Skilaboð frá Svæðisráði
Fyrirgefning með friðþægingu Jesú Krists
Við sem meðlimir kirkjunnar leitumst við að vera heilbrigð, ekki einungis líkamlega heldur einnig andlega.
Eitt af því mikilvægasta sem við leitum að, er að hafa frið og besta leiðin til þess að öðlast hann, er að finna innri frið. Eins og frelsarinn sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki, né hræðist.“1
Það er sorglegt hve auðvelt það er að tapa þessum innri frið, sérstaklega vegna hins sífellt ágengari lífsstíls þessa nútíma heims er við búum í, Þessi ýtni kemur einnig inn á heimili okkar í gegnum mismunandi leiðir og fær okkur til að trúa því að þetta séu eðlilegir lifnaðarhættir. Ein af þeim setningum sem ég heyri fólk endurtaka sífellt oftar er: „Ég fyrirgef, en ég gleymi ekki“ og jafnvel: „Þú munt fá að borga fyrir það sem þú hefur gert.“
Fyrirgefning er dyggð sem við verðum öll að öðlast og viðhalda. Gordon B. Hinckley forseti sagði eitt sinn: „Ég held að það gæti verið merkasta dyggðin á jörðinni og sannarlega sú sem mest þörf er fyrir. Það er svo mikil vonska og misbeiting, óþol og hatur. Það er svo mikil þörf fyrir iðrun og fyrirgefningu.“2 Þetta er hið mikla lögmál sem lögð er áhersla á í ritningunum, bæði til forna og í dag.
Fyrirgefning og iðrun fara alltaf saman; við getum ekki iðrast án fyrirgefningar og við getum ekki fyrirgefið án iðrunar.
Berum fyrirgefningu saman við snákabit. Þegar einhver móðgar ykkur eða særir, þá er það eins og hafa verið bitinn af snáki, sem getur oft valdið okkur alvarlegum meiðslum, orsakað langvarandi bataferli og valdið miklum sársauka, en eins og með öll sár þá lokast það og grær með tímanum. Stundum geta eitraðir snákar bitið okkur og skilið eftir eitur í sárinu. Það sama á við um gremju, hatur, hefndargirni og réttlætisleit: Þau yfirtaka hjörtu okkar og, eins og með eitur, þá getum við ekki grætt sárið. Fyrirgefning er mótefnið sem læknar slík sár sem eitur veldur, án fyrirgefningar er ómögulegt að öðlast lækningu. Gerum ekki það sama og margir Ísraelsmenn gerðu sem voru bitnir af höggormunum.3 Þeir hefðu getað hlotið lækningu með því að horfa á eirorminn sem Drottinn skipaði Móses að búa til, sem var tákrænn fyrir frelsarann og friðþægingu hans Það gerðist hins vegar ekki á þann veg og þeir fórust.4
Eina leiðin til að komast að því hvernig maður fyrirgefur, er í gegnum frelsarann og friðþægingu hans, það er engin önnur leið til að fyrirgefa á erfiðleikatímum. Friðþægingin er mótefnið sem getur grætt og lokað öllum sárum, jafnvel þeim erfiðustu sem virðast ólæknanleg. Kraftur friðþægingarinnar er ekki ósjálfráður, stundum er erfitt að beita honum og það krefst mikils átaks, en hann er tiltækur öllum sem þrá hann. Drottinn kenndi okkur þetta í nútíma opinberun:
„Fyrir því segi ég yður, að þér eigið að fyrirgefa hver öðrum, því að sá, sem ekki fyrirgefur bróður sínum misgjörðir hans, stendur dæmdur frammi fyrir Drottni, því að í honum býr hin stærri synd. Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“5
Fyrirgefning í hjónabandi er lykillinn að því að öðlast eilíft hjónaband. Ég sé mörg pör sem fyrirgefa ekki hvort öðru litlu hlutina og safna svo eitraðri misklíð og hatri; svo þegar þau verða ósátt þá sleppa þau öllu sem hefur safnast saman yfir tíma og sambandið verður fyrir alvarlegu tjóni. Ég sé sum hjónabönd sem hafa mjög takmarkað þol, þau þola ekki hin minnstu mistök og þau bókstaflega valda „stormi í vatnsglasi.“ Það er í faðmi fjölskyldunnar sem við verðum mest að iðka fyrirgefninguna og minnast þess að það er engin upphafning án fyrirgefningar.
Að lokum þá tengist fyrirgefningin kærleikanum beint, eins og spámaðurinn Moróni sagði:
„En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast. Biðjið þess vegna til föðurins, ástkæru bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er…“6
Ég bið þess að við megum alltaf vera megnug þess að öðlast fyrirgefningu í lífi okkar: ef við gerum það, þá verðum við líkari frelsaranum og verðum lærisveinar hans.