2019
Sonur okkar er sonur himnesks föður
Apríl 2019


Heimili okkar, fjölskyldur okkar

Sonur okkar er sonur himnesks föður

Höfundur býr í Arisóna, Bandaríkjunum

Orð sem voru ekki mín komu upp í hugann: „Heldurðu að þú elskir hann heitar en ég?“

Ljósmynd
mother and son

Ljósmynd af höfundi og syni hennar

Elskulegi litli sonur okkar, Hayden, barðist fyrir lífinu þegar hann kom í heiminn blár með andarteppu. Enginn grátur. Engin hreyfing.

Ég vissi að eitthvað hræðilegt væri að, er læknar og hjúkrunarliðar þutu fram og aftur um sjúkrastofuna. Eiginmaður minn og faðir gáfu Hayden snöggvast prestdæmisblessun og farið var með hann í miklum flýti á gjörgæslu. Hann var fljótlega greindur með sjaldgæfa hjartabilun. Á fáum dögum gekkst hann undir nokkrar hjartaskurðaðgerðir.

Þvert á öll rök þá lifði Hayden, fyrir kraftaverk prestdæmisblessunar, föstu og bæna. Við vorum yfir okkur glöð að koma með son okkar heim og hefja lífið saman.

Hayden fyllti líf okkar ómældri gleði. Við elskuðum og dáðum hann. Með tímanum vöknuðu hinsvegar áhyggjur af því að hann þroskaðist ekki eins og vænta mátti. Þótt sérfræðingar fullvissuðu okkur um að hann myndi að endingu ná tilsettum þroska, hélt nagandi kvíðinn áfram er ég gerði allt syni mínum til hjálpar.

Ég og eiginmaður minn lærðum allt hvað við gátum um sjúkdóm Haydens. Við gerðum allt sem læknarnir buðu okkur að gera. Þroskinn lét samt á sér standa.

Ég varð þreytt og vonsvikin. Ég sárbað himneskan föður um að hjálpa mér að finna einhvern sem gæti liðsinnt Hayden, en ekkert gerðist. Ástand Haydens versnaði. Hann tók að fá flogaköst. Við vorum hrædd. Við héldum að við værum að missa hann.

Kvöld eitt var ég seint á fótum í leit að svörum. Ég skrifað Hayden bréf. Ég sagði honum hve heitt ég elskaði hann og hve mikið ég væri að reyna að auðvelda honum lífið. Ég lofaði að reyna alla ævi að leita þeirrar hjálpar sem hann þarfnaðist.

Um stund var ég full vonleysis og óöryggis. Ég kraup og spurði himneskan föður: „Af hverju?“ Ég hélt að hann hefði sent mér Hayden, því hann vissi að ég gæfist aldrei upp á því að hjálpa syni mínum. Af hverju fann ég þá ekki þráð svör? Af hverju tók hver hindrun við af annarri í kjölfar nýrra lækna og meðferða? Elskaði himneskur faðir ekki Hayden?

Ég gleymi aldrei þessari stund. Yfirþyrmandi kærleikstilfinning gagntók mig allt í einu. Orð sem ekki voru mín komu upp í hugann: „Jerlyn, heldurðu að þú elskir hann heitar en ég geri?“

Ég fraus. Tíminn stöðvaðist. Tárin streymdu niður vangana – ekki af vonleysi eins og áður, heldur af von, skilningi og elsku.

Á þessari stundu breyttist allt. Ég mildaðist í hjarta. Spurningar mínar urðu aðrar. Ég skil nú að himneskur faðir elskar Hayden fullkominni elsku. Hayden var sendur hingað í líkama sem féll að þörfum hans og tækifærum til vaxtar og lærdóms. Hann hefur sínar sérstöku eiginleika og áskoranir, eins og við öll. Mér hefur lærst að börn með fötlun eru dýrmæt og ástkær börn himnesks föður, sem hafa sérstakan tilgang á þessari jörðu.

Ég og eiginmaður minn hljótum stöðugt svör og blessanir, sem koma á tíma Drottins, ekki okkar. Við höfum verið leidd að réttum bókum, meðferðum, skólum og kennurum, til að hjálpa Hayedn að takast á við þetta jarðneska líf. Við reynum að leita þess vegar sem himneskur faðir ætlar Hayden að fara, í stað þess vegar sem við viljum að hann fari. Við gerum allt sem við getum til að hjálpa Hayden að ná guðlegum möguleikum sínum og lifa því lífi sem himneskur faðir hefur einsett honum. Skilningur okkar á áætlun himnesks föður er miklu meiri nú, frá því að okkur skildist að Hayden var hans áður en hann varð okkar.

Prenta