Líahóna
Það sem ég lærði þegar ég hætti að vera á samfélagsmiðlum
Mars 2024


„Það sem ég lærði þegar ég hætti að vera á samfélagsmiðlum,“ Líahóna, mars 2024.

Það sem ég lærði þegar ég hætti að vera á samfélagsmiðlum

Minnkandi notkun samfélagsmiðla hefur gert mér mögulegt að verja meiri tíma með börnunum mínum og bæta samband mitt við frelsarann.

Ljósmynd
kona heldur á ótengdum vírum meðan tákn samfélagsmiðla svífa umhverfis hana

Myndskreyting: David Green

Síðustu árin hef ég vitað að Guð var að hvetja mig til að stíga til baka frá samfélagsmiðlum. Ég vissi að það myndi gera mér mjög gott að draga mig frá samfélagsmiðlum um stund, en ég vissi líka að ég naut samfélagsins sem ég fann þar. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að samræma þetta tvennt; ég vissi bara að eitthvað yrði að breytast.

Ég las bók sem fékk mig til að velta fyrir mér spurningunni: „Hversu miklum tíma er í lagi að verja á samfélagsmiðlum til að gefa af mér til samfélagsins þar án allra neikvæðu áhrifanna?“ Hvað mig varðaði var svarið við þessari spurningu um tuttugu mínútur … á mánuði. Ég setti mér markmið til að láta þetta gerast og með hjálp Drottins reyndist það auðveldara en ég hélt. Það sem ég bjóst ekki við var hversu mikið þessi breyting myndi styrkja samband mitt við frelsara minn. Ég fann betur fyrir kærleikanum sem frelsarinn ber til mín; ég hef skilið betur áætlunina sem hann hefur fyrir mig; og ég er farin að sjá þarfir fólksins í kringum mig betur.

Að láta ekki sjálfsmyndir ákvarða sjálfsvirði mitt

Ég hef alltaf vitað að ég er barn Guðs og að hann elskar mig. Ég hef fundið fyrir kærleika frelsara míns á erfiðum tímum í lífi mínu. En of oft lét ég samfélagsmiðla ráða því hvernig ég sá og hugsaði um sjálfa mig. Hversu mikið sem ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um að fullkomnu myndirnar á samfélagsmiðlum hefðu ekki áhrif á mig, þá kom í ljós að þær gerðu það. Að minnka tíma minn á samfélagsmiðlum veitti mér þann andlega frið og ró sem ég þurfti til að heyra frelsarann segja hvað honum fannst um mig. Ég áttaði mig ekki á hversu mikið ég hafði saknað þess að heyra rödd hans fyrr en ég bjó honum meira rými til þess.

Ég hef alltaf trúað á sáluhjálparáætlunina. Ég veit að Jesús Kristur er þungamiðja þeirrar áætlunar. En ég trúi líka að himneskur faðir hafi áætlun fyrir hvert og eitt okkar. Larry M. Gibson, fyrrverandi fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Piltafélagsins, sagði: „Ég veit að himneskur faðir ber umhyggju sérhvers okkar fyrir brjósti og hefur persónulega áætlun svo við getum uppfyllt okkar eilífu örlög.“1

Ég varði miklum tíma í að skruna til að reyna að komast að því hver tilgangur minn var. Að vera á samfélagsmiðlum var eins og að sitja í fremstu sætaröð til að sjá allt það skapandi og yndislega sem fólk var að gera. Ég lærði mikið af þessu fólki, en ég varði miklu meiri tíma í að leita en að gera. Eftir að ég dró mig í hlé frá samfélagsmiðlum, hef ég fundið mig leidda til að vita sérstaklega hvað himneskur faðir vill að ég geri. Margt af þessu hefur komið á óvart og er öðruvísi en ég hélt að það væri, en það hefur auðgað líf mitt.

Frelsarinn kom svo að við mættum lifa og hafa líf í fullri gnægð (sjá Jóhannes 10:10). Ég er þakklát fyrir þá hvatningu sem heilagur andi veitir til að hjálpa okkur að eiga auðugra líf.

Líf handan skjásins

Frelsarinn sá þá sem komust undan athygli annarra. Ég elska að lesa frásagnir um það hvernig hann þjónaði og kenndi slíku fólki gildi þess. Að verja of miklum tíma á samfélagsmiðlum, kom í veg fyrir að ég sá í raun fólk umhverfis mig, þar með talið fjölskyldu mína. Ég áttaði mig á að ef börnunum mínum fyndist ég ekki sjá þau, myndu þau brátt leita til utanaðkomandi afla til að sannreyna gildi sitt.

Ég hef undrast kærleikann sem ég ber til barna minna, þegar ég hef verið meira til staðar með þeim. Ég hef elskað hlutverk mitt sem móður meira á síðasta ári en nokkru sinni áður. Ég hef kynnst nágrönnum og verið virkari í samfélaginu. Möguleikar mínir til þjónustu hafa aukist. Ég hélt að samfélagsmiðlar hjálpuðu mér að vera meðvitaðri, en í raun lifði ég ekki nógu mikið í augnablikinu til að sjá raunverulegar þarfir þeirra sem voru umhverfis mig.

Að minnka notkun samfélagsmiðla virtist vera lítill og einfaldur hlutur, en það hefur gert mér mögulegt að efla trú mína til muna og bæta samband mitt við frelsara minn. Ég veit að himneskur faðir elskar okkur, hefur áætlun fyrir okkur og á börn sem þurfa líka að finnast þau vera séð af okkur.

Höfundurinn býr í New York, Bandaríkjunum.

Prenta