128. Kafli
Bréf frá spámanninum Joseph Smith til Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem inniheldur frekari leiðbeiningar um skírn fyrir dána, dagsett í Nauvoo, Illinois, 6. september 1842.
1–5, Almennir skrásetjarar og skrásetjarar á hverjum stað verða að votta skírn fyrir dána; 6–9, Skýrslur þeirra eru bindandi og skráðar á jörðu og á himni; 10–14, Skírnarfonturinn er í líkingu grafarinnar; 15–17, Elía endurreisti valdið varðandi skírn fyrir dána; 18–21, Allir lyklar, kraftar og öll völd liðinna ráðstafana hafa verið endurreist; 22–25, Dýrðleg gleðitíðindi boðuð fyrir lifendur og dána.
1 Eins og ég sagði í bréfi mínu áður en ég fór að heiman, að ég mundi skrifa yður öðru hverju og veita yður upplýsingar varðandi ýmislegt, tek ég nú fyrir skírn fyrir dána, þar sem það efni virðist fylla huga minn og sækja sterkast á mig, síðan óvinir mínir tóku að ofsækja mig.
2 Ég skrifaði nokkur opinberunarorð til yðar varðandi skrásetjara. Ég hef fengið frekari innsýn í þetta efni, sem ég nú votta. Frá því var skýrt í fyrra bréfi mínu, að skrásetjara yrði að hafa, sem vera skyldi sjónarvottur og einnig heyra með eyrum sínum, svo að hann gæti skráð sannleikann fyrir Drottin.
3 Nú í sambandi við þetta mál, þá yrði það mjög erfitt fyrir einn skrásetjara að vera alltaf viðstaddur og sinna því öllu. Til að koma í veg fyrir þá erfiðleika má tilnefna í hverri deild borgarinnar skrásetjara, sem er vel fær um að skrá af nákvæmni það sem gerist, og skal hann vera mjög nákvæmur og áreiðanlegur við skráningu alls sem fram fer og votta í skýrslu sinni, að hann hafi séð það með eigin augum og heyrt með eigin eyrum, og geta dagsetningar, nafna og svo framvegis, og skrá alla atburðarás og nefna einnig þrjá einstaklinga, sem viðstaddir eru, ef einhverjir eru viðstaddir, sem geta hvenær sem þess væri óskað vottað hið sama, svo að af munni tveggja eða þriggja vitna verði hvert orð staðfest.
4 Síðan skal vera aðalskrásetjari, sem tekur á móti þessum öðrum skýrslum, en þeim skal fylgja vottorð þeirra sem skýrsluna gera, þar sem þeir votta að skýrslur þeirra séu sannar. Þá getur aðalkirkjuskrásetjarinn fært skýrslurnar inn í aðalbók kirkjunnar, ásamt vottorðunum og öllum viðstöddum vottum, með eigin yfirlýsingu um, að hann vissulega trúi að fyrrgreind yfirlýsing og skýrslur séu sannar, samkvæmt þeirri vitneskju, sem hann hefur um persónuleika þessara manna og tilnefningu þeirra af kirkjunni. Og þegar þetta hefur verið fært inn í aðalkirkjubókina, skal skýrslan vera rétt eins heilög og helgiathöfnin rétt eins gild og hann hefði sjálfur séð hana með eigin augum og heyrt með eigin eyrum og skráð skýrsluna sjálfur í aðalkirkjubókina.
5 Þér kunnið að telja þetta fyrirkomulag nokkuð smásmugulegt, en leyfið mér að segja yður, að þetta er aðeins vilji Guðs og í samræmi við þær helgiathafnir og þann undirbúning, sem Drottinn vígði og gjörði áður en grundvöllur veraldar var lagður, til sáluhjálpar hinum dánu, sem deyja mundu án þekkingar á fagnaðarboðskapnum.
6 Og enn fremur vil ég að þér minnist þess, að opinberarinn Jóhannes hafði þetta sama í huga varðandi hina dánu, þegar hann sagði, eins og þér finnið skráð í Opinberunarbókinni 20:12 — Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir Guði, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.
7 Þér munuð sjá í þessari tilvitnun, að bókum var upp lokið og að annarri bók var lokið upp, sem var bók lífsins, en hinir dánu voru dæmdir eftir því, sem skráð var í þessum bókum, samkvæmt verkum þeirra. Þar af leiðandi hljóta bækurnar, sem talað er um, að vera þær bækur, sem geyma frásagnir af verkum þeirra, og þar átt við þær skýrslur, sem haldnar eru á jörðu. Og bókin, sem var bók lífsins, er sú skýrsla, sem haldin er á himni, og er þetta í nákvæmu samræmi við þá kenningu, sem yður er boðuð í opinberun þeirri, sem bréf mitt geymir, er ég skrifaði yður áður en ég fór að heiman — að allar skýrslur yðar megi skráðar verða á himni.
