Líahóna
Ánetjuð sjónvarpsþætti: Hvernig ég lét Guð ríkja
Mars 2024


„Ánetjuð sjónvarpsþætti: Hvernig ég lét Guð ríkja,“ Líahóna, mars 2024.

Ánetjuð sjónvarpsþætti: Hvernig ég lét Guð ríkja

Þegar ég hætti að horfa á þennan sjónvarpsþátt fann ég áhrif heilags anda eflast gríðarlega í lífi mínu.

Ljósmynd
kona horfir á sjónvarp og einstaklingur teygir sig út úr sjónvarpinu og snertir öxl hennar

Myndskreyting: Benedetta Vialli / Salzman International

Að velja Jesú Krist veitir mikinn kraft: „Ó, hve við þörfnumst þessa máttar á komandi dögum.“1 Heimur okkar er í miklu uppnámi. Andstæðingurinn virðist hafa meiri áhrif á svo mörg af börnum Guðs. Vanhelgun er vegsömuð og freistingar afvegaleiða og taka okkur frá því sem færir okkur nær Drottni.

Til að sigrast á þessu verðum við að velja Jesú Krist á virkan hátt í lífi okkar og láta af því sem misbýður andanum. Moróní leiðbeindi: „Verið skynsöm á reynsludögum yðar. Losið yður við allt, sem óhreint er“ (Mormón 9:28) og bauð: „Komið til Krists, fullkomnist í honum og hafnið öllu óguðlegu … og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk“ (Moróní 10:32).

Hvernig getum við látið af því veraldlega og komið til Krists af einlægari ásetningi? Við erum öll á mismunandi stigi í þessu ferli. Öll getum við látið af einhverju sem hindrar okkur í því að finna áhrif heilags anda betur. Við þurfum kraft friðþægingar frelsarans til að gera það og það hefst á því að nota sjálfræði okkar til að velja hann.

Löngunin til að falla í hópinn

Þegar ég var í efsta bekk í menntaskóla var ég í klappstýruhópi skólans. Á hverjum degi á æfingu töluðu stelpurnar í klappstýruhópnum um hvað væri að gerast í sjónvarpsþættinum á daginn í sjónvarpinu. Ég hafði aldrei horft á hann og vissi að þetta væri þáttur með lágu siðferði. Mér fannst ég þó vera utan hópsins dag hvern á æfingum, þar sem stelpurnar töluðu spenntar um þáttinn. Andinn hvíslaði að mér að horfa ekki á hann, en ég vildi óðfús vera með í samtölum þeirra, svo ég fór að horfa á hann.

Mér þótti þetta ekki svo slæmt. Ég sannfærði sjálfa mig um að þetta myndi ekki hafa áhrif á mig. Ég vissi að ég ætlaði ekki að gera þá slæmu hluti sem ég horfði á persónurnar gera. Ég festist í því að horfði á þáttinn á hverjum degi. Þegar ég fór í Brigham Young-háskólann, skipulagði ég kennsluáætlunina á þann hátt að ég gæti horft á þáttinn á hverjum degi. Ég missti aldrei af þætti.

Ég gifti mig og eignaðist mitt fyrsta barn. Ég lét drenginn fá sér lúr á hverjum degi meðan á þættinum stóð, svo ég gæti horft á hann.

Þegar árin liðu hvíslaði andinn margoft að mér að ég ætti að hætta að horfa á þennan þátt. En ég hafnaði því. Ég var svo upptekin af persónunum og lífi þeirra. Þetta var mín leið til að slaka á, svo ég hélt áfram að horfa. Ég var sannfærð um að þetta væri ekki að skaða mig.

Ljósmynd
kona gengur í burtu frá sjónvarpi og einstaklingur teygir sig út úr sjónvarpinu og grípur í handlegg hennar

Boðið

Nítján árum eftir menntaskóla horfði ég enn dag hvern á þáttinn. Á aðalráðstefnu talaði systir Sheri L. Dew, þáverandi annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, um að segja skilið við eitthvað frá heiminum og það sem væri vanheilagt. Hún sagði síðan: „Ég býð okkur öllum að bera kennsl á hið minnsta eitt sem við getum gert til að segja skilið við heiminn og komast nær Kristi.“2

Þegar hún lagði fram þetta boð fann ég gríðarlega úthellingu andans og ég heyrði orðin í huga mér: „Þú verður að hætta að horfa á þennan þátt núna!“ Þetta var svo áhrifamikið; þetta var eins og blaut tuska í andlitið á mér. Ég vissi á því augnabliki að ég gæti ekki hunsað þessa hvatningu lengur. Mér fannst brýnt að horfa aldrei á þáttinn aftur. Ég áttaði mig á að ekki ein persóna væri að gera nokkuð dyggðugt eða virðingarvert. Ég var að bjóða rusli inn í líf mitt á hverjum degi. Ég lofaði Drottni, þá og þar, að ég myndi aldrei horfa á þáttinn aftur.

