Líahóna
Ég var umkringd fólki en var samt einmana
Mars 2024


„Ég var umkringd fólki en var samt einmana,“ Líahóna, mars 2024.

Ungt fullorðið fólk

Ég var umkringd fólki en var samt einmana

Þegar ég flutti langt að heiman var mér mögulegt að sigrast á einmanaleika mínum vegna sambands míns við himininn.

Ljósmynd
kona umlukin ljósgeislum og ýmsir ganga umhverfis hana

Kannist þið við þá tilfinningu að finnast þið vera ein þótt þið séuð umkringd fólki?

Frá því að ég yfirgaf heimalandið mitt, Úganda, og flutti til Dúbaí vegna vinnu, hef ég nánast stöðugt verið einmana. Heima í hverfinu mínu heilsaði fólk mér á götu. Við þekktum hvert annað. Við studdum hvert annað. Ég átti marga vini og fjölskyldu sem voru sömu trúar.

En það er ekki það sama hér. Ég bý í afar ólíkum menningarheimi, í stórborg og umkringd fólki sem vinnur annasöm störf. Og jafnvel þótt ég mæti í deildina mína og hafi reynt að kynnast öðru ungu fólki og meðlimum deildarinnar, gerir þéttskipuð vinnudagskrá mér nánast ómögulegt að hitta fólk lengur en í einungis þær tvær klukkustundir sem við verjum saman í kirkju í hverri viku.

Dúbaí er fjölmenn og töfrandi borg og ég er þakklát fyrir að vera hér. En hún getur þó verið svo yfirþyrmandi, sérstaklega þegar maður er einmana. Fólk á svo margt hérna og virðist hafa líf sitt á hreinu. Hins vegar, þar sem ég dvel innan um allt þetta fína dót og þessar fallegu byggingar, velti ég stundum fyrir mér:

Hvað er ég að gera við líf mitt? Er þetta í raun rétti staðurinn fyrir mig?

Finna að maður tilheyrir aftur

Öldungur D. Todd Christofferson í Tólfpostulasveitinni útskýrði að „tilfinningin að tilheyra [væri] mikilvæg fyrir líkamlega, geðræna og andlega velferð okkar“.1 Ég hafði ekki gert mér grein fyrir hversu nauðsynleg sú tilfinning að tilheyra væri fyrr en ég skynjaði hana ekki lengur – ekki í kirkju og í raun hvergi.

Hvernig gat ég fundið fyrir henni núna svo fjarri öllum sem ég elskaði?

Með tímanum fór ég að viðurkenna „miðlægni Jesú Krists í því að tilheyra“.2

Þótt ég saknaði enn vina minna og fjölskyldu, tók ég að sjá að ég hafði ekki orðið viðskila við alla í lífi mínu við flutninginn – ég átti frelsarann enn að og kærleiksríkan himneskan föður sem alltaf vildu vera mér nærri.

Ég tók því að gera það sem ég gat til að tengjast þeim betur dag hvern. Ég tók að hlusta á námshlaðvarp með Kom, fylg mér þegar ég fór út að hlaupa. Ég notaði heyrnartækin í vinnunni og hlustaði á ritningarnar meðan ég lauk verkefnum.

Mikilvægast er að ég lærði hvað það er ótrúleg gjöf að geta beðið milliliðalaust til himnesks föður. Ég tala oftar við hann og af meiri hugsun en nokkru sinni áður. Þegar ég er einmana, biðst ég fyrir og finn huggun hans. Þegar ég er að skrifa tölvupóst og reyni að vera þolinmóð við vinnufélaga mína, bið ég til hans um liðsinni.

Ég hrífst af því sem Thomas S. Monson forseti (1927–2018) sagði um bænina: „Við þau … sem glíma við áskoranir og erfiðleika, stóra sem smáa, segi ég að bænin veitir andlegan styrk; hún er vegabréfið til friðar. Bænin er leiðin til að nálgast föður okkar á himnum, sem elskar okkur. Ræðið við hann í bæn og hlustið síðan eftir svari. Kraftaverk gerast gegnum bæn.“3

Með því að gefa mér tíma fyrir þá í lífi mínu, einkum gegnum einlæga bæn, fór ég að sjá að þótt ég væri ekki umkringd fólkinu mínu og í eigin menningarheimi, þá gæti ég samt verið umlukin andanum og fundið fyrir kærleika Guðs.

Við getum alltaf verið tengd

Hlutirnir eru enn erfiðir, en ég hef von um framtíðina. Auk þess er ég farin að hafa trú á því sem bróðir Milton Camargo, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði sunnudagaskólans, kenndi: „Drottinn Jesús Kristur lifir í dag. Hann getur verið virk, dagleg nærvera í lífi okkar. Hann er lausnin á vandamálum okkar, en við verðum að lyfta augliti okkar og skerpa sýn okkar til að sjá hann.“4

Ég er enn stundum einmana, en ég veit að ég mun alltaf, alltaf geta beðið til himnesks föður míns og fengið aðgang að friðþægingu Jesú Krists.

Standandi eða krjúpandi, ein eða í hópi, get ég beðið.

Ég get beðið til himnesks föður.

Ég get fært þakkir.

Ég get beðið um leiðsögn og vernd.

Ég veit líka fyrir sáttmálssamband mitt að ég, sem dóttir kærleiksríks himnesks föður, mun alltaf tilheyra honum. Með leiðsögn hans get ég verið viss um að ég sé á réttum stað og geri það sem hann vill að ég sé að gera.

Prenta