6. Kafli
Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery í Harmony, Pennsylvaníu, í apríl 1829. Oliver Cowdery hóf starf sitt sem ritari við þýðingu Mormónsbókar 7. apríl 1829. Hann hafði þá þegar fengið guðlega opinberun um sannleiksgildi vitnisburðar Josephs varðandi töflurnar, sem Mormónsbók var letruð á. Spámaðurinn spurði Drottin með Úrím og Túmmím og fékk þetta svar.
1–6, Verkamenn á akri Drottins öðlast sáluhjálp; 7–13, Engin gjöf er stærri en gjöf sáluhjálpar; 14–27, Vitnisburður um sannleikann fæst með krafti andans; 28–37, Lítum til Krists og gjörum gott án afláts.
1 Mikið og undursamlegt verk er að hefjast meðal mannanna barna.
2 Sjá, ég er Guð. Gef gaum að orði mínu, sem er lifandi og kröftugt, beittara en tvíeggjað sverð, er smýgur bæði gegnum merg og bein. Gef þess vegna gaum að orðum mínum.
3 Sjá, akurinn er þegar hvítur til uppskeru. Hver sem þess vegna þráir að uppskera, skal beita sigð sinni af mætti sínum og uppskera meðan dagur endist, svo að hann megi búa sálu sinni ævarandi hjálpræði í ríki Guðs.
4 Já, hver sá, sem beita mun sigð sinni og uppskera, hann er kallaður af Guði.
5 Ef þér þess vegna biðjið mig, mun yður gefast. Ef þér knýið á, mun fyrir yður upplokið verða.
6 Þar sem þér nú hafið beðið, sjá, þá segi ég yður: Haldið boðorð mín og leitist við að tryggja og efla málstað Síonar —
7 Sækist ekki eftir ríkidæmi heldur eftir visku, og sjá, leyndardómar Guðs munu opnast yður og þá munuð þér ríkir gjörðir — Sjá, sá sem á eilíft líf er ríkur.
8 Sannlega, sannlega segi ég yður, hvað sem þér þráið af mér, það mun yður veitast. Og ef þér þráið, munuð þér koma miklu góðu til leiðar meðal þessarar kynslóðar.
9 Boðið þessari kynslóð aðeins iðrun. Haldið boðorð mín og styðjið framgang verks míns í samræmi við fyrirmæli mín, og þér munuð blessaðir verða.
10 Sjá, þú hefur gjöf og blessaður ert þú vegna gjafar þinnar. Mundu að hún er heilög og kemur frá upphæðum —
11 Og leitir þú svara, skalt þú kynnast miklum og undursamlegum leyndardómum. Þess vegna skalt þú nota gjöf þína til að kynnast leyndardómunum, svo að þú getir leitt marga til þekkingar á sannleikanum, já, sannfært þá um villu síns vegar.
12 Seg engum frá gjöf þinni, nema þeir séu þinnar trúar. Far ekki léttúðlega með það sem heilagt er.
13 Viljir þú gjöra gott, já, og haldast trúr allt til enda, munt þú frelsaður verða í ríki Guðs, sem er mest allra Guðs gjafa, því að engin gjöf er meiri en gjöf hjálpræðisins.
14 Sannlega, sannlega, segi ég þér, blessaður ert þú fyrir það, sem þú hefur gjört, því að þú hefur spurt mig, og sjá, jafn oft og þú hefur spurt hefur þú fengið leiðbeiningar anda míns. Ef svo væri ekki, hefðir þú ekki komist þangað sem þú ert nú.
15 Sjá, þú veist að þú hefur spurt mig og að ég hef upplýst huga þinn. Og nú segi ég þér þetta, svo að þú megir vita, að andi sannleikans hefur upplýst þig —
16 Já, ég segi þér, svo að þú megir vita, að enginn nema Guð þekkir hugsanir þínar og áform hjarta þíns.
17 Ég segi þér þetta sem vitnisburð um það, að orðin eða verk það, sem þú hefur verið að skrá, er sannleikur.
18 Ver því kostgæfinn og stattu með þjóni mínum Joseph, af trúfestu, í hverjum þeim erfiðleikum, sem mæta honum sakir orðsins.
19 Áminn hann um mistök hans og tak einnig við áminningum hans. Ver þolinmóður, ver árvakur, ver umburðarlyndur. Tem þér þolinmæði, trú, von og kærleika.
20 Sjá, þú ert Oliver, og ég hef talað til þín vegna þess sem þú þráir. Varðveit þess vegna orð þessi í hjarta þínu. Ver trúr og kostgæfinn við að halda boðorð Guðs og ég mun umlykja þig elskuríkum örmum mínum.
21 Sjá, ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Ég er hinn sami og kom til minna eigin, en mínir eigin tóku ekki við mér. Ég er ljósið, sem skín í myrkrinu, en myrkrið skynjar það ekki.
22 Sannlega, sannlega segi ég þér, ef þú þráir frekari vitnisburð, hugleiddu þá nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu til að fá að vita um sannleiksgildi þessara hluta.
23 Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?
24 Og sjá nú, þú hefur fengið vitnisburð, því að hafi ég sagt þér það sem enginn maður veit, hefur þú þá ekki fengið vitnisburð?
25 Og sjá, ef þú þráir það, þá veiti ég þér gjöf til að þýða, já, eins og þjónn minn Joseph.
26 Sannlega, sannlega segi ég þér, að til eru heimildir, sem hafa að geyma mikið af fagnaðarerindi mínu, en geymdar hafa verið vegna ranglætis fólksins.
27 Og nú býð ég þér, ef þú þráir hið góða — og þráir að safna þér fjársjóði á himni — þá munt þú með gjöf þinni aðstoða við að leiða fram í ljósið þá hluta ritninga minna, sem huldir hafa verið vegna misgjörða.
28 Og sjá nú, ég veiti þér og einnig þjóni mínum Joseph lykla þessarar gjafar, sem leiða mun þessa helgu þjónustu fram í ljósið. Og af munni tveggja eða þriggja vitna skal hvert orð staðfest.
29 Sannlega, sannlega segi ég yður, að þó að þeir hafni orðum mínum og þessum hluta fagnaðarerindis míns og helgrar þjónustu, þá eruð þér blessaðir, því að þeir geta ekki gjört yður neitt meira en þeir hafa gjört mér.
30 Og jafnvel þótt þeir gjöri yður það sem þeir hafa gjört mér, þá eruð þér blessaðir, því að þér munuð dvelja með mér í dýrð.
31 En blessaðir eru þeir, ef þeir hafna eigi orðum mínum, sem staðfest verða með þeim vitnisburði, er gefinn verður. Og þá skuluð þér gleðjast yfir ávexti erfiðis yðar.
32 Sannlega, sannlega segi ég yður, eins og ég sagði lærisveinum mínum, að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, varðandi ákveðið mál, sjá, þar verð ég mitt á meðal þeirra — einmitt þannig er ég mitt á meðal yðar.
33 Óttist ei að gjöra gott, synir mínir, því að eins og þér sáið, svo munuð þér og uppskera. Ef þér þess vegna sáið góðu, munuð þér og góð laun uppskera.
34 Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.
35 Sjá, ég dæmi yður ekki. Farið leiðar yðar og syndgið ei framar. Vinnið af árvekni þau verk, sem ég hef boðið yður.
36 Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.
37 Sjáið sárin er nístu síðu mína og einnig naglaförin á höndum mér og fótum. Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki. Amen.