11. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til bróður hans, Hyrums Smith, í Harmony, Pennsylvaníu, í maí 1829. Þessi opinberun fékkst með Úrím og Túmmím, sem svar við auðmjúkri bæn Josephs og fyrirspurn. Í sögu Josephs Smith er bent á, að þessi opinberun hafi fengist eftir að Aronsprestdæmið var endurreist.
1–6, Verkamenn í víngarðinum munu öðlast sáluhjálp; 7–14, Sækist eftir visku, hrópið iðrun, treystið á andann; 15–22, Haldið boðorðin og lærið orð Drottins; 23–27, Afneitið ekki anda opinberunar og spádóms; 28–30, Þeir sem taka á móti Kristi verða synir Guðs.
1 Mikið og undursamlegt verk er að hefjast meðal mannanna barna.
2 Sjá, ég er Guð. Gef gaum að orði mínu, sem er lifandi og kröftugt, beittara en tvíeggjað sverð, er smýgur bæði gegnum merg og bein. Gef þess vegna gaum að orði mínu.
3 Sjá, akurinn er þegar hvítur til uppskeru. Hver, sem þess vegna þráir að uppskera, skal beita sigð sinni af mætti sínum og uppskera meðan dagur endist, svo að hann megi búa sálu sinni ævarandi hjálpræði í ríki Guðs.
4 Já, hver sá, sem beita mun sigð sinni og uppskera, hann er kallaður af Guði.
5 Ef þér þess vegna biðjið mig, mun yður gefast. Ef þér knýið á, mun fyrir yður upplokið verða.
6 Þar sem þér nú hafið beðið, sjá, þá segi ég yður: Haldið boðorð mín og leitist við að tryggja og efla málstað Síonar.
7 Sækist ekki eftir ríkidæmi heldur visku, og sjá, leyndardómar Guðs munu opnast yður og þá munuð þér ríkir gjörðir. Sjá, sá sem á eilíft líf er ríkur.
8 Sannlega, sannlega segi ég yður, hvað sem þér þráið af mér, það mun yður veitast. Og ef þér þráið, munuð þér koma miklu góðu til leiðar meðal þessarar kynslóðar.
9 Boðið þessari kynslóð aðeins iðrun. Haldið boðorð mín og styðjið framgang verks míns í samræmi við fyrirmæli mín, og þér munuð blessaðir verða.
10 Sjá, þú átt gjöf, eða þú skalt eiga gjöf, ef þú þráir það af mér í trú, af einlægu hjarta og með trú á kraft Jesú Krists eða kraft minn, sem talar til þín.
11 Því að sjá, það er ég sem tala. Sjá, ég er ljósið, sem skín í myrkrinu, og með krafti mínum gef ég þér þessi orð.
12 Og sannlega, sannlega segi ég þér nú, set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka — já, til að breyta rétt, til að ganga í auðmýkt, til að dæma réttlátlega, og þetta er andi minn.
13 Sannlega, sannlega segi ég þér, ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði.
14 Og þá munt þú vita, eða þannig munt þú vita allt, sem réttlætinu tilheyrir og sem þú þráir af mér, í trú á mig og í trú á að þér gefist það.
15 Sjá, ég býð þér, að þú teljir þér ekki trú um, að þú sért kallaður til að prédika fyrr en þú ert kallaður.
16 Bíð þú aðeins lengur, þar til þú hefur orð mitt, bjarg mitt, kirkju mína og fagnaðarerindi mitt, að þú þekkir örugglega kenning mína.
17 Og sjá, í samræmi við þrá þína, já, í samræmi við trú þína, þá mun það gjörast.
18 Hald þú boðorð mín, hald ró þinni, leita til anda míns.
19 Hald þér fast að mér af öllu hjarta þínu, svo að þú megir aðstoða við að færa fram í ljósið það, sem ég hef talað um — já, þýðingu verks míns. Ver þolinmóður uns þú hefur lokið því.
20 Sjá, þetta er verk þitt, að halda boðorð mín, já, af öllum mætti þínum, huga og styrk.
21 Reyndu ekki að boða orð mitt, reyndu heldur fyrst að öðlast orð mitt, og þá mun tunga þín losna. Og þá, ef þú þráir það, skalt þú hafa anda minn og orð mitt, já, kraft Guðs til að sannfæra mennina.
22 En hald ró þinni nú, lær orð mitt, sem borist hefur meðal mannanna barna, og lær einnig orð mitt, sem berast mun út meðal mannanna barna, eða það, sem nú er verið að þýða, já, þar til þú hefur öðlast allt, sem ég mun veita mannanna börnum af þessari kynslóð, og þá mun allt annað bætast þar við.
23 Sjá, þú ert Hyrum, sonur minn. Leita þú Guðs ríkis og allt annað mun við bætast, samkvæmt því sem rétt er.
24 Bygg þú á bjargi mínu, sem er fagnaðarerindi mitt —
25 Afneita ekki anda opinberunar, né anda spádómsgáfunnar, því að vei sé þeim, sem afneitar þessu —
26 Varðveit því í hjarta þér, þar til sá tími kemur, að þú samkvæmt visku minni skalt hefjast handa.
27 Sjá, ég tala til allra, sem þrá hið góða og hafa beitt sigð sinni til uppskeru.
28 Sjá, ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Ég er líf og ljós heimsins.
29 Ég er hinn sami og kom til minna eigin, en mínir eigin tóku ekki á móti mér —
30 En sannlega, sannlega segi ég þér, að öllum þeim, sem taka á móti mér, mun ég gefa kraft til að verða synir Guðs, einmitt þeim, sem trúa á nafn mitt. Amen.