2019
Lífið er maraþon: Æskan í Grikklandi
Apríl 2019


Lífið er maraþon

Þessi ungu Síðari daga heilögu búa í dag á sama stað og Páll postuli bjó á tímum Nýja testamentisins. Þau lifa einnig eftir orðum hans.

Bryana

„Ég hef lært að fagnaðarerindið er eins allstaðar. Það að búa erlendis hefur kennt mér að einbeita mér að sannleika fagnaðarerindisins og að skynja andann frekar en að leyfa menningunni að trufla einbeitingu mína.“ – Bryana W., 15 ára.

Marie

„Ég skrifaði orðið mundu á spegilinn minn, til að minnast alls þess sem gerðist á þessu ári: TSÆ, Stúlknafélagsbúðir, trúarskólinn. Það hjálpar mér að muna hvaðan ég er upprunin.“ – Marie H. 17 ára.

Lizzie

„Ég veit að þegar ég fer í trúarskólann, þá veitir það mér mikla gleði að vita að ég er að gera það sem ég þarf að gera og ég veit að allt verður í lagi.“ – Lizzie T., 17 ára.

Loukia

Loukia C., 15 ára, flutti vitnisburð sinn í fyrsta sinn í Stúlknafélagsbúðunum og var síðar skírð.

Haig

„Uppáhalds hluti minn á TSÆ voru íþróttirnar, dansinn og hópfundirnir, sem voru morgunhugvekjur og upprifjun. Það hjálpaði mér að vera hjálpsamari og þolinmóðari og að meta ritningarnar betur.“ – Haig T., 14 ára.

Alexis

„Á TSÆ mótuðumst við sem hópur og það styrkti okkur. Það hjálpaði til við að móta og innblása æskulýðsstarfið í Grikklandi því að við þekkjum hvert annað mikið betur núna.“ – Alexis H., 18 ára.

Irini

„Að syngja á sviðinu í TSÆ var eitt af því hugrakkasta sem ég hef nokkru sinni gert og ein af mest töfrandi stundum sem ég hef nokkru sinni upplifað. Á þeirri stundu gerði ég mér grein fyrir því hve mikilvæg við erum í þessum fallega heimi.“– Irini S., 17 ára.

Winifred

„Í Stúlknafélagsbúðunum lærði ég að lífið er eins og maraþon. Það hjálpar mér að vaxa í trú, vitandi að við verðum að halda áfram á réttri braut, rétt eins og að við værum að hlaupa maraþon. Sú reynsla hjálpar mér við að styrkja vitnisburð minn og að halda áfram að hafa trú og að halda mér á hinni réttu braut.“ – Winifred K., 14 ára.

Pavlos

„Ég kunni einstaklega vel við að upplifa það að vera umkringdur æskufólki sem hefur sömu trú. Mér fannst eins og við værum tengd á einhvern sérstakan máta, meira en bara að þekkja nöfn hvers annars.“ – Pavlos K., 15 ára.

Joshua

„Ég er ánægður með að hafa fengið það tækifæri að hitta annað æskufólk sem upplifir það sama og ég á hverjum degi.“ – Joshua K., 17 ára.

Olivia

„Sama tilfinning fylgir TSÆ og Stúlknafélagsbúðum hvar sem er í heiminum. Ég naut þess að vera í litlum Stúlknafélagsbúðum, því það var auðveldara að tengja við hver aðra.“ – Olivia H., 15 ára.

Irene

„Ég er ekki meðlimur kirkjunnar, en ég kem í hverri viku þegar ég get. Ég er svo hrifin af því sem stúlkurnar standa fyrir.“ – Irene C., 14 ára.

youth in Greece

Fyrir nokkrum mánuðum síðan hittist trúarskólabekkur á Marshæð, nálægt Aþenu í Grikklandi, þar sem Páll postuli flutti kröftuga ræðu (sjá Post 17:22–34). Nemendurnir töluðu um áhrif trúarskólans í líf þeirra, þar á meðal kenningar Páls.

