„Þú tilheyrir,“ Líahóna, mars 2024.
Ungt fullorðið fólk
Þú tilheyrir
Við getum fundið þá tilfinningu að við tilheyrum þegar við þróum innilegt samband við himneskan föður og Jesú Krist.
Sérhvert okkar fæddist með þá eðlislægu þörf að tilheyra. Okkur er eðlislægt að þrá að tilheyra í sambandi okkar við fjölskyldu okkar, vini, samstarfsfólk, deildir og við annað fólk í lífi okkar. Hjarta okkar virðist búa yfir þessari djúpu og varanlegri himnesku þrá að tilheyra.
Þið og ég vorum – og erum enn – hluti af eilífri fjölskyldu hjá himneskum föður okkar, löngu áður en við komum til jarðar. Ritningarnar segja að við séum „gestir og útlendingar á jörðinni“ (Hebreabréfið 11:13; Kenning og sáttmálar 45:13). Að yfirgefa okkar himneska heimili og koma í heim þar sem ringulreið, einmanaleiki og sorg eru ríkjandi, þá gæti okkur liðið eins og flökkurum sem þrá eilíft heimili sitt og sambönd.
Ef þið hafið einhvern tíma fundið fyrir örlítilli heimþrá eftir himnaríki, þá er það ef til vill vegna þess að okkar sanna heimili og sjálfsmynd eru bundin himneskum föður okkar og frelsaranum Jesú Kristi. Þess vegna er svo mikilvægt að eiga djúp tengsl við þá. Þegar við erum tengd þeim gegnum sáttmálssamband okkar, munum við finna hina sönnu tilfinningu þess að við tilheyrum, sem andi okkar þráir.
Sáttmálssamband okkar við Guð
Breytni okkar og hugsanir endurspegla þau sambönd sem við metum. Sama á við um sáttmálssamband okkar við himneskan föður og frelsarann.
Þegar við metum sáttmálasamband okkar við Guð breytist allt. Í stað þess að verða fyrir áhrifum frá heiminum, verðum við fyrir áhrifum frá honum og verðum líkari honum. Líf okkar fær dýpri merkingu og andlegan stöðugleika og kraft. Að „tilheyra“ nær þá skyndilega lengra hinni dauðlegu umgjörð sem okkur finnst merkja að „tilheyra“.
Þegar þetta sáttmálssamband við Guð verður í fyrirrúmi, munu innantómar truflanir heimsins missa gildi sitt og við finnum sannan persónulegan frið og að við tilheyrum. Í heimi þar sem hlutirnir eru oft ekki gjaldfrjálsir, veitir himneskur faðir okkur sáttmálsblessanir sínar af kærleika, burtséð frá stöðu okkar í heiminum (sjá 2. Nefí 9:50–51).
Russell M. Nelson forseti kenndi dásamlega að „þegar við eitt sinn gerum sáttmála við Guð, yfirgefum við hlutleysi að eilífu. Guð mun ekki fyrirgera sambandi sínu við þá sem hafa bundist honum slíkum böndum. Allir þeir sem hafa gert sáttmála við Guð, hafa í raun aðgang að sérstökum kærleika og náð“.1
Við ákveðum hvort samband okkar við Guð sé náið – hann er alltaf stöðugur gagnvart okkur, en við verðum að velja að vera stöðug gagnvart honum. Sá guðlegi valkostur er bæði styrkjandi og frelsandi! Sá valkostur gerir að engu þær ranghugmyndir sem við höfum um það hver við sjálf erum og leysir af okkur takmarkandi hlekki veraldlegra væntinga.
Þegar við finnum að við tilheyrum himneskum föður okkar, þá getum við litið hið ytra og séð aðra eins og hann gerir. Þegar ég skil hvað honum finnst um mig, þá skil ég betur hvað honum finnst um ykkur og þrá mín og þróttur magnast til að ég gefi mig að öðrum til samansöfnunar.
Sáttmálar leysa blessanir úr læðingi
Himneskur faðir og Jesús Kristur þrá að við gerum sáttmála við þá, svo að þeir geti blessað okkur á þann hátt sem við þurfum og breytt okkur á þann hátt sem gerir okkur mögulegt að snúa aftur í návist þeirra.
Ég býð ykkur að fara eins oft og þið getið í hús Drottins. Þegar ég einset mér að fara oft og meðvitað, hlýt ég lausn frá heiminum og hugsanir mínar og eðli verða háverðugri.
Með því að halda sáttmála okkar, hljótum við prestdæmiskraft sem leysir úr læðingi blessanir friðþægingar frelsarans í lífi okkar. Þær blessanir eru m.a. lækning, leiðsögn, vernd, liðsinni, styrkur, friður, yfirsýn og gleði. Himneskur faðir þráir að blessa okkur með öllu þessu gegnum sáttmálssamband okkar.
Ef þið hafið enn ekki meðtekið blessanir musterisins, þá býð ég ykkur að læra um blessanir musterisins, prestdæmiskraftinn, sáttmálana og það sem Guð þráir fyrir ykkur. Frestið því ekki að taka á móti líkn hans, krafti og kærleiksríku liðsinni.
Nelson forseti hefur sagt:
„Ég hvet ykkur til að bíða ekki fram að hjónabandi með að meðtaka musterisgjöf ykkar í húsi Drottins. Byrjið núna að læra og upplifa hvað í því felst að vera gæddur prestdæmiskrafti.