Þetta var ekki auðvelt! Það var erfitt að gefa upp á bátinn nítján ár ávana og ánetjunar. Mánudagur rann upp og að því kom að þátturinn byrjaði. Ég gekk að fjarstýringu sjónvarpsins. Mig langaði svo mikið að kveikja á því. Ég minntist skuldbindingar minnar við Drottin um að ég myndi aldrei horfa á þáttinn aftur. Ég gekk í burtu.

Svo hugsaði ég um uppáhalds persónuna mína og velti fyrir mér hvað gæti orðið um hana og gekk aftur að fjarstýringunni. Ég vissi að ég þurfti á hjálp Guðs að halda, svo ég fór á hnén og bað um styrk til að horfa ekki á þáttinn. Ég hugsaði um loforð mitt við himneskan föður og gekk út úr herberginu. Ég valdi að fylgja hvatningunni sem ég hafði hlotið frá heilögum anda og að heiðra skuldbindingu mína.

Þessi framvinda endurtók sig alla daga sömu viku og fram í þá næstu. Á hverjum degi kraup ég og baðst fyrir um styrk til að horfa ekki á þáttinn og á hverjum degi valdi ég Jesú Krist og gekk í burtu frá sjónvarpsþætti sem var ósiðsamlegur. Ég hlaut styrk til að sigrast þá þessu með kraftinum sem frelsarinn býður með friðþægingu sinni.

Eftir að ég hafði gert þetta í nokkurn tíma gerðist kraftaverk. Ég missti algjörlega alla löngun til að horfa á þáttinn, eftir að hafa horft á hann daglega í 19 ár. Þetta var undravert! Ég missti líka löngun til að horfa á alla vafasömu þættina sem ég hafði verið að horfa á, svo ég hætti þessu alveg.

Samviska mín varð næmari og ég bar kennsl á illskuna eins og hún var. Ég vildi hreinskilnislega forðast hvers kyns illsku (sjá 1. Þessaloníkubréf 5:22). Ég var ekki ónæm fyrir henni lengur.

Ljósmynd
einstaklingur slekkur á sjónvarpi með fjarstýringu

Dásamlegasta blessunin

En það ótrúlegasta sem gerðist var að ég fann áhrif heilags anda magnast í lífi mínu umfram allt sem ég hafði upplifað áður. Andleg framþróun mín jókst gríðarlega! Öll þessi ár hafði ég talið mig njóta samfélags heilags anda, en ég hafði aðeins upplifað brot af því sem ég hefði getað gert. Ég áttaði mig á að það hafði áhrif á mig að horfa stöðugt á þessa þætti. Ég hafði misst úr svo mörg ár að vera í sterkara samfélagi við Guð. Þegar ég notaði sjálfræði mitt til að segja skilið við vanheilaga, veraldlega hluti, varð andanum frjálst að koma til mín í miklu ríkari mæli og hvílíkan gæfumun það hefur gert í lífi mínu til að styrkja, hugga og leiðbeina mér.

Við hneigjumst til þess að halda fast í hluti sem eru einskis virði – hluti sem í raun loka á blessanir sem Guð vill færa í líf okkar. Af hverju skiptum við á máttugum, virkjandi áhrifum andans fyrir það sem gaman er eða vinsælt? Ef til vill er það ekki stórmál eða alvarleg synd að horfa á sjónvarpsþátt, en það kom í veg fyrir að ég hefði heilagan anda í mikilli gnægð í lífi mínu og hægði á andlegri framþróun minni.

Ég er svo þakklát fyrir að Drottinn gafst ekki upp á mér, heldur hélt áfram að biðja mig um að láta af einhverju vanheilögu svo hann gæti fyllt líf mitt barmafullt af áhrifum sínum.

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Prenta