Líahóna
Þrjár leiðandi reglur um hvernig nota á tæknina og miðla
Mars 2024


„Þrjár leiðandi reglur um hvernig nota á tæknina og miðla,“ Líahóna, mars 2024.

Þrjár leiðandi reglur um hvernig nota á tæknina og miðla

Eftir því sem tæknininni fleygir fram, munu þessar aðferðir til notkunar miðla hjálpa okkur að sækja fram með visku.

Ljósmynd
hönd sem heldur á snjallsíma með rafrásarspjald á skjánum

Tæknin tekur stöðugum breytingum. Allar framfarir í tækni hafa séð okkur fyrir nýjum aðferðum til að nota fjölmiðla. Prentvélin breytti því umtalsvert hverjir gátu nálgast hið ritaða mál. Útvarp og sjónvarp gjörbreyttu miðlun frétta, upplýsinga og afþreyingar. Netið breytti því hversu mikið efni við gátum nálgast og hver gat búið það til. Samfélagsmiðlar breyttu getu okkar til að finna, eiga samskipti við og tengjast fólki. Eftir því sem gervigreind miðar áfram, stöndum við frammi fyrir nýjum spurningum.

Ný tækni er aldrei algóð eða alslæm. Þess í stað er hún oft eins og stækkunargler sem getur magnað upp ný tækifæri og ný áhyggjumál. Þegar við leitumst við að vera kristilegri, eru viðbrögð okkar við nýrri tækni og þeim miðlum sem hún getur fært í líf okkar það sem skiptir máli.

Reglumiðuð nálgun

Auðvitað er enginn listi yfir leiðandi reglur fyrir hverja ákvörðun sem við tökum um tækni og miðla. Þess í stað getum við lært reglur okkur til leiðbeiningar við að taka ákvarðanir. Öldungur Dieter F. Uchtdorf í Tólfpostulasveitinni kenndi: „Reglur eru eilífar og algildar. Ákveðnar reglur eða notkun þeirra reglna virka vel sums staðar en ekki annars staðar. Það sem sameinar okkur er Jesús Kristur og hin eilífu sannindi sem hann kenndi, jafnvel þótt ákveðin notkun sé mismunandi á mismunandi tíma og í mismunandi menningarheimum.“1

Að fylgja reglum sem byggja á sannleika fagnaðarerindisins mun hjálpa okkur að halda okkur á sáttmálsveginum. Andinn mun leiða okkur þegar við reynum að taka ákvarðanir byggðar á þessum reglum. Svo hvaða reglur geta hjálpað okkur við að móta val okkar varðandi tækni og fjölmiðla?

1. Ég get notað mitt siðferðislega sjálfræði til að taka ákvarðanir um að stjórna notkun tækninnar. Hún stjórnar mér ekki.

Stundum kann að virðast sem tæknin sé að yfirtaka líf ykkar. Mikilvægt er að hafa í huga að þið getið valið að stjórna tækninni. Hún stjórnar ykkur ekki. Þið getið ákveðið sjálf hvernig þið veljið að nota tækni og miðla til að gera gott og sækjast eftir því sem er „dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert“ (Trúaratriðin 1:13).

Drottinn sagði: „Ég, Drottinn, ætla þér mikið verk að vinna við“ (Kenning og sáttmálar 112:6). Íhugið hvernig þið getið notað tæknina til að koma þessu mikla verki til leiðar með því að „starfa af kappi fyrir góðan málstað“ (Kenning og sáttmálar 58:27). Þið gætuð þurft að nota tækni á vinnustaðnum ykkar. Þið gætuð notað hana til að finna heilbrigða afþreyingu. Hún gæti hjálpað ykkur að tengjast öðrum. Og hún getur hjálpað ykkur að læra, vaxa og framfylgja verki Drottins. Annars konar notkun getur þó verið truflandi, óviðeigandi eða skaðleg. Fremur en að leyfa að tæknin stjórni ykkur, skuluð þið sýna visku og fylgja leiðsögn andans til að taka ákvarðanir sem færa ykkur stjórnina.

