Líahóna
Leidd örugglega þangað sem við þurfum að vera
Mars 2024


„Leidd örugglega þangað sem við þurfum að vera,“ Líahóna, mars 2024.

Kom, fylg mér

2. Nefí 25–32

Leidd örugglega þangað sem við þurfum að vera

Frelsarinn mun látlaust aðstoða okkur á ferð okkar á ótrúlegan hátt.

Ljósmynd
fætur ganga í snjó

Þegar ég var 12 ára flutti fjölskyldan mín frá hinu heita loftslagi í Hong Kong til staðar með köldum, ókunnuglegum vetrum. Fljótlega var mér boðið í mína fyrstu vetrargöngu með piltunum í deildinni minni.

Á göngudegi okkar klæddi ég mig eins hlýlega og ég kunni. Þegar við gengum á hina hlykkjóttu fjallaslóð var ég spenntur yfir að sjá fallandi snjókorn hylja jörðina. Ég var þó illa klæddur fyrir landsvæðið og veðrið og átti erfitt með að halda í við hópinn. Ég sagði þeim að halda áfram og að ég myndi ganga með þeim sem ég trúði að fylgdu á eftir.

Þegar ég hélt áfram á eigin hraða, urðu skórnir mínir og fötin rennblaut og hendur mínar, fætur og andlit dofin. Svo fór að snjóa svo þétt að ég sá ekki slóðina lengur. Eftir að hafa ráfað um í nokkurn tíma, áttaði ég mig á því að ég var einn og villtur og óviss um hvort einhver vissi að ég væri villtur.

Stundum á ferðalagi lífsins mun okkur finnast við vera óundirbúin, villt eða skilin eftir ein. Við gætum misst stefnuskynið og sýn á leiðina sem liggur frammi fyrir okkur. Svo kann að virðast að því meira sem við leggjum okkur fram við förina, því lengra fjarlægjumst við ákvörðunarstað okkar. Vonbrigði geta komið upp og freistingin til uppgjafar verður aðlaðandi.

Af forsjón hefur frelsarinn Jesús Kristur kraft til að stýra fótsporum okkar, lyfta okkur þegar við hrösum (sjá Sálmarnir 37:23–24) og veita okkur hvíld (sjá Matteus 11:28), lækningu (sjá Jesaja 53:5; Alma 15:8; Kenning og sáttmálar 42:48), fullvissu (sjá Kenning og sáttmálar 121:45) og frið (sjá Mósía 4:3; Alma 38:8; Kenning og sáttmálar 19:23). „Nálgist mig,“ sagði hann, „og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig“ (Kenning og sáttmálar 88:63). Leiðin næst okkur er ef til vill ekki alltaf skýr, en við getum fylgt frelsaranum í trú á að ferð okkar ljúki dásamlega og sigursællega, vegna þess að hann mun leiða okkur örugglega þangað sem við þurfum að vera.

Við getum alltaf litið til Jesú Krists, því Jesús Kristur er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6).

Rétta leiðin fyrir ferðalag okkar

Í námi okkar í Mormónsbók á þessu ári höfum við fylgt Lehí og fjölskyldu hans á ferðalagi þeirra til fyrirheitna landsins. Hugleiðið hvað fjölskylda Lehís mátti þola á ferð sinni:

  • Háð fyrir að hafa trú á og fylgja spámönnum

  • Skipti á venjubundnum þægindum fyrir óþekkta eyðimörk

  • Ferðast án vissu um fjarlægð, ákvörðunarstað eða tímalengd

  • Hungur, sorg, veikindi og dauða

  • Erfið verkefni, stundum án þess að skilja ástæður þeirra eða hvernig ætti að framkvæma þau

  • Áföll, tafir, deilur og vonbrigði

  • Erfiðar aðstæður við að ala upp ungar fjölskyldur

Á leiðinni sjáum við líka hvernig Drottinn hjálpaði þeim látlaust. Hann sá þeim fyrir

  • spámannlegri leiðsögn og persónulegri opinberun,

  • ritningum sem geyma fyrirheitnar blessanir og sáttmála,

  • ættfræðiheimildum og ættarsögu,

  • nýrri tækni og aðferðum til að mæta þörfum þeirra,

  • aukinni hæfni til að takast á við erfiðleika,

  • visku og fræðslu til að framkvæma ókunnug verkefni,

  • Líahóna (verkfæri þeim til hjálpar í ferðalagi þeirra), og

  • öryggi og vernd fyrir fjölskyldu sína.

Á sama hátt og átti við um fjölskyldu Lehís, þá verður ferðalag okkar ekki án áskorana og fórna. Frelsarinn mun sömuleiðis stöðugt aðstoða okkur á undraverðan hátt. Nefí kenndi: „Rétta leiðin er sú að trúa á Krist … af öllum mætti yðar, huga og styrk, og af allri sálu yðar“ (2. Nefí 25:29). Ef við veljum að trúa á Jesú Krist, tökum auðmjúklega á móti orði hans og höfum hugrekki til að framkvæma, munum við finna gleði og blessanir mitt í erfiðleikunum sem verða á vegi okkar. Á leiðinni getum við treyst því að við getum framkvæmt það sem hann vill að við gerum (sjá 1. Nefí 3:7).

Eftirfarandi er fátt eitt af því sem frelsarinn gerir látlaust til að hjálpa okkur.

