Líahóna
Gróðursetja aftur sáðkorn trúar
Mars 2024


„Gróðursetja aftur sáðkorn trúar,“ Líahóna, mars 2024.

Gróðursetja aftur sáðkorn trúar

Lexíur frá þeim sem snerust aftur til trúar.

Ljósmynd
trjástofnar og laufblöð

Í heimi sem gerir oft mikið úr frásögnum um trúarmissi, er stundum ekki tekið eftir hljóðlátari frásögnum um fólk sem snýst aftur til trúar. En frásagnir um endurheimt trúar sýna hvernig bræður og systur í fagnaðarerindinu sigrast á efasemdum sínum, jafnvel eftir að hafa yfirgefið kirkjuna. Sögur þeirra útskýra það sem Alma kennir um að gróðursetja sáðkornið. Alma lýsir trúarferli sem hjálpar ekki aðeins þeim sem styrkja þá sem reyna að styrkja trú sína, heldur líka þeim sem glíma við spurningar og áhyggjumál.

  • Í fyrsta lagi þurfum við að skilja að „trú er ekki að búa að fullkominni þekkingu“ (Alma 32:21).

  • Síðan þurfum við að „sýna örlitla trú“ eða jafnvel bara „löngun til að trúa“ (vers 27).

  • Við gróðursetjum sáðkornið – orð Guðs – í hjarta okkar (sjá vers 28).

  • Á leiðinni nærum við andlegar rætur með þolinmæði og þiggjum hjálp frá vinum í fagnaðarerindinu til að rækta tré sem gróðursett er í Kristi, svo það „[vaxi] upp til ævarandi lífs“ (vers 41).

„Trú er ekki að eiga fullkomna þekking. Ef þið þess vegna eigið trú, þá hafið þið von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur“ (Alma 32:21).

Ljósmynd
Alba Fonseca

Alba Lucia Fonseca, kirkjumeðlimur frá Bandaríkjunum, rakst á efni á netinu sem olli henni hugarangri varðandi trúarskoðanir hennar og hún missti fljótt trú sína. Efasemdir hennar yfirskyggðu sáðkorn trúar til að byrja með, en síðan tók hún að ræða við skilningsríkan meðlim sem bjó yfir góðri þekkingu og áttaði sig á að vantrú hennar vakti líka spurningar.

„Skilningur minn á hugmyndum fagnaðarerindisins og kirkjusögunni var ekki nærri jafn mikill og ég hafði haldið,“ útskýrir hún. „Það gerði mig auðmjúkari og mér varð ljóst að ég ætti enn eftir margt ólært og að trúin fælist ekki í því að öllum spurningum yrði svarað.“ Alba áttaði sig á því að annað sem er „verðmætt í lífinu – eins og fjölskylda, menntun, starfsframi – felur í sér áhættu, fórnfýsi, óvissu og ævilanga fyrirhöfn. Ég kom aftur til kirkjunnar og get fullyrt að slík fyrirhöfn er líka þess virði til að viðhalda trú“.

Russell M. Nelson forseti kenndi: „Drottinn krefst ekki fullkominnar trúar til þess að við fáum aðgang að hans fullkomna mætti.“ Hann bendir líka á að þess sé krafist að við höldum stöðugt áfram að vaxa í trú.1 Þótt hin upprunalega undirstaða Salt Lake-musterisins hafi þjónað vel í meira en heila öld, þarfnaðist hún nú mikilla endurbóta, útskýrði Nelson forseti. Stundum verðum við að styrkja okkar eigin andlegu undurstöðu „til að fá staðist aðsteðjandi háska og þrýsting“.2 Þar sem við uppgötvum stundum erfitt efni, eins og Alba gerði, getur þrá okkar eftir fullvissu leitt okkur frá einfaldri trú til einfaldrar vantrúar og útilokað þá nauðsynlegu viðleitni að efla og styrkja okkar andlegu undurstöðu.

Þeim sem kynna sér frásagnir um endurheimt trúar, hafa komist að því að gagnlegt er að líta á trú sem ævilangt ferðalag margra lítilla skrefa.3 Við gætum byrjað á einfaldri barnatrú, en á einhverjum tímapunkti mun sú barnatrú standa frammi fyrir spurningum og áhyggjuefnum. Þótt ósannreynd trú okkar hafi kannski þjónað vel sem andleg undirstaða, verðum við nú að fara frá einfaldri trú í gegnum flókna trú og yfir í þroskaða trú, sem megnar að standast áskoranir í framtíðinni.4 Að yfirgefa trúna gæti virst auðveldara, næstum eins og léttir, en ríkuleg umbun fylgir ferðum þeirra sem snúa sér til Guðs og halda áfram að næra sáðkorn trúar sinnar.

