Treysta á lausn frelsarans
Úr trúarhugvekju með yfirskriftina „The Power of Deliverance,“ flutt í Brigham Young háskóla, 15. janúar 2008.
Friðþæging og upprisa frelsarans veitir honum máttinn til að leysa okkur frá slíkum raunum.
Vegurinn framundan getur verið þeim okkar raunalegur og einmana sem hafa misst ástvini – og jafnvel enn raunalegri þeim sem ekki þekkja eða eiga vitnisburð um friðþægingu og upprisu frelsarans Jesú Krists. Þið munið eftir hinum tveimur efablöndnu lærisveinum á veginum til Emmaus. Hinn upprisni Drottinn kom að þeim og spurði af hverju þeir væru raunamæddir. Lúkas segir frá viðbragði þeirra:
„Þeir svöruðu: Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,
hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.
Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael“ (Lúk 24:19–21).
Við látum hughreystast af þeirri vitneskju og vitnisburði að það var hann sem leysti Ísrael. Það var hann sem „sem rauf helsi dauðans“ (Mósía 15:23). Það var hann sem varð „frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru“ (1 Kor 15:20). Það var hann sem gerði sáttmála musterisins mögulega, sem binda okkur eilíflega við þá sem við „höfum elskað lengi og misst um hríð!“1
Á þessum páskum ætla ég að miðla hluta af trúarhugvekju sem ég flutti fyrir nokkrum árum um lausnarmátt frelsarans. Sá máttur efldi mig er ég undirbjó og flutti boðskapinn. Ég bið þess að ykkur veitist styrkur af því að lesa hann.
Lífinu lýkur skjótt fyrir suma og verða endanleg örlög allra. Sérhvert okkar mun takast á við þá prófraun að upplifa dauða ástvinar.
Um daginn hitti ég mann sem ég hafði ekki séð frá andláti eiginkonu hans. Við hittumst af tilviljun við ánægjulegar aðstæður í sumarfríi. Hann kom brosandi til mín. Ég mundi eftir andláti eiginkonu hans, heilsaði honum og sagði af varkárni: „Hvernig hefurðu það?“
Brosið hvarf, honum vöknaði um augu og hann sagði lágt af mikilli einlægni: „Ég hef það fínt. En þetta er afar erfitt.“
Þetta er einmitt afar erfitt, eins og flest ykkar hafa kynnst og allir munu einhvern tíma kynnast. Erfiðasti hluti þeirrar prófraunar er að vita hvað gera skal við sorgina, einmanaleikann, söknuðinn sem við finnum og tómarúmið sem myndast. Sorgin getur viðhaldist, líkt og langvarandi verkur. Sumir upplifa jafnvel reiði og ósanngirni.
Frelsarinn þekkir sorgir okkar.
Friðþæging og upprisa frelsarans veitir honum mátt til að koma okkur til lausnar í slíkum raunum. Hann kynntist öllum okkar sorgum af eigin upplifun. Hann hefði getað kynnst þeim með innblæstri andans, en hann kaus þess í stað að upplifa þær af eigin raun. Þetta er frásögnin:
„Og sjá. Hann mun fæddur af Maríu í Jerúsalem, sem er land forfeðra vorra, en hún er hrein mær, dýrmætt og kjörið ker, sem yfirskyggð verður og þunguð fyrir kraft heilags anda. Og hún mun fæða son, já, sjálfan son Guðs.
„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.
Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:10–12).
Gæskuríkt fólk umhverfis mun reyna að skilja sorg ykkar yfir fráfalli ástvinar. Það gæti sjálft verið að upplifa sorg. Frelsarinn skilur ekki aðeins og upplifir sorg, heldur finnur hann líka hina persónulegu sorg sem einungis þið sjálf finnið. Hann þekkir ykkur fullkomlega. Hann þekkir hjarta ykkar.