Ljósmynd
mynd af Jesú Kristi

Sjá dagur rís, öll dimman flýr, eftir Simon Dewey

Hann sér okkur fyrir kenningu sinni

Hann þekkir „endalokin frá upphafinu“ (Abraham 2:8). „Hann sýndi veg og veitti leið.“1 Kenning hans, í ritningunum kunn sem kenning Krists, er leiðin sem við verðum öll að feta til að hljóta björgun og frelsun.

Við verðum stöðugt að iðka trú á Jesú Krist, iðrast reglubundið, láta skírast, meðtaka gjöf heilags anda, ganga inn í sáttmála og reyna eftir fremsta megni að standast. Í staðinn er okkur lofað fyrirgefningu, von og eilífu lífi. (Sjá 2. Nefí 31:2–20.)

Í heimi ólíkra leiða og misvísandi hátta, veitir kenning Krists skýrar og framkvæmanlegar leiðbeiningar sem við getum fylgt til að halda okkur á réttri leið (sjá 2. Nefí 31:21).

Hann veitir okkur huggun

Frelsarinn veit, fyrir friðþægingu sína, hvernig það er að vera sannarlega einn og yfirgefinn. Hann veit líka fullkomlega hvernig veita á okkur huggun. Hann sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki“ (Jóhannes 14:1) og „ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar“ (Jóhannes 14:18).

Frelsarinn hefur lofað þeim sem trúa á sig gjöf huggarans, sem er heilagur andi. Hann sagði um huggarann: „Andinn heilagi mun kenna yður allt og minna yður á allt“ (Jóhannes 14:26).

Hann sér okkur fyrir orði Guðs

Með endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists á okkar tíma, hefur Drottinn séð okkur fyrir fornri og síðari daga ritningu, sem hefur að geyma orð Guðs. Nefí kenndi að „hver sá, sem fylgir orði Guðs og varðveitir það, mun aldrei farast“ (1. Nefí 15:24).

Að gleðjast daglega í orði Guðs veitir vernd og gerir okkur mögulegt að upplifa kærleika Guðs í ríkari mæli. Orð hans lýsa upp veg okkar (sjá Sálmarnir 119:105) og „munu segja [okkur] að fullu, hvað [okkur] ber að gjöra“ (2. Nefí 32:3).

Hann leiðir okkur með þjónum sínum – spámönnunum og postulunum

Jesús Kristur hefur kallað spámenn og postula til að hjálpa okkur. Leiðsögn þeirra og kenningar eru fyrir okkur og okkar tíma. Ef þið verðið fyrir því að villast eða verða ráðvillt í ferðalagi ykkar, gæti ykkur fundist gagnlegt að velta fyrir ykkur eftirfarandi þremur spurningum:

  1. Hvernig hefur Drottinn búið mig undir þær raunir sem ég hef upplifað með orðum spámanna og postula?

  2. Hvað bjóða spámennirnir og postularnir mér að gera í dag til að búa mig undir þær áskoranir sem fram undan eru?

  3. Hvað er ég að gera núna til að bregðast við spámannlegum boðum?

Með því að ígrunda þessar spurningar, getum við áttað okkur á mikilvægi leiðsagnar spámanna og postula. Við getum betur heyrt rödd Drottins og tekið eftir því hvernig hann hjálpar okkur stöðugt. Ef við veljum það, getum við hlustað á spámenn og postula og fundið leiðsögn, farsæld og vernd á veginum sem liggur til baka til himnesks föður og sonar hans Jesú Krists.

Ljósmynd
Öldungur Tai á fjallstoppi

Öldungur Tai í Sierra Nevada-fjallgarðinum í Kaliforníu um 1988. Sagan sem hann segir átti sér stað á Baden Powell-fjalli í San Gabriel-fjöllum í Kaliforníu árið 1984.

Ljósmynd birt með leyfi höfundar

Trúin til að flytja fjöll

Villtur, kaldur og einn á snæviþöktu fjallinu, fyrir svo mörgum árum, varð ég örvæntingarfullur. Ég vissi ekki hvað annað ég ætti að gera en að krjúpa í nýföllnum snjónum og biðja himneskan föður um hjálp. Ég sagði honum frá vandræðum mínum og ótta og bað þess að ég fyndist og mér yrði bjargað.

Þegar ég stóð upp frá bæninni féllu snjókornin allt umhverfis mig og falleg, kyrrlát þögn fyllti trén. Þessi sálarró var rofin þegar ég heyrði þrusk í runnunum þar nærri. Tveir eldri drengir gengu þar fram. Þeir höfðu þegar komist á tindinn og í stað þess að fylgja slóðinni ákváðu þeir að renna sér niður fjallið. Af öllum stöðum runnu þeir beint þangað sem ég var!

Þegar þeir spurðu mig hvað ég væri að gera þarna sagði ég þeim að ég væri villtur. Þeir buðu mér samflot og saman renndum við okkur heilu á höldnu niður að göngustígnum við fjallsræturnar. Að lokum sameinuðumst við hópnum okkar.

Þegar við sækjum fram í okkar persónulega ferðalagi með trú, tryggð og þolgæði, megum við þá bera kennsl á að frelsarinn gengur með okkur og hjálpar okkur á virkan hátt. Jesús Kristur er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Megi trú okkar á hann veita huga okkar frið og gleði í ferðalagi okkar.

Prenta