Trúarraunir hófust hjá Samuel Hoglund frá Svíþjóð þegar fjölskyldumeðlimir komu fram með efasemdir. Hann gekk í gegnum það stig að „fá einni spurningu svarað til að önnur vaknaði“, útskýrir hann. „Trú mín sveiflaðist frá einni stundu til annarrar, þar til ég áttaði mig á að þetta ferli og þörf mín fyrir fullvissu var ekki að virka.“ Í stað þess að reyna að fá svar við hverri tiltölulega ómerkilegri spurningu, ákvað Samúel að rannsaka mikilvægar spurningar – þær sem eru mikilvægar fyrir örugga undirstöðu í Jesú Kristi. Með bæn og ritningarnámi komst Samúel að því, líkt og Alba, hversu mikið hann ætti enn eftir ólært, sem leiddi hann að þroskaðri trú. „Reynslan styrkti trú mína gríðarlega,“ segir hann, „og kenndi mér líka að maður finnur í raun það sem maður leitar að.“

„Ef þið viljið vakna og vekja hæfileika ykkar til lífs með því að gjöra tilraun með orð mín og sýna örlitla trú, jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun“ (Alma 32:27).

„Að iðka trú getur virst yfirþyrmandi,“ sagði Nelson forseti. „Stundum gætum við velt fyrir okkur hvort við getum mögulega tileinkað okkur næga trú til að hljóta þær blessanir sem við þráum svo innilega.“5 En jafnvel örsmá trúarskref, sem hefjast á „örlítilli trú“, geta tekið að „virka í ykkur“ og hafið andlega endurfæðingu.

Eftir að hafa villst andlega frá á háskólaárum sínum, tók Amanda Freebairn frá Bandaríkjunum það litla skref að biðja, sem leiddi til þess að hún fylgdi hvatningu um að fara á musterissvæðið á staðnum. „Að finna andann þar vakti trú mína á ný,“ segir hún. Að snúa aftur í kirkju og fá köllun til að kenna í Barnafélaginu dýpkaði trú hennar og hún hélt áfram að taka skref sem urðu til þess að hún meðtók fagnaðarerindið að fullu. Á leiðinni segir Amanda: „Ég fann svör við þeim spurningum sem mig vantaði svo sárlega.“

Ljósmynd
Dan Ellsworth

Á einum tímapunkti var Dan Ellsworth, líka frá Bandaríkjunum, ekki viss um hvort hann ætti ögn af trú eftir til að iðka. Fyrstu kynni hans af fræðilegum og sögulegum nálgunum varðandi Gamla testamentið veikti trú hans á Biblíuna og hafði áhrif á trú hans á allar ritningar. En Dan hélt áfram að fara í kirkju og ákvað að gera tilraun í sex mánuði með áætlun um að biðja, fasta og þjóna í kirkjunni. Stundum bað hann ungar dætur sínar að biðja líka fyrir trú föður síns.

Eftir nokkurn tíma tók Dan að upplifa andlegar upplifanir og finna svör við sumum þeim spurningum sem trufluðu hann mest. Dag einn, þegar hann var á bókasafni, fann hann sig knúinn til að fara niður eftir bókaröð og velja þar eina bók. Í henni fann hann innsæi og mótrök gegn bókinni sem í upphafi olli trúarbresti hans á Biblíuna. Þótt þessi reynsla hafi ekki leyst allar spurningar, kenndi hún Dan nokkrar mikilvægar lexíur: „Í fyrsta lagi þurfti ég að vera auðmjúkur yfir því hversu mikið ég gæti raunverulega vitað á eigin spýtur. Og í öðru lagi eru aðrar leiðir til að finna sannleikann, ásamt skynsemi: andlegar tilfinningar, jákvæðar niðurstöður af ávöxtum andans og hugmyndir sem stuðla að andlegum upplifunum, sem allt leiddi til mun sterkari sannfæringar og trúar en ég hafði áður.“