Ykkur öll, sem hafið gert musterissáttmála, bið ég að reyna – kostgæfið og stöðugt – að skilja musterissáttmála og helgiathafnir. Andlegar dyr munu ljúkast upp. Ykkur mun lærast hvernig á að svipta frá hulunni milli himins og jarðar, hvernig á að biðja engla Guðs að gæta að ykkur og hvernig betur má hljóta leiðsögn frá himnum. Kostgæfin viðleitni ykkar til að gera það, mun styrkja og efla ykkar andlegu undirstöðu.“2
Tilheyra gegnum iðrun
Stöðug iðrun er önnur dásamleg og áhrifarík aðferð til að vera nálæg himneskum föður og Jesú Kristi. Oft trúum við því ranglega að ef við iðrumst mikið þá hljótum við að vera afar fjarri þeim. En hið gagnstæða er sannleikur!
Iðrun færir ykkur ekki lengra frá þeim – hún færir ykkur nær þeim!
Þið getið fundið sterkar að þið tilheyrið og upplifað dýpri tengsl við þá með því að leita til þeirra eftir hjálp og og fyrirgefningu.
Sérhvert okkar upplifir sig kannski fjarlægari fullkomnun en við hefðum viljað, en ég held að himneskur faðir líti síður á það og meira á þrá okkar og viðleitni til að reyna aftur. Hann elskar okkur, hann veit hvert við stefnum og hann mun leiða okkur með ástúð.
Að viðurkenna veikleika okkar og mistök krefst þess að við afhjúpum veikleika okkar, en með því að iðrast bjóðum við himneskum föður að hann verði nálægur þessum viðkvæma hluta sálar okkar. Þessi nálægð gerir honum mögulegt að veita okkur sína miklu elsku, lækningu, fyrirgefningu og þá vernd sem við þörfnumst. Það er í slíku sambandi við Guð sem við þróum traust og finnum hvatningu og að við sannlega tilheyrum.
Leita æðri hugsýnar
Hugsýn okkar getur aukið þá tilfinningu okkar að tilheyra í kirkju Drottins. Við getum valið þá hugsýn að eigin verk geti stuðlað að því í deild okkar, Líknarfélagi okkar eða öldungasveit okkar að þar sé kærleiksríkur staður til að eiga aðild að. Að leitast við að hjálpa öðrum að tilheyra eflir í raun þá tilfinningu hjá okkur að við tilheyrum.
Þar sem þið eruð barn Guðs, þá tilheyrið þið – burtséð frá hvernig aðrir líta á ykkur eða hvernig þið sjálf gætuð litið á ykkur. Sæluáætlun föðurins er ætluð ykkur og þið gegnið mikilvægu hlutverki í henni. Sérhvert ykkar hefur getu til sérstaks framlags og að tilheyra ríki Guðs, hver sem hjúskaparstaða ykkar er, menntun eða bakgrunnur.
Sú hugsun hefur ítrekað komið í huga minn að hugtökin „ungt einhleypt fólk“, „ungt fullorðið fólk“ og „einhleypt fullorðið fólk“ eru ekki það sem þið í raun eruð. Þetta eru lýðfræðileg hugtök sem hjálpa við að lýsa aldri og hjúskaparstöðu, en þau eru ekki fullnægjandi lýsingar á sannri eilífri sjálfsmynd, tilgangi og getu.
Merkingar eða samanburður getur takmarkað hvernig við sjáum okkur sjálf og gildi okkar og möguleika í ríki Guðs. Staðreyndin er sú að þið eruð meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þið hafið gert sáttmála við Guð. Þið hafið aðgang að prestdæmiskrafti hans. Þið eruð meðlimir í Líknarfélagi eða öldungasveit. Þið eruð, eins og Nelson forseti kenndi, barn Guðs, barn sáttmálans, og lærisveinn Jesú Krists. Það er það sem þið fyrst og fremst eruð og það er það sem „leiðir ykkur í átt að eilífu lífi í himneska ríkinu“.3
Fagnaðarerindið var endurreist fyrir milligöngu ungs spámanns – Josephs Smith. Það er áhrifarík hugsun að ígrunda. Himneskur faðir og Jesús Kristur fólu spámanninum og félögum hans á þessu tímaskeiði að endurreisa kirkjuna. Guð treystir ykkur líka til að eiga hlut að þessu mikla verki á þessum síðari dögum.
Ef þið viljið vita hver þið eruð og hvort þið séuð elskuð og metin, skuluð þið spyrja föður ykkar á himnum. Hann mun alltaf segja ykkur sannleikann um ykkur sjálf. Hann mun gera mögulegt að þið sjáið ykkur sjálf eins og hann sér ykkur – að þið búið yfir afar mikilli getu og kærleika. Hann getur leitt ykkur að miklum tækifærum og vexti sem þið fáið vart ímyndað ykkur!
Megum við öll hafa augu til að sjá hvert annað og okkur sjálf, ekki út frá sjónarhorni aldurs eða hjúskaparstöðu, heldur út frá því að við höldum sáttmála, erum samlærisveinar Jesú Krists, vinir, bræður og systur og synir og dætur Guðs. Í þessum eilífu hlutverkum og samböndum munum við finna háverðugustu og sönnustu tilfinningu þess að tilheyra.