„Að búa í Grikklandi endurlífgar Nýja testamentið,“ segir Alexis H., 18 ára. „Föður mínum finnst gaman að fara að mismunandi rústum, þar sem Páll kenndi, og deila ritningargrein eða segja okkur sögu af því sem gerðist þar.“

Á sama hátt og Páll stóð frammi fyrir áskorunum í sínu lífi, þá stendur æskan í Grikklandi frammi fyrir félagslegum, stjórnmálalegum og fjárhagslegum áskorunum. Ungmennaráðstefnur og Stúlknafélagsbúðir eru sjaldgæfar í Grikklandi og það getur jafnvel verið erfitt að stunda trúarskólanám. Þrátt fyrir þessar áskoranir og aðrar, þá framfylgir æskan í Grikklandi hvatningu Páls um að „hegða [sér] eins og samboðið er fagnaðarerindinu“ (Fil 1:27).

Að búa í Grikklandi þýðir að þessir ungu meðlimir geta notið góðs af hlýju veðri, ströndum, mat og dansi. Þau njóta þess einnig mjög að hittast. Er þau hittast í trúarskólanum og við greinarviðburði, hafa þau styrkst í trú og vináttu.

Trúarskóli á Aresarhæð

Seminary students

Trúarskólahópurinn fyrir framan samkomuhúsið í Aþenu.

Ljósmyndir birtar með leyfi Leeann Heder

Þegar trúarskólinn hófst í Grikklandi fyrir nokkrum árum síðan, voru einungis fimm nemendur. Þau hittast þrjá morgna í viku ásamt því sem sumir taka þátt í vídeofundum á netinu. Þau hittast einnig eftir hádegi á miðvikudögum í trúarskólanum og síðan er skemmtidagskrá. Þau hafa styrkt vináttuna og orðið ljós vinum sínum sem taka eftir fordæmi þeirra. Þegar vinir þeirra spyrja þau spurninga, býður æskan þeim í trúarskóla og á verklega fundi Ungmennafélagsins.

Pavlos K., 15 ára piltur, segir: „Að fara í trúarskóla er góð leið til að hefja daginn og gerir mér kleift að vera sterkur. Það setur mig í það hugarástand að vera fordæmi fyrir aðra. Það hjálpar mér að byrja daginn á því að hugsa um Jesú Krist.

Er æskan vex í styrk og einingu, öðlast hún blessanir og tækifæri. Til dæmis voru þau blessuð árið 2017, með því að geta tekið þátt í Til styrktar æskunni (TSÆ), stórri svæðisráðstefnu æskunnar. Stúlkurnar tóku einnig þátt í Stúlknafélagsbúðum í fyrsta sinn í Grikklandi. Þar af leiðandi hafa þær orðið nánari sem hópur, auk þess sem tvær stúlkur hafa gengið í kirkjuna.

Alþjóðlega TSÆ ráðstefnan

youth spelling out youth theme at FSY

Á TSÆ ráðstefnunni, að stafa orðið „Biðja“ úr Jakob 1:5.

Ráðstefnan sem haldin var í Stuttgart, Þýskalandi, færði unga Síðari daga heilaga saman um alla Evrópu. Æskan frá Grikklandi og Kýpur ferðaðist hundruð kílómetra og upplifun ráðstefnunnar hafði djúpstæð áhrif á þau. Hvað varðar Maximos A., 14 ára, þá er „það sem er mér minnisstæðast frá TSÆ ráðstefnunni þegar við deildum vitnisburði okkar. Allir skynjuðu andann og það hvatti mig til að þroska með mér minn eigin vitnisburð.“

„Til að byrja með vorum við einungis fjögur sem ætluðum að fara,“ bætir Loukia C., 15 ára, við „en að lokum vorum við 15 sem mættum – met fyrir Grikkland – þar á meðal 3 vinir sem eru ekki meðlimir kirkjunnar.“

„Það var svo huggulegt að vera saman einhverstaðar þar sem við eigum fagnaðarerindið sameiginlegt og þú ert ekki sá sem ert öðruvísi. Við vorum öll saman og við skynjuðum öll sama andann. Þetta hjálpaði mér.“

„Faðir minn er ekki meðlimur og vildi ekki leyfa mér að fara á TSÆ eða að láta skírast,“ segir Jesiana, 16 ára. „Þá föstuðu meðlimirnir í greininni fyrir mér og amma mín talaði við pabba minn. Eftir það sagði hann að ég mætti fara!“

Á TSÆ upplifði hún margt í fyrsta sinn, eins og að „taka þátt í lexíunum og viðburðunum og að gefa vitnisburð minn, hjálpaði mér að skilja hvað það er raunverulega að skynja heilagan anda. Ég hafði aldrei upplifað andann á þennan hátt áður og ég var svo hamingjusöm og spennt. Ég flutti vitnisburð minn í fyrsta sinn.“

youth at FSY

Til viðbótar við að vera andlega nærð, gat æskan slakað á og skemmt sér saman á ráðstefnunni. Hait T., 14 ára, kom á ráðstefnuna frá Kýpur. „Ég lærði að vera meira félagslyndur, að njóta raunverulegs vinskapar og að skemmta mér, jafnvel þegar það var erfitt.“

Stúlknafélagsbúðir

young women at Marathon Greece

Stúlkur í Maraþon, Grikklandi.