Bjóða heilögum anda
Frelsarinn veit hvað af því marga sem þið getið gert, mun falla best að ykkur, er þið bjóðið heilögum anda að hugga ykkur og blessa. Hann veit hvernig best er fyrir ykkur að hefjast handa. Stundum er það með því að biðjast fyrir. Stundum er það með því að hugga einhvern annan. Ég veit af alvarlega veikri ekkju sem hlaut innblástur um að vitja annarrar ekkju. Ég var ekki þar, en þykist viss um að Drottinn hafði innblásið trúfastan lærisvein til að hjálpa öðrum og þannig gat hann liðsinnt báðum.
Frelsarinn getur á margan hátt liðsinnt þeim sem syrgja, sem fellur best að þeim sjálfum. Þið getið þó verið viss um að hann getur gert það og mun gera það á þann hátt sem gagnlegast er fyrir þann sem syrgir og þá sem umhverfis eru. Sá eiginleiki sem alltaf er fyrir hendi þegar Guð veitir fólki líkn frá sorg, er hin barnslega auðmýkt sem það upplifir frammi fyrir honum. Stórkostlegt dæmi um áhrif auðmýktar hins trúfasta má finna í lífi Jobs (sjá Job 1:20–22). Annar eiginleiki sem Job hafði, er staðföst trú á upprisumátt frelsarans (sjá Job 19:26).
Við munum öll reist upp, einnig ástvinir okkar sem deyja. Við munum ekki einungis sameinast þeim sem andar, heldur líka með efnislíkama sem mun aldrei deyja eða eldast eða veikjast.
Þegar frelsarinn birtist postulum sínum eftir upprisuna, veitti hann ekki einungis þeim hugarró í sorg þeirra, heldur á það líka við um okkur öll sem einhvern tíma syrgjum. Hann veitti þeim hugarró á þennan hátt:
„Friður sé með yður! …
Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef“ (Lúk 24:36, 39).
Drottinn getur innblásið okkur með lausn frá sorg á þann hátt sem best fellur að okkur. Við getum valið að þjóna öðrum fyrir Drottin. Við getum vitnað um frelsarann, fagnaðarerindið, endurreisn kirkju hans og upprisu hans. Við getum haldið boðorð hans.
Allir þessir valkostir bjóða heim heilögum anda. Það er heilagur andi sem getur huggað okkur á þann hátt sem best fellur að hverju okkar. Við getum hlotið vitnisburð um upprisuna, fyrir innblástur andans, og skýra sýn um hina dýrðlegu komandi sameiningu. Ég fann þá huggun er ég virti fyrir mér legstein eins ástvinar míns – sem ég veit að ég get einhvern tíma aftur tekið í faðm mér. Vitandi að ég hlaut ekki aðeins líkn frá sorg, heldur fylltist ég einnig gleðilegri eftirvæntingu.
Ef sú litla manneskja hefði lifað til fullorðinsára, hefði hún þurft á björgun að halda í enn frekari raunum. Hún hefði verið reynd í staðfestu sinni við Guðs, í gegnum líkamlegar og andlegar áskoranir sem allir takast á við. Þótt líkaminn sé stórbrotin sköpun, er það okkur öllum áskorun að viðhalda réttri virkni hans. Allir þurfa að takast á við veikindi og áhrif þess að eldast.
„Ver auðmjúkur“
Lausnarmáttur frá eign raunum er fullvirkur. Hann virkar á sama hátt og sú lausn sem við upplifum frá raunum vegna ástvinamissis. Á sama hátt og lausnin felst ekki alltaf í því að þyrma lífi ástvinar, felst lausnin frá öðrum raunum ekki endilega í því að þær séu teknar frá okkur. Drottinn veitir kannski ekki lausn og líkn fyrr en við höfum þróað trú til að taka ákvarðanir sem virkja mátt friðþægingarinnar í lífi okkar. Það gerir hann ekki af tómlæti, heldur af elsku til okkar.
