. Þeir þekkja þarfir okkar og getu. Þeir vita hvernig þeir geta liðsinnt okkur.
Moróní sagði: „Ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður [sannleikann]… . Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“ (Moró 10:4–5). Ég hef komist að því að þessi ritningargrein á ekki aðeins við um að hljóta vitnisburð um Mormónsbók, heldur einnig að hljóta bænheyrslu um allar spurningar sem við af einlægni leitum svara við. Þegar við eigum í erfiðleikum og hugarangri, verður hjartans ásetningur okkar ósvikinn og einlægur.
Hve þakklát ég er fyrir að tilheyra kirkju frelsarans, þar sem ég hef lært svo mikið um fagnaðarerindi hans með námi, þjónustu og heilögum anda. Hve þakklát ég er fyrir að vita að frelsarinn hjálpar, huggar og leiðir okkur. Ég veit að við getum öll verið „[umlukt] … elskuríkum örmum [hans]“ (K&S 6:20) þegar við komum til hans.