2019
Að sjá pabba syngja
Apríl 2019


Að sjá pabba syngja

Maria Oka

Kaliforníu, Bandaríkjunum

watching choir singing

Myndskreyting eftir Allen Garns

Ég hafði verið í trúboði í Honolulu, Havaí, Bandaríkjunum, í einungis fjóra og hálfan mánuð þegar ég fékk mikið flogakast og var greind með flogaveiki. Á komandi mánuðum fór ég í sjúkrahúsvitjanir, ótal rannsóknir og tók ný lyf sem höfðu óþægilegar aukaverkanir.

Fram að þessu hafði ég ekki upplifað neina heimþrá, því ég var svo önnum kafin í trúboðinu, en um leið og ég hafði fengið flogakastið þráði ég innilega að vera heima. Ég saknaði foreldra minna og var einmana, þótt ég væri umlukin dásamlegu og umhyggjusömu fólki. Ég vildi ekki fara heim, en þráði að finna frið.

Með leyfi trúboðsforsetans, talaði ég við foreldra mína í síma um lyfjagjöfina. Faðir minn, sem rétt áður hafði fengið þann langþráða draum sinn uppfylltan að syngja með Laufskálakór Musteristorgsins, fullvissaði mig um að hann hyggðist syngja fyrir mig af öllu hjarta á aðalráðstefnu, sem yrði daginn eftir.

Að morgni næsta dags baðst ég innilega fyrir um þann frið sem ég þráði svo innilega. Ég hafði áður hlotið svör við ákveðnum spurningum á aðalráðstefnu og var viss um að ég hlyti leiðsögn áfram. Þegar ráðstefnan hófst, söng kórinn: „Börnin kæru, Guð er nærri“ (Hymns, nr. 96). Eftir örstutta stund sá ég pabba á sjónvarpsskjánum. Myndavélin tók nærmynd af andliti hans í nokkurn tíma.

Tár spruttu fram og dásamlegur friður gagntók mig. Ég vissi að Guð elskaði mig. Þennan dag vissi hann nákvæmlega hvers ég þarfnaðist – einfalda staðfestingu á því að hann væri nálægur og vissi af mér. Ég upplifði elsku Guðs, sem vakti mér elsku til fjölskyldu minnar, trúboðsfélaga minna og trúboðsforsetans. Í stað þess að finnast ég íþyngd byrðum, sá ég nú tækifæri til að komast nær Drottni.

Heilsufarslegt ástand mitt hvarf ekki. Ég varð að hverfa frá trúboði mínu fyrr en ella, en ég vissi að Guð var til staðar og elskaði mig. Sú fullvissa hefur verið með mér í gegnum ótal aðra erfiðleika og vakið mér von á mínum myrkustu stundum. Sumir gætu kallað það tilviljun að ég sá pabba minn syngja um elsku Guðs, en ég veit að það var lítið kraftaverk á neyðarstundu.