Leiðarvísir um hvernig hljóta á lausnarmátt Drottins í mótlæti lífsins, var gefinn Thomas B. March, sem þá var forseti Tólfpostulasveitarinnar. Hann átti í miklum raunum og Drottinn vissi að þær yrðu fleiri. Þetta var leiðsögn ætluð honum, sem ég tek sjálfur á móti og færi ykkur: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum“ (Kenning og sáttmálar 112:10).
Drottinn þráir ávallt að leiða okkur til lausnar og gera okkur um leið réttlátari. Það krefst iðrunar. Það krefst auðmýktar. Leiðin til lausnar krefst ávallt auðmýktar, svo Drottinn geti leitt okkur hönd í hönd í gegnum erfiðleika okkar og áfram til helgunar.
Raunir geta kallað fram gremju og vonbrigði. Auðmýktin sem við þurfum til að Drottinn geti leitt okkur á sér rætur í trú. Hún á sér rætur í trú á að Guð lifi í raun, að hann elski okkur og að vilji hans fyrir okkur – hversu erfitt sem það kann að vera – sé ávallt okkur fyrir bestu.
Frelsarinn sýndi okkur slíka auðmýkt. Þið hafið lesið um það hvernig hann baðst fyrir í Getsemanegarðinum, meðan hann þjáðist fyrir okkur, þjáningum sem við fáum hvorki skilið né upplifað og jafnvel mig skortir orð til að lýsa. Þið munið þessi bænarorð hans: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji“ (Lúk 22:42).
Hann þekkti og lagði traust sitt á sinn himneska föður, hinn mikla Elóhim. Hann vissi að faðir hans væri almáttugur og óendanlega gæskuríkur. Hinn ástkæri sonur bað auðmjúkum orðum – líkt og lítils barns – um mátt sér til lausnar og hjálpar.
Verið hugrökk og hughraust
Faðirinn veitti syninum ekki þá lausn að taka frá honum raunir hans. Fyrir okkar sakir, gerði hann það ekki, en hann leyfði frelsaranum að ljúka sínu tilsetta ætlunarverki. Við getum þó alla tíð verið hugrökk og hughraust yfir að vita af þeirri hjálp sem faðirinn gerði mögulega:
„Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.
Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.
Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð.
Og hann sagði við þá: Hví sofið þér? Rísið upp og biðjið, að þér fallið ekki í freistni“ (Lúk 22:43–46).
Frelsarinn bað um lausn. Honum veittist ekki undankomuleið frá eign raunum, heldur hlaut hann næga hughreystingu til að sigrast á þeim á dýrðlegan hátt.
Boð hans til lærisveina sinna, sem sjálfir voru reyndir, er okkur til leiðsagnar. Við getum einsett okkur að fylgja þeirri leiðsögn. Við getum einsett okkur að standa upp og biðjast fyrir af mikilli trú og auðmýkt. Við getum fylgt þessu boði í Markúsarguðspjalli: „Standið upp, förum“ (Mark 14:42).
Hér er að finna leiðsögn til að standast líkamlegar og andlegar raunir lífsins. Þið þarfnist hjálpar Guðs eftir að þið hafið gert allt sem þið getið sjálf. Standið því upp og farið, en leitið hjálpar hans í tíma og látið ekki áföll dynja yfir áður en þið biðjið um lausn.
Ég ber ykkur hátíðlega vitni um að Guð faðirinn þekkir og elskar ykkur. Ég veit það. Sæluáætlun hans er fullkomin og hún er áætlun um hamingju. Jesús Kristur var reistur upp, líkt og fyrir okkur á að liggja. Hann þjáðist svo hann gæti liðsinnt okkur í sérhverri raun. Hann greiddi lausnargjaldið fyrir allar syndir okkar, allra barna himnesks föður, svo við yrðum leyst frá dauða og synd.
Ég veit að í kirkju Jesú Krists getur heilagur andi hughreyst okkur og hreinsað, er við fylgjum meistaranum. Megið þið njóta huggunar hans og liðsinnis á tíma neyðar, í öllum prófraunum lífs ykkar.