Ljósmynd
Zac Marshall og fjölskylda

Fyrir Zac Marshall frá Englandi opnaði það einfalda skref að horfa á fræðslumyndband um Mormónsbók huga hans fyrir þeim möguleika að bókin gæti verið trúverðug. „Ég hafði lesið hana áður í ritningarnámi fjölskyldu minnar og á eigin spýtur án einlægs ásetnings,“ útskýrir hann. „En ég hætti að vera virkur í kirkjunni sem unglingur, svo staðfestingarnar sem ég sá í myndbandinu urðu til þess að ég las Mormónsbók af ásetningi í fyrsta skipti.“ Eftir að hafa gert tilraunir með orð Guðs, tók Zac að trúa í stað þess að efast. Hann segir nú: „Kirkjuna, sem ég eitt sinn sá sem takmarkandi, sé ég núna sem frelsandi, á sama hátt og Jesús segir: ‚Sannleikurinn mun gera yður frjálsa‘ [Jóhannes 8:32].“

„En ef þið vanrækið tréð og hugsið ekkert um næringu þess, sjá, þá mun það ekki festa rætur“ (Alma 32:38).

Þótt við tökum lítil skref til að næra trú, þurfum við líka að vera meðvituð um þann hugsunarhátt sem hindrar og hamlar trú. Í rannsókn Erics og Sarah d’Evegnée, prófessora við Brigham Young-háskólann í Idaho, um frásagnir um endurheimt trúar meðlima kirkjunnar í ýmsum löndum, kemur fram: „Hvernig við hugsum getur verið jafn mikilvægt og það sem við hugsum.“ Það er til að mynda ekki rétt að vænta þess að trúarhollusta muni hlífa okkur við óþægindum og íþyngjandi áskorunum lífsins og skapar óraunhæfar forsendur. Jesús Kristur lofaði að yfirgefa okkur aldrei en varaði við því að „í heiminum hafið þér þrenging“ (Jóhannes 16:33). Áskoranir lífsins geta þó, samkvæmt Sarah, „leitt okkur til að sjá fagnaðarerindið á neikvæðan hátt. Stundum vörpum við frá okkur hugsjóninni þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem er minna en hugsjón.“

Rithöfundurinn og óháði sagnfræðingurinn Don Bradley frá Bandaríkjunum stóð frammi fyrir spurningum um sögu kirkjunnar á tíma er hann sagði: „Ég var bara ekki ánægður og var fullur efasemda. Tortryggni í garð hvers sem er hafði neikvæð áhrif á sambandið og ég missti trú mína og samband við Guð.“ Árum síðar hóf Don að vinna að von og þakklæti í persónulegu lífi sínu.

Hann hóf líka að kanna rannsóknir um andlegan og líkamlegan heilsufarslegan ávinning skipulagðra trúarbragða. „Ég gat ekki afneitað þessum rannsóknum,“ rifjar Don upp. „Smám saman áttaði ég mig á að ég hafði skipt efahyggju út fyrir gagnrýna hugsun og með jákvæðara viðhorfi til lífsins, endurheimti ég trú mína á Guð og Jesú Krist.“ Don sneri sér aftur að sögulegu upplýsingunum sem hann glímdi eitt sinni við, en nú leiddi þetta sama efni til sannfæringar um að Joseph Smith væri spámaður Guðs.

„Ef þið viljið næra orðið, já, nærið tréð þegar það byrjar að vaxa, … munuð þið uppskera laun trúar ykkar og kostgæfni ykkar, þolinmæði og langlyndi“ (Alma 32:41, 43).

Jafnvel með því að vera fús til að gera tilraun með orð Guðs með jákvæðara hugarfari, getur það ferli að snúa aftur til trúar og kirkjusóknar verið ógnvekjandi og næstum yfirþyrmandi. Átakið krefst ekki aðeins þolinmæði, hugrekkis og auðmýktar, heldur líka kærleika vina og fjölskyldumeðlima. Að þiggja hjálp einlægra vina, nærir fræið og gerir mögulegt að það skjóti rótum, fremur en að skreppa saman.

