„Frelsari allra, fagnaðarerindi fyrir alla,“ Líahóna, mars 2024.
Frelsari allra, fagnaðarerindi fyrir alla
Fagnaðarerindi, friðþæging og upprisa Jesú Krists blessar öll börn Guðs.
Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er fyrst og fremst eilíf uppspretta varanlegrar hamingju, sanns friðar og sannrar gleði fyrir alla á þessum síðari dögum. Blessanirnar sem streyma frá fagnaðarerindinu og frá takmarkalausri gæsku Krists, voru aldrei ætlaðar aðeins fáum útvöldum, hvorki til forna né á okkar tíma.
Sama hversu ófullnægjandi okkur kann að finnast við sjálf vera, og þrátt fyrir syndirnar sem geta fjarlægt okkur honum um tíma, þá fullvissar frelsarinn okkur um að „hann réttir fram hendur sínar til [okkar] allan liðlangan daginn“ (Jakob 6:4) og býður okkur öllum að koma til sín og finna kærleika sinn.
Blessun fagnaðarerindis fyrir allan heiminn
Fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið „endurreist á þessum síðari dögum til að mæta þörfum hverrar þjóðar, kynkvíslar, tungu og lýðs á jörðinni“.1 Fagnaðarerindið nær yfir allt þjóðerni og allan litarhátt og fer yfir mörk allra menningarheima, til að kenna að „allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33).2 Mormónsbók stendur sem dásamlegt vitni um þennan sannleika.
Þessi mikla heimild vitnar um að Kristur er minnugur allra þjóða (sjá 2. Nefí 29:7) og „hann opinberar sig öllum þeim, sem á hann trúa, [og vinnur] mikil kraftaverk, tákn og undur meðal mannanna barna“ (2. Nefí 26:13). Meðal þessara miklu kraftaverka, tákna og undra er útbreiðsla fagnaðarerindisins. Við sendum því trúboða út um allan heim til að bera vitni um fagnaðarerindið. Við miðlum líka þeim fagnaðarerindinu sem eru umhverfis okkur. Notkun endurreistra prestdæmislykla fyrir lifandi og látna tryggir að fylling fagnaðarerindisins verði að lokum aðgengileg hverjum syni og dóttur himneskra foreldra okkar – fortíðar, nútíðar eða framtíðar.
Hjarta þessa fagnaðarerindis – meginboðskapur hvers spámanns og postula sem nokkru sinni hefur verið kallaður til verksins – er að Jesús er Kristur og að hann kom til að blessa alla. Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu lýsum við því yfir að friðþægingarfórn hans sé fyrir allan heiminn.
Þörfin fyrir algjöra og eilífa friðþægingu
Þegar ég fer um heiminn á ég viðtöl við fjölmarga kirkjumeðlimi. Ég hrífst af því að heyra hvernig þeir upplifa blessanir friðþægingar Jesú Krists í lífi sínu, jafnvel þegar þeir játa einhverja gamla synd. Hve dásamlegt er að hreinsandi og huggandi máttur friðþægingar hans sé okkur öllum alltaf tiltækur!
„Nauðsynlegt er að friðþæging verði gjörð,“ sagði Amúlek, „því að annars hlýtur allt mannkyn óhjákvæmilega að farast.“ Við yrðum ævarandi „[fallin og glötuð] … án friðþægingar“, sem krefst [algjörrar og eilífrar fórnar]“. „Þess vegna nægir ekkert minna en algjör friðþæging til að friðþægja fyrir syndir heimsins“ (Alma 34:9, 10, 12).
Hinn mikli spámaður Jakob kenndi líka að vegna þess að „dauðinn hefur orðið hlutskipti allra manna, … hlýtur og verður máttur til upprisu að vera til“, til að færa okkur í návist Guðs (2. Nefí 9:6).
Sigrast þurfti bæði á synd og dauða. Það var verkefni frelsarans, sem hann hugdjarfur fullgerði fyrir öll börn Guðs.
Fórn frelsara okkar
Á síðustu nótt sinni í jarðlífinu, gekk Jesús Kristur inn í Getsemanegarðinn. Þar kraup hann meðal ólífutrjánna og tók að upplifa hina miklu angist sem þið og ég munum aldrei kynnast.
Þar hóf hann að taka á sig syndir heimsins. Hann upplifði allan sársauka, harm og sorg og hann þoldi alla þá kvöl og þjáningu sem þið, ég og hver önnur sála sem lifað hefur eða mun lifa höfum upplifað. Þessar miklu og óendanlegu þjáningar „[urðu] þess valdandi, að [hann], … æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu“ (Kenning og sáttmálar 19:18). Einungis hann hefði getað gert þetta.
Ei annar neinn þann átti mátt,
sem oss frá syndum bar;
hann einn gat himins opnað dyr
og oss til dýrðar þar.3
Jesús var síðan færður á Golgata og á hörmulegustu og óréttlátustu stund í sögu þessa heims var hann krossfestur. Enginn hefði getað tekið líf hans frá honum. Sem eingetinn sonur Guðs í holdinu, hafði hann vald yfir líkamlegum dauða. Hann hefði getað beðið til föður síns og hersveitir engla hefðu verið sendar til að yfirbuga kvalara hans og sýna yfirráð hans yfir öllu. „Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast,“ spurði Jesús er hann var svikinn, „sem segja að þetta eigi svo að verða?“ (Matteus 26:54).
