Líahóna
Viltu láta mömmu lifa
Mars 2024


„Viltu láta mömmu lifa,“ Líahóna, mars 2024.

Frá Síðari daga heilögum

Viltu láta mömmu lifa

Ég var hrædd þegar móðir mín þurfti að fara í opna hjartaaðgerð, en trúfastur Barnafélagskennari kenndi mér að biðja.

Ljósmynd
móðir að gefa dóttur sinni að borða af diski

Christi Gerlach og móðir hennar

Ljósmynd birt með leyfi höfundar

Þegar ég var 10 ára fékk mamma alvarlegt hjartaáfall. Hún varði mörgum vikum á sjúkrahúsi og barðist fyrir lífi sínu.

Á þessum tíma kom Barnafélagskennarinn minn, systir Ellen Johnson, á heimili mitt einu sinni í viku til að líta eftir mér. Ég var nýbyrjuð að fara í Barnafélagið og hafði takmarkaðan skilning á fagnaðarerindinu. Í hverri viku gaf systir Johnson mér vitnisburð sinn og ræddi um bænina. Hún kenndi mér að himneskur faðir myndi svara ef ég bæðist fyrir.

Eftir nokkrar vikur hrakaði heilsu mömmu enn frekar. Hún var með skemmda hjartaloku sem þurfti að laga. Læknirinn hennar sagði að hún myndi deyja án nýstárlegrar hjartaaðgerðar. Líkurnar á bata hennar voru hins vegar aðeins um 50/50.

Opin hjartaaðgerð var ný og áhættusöm snemma á sjöunda áratugnum. Skurðlæknar hugðust skera mömmu upp frá brjósti hennar að hrygg og kljúfa síðan rifbeinið til að komast að hjartanu. Margir sjúklingar lifðu ekki aðgerðina af. Ég var í uppnámi og óttaðist að mamma myndi deyja.

Pabbi var mestmegnis í vinnunni eða á spítalanum með mömmu. Eldri systir mín Pam sá um mig og bróður minn. Á kvöldin var ég einmana og hrædd, en ég hugsaði um það sem systir Johnson hafði kennt mér um bæn. Ég kraup oft við rúmið mitt og grét og bað himneskan föður að þyrma lífi mömmu.

Í einni slíkri grátbæn kom mikill friður yfir mig og ég hætti að gráta. Ég fann að allt yrði í lagi. Ég var fullviss um að mamma myndi lifa til að sjá mig vaxa úr grasi og að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Ég heyrði ekki rödd eða sá sýn, en ég hlaut kyrrláta, friðsæla tilfinningu. Ég efaðist ekki um þetta. Himneskur faðir hafði svarað bæn minni og ég vissi það.

Ljósmynd
krosslagðar hendur við hliðina á hálsmeni

Myndskreyting: Alex Nabaum

Mamma lifði aðgerðina af. Hún var veik og máttfarin mestan hluta ævinnar, en himneskur faðir hafði svarað bænum mínum og þyrmt lífi hennar. Hún lifði það að sjá mig vaxa úr grasi, giftast og eignast börn.

Mörgum árum síðar, þegar Russell M. Nelson forseti varð postuli, sagði móðir mér að hann væri hjartaskurðlæknirinn sem hefði bjargað lífi hennar. Ég skrifaði honum bréf til að þakka honum. Þegar hann skrifaði til baka, þakkaði hann mér fyrir bréfið mitt og viðurkenndi hjálp Guðs í starfi sínu.

Prenta