8 Eðli þessarar helgiathafnar liggur í valdi prestdæmisins, fyrir opinberun Jesú Krists, þar sem gefið er, að hvað sem þér bindið á jörðu skal bundið verða á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, skal leyst verða á himni. Eða með öðrum orðum, ef túlkað er á annan hátt, hvað sem þér skráið á jörðu skal skráð á himni, hvað sem þér skráið ekki á jörðu skal ekki skráð á himni, því að eftir bókunum munu yðar dauðu dæmdir, samkvæmt þeirra eigin verkum, hvort sem þeir sjálfir hafa tekið þátt í helgiathöfnunum í propria persona eða fulltrúar þeirra, samkvæmt þeim helgiathöfnum, sem Guð hefur undirbúið þeim til sáluhjálpar, frá því áður en grundvöllur veraldar var lagður, samkvæmt þeim skýrslum, sem þeir hafa haldið um sína dánu.
9 Sumum kann að virðast þetta mjög djörf kenning, sem við tölum um — vald, sem skráir eða bindur á jörðu og bindur á himni. Á öllum öldum heimsins hefur Drottinn þó, hvenær sem hann hefur gefið ráðstöfun prestdæmisins til eins manns eða fleiri með raunverulegri opinberun, ávallt veitt þetta vald. Allt, sem þessir menn því gjörðu með valdi Drottins og í nafni hans, og gjörðu það trúverðuglega og samviskusamlega, og héldu sannar og trúverðugar skýrslu um, það varð lögmál á jörðu og á himni, og gat ekki orðið ógilt, samkvæmt ákvörðun hins mikla Jehóva. Þessi orð eru sönn. Hver fær heyrt þau?
10 Og enn, sem dæmi, Matteus 16:18, 19: Og ég segi þér einnig: Þú ert Pétur, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og hlið heljar munu eigi á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.
11 Hinn mikli leyndardómur alls þessa máls og niðurstaða summum bonum, sem liggur frammi fyrir okkur, felst í því að öðlast vald hins heilaga prestdæmis. Fyrir þann, sem fær þessa lykla, eru engir erfiðleikar á að hljóta vitneskju um staðreyndir varðandi sáluhjálp mannanna barna, hvort heldur er hinna dauðu eða hinna lifandi.
12 Í þessu felst dýrð og heiður, ódauðleiki og eilíft líf — Helgiathöfnin, skírn með vatni, niðurdýfing í það, er svarar til líkingar dauðans, svo að hver regla falli að annarri. Að fara ofan í vatnið og stíga aftur upp úr vatninu er í líkingu við upprisu dauðra, er þeir stíga upp úr gröfum sínum. Þannig var þessi helgiathöfn ákveðin til að mynda tengsl við skírnarathöfn fyrir hina dánu, í líkingu dauðans.
13 Þar af leiðandi var skírnarfonturinn ákveðinn sem líking grafarinnar, og boðið var að hann sé hafður undir þeim stað, sem hinir lifandi koma venjulega saman á, til að sýna hina lifandi og hina dauðu, svo að allt hafi sína líkingu og sé í samræmi hvað við annað — hið jarðneska í samræmi við hið himneska, eins og Páll hefur sagt, 1. Korintubréf 15:46, 47 og 48:
14 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið náttúrlega, því næst hið andlega. Hinn fyrsti maður er af jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er Drottinn af himni. Eins og hinn jarðneski er, þannig eru og hinir jarðnesku, og eins og hinn himneski er, þannig eru og hinir himnesku. Og eins og skýrslurnar á jörðu í tengslum við yðar dánu eru, séu þær réttilega út fylltar, þannig eru og skýrslurnar á himni. Þetta er þess vegna innsiglunar- og bindingarvaldið, og í einni merkingu orðsins, lyklar ríkisins, sem felast í lykli þekkingarinnar.
15 Og nú, ástkæru bræður og systur, vil ég fullvissa yður um, að þetta eru reglur varðandi hina dánu og hina lifandi, sem ekki má auðveldlega ganga fram hjá, hvað sáluhjálp vora varðar. Því að þeirra sáluhjálp er nauðsynleg og óhjákvæmileg fyrir vora sáluhjálp, eins og Páll segir um feðurna — að þeir án vor geti ekki orðið fullkomnir — né heldur getum vér án okkar dánu orðið fullkomin.
16 Og varðandi skírn fyrir hina dánu, vil ég nú gefa yður aðra tilvitnun í Pál, 1. Korintubréf 15:29: Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu, ef dauðir menn risa alls ekki upp. Hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir hina dánu?
17 Og enn, í sambandi við þessa tilvitnun vil ég gefa yður tilvitnun í einn spámannanna, sem beindi augum sínum að endurreisn prestdæmisins, þeirri dýrð, sem opinberuð yrði á síðustu dögum og á vissan hátt því dýrðlegasta alls, sem tilheyrir hinu ævarandi fagnaðarerindi, sem sé, skírn fyrir hina dánu. Því að Malakí segir í síðasta kapítula, 5. og 6. versi: Sjá, ég sendi yður Elía spámann áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Og hann mun snúa hjarta feðranna til barnanna og hjarta barnanna til feðra sinna, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.