Af fullkominni hlýðni við föður sinn – og fullkominni elsku til okkar – gaf Jesús líf sitt fúslega og fullkomnaði sína algjöru og eilífu friðþægingarfórn, sem nær aftur í tímann og áfram um alla eilífð.
Sigur frelsara okkar
Jesús bauð postulum sínum að halda starfi sínu áfram eftir dauða sinn. Hvernig gætu þeir gert það? Nokkrir þeirra voru aðeins einfaldir sjómenn og enginn var þjálfaður í samkunduhúsunum fyrir þjónustu. Á því augnabliki virtist fyrir liggja að ekkert yrði úr kirkju Krists. Postularnir fundu þó styrk til að framfylgja kalli sínu og móta sögu heimsins.
Hvað varð til þess að styrkur varð til frá slíkum augljósum veikleika? Frederic Farrar, kirkjuleiðtogi ensku biskupakirkjunnar og fræðimaður, sagði: „Það er eitt og aðeins eitt mögulegt svar — upprisan frá dauðum. Öll þessi mikla umbylting var vegna krafts upprisu Krists.“4 Sem vitni hins upprisna Drottins, vissu postularnir að ekkert gat komið í veg fyrir að þetta verk héldi áfram. Vitnisburður þeirra var uppspretta styrks er frumkirkjan þróaðist framar öllum vonum.
Á þessum páskum lýsi ég því yfir sem eitt af vígðum vitnum hans að Drottinn Jesús Kristur hafi árla einn fallegan sunnudagsmorgun risið upp frá dauðum til að styrkja okkur og rjúfa bönd dauðans fyrir alla. Jesús Kristur lifir! Vegna hans er dauðinn ekki endir alls. Upprisan er gjaldfrjáls og altæk gjöf Krists fyrir alla.
Komið til Krists
Fagnaðarerindi og friðþæging Jesú Krists eru fyrir alla – já, alla. Eina leiðin til að upplifa fyllilega blessanir friðþægingarfórnar frelsarans er með því að taka persónulega á móti boði hans: „Komið til mín“ (Matteus 11:28).
Við komum til Krists með því að iðka trú á hann og iðrast. Við komum til hans með því að láta skírast í hans nafni og meðtaka gjöf heilags anda. Við komum til hans með því að halda boðorðin, meðtaka helgiathafnir hans, heiðra sáttmála, taka upplifunum í musterinu fagnandi og lifa því lífi sem lærisveinar Krists lifa.
Stundum munið þið upplifa vanmátt og vonbrigði. Hjarta ykkar gæti brostið vegna ykkar sjálfra eða einhvers sem þið elskið. Þið gætuð verið þjökuð vegna synda annarra. Mistök ykkar – sem ef til vill eru alvarleg – gætu vakið ykkur ótta um að friður og hamingja séu endanlega horfin frá ykkur. Hafið hugfast á slíkum stundum að frelsarinn lyftir ekki aðeins byrði syndar, heldur líka „alls kyns sársauka, [þrenginga og freistinga]“ (Alma 7:11), þar á meðal ykkar! Vegna þess sem hann gekk í gegnum fyrir ykkur, þá veit hann persónulega hvernig á að hjálpa ykkur er þið meðtakið hið lífsbreytandi boð hans: „Komið til mín.“
Allir eru velkomnir
Jesús Kristur hefur gert ljóst að öll börn himnesks föður eigi að jöfnu tilkall til blessana fagnaðarerindis hans og friðþægingar. Hann minnir okkur á að „allir menn [hafi] sama rétt, og enginn er útilokaður“ (2. Nefí 26:28).
„Hann býður þeim öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu“ (2. Nefí 26:33).
„Hann býður þeim öllum“ – og það erum við öll! Við ættum ekki að setja ytri merkingar eða aðgreiningar á okkur sjálf eða aðra. Við ættum aldrei að setja upp einhverjar hindranir fyrir kærleika frelsarans eða bjóða heim hugsunum um að við eða aðrir séu utan hans seilingar. Eins og ég sagði áður: „[Engum] er mögulegt að sökkva neðar geislum hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists.“5
Þess í stað, eins og ég og systir Holland kenndum fáeinum mánuðum fyrir andlát hennar, er okkur boðið að „eiga kærleik, og sá kærleikur er að elska“ (2. Nefí 26:30).6 Þetta er sú elska sem frelsarinn sýnir okkur, því „hann gjörir aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn, að hann gefur sitt eigið líf til að draga alla menn til sín“ (2. Nefí 26:24).
Ég ber vitni um að fagnaðarerindi og friðþæging Jesú Krists er fyrir alla menn. Ég bið þess að þið munuð glaðlega meðtaka blessanirnar sem hann veitir.