Boðskapur svæðisleiðtoga
Fagnaðarerindið er svarið við öllum spurningum og erfiðleikum lífsins
Þegar ég og eiginkona mín heimsóttum nýlega Salt Lake City, þurftum við að finna hraðbanka úti á götu. Þegar við lituðumst í kringum okkur, heyrðum við rödd koma frá bíl sem lagt hafði verið fyrir aftan okkur: „Eruð þið að leita að einhverju? Get ég aðstoðað?“ Maðurinn, sem kynnti sig sem Mike, bætti brosandi við að okkur fyndist líklega furðulegt að ókunnugur maður hrópaði á okkur úr bílnum sínum, en að við ættum ekki að láta okkur bregða yfir slíku í Utah. Hann spurði hvaðan við værum og augu hans ljómuðu þegar hann heyrði að við værum frá Prag. Hann hafði nýlega talað við vinkonu sína sem átti erfitt með að nálgast upplýsingar um tékkneska áa sína og spurði strax hvort við gætum aðstoðað á einhvern hátt. Við svöruðum að við myndum fúslega senda honum tengiliðaupplýsingar bræðra og systra sem vinna að ættarsögustarfi í landinu. Hann þakkað okkur fyrir, við kvöddum og hann fór í bílinn sinn. Þegar við vorum að fara, tókum við eftir því að Mike hafði aftur farið út úr bílnum og var á leið til okkar. Í þetta sinn brosti hann ekki af gleði, heldur var tilfinningaþrunginn.
Með tár í augum tjáði hann hversu þakklátur hann væri fyrir okkar stuttu viðkynni og að hann hefði fundið sig knúinn til að fara út úr bílnum. Hann hafði verið að reyna að hjálpa vinkonu sinni með ættfræðina í Bæheimi í langan tíma án árangurs og að vegna aldurs hennar, væri hún að missa vonina um að finna áa sína í Bæheimi. Mike var einnig við það að gefast upp, en daginn áður, þegar hann fór í musterið, fékk hann þá tilfinningu að lausnin myndi koma – og hún gerði það gegnum okkur. Hann vildi þess vegna segja okkur frá þeirri gleði og því þakklæti sem hann upplifði vegna enn eins vitnisburðar um það hvernig leiðsögn Guðs hefur áhrif í lífi okkar.
Við þekkjum loforð Morónís í ritningunum, varðandi það hvernig hægt er að komast að sannleiksgildi Mormónsbókar, er hann sagði: „Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“1 Á grunni þessa loforðs, væntum við þess að öðlast skilning, andlega vitneskju og svör við grundvallarspurningum um trú, sannleiksgildi ritninganna eða endurreisn fagnaðarerindisins með heilögum anda.
En þetta loforð hefur líka áhrif á líf okkar allra er við upplifum daglega gleði og áhyggjur. Kraftur heilags anda hjálpar okkur að greina hvatningu Guðs og skilja réttilega það sem við göngum í gegnum eða hjálpar okkur að taka ákvarðanir. Allir meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hljóta gjöf heilags anda eftir skírn og við njótum þeirra forréttinda að eiga samfélag við hann. En við höfum líka frjálsræði til að ákveða hversu mikil áhrif andans verða í lífi okkar. Hvort við munum finna fyrir og skilja leiðsögn hans, ef við erum hreinlíf og keppum að því að lifa samkvæmt fagnaðarerindi Jesú Krists eða, andstætt þessu, hvort verk okkar og hugsanir hreki hann stundum frá okkur. Nelson forseti kenndi okkur: „Við getum líka hlýtt á hann betur, þegar við þróum hæfni okkar til að heyra hljóðláta rödd heilags anda. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að vita hvernig andinn talar til ykkar. Í Guðdómnum er heilagur andi erindreki. Hann vekur hugsanir hjá ykkur, sem faðirinn og sonurinn vilja að þið veitið viðtöku.“2
Viðkynni okkar og Mikes er dæmi um það hvernig andinn vinnur. Mike lagði sig fram við að hlýða á hvatningu heilags anda og vegna þess að hann var fús til að aðstoða ókunnuga, hlaut hann ekki einungis hjálp fyrir vinkonu sína, heldur hlutum við öll enn einn vitnisburð um það hvernig Guð veitir okkur svör og lausnir með andanum. Já, þetta var smávægilegt, en það er með hinum litlu og smáu hlutum sem hin stóra mósaíkmynd andlegrar vitneskju lífs okkar er búin til.
Alma sagði að „fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika“.3 Ég vitna fyrir ykkur að ekkert í lífinu er æðra og mikilvægara en það að við berum kennsl á elsku, umhyggju og náð himnesks föður og sonar hans Jesú Krists með þessum smáu og einföldu upplifunum andans. Ég veit að Guð er til og ég veit að sonur hans Jesús Kristur hefur verið upp reistur og lifir. Hann er frelsari minn og ykkar og það fyllir hjarta mitt af gleði og þakklæti. Megum við lifa daglegu lífi okkar þannig að heilagur andi geti miðlað okkur því sem faðirinn og sonurinn þrá fyrir okkur. Megum við þekkja þá stöðugt betur með því að skilja þessar hvatningar, því það er „hið eilífa líf að þekkja [hann], hinn eina sanna Guð, og þann sem [hann sendi], Jesú Krist“.4
Í nafni Jesú Krists, amen.