Stúlknafélagsbúðirnar höfðu svipuð áhrif. Tólf stúlkur hittust með leiðtogum sínum nærri þeim stað sem hin forna orrusta um Maraþon var háð. Þær voru saman í þrjá daga, lærðu að treysta á að fá styrk og hvatningu frá hver annarri.

„Þegar ég var 12 ára,“ sagði Loukia, „fór ég í fyrsta sinn í kirkju og var svo glöð, en gerði mér þá grein fyrir því að ég var sú eina á mínum aldri. Nú, tveimur árum seinna, höfum við svo margar stúlkur að í fyrsta sinn gátum við haft Stúlknafélagsbúðir.“ Hún sagði að þegar þær komu saman, „gerði ég mér grein fyrir því hvað það merkir að vera Síðari daga heilagur. Þegar við lifum eftir fagnaðarerindinu erum við umvafin ljósi“

young women holding flag

Stúlknafélagsbúðir 2017 – í fyrsta sinn í Grikklandi.

Hvað Bryana W., 15 ára, varðaði, þá hjálpuðu Stúlknafélagsbúðirnar henni að opna sig og tala við aðra. „Fjölskylda mín flytur oft búferlum og ég átti erfitt með að tengjast öðrum því ég var feimin,“ sagði hún. „Vegna þess að ég náði að tengja við hóp okkar á TSÆ, þá eignaðist ég mjög góða vini. Á meðan á vitnisburðarsamkomunni stóð, þá deildum við tilfinningum okkar og ég gerði mér grein fyrir því að aðrir upplifðu það sama og ég.

Marie H., 17 ára, minnist þema búðanna: „Lífið er maraþon, ekki spretthlaup.“ Stúlkurnar og leiðtogar þeirra ræddu mikilvægi þess að vera þolgóður og að ljúka keppninni, sagði hún. „Það minnti mig á að ég get haldið þetta út, haldið jöfnum hraða og einbeitt mér að marklínunni. Þá get ég framkvæmt það sem himneskur faðir þarf á því að halda að ég geri.“

young woman at girls camp

„Það færði okkur róandi, fallegan anda að horfa á sólarupprásina.“ – Lizzie T.

Einn af hápunktum búðanna var hugvekjan á ströndinni við sólarupprás, síðasta morguninn. Lizzie T., 17 ára, segir: „Við tókum ritningarnar okkar, höfðum hugvekjuna og horfðum á sólarupprásina. Við skynjuðum allar kærleika Guðs. Það var yndislegur endir á þessum tíma sem við áttum saman.“

Horfast í augu við framtíðina, óttalaust

„Ég lærði mikið um fagnaðarerindið á TSÆ og í Stúlknafélagsbúðunum og hvernig það getur hjálpað mér í lífi mínu,“ segir hin 17 ára Irini S. „Ég eignaðist marga vini og lærið mikið um mikilvægi þess að tjá hugsanir mínar og tilfinningar. Ég skynjaði heilagan anda innilega og kærleika frelsara okkar Jesú Krists.“

Það jók sjálfstraust hennar að vera innan um aðra Síðari daga heilaga. „Áður en ég fór á TSÆ gat ég ekki séð þá góðu og fallegu hluti sem Guð hefur gefið okkur og þær áætlanir sem hann er enn að móta fyrir okkur.“

„Við ættum ekki að leyfa öðrum eða öðru í kringum okkur, að hafa áhrif á okkur og draga okkur í burtu frá því að lifa eftir fagnaðarerindinu,“ segir hinn 17 ára gamli Manasseh A. „Fagnaðarerindið er eins allstaðar og við ættum alltaf að halda okkur á réttri braut.“

Hvort sem það er í Grikklandi eða annar staðar í heiminum, ef við fetum sama stíg, leyfir það okkur að vera einhuga í anda.