18 Ég gæti hafa túlkað þetta betur, en það er nægilega skýrt eins og það stendur til að þjóna tilgangi mínum. Það er nóg að vita, í þessu tilviki, að jörðin verður lostin banni, ef ekki myndast einhvers konar hlekkur milli feðra og barna, í einhvers konar mynd — og hver er sú mynd? Það er skírn fyrir hina dánu. Því að án þeirra getum við ekki orðið fullkomin, né heldur geta þau orðið fullkomin án okkar. Eigi heldur geta þeir, eða við, orðið fullkomin án þeirra, sem einnig hafa dáið í fagnaðarerindinu, því að nauðsynlegt er, í innleiðingu þessara ráðstafana í fyllingu tímanna, þeirra ráðstafana, sem nú þegar er farið að leiða inn, að heil og algjör og fullkomin eining og samanhlekkjun ráðstafana, lykla, valds og dýrðar, eigi sér stað og verði opinberuð frá dögum Adams allt til þessa tíma. Og ekki aðeins það, heldur mun það, sem aldrei hefur verið opinberað frá grundvöllun veraldar, en hulið hefur verið hinum vitru og hyggnu, verða opinberað börnum og brjóstmylkingum í þessum ráðstöfunum í fyllingu tímanna.
19 Hvað heyrum við nú í því fagnaðarerindi, sem við höfum meðtekið? Gleðiraust! Náðarraust frá himni, og sannleiksraust úr jörðu, gleðitíðindi fyrir hina dánu, gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu, gleðitíðindi um mikinn fögnuð. Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem gleðitíðindin flytur og sem segir við Síon: Sjá, Guð þinn er sestur að völdum! Eins og dögg Karmels, svo mun þekking Guðs koma yfir þá!
20 Og hvað heyrum við enn fremur? Gleðitíðindi frá Kúmóra! Moróní, engill frá himni, tilkynnir uppfyllingu spádómanna — bókin skal opinberuð. Rödd Drottins í óbyggðum Fayette, í Senecasýslu, boðar vitnunum þremur að bera vitni um bókina! Rödd Míkaels á bökkum Susquehanna afhjúpar djöfulinn, þegar hann birtist sem engill ljóssins! Rödd Péturs, Jakobs og Jóhannesar í óbyggðinni milli Harmony í Susquehannasýslu og Colesville í Broomesýslu, á Susquehanna-fljótinu, skýrir frá því, að þeir hafi lykla ríkisins og að ráðstöfuninni í fyllingu tímanna!
21 Og enn fremur rödd Guðs í herbergi hins aldna föður Whitmers, í Fayette í Senecasýslu og á ýmsum tímum og á mismunandi stöðum, í öllum ferðum og andstreymi þessarar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu! Og rödd Míkaels, erkiengilsins, rödd Gabríels og Rafaels og hinna ýmsu engla, allt frá Míkael eða Adam til þessa tíma, er allir skýra frá sínum ráðstöfunum, rétti, lyklum, heiðri, hátign og dýrð, og valdi prestdæmis síns, og gefa orð á orð ofan, setning á setning ofan, örlítið hér og örlítið þar, og færa okkur hughreystingu með því að sýna það sem koma skal, og styrkja von okkar!
22 Bræður, eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður, og áfram, áfram til sigurs! Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft. Jörðin hefji upp söng. Hinir dánu syngi Immanúel konungi eilíft lof, honum, sem vígt hefur, áður en heimurinn varð til, það sem gjöra mun okkur kleift að leysa þá úr varðhaldi þeirra, því að fangarnir skulu frjálsir verða.
23 Lát fjöllin óma af gleði og alla dali hrópa hátt, og allt haf og þurrlendi segi frá undrum eilífs konungs yðar! Og þið, ár og lækir og sytrur, streymið áfram í gleði! Skógar og öll tré merkurinnar lofi Drottin, og þér traustu björg grátið af gleði. Og sólin og tunglið og morgunstjörnurnar syngi saman, og allir Guðssynir hrópi af gleði! Og hin eilífu sköpunarverk kunngjöri nafn hans alltaf og að eilífu! Og enn segi ég: Hversu dýrðleg er sú rödd, sem við heyrum frá himni, sem kunngjörir eyrum okkar dýrð og sáluhjálp og heiður og ódauðleika og eilíft líf, ríki, tign og völd!
24 Sjá, hinn mikli dagur Drottins er í nánd, og hver fær staðist komudag hans og hver fær staðist þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og lútarsalt þvottamannsins, og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið og hann mun hreinsa syni Levís og gjöra þá skíra sem gull og silfur, svo að þeir geti fært Drottni fórn í réttlæti. Sem kirkja og einstaklingar og sem Síðari daga heilagir, skulum við þess vegna færa Drottni fórn í réttlæti, og færa honum í heilögu musteri hans, þegar því er lokið, bók, sem geymir skrá yfir okkar dánu, sem verðugir eru fullrar móttöku.
25 Bræður, ég hef margt að segja yður um þetta efni, en lýk máli mínu um stund, en tek það upp aftur í annan tíma. Ég er, sem ætíð, auðmjúkur þjónn yðar og trúfastur vinur,
Joseph Smith.