Ljósmynd
Leo Winegar

Þegar Leo Winegar frá Bandaríkjunum rakst fyrst á efasemdir og spurningar um kirkjusöguna, lærði hann um mikilvægi samkenndar frá vinum. „Vitnisburður minn visnaði,“ útskýrir hann, þegar hann tókst á við „einmanaleika og myrka örvæntingu þegar ég reyndi að biðjast fyrir.“ Einn daginn fann Leo sig knúinn til að hafa samband við prófessor í kirkjusögu. Hann hvatti Leo ekki aðeins til að endurskoða efasemdir sínar, heldur varð hann líka náinn vinur. Vitnisburður Leos óx smám saman aftur með hjálp leiðbeinanda Leos og margra ára vongóðu námi. Með tímanum fann hann svör við mörgum spurningum. „Ég er eilíflega þakklátur frelsara mínum Jesú Kristi fyrir að leiða mig til baka,“ útskýrir hann, „og vinunum sem voru fulltrúar hans.“

„Ef vinir og fjölskylda … fara í burtu frá kirkjunni, haldið þá áfram að elska þau,“ leiðbeindi Nelson forseti. Það er ekki ykkar að dæma val annarra, frekar en að þið eigið skilið að vera gagnrýnd fyrir að vera trúföst.“6

Ljósmynd
Letitia Rule

Ótti við slíka gagnrýni hélt Letitia Rule, meðlim í Englandi, frá fagnaðarerindinu í 20 ár. Hún vildi oft koma aftur, en hún „var hrædd við að ganga bara inn um dyrnar, fannst [hún] verða dæmd og eins og [hún] hefði ekki lifað rétt“. Aðeins lífsógnandi greining veitti henni hugrekki til að taka þetta erfiða skref. Meðlimir tóku á móti henni með hlýju og kærleika og vöktu löngun hjá henni að taka þátt í fagnaðarerindinu aftur.

„Gróðursetjið þetta orð í hjörtum ykkar, og þegar það tekur að vaxa, þá nærið það með trú ykkar. Það mun verða að tré og vaxa í ykkur til ævarandi lífs“ (Alma 33:23).

Þegar Alma lýkur prédikun sinni gerir hann ljóst að þótt viðleitnin til að næra sáðkornið skipti sköpum er hún ekki sáðkornið sjálft. Við gróðursetjum hins vegar sönnu sáðkorni er við „[förum] að trúa á son Guðs, að hann komi til að endurleysa fólk sitt, og að hann muni þjást og deyja til að friðþægja fyrir syndir þess“ (Alma 33:22).

Michael Auras frá Þýskalandi lærði mikilvægar lexíur um forgangsröðun fagnaðarerindisins eftir að hann villtist frá sem ungur maður. „Svo margt gott og og svo góð sambönd felast í fagnaðarerindinu, en aðeins trú á Jesú Krist mun viðhalda vitnisburð okkar,“ útskýrir hann. „Ég og faðir minn efuðumst báðir um trú okkar um tíma varðandi hin ýmsu mál en snerum aftur þegar við beindum trú okkar að Jesú Kristi framar öllu öðru.“

Nelson forseti fullvissar okkur: „Frelsarinn er aldrei nær ykkur en þegar þið standið frammi fyrir fjalli eða klífið fjall með trú.“7 Jesús lofar sjálfur: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Matteus 28:20). Hann mun ganga með okkur, elska okkur „með ævarandi elsku“ (Jeremía 31:3) og veita okkur líf í fullri gnægð (sjá Jóhannes 10:10). Þau sem fús eru til að gróðursetja þetta sáðkorn munu komast að því að jafnvel minnsta trú þeirra getur með hjálp frelsarans orðið að „tré og [vaxið] í ykkur til ævarandi lífs“ (Alma 33:23).

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, „Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað,“ aðalráðstefna, apr. 2021.

  2. Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, okt. 2021.

  3. Sjá Bruce C. Hafen og Marie K. Hafen, Faith Is Not Blind (2018).

  4. „Trú okkar á [Jesú Krist] getur og mun leiða okkur í gegnum margbreytileika lífsins. Sannarlega munum við komast að því að það er einfaldleiki handan margbreytileika lífsins er við höldumst ‚[staðföst] í Kristi‘ [2. Nefí 31:20]“ (Larry S. Kacher, „Trúarstigi,“ aðalráðstefna, apr. 2022).

  5. Russell M. Nelson, „Kristur er risinn.“

  6. Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 15. maí 2022), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.

  7. Russell M. Nelson, „Kristur er risinn.“

Prenta