Að vera nýr
Höfundur býr í Texas, Bandaríkjunum.
Eistland
„Ég er með óvæntar fréttir!“ Ema (mamma) sagði frá því þegar hún sótti Rasmus í skólann. Þau gengu saman niður mjóar göturnar með marglit hús beggja vegna.
„Rosolje í matinn?“ Gat Rasmus upp á, vonglaður. Þau höfðu fengið það í matinn vikunni áður, þegar hann átti sjö ára afmæli. Hann gat samt alltaf borðað meira rauðrófu- og kartöflusalat með súrsaðri síld.
Ema hristi höfuð sitt með brosi. „Ég hitti tvær ungar konur í strætó í morgun. Trúboða. Þær eru að koma í heimsókn í kvöld til að tala um kirkjuna sína.“
Rasmus leit upp, með forvitnissvip á andlitinu. Hann hafði aldrei hitt trúboða áður.
Hann var að leika sér með slökkviliðsbílinn sinn í herberginu sínu þegar trúboðarnir komu. „Tere! Tere! Halló!“ sögðu þær við Emu er þær gengu inn í íbúðina. Þær fóru úr stígvélunum sínum og fóru í inniskó sem Ema hafði fyrir gesti. Ema leiddi þær að appelsínugula sófanum. Rasmus hélt sig tilbaka við dyrnar.
Hærri konan tók eftir honum og brosti. Á svarta nafnspjaldinu hennar stóð öde Craig (systir Craig). „Mamma þín sagði okkur að þú værir nýbúinn að eiga afmæli,“ sagði hún. „Við komum með svolítið handa þér.“ Hún rétti fram lítið kort. Rasmus leit vandlega á það.
Á því var mynd af manni. Hann var í hvítum kufli og hendur hans voru framréttar.
„Veistu hver þetta er?“ spurði öde Craig.
Rasmus vissi ekki hvað maðurinn hét. Hann hafði aldrei séð þessa mynd áður. Maðurinn virtist hins vegar gæskuríkur og máttugur. „Ég held að hann sé konungur!“ sagði Rasmus.
Báðir trúboðarnir brostu. „Já, hann er það! Hann er konungur konunganna!. Hann heitir Jesú Kristur.“ Öde Craig dró fram bók með blárri kápu. „Þetta er bók sem kennir um hann, Mormoni Raamat. Mormónsbók.“
Hann og Ema hófu að lesa Mormónsbók á hverjum morgni áður en hann fór í skólann. Á meðan á skólanum stóð fóru Rasmus og bekkjarfélagar hans í göngutúra í náttúrunni og fengu sér síðan lúr. Eftir skólann hittust þau Ema oft með trúboðunum. Þau töluðu við trúboðana um það sem þau höfðu lesið í Mormónbók. Stundum gaf Ema öllum að borða kringel, sem er fléttað kanilbrauð. Um helgar hjóluðu hann og Ema á reiðhjólum eða fóru í lautarferð á ströndina. Stundum fóru þau í langa göngutúra í skóginum eða meðfram uppáhalds ánni sinni.
Á einni slíkri skógargöngu sagði Ema honum að hana langaði að láta skírast. Rasmus brosti. Trúboðarnir höfðu beðið Emu að biðja varðandi það hvort hana langaði eða langaði ekki að skírast. Það hljómaði eins og hún hefði fengið svarið sitt!
„Ég veit líka nákvæmlega hvar ég vil láta skírast,“ sagði hún brosandi. „Geturðu getið upp á því?“
Rasmus hugsaði um trúboðslexíuna um skírn. Þær höfðu haldið uppi mynd af Jesú með Jóhannesi skírara í ánni. …
„Áin!“ hrópaði hann. „Í uppáhalds ánni okkar.“
Viku seinna stóð Rasmus á árbakkanum með trúboðunum og nokkrum aðilum úr kirkjunni. Ema var tilbúin að láta skírast. Hún fór alla leið ofan í vatnið, alveg eins og Jesús gerði. Þegar hún kom upp aftur, var hún brosandi. Rasmus vildi muna eftir þessari stund að eilífu – bláa vatninu, hvítu villiblómunum í grænu grasinu og brosi móður hans.
„Hvernig tilfinning var það að láta skírast?“ spurði hann síðar, þegar allir voru að borða smákökur sem trúboðarnir höfðu komið með.
„Yndislegt,“ sagði hún. „Mig langaði að vera ofan í ánni að eilífu. Mér finnst ég svo ný!“ Hún faðmaði hann þétt að sér.
„Mig langar að láta skírast alveg eins og þú og Jesús þegar ég á næst afmæli,“ sagði hann henni. „Mig langar líka að finnast ég nýr!“ ●