Líahóna
Sannleiksorð
Mars 2024


„Sannleiksorð,“ Líahóna, mars 2024.

Fyrirmyndir trúar

Sannleiksorð

Ég var með margar spurningar, en unnusti minn og kirkjan hjálpuðu mér að finna svörin.

Ljósmynd
kona og karl í skírnarfötum standandi fyrir framan mynd af frelsaranum

Ljósmyndir birtar með leyfi höfundar

Ég ólst upp í Taívan við menningu sem ekki var kristin og hlaut ekki trúarlegt uppeldi. Ég trúði á Guð en vissi ekkert um Jesú Krist. Trúarbrögð mín voru starfsferill minn og annasamt félagslíf sem því fylgdi. Í því fólst mikil áfengisdrykkja og reykingar. Ég var líka mikil kaffi- og tedrykkjumanneskja. Þetta er allt hluti af viðskiptamenningu okkar.

Ég kynntist Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu gegnum unnusta minn og fjölskyldu hans. Chase var Bandarískur. Hann ólst upp í kirkjunni og þjónaði í trúboði, en hann var ekki virkur á þessum tíma. Elsti sonur hans var aftur á móti að búa sig undir að þjóna í trúboði og Chase studdi ákvörðun hans.

Meðan á Kóvid-19 lokuninni stóð, sóttum við sakramentissamkomu á heimili foreldra Chase og horfðum á útsendingar frá samkomuhúsi þeirra. Þegar ræðurnar voru á enda, blessuðu tveir synir Chase brauðið og vatnið og útdeildu því.

Ég hafði margar spurningar. Unnusti minn svaraði þeim öllum þolinmóður. Hver var Jesús? Hver var þessi tilfinning í hjarta mínu í hvert sinn sem við komum saman á kirkjusamkomu? Þetta var tilfinning sem ég hafði aldrei áður fundið fyrir. Hvað táknuðu brauðið og vatnið? Af hverju spruttu fram tár þegar ég meðtók sakramentið? Af hverju fann ég þennan frið?

Eitt kvöldið fann ég vefsíðu á móðurmáli mínu sem útskýrði hver Jesús er og greindi frá lífi hans. Daginn eftir sagði ég móður unnusta míns að ég skildi hver Jesús væri og að ég tryði á hann.

Einn sunnudaginn kom biskupinn heim til okkar, vegna þess að elsti sonur Chase hugðist vígja yngri bróður sinn til prests. Þegar eldri sonurinn lagði hendur á höfuð bróður síns gat ég ekki hætt að gráta. Ég fann svo sterka tilfinningu í hjarta mínu að ég gat ekki stöðvað tárin. Síðar útskýrði unnusti minn að ég fyndi fyrir heilögum anda og að hann fyndi líka fyrir honum.

Ég sá að elska unnusta míns til kirkjunnar hans var að aftur að vakna í brjósti hans. Einhvern veginn vissi ég að allt sem ég fann var tengt Guði og einhvern veginn sannleikur. Ég fann fyrir elsku sem ég hafði aldrei áður fundið fyrir.

„Ég ákallaði Guð“

Ferðamannaáritun mín rann út og ég þurfti að fara aftur til Taívan. Næstu mánuði var ég ein og saknaði þess sem ég hafði fundið. Um tíma fylltist ég örvæntingu og myrkri. Þessar tilfinningar voru svo yfirþyrmandi að ég vildi gefast upp. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að biðja, en ég ákallaði Guð og sagði honum allt frá tilfinningum mínum og hugsunum. Friðartilfinning kom – sama tilfinning og ég hafði upplifað þegar ég sótti heimakirkjuna okkar. Ég vissi að þetta var heilagur andi. Hann veitti mér hugarró.

Eftir þetta sendi unnusti minn trúboðana til að kenna mér. Ég sagði þeim að ég vissi þegar að hið endurreista fagnaðarerindi væri sannleikur og að ég vissi hvernig það væri að finna fyrir heilögum anda. En ég hafði áhyggjur af því að það yrði erfitt fyrir mig að hætta að reykja og drekka kaffi og te.

Ég tók að sækja kirkju, lesa Mormónsbók og hitta systurtrúboðana þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Að lokum hjálpaði heilagur andi mér að láta af því að reykja og drekka kaffi og te.

Æskuvinkona mín fór að sjá breytingar á mér viku eftir viku. Ég bauð henni á trúboðsfundi mína. Þegar hún hlustaði fann hún líka heilagan anda og öðlaðist vitnisburð. Þegar hægði á Kóvid-19 faraldrinum gat unnusti minn, sem nú var virkur í kirkjunni, loks komið til Taívan. Við giftum okkur og hann skírði mig. Ég var ný manneskja.

Ljósmynd
hópur fólks sem stendur fyrir framan mynd af frelsaranum

Systir Weiling Chen Canfield (Winnie) með systurtrúboðunum og deildarmeðlimum sem kenndu og hjálpuðu henni. „Við tölum enn saman í hverri viku og störfum saman í nýju kirkjukölluninni minni í Líknarfélaginu,“ segir hún.

Ævilangir vinir mínir og viðskiptafélagar, þar á meðal sumir bankamenn og umboðsmenn á hlutabréfamarkaði, sögðu sig geta séð að ég væri öðruvísi og hamingjusamari. Ég bauð þeim í skírn mína og þau komu. Á eftir sögðu þeir mér frá því að þeir hefðu fundið eitthvað sem þeir höfðu aldrei áður fundið.

Ég er óhrædd við að segja öðrum frá því sem ég veit og mér finnst um Jesú Krist – að það sé sannleikur sem ég veit. Ég veit að vitnisburður minn er skær. Aðrir sem hafa þekkt mig allt mitt líf sjá þetta. Virðing þeirra fyrir trú minni hefur jafnvel stöðvað þau frá því að reykja og drekka á viðskiptafundum og við kvöldverði. Það er nokkuð sem er einstakt í viðskiptamenningu okkar.

Ljósmynd
tvær konur sem standa fyrir framan kirkjubyggingu

Systir Canfield með Jin Hua, ævilangri vinkonu sem fékk áhuga á kirkjunni vegna trúskipta systur Canfield.

Ég er óhrædd við að láta aðra sjá, heyra og skynja vitnisburð minn. Ég trúi að margir sem ekki vita hvernig finna á Guð og Jesú Krist muni finna það sama og ég fann þegar þeir heyra orð sannleikans. Ég mun alltaf vera fús til að miðla þeim orðum sem breyttu lífi mínu.

Prenta