2. Þegar ég nota mitt siðferðislega sjálfræði til að ráðgera fram í tímann, líður mér betur og ég tek betri ákvarðanir.

Ef til vill völduð þið að gera eitthvað með tækninni sem ykkur fannst ekki vera rétt. Það gæti hafa verið að verja tíma á miðlum eða við einhverjar ákveðnar athafnir. Í stað þess að hafa þráhyggju yfir mistökum sem þið gerðuð, væri hollara að einbeita sér að stöðugum vexti. Ef þið ráðgerið fram í tímann, munið þið taka betri ákvarðanir en ef þið tækjuð allar ákvarðanir fyrir líðandi stund. Þið getið sett upp persónulegar leiðbeiningar í samræmi við staðla fagnaðarerindisins ykkur til hjálpar við að taka góðar ákvarðanir.

Ef ykkur finnst þið vera að misnota eða ofnota miðla, skuluð þið hafa hugrekki til að reyna að breyta því. Ef ákveðnar tegundir miðla veita ekki innblástur eða vekja ekki góðar tilfinningar, skuluð þið breyta venjum ykkar. Ef þið notið tæknina til breytni á miðlum sem þið vitið að er ekki rétt, skuluð þið hafa hugrekki til að breyta því – og hafa þolinmæði með ykkur sjálfum þegar þið leitist við að gera þessar breytingar. Hugsið um nokkur hagnýt atriði sem þið getið gert til að breytast. Ef ykkur finnst til að mynda erfiðara að taka góðar ákvarðanir á ákveðnum tímum dags, gætuð þið ráðgert tíma til að nota tæknina og hvenær ekki.

Sömuleiðis, ef þið notið tæknina til að styrkja ykkur sjálf, tengjast öðrum og framfylgja verki Drottins, og þið finnið fyrir andanum, skuluð þið halda áfram að gera það. Ef þið eruð sannlega heiðarleg varðandi val ykkar sjálfra, getur trú ykkar á Drottin hjálpað ykkur að nota sjálfræði ykkar á þann hátt sem fær ykkur til að líða betur og halda áfram að taka betri ákvarðanir.

3. Ég get notað mitt siðferðislega sjálfræði til að staldra við og gera hlé.

Ykkur kann að finnast að stöðugt sé spurt um tækni og miðla. Hversu mikið er of mikið? Ætti ég að auka eða minnka notkun mína á miðlum og tækni? Er ég að nýta tímann skynsamlega? Reynið að láta hugsanir sem þessar ekki verða yfirþyrmandi. Munið að í lagi er að staldra við og gera hlé frá miðlum. Að gera hlé getur verið að velja að gera eitthvað annað en að stara á skjá í nokkrar klukkustundir eða jafnvel að nota ekki ákveðna tækni, eins og samfélagsmiðla, í langan tíma.

Tæknin er mikil blessun við að gera okkur kleift að vera í sambandi við aðra; þó að við getum alltaf verið tengd, þýðir það hins vegar ekki að við þurfum alltaf að vera tengd. Drottinn minnir okkur á: „Hald ró yðar og vitið að ég er Guð“ (Kenning og sáttmálar 101:16). Gangið úr skugga um að þið gefið ykkur tíma til að tengjast honum.

Verið vitur

Eftir því sem tækninni flýgur fram, munum við öll standa frammi fyrir mörgum ákvörðunum. Í stað þess að horfa til kirkjunnar eftir sérstökum reglum og útlistunum, getum við leitað til himnesks föður, frelsarans, ritninganna og orða nútíma spámanna eftir reglum til að leiða val okkar. Andinn mun hjálpa okkur að vita hvort val okkar sé rétt. Orð Jakobs eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru fyrst kennd: „Ó, verið [vitur]. Hvað meira get ég sagt?“ (Jakob 6:12).

Prenta