2017
Brú að von og lækningu
April 2017


Brú að von og lækningu

Með viðeigandi hjálp geta fórnarlömb kynferðisofbeldis fundið þá lækningu, sem þau þrá svo innilega.

creating a bridge

Teikning eftir Cristina Bernazzani

Ímyndið ykkur að þið stæðuð á klettabrún og vilduð komast yfir djúpt gljúfur, þar sem ykkur hefur verið sagt að ykkar biði mikil hamingja. Þegar þið leitið að leið yfir gljúfrið, finnið þið stafla af efniviði sem þið getið notað til að byggja brú, en þurfið að gera það á réttan hátt.

Ef þið kunnið ekki að byggja brúna, er efniviðurinn gagnslaus og þið verðið vonlaus og vonsvikin. Ef þið hins vegar fáið hjálp einhvers sem er vanur brúarsmíði, getið þið vaxið að þekkingu og skilningi og leyst verkefnið í sameiningu.

Síðastliðin 18 ár hefur starf mitt falist í því að sjá fólki fyrir úrræðum og leiðsögn, til að hjálpa því yfir gljúfur tilfinningalegra eða huglægra þjáninga. Af öllum þeim sem ég hef unnið með, virðast fórnarlömb kynferðisofbeldis hafa orðið fyrir mestum skaða. Ég hef séð áhrif þess á getu einstaklingsins til að standast vel allt til enda.

Ég hef þó líka vaknað til vitundar um að mögulegt er að hljóta varanlega lækningu frá þrautum og þjáningum okkar fyrir tilstilli frelsarans. Kærleikur hans lyftir fólki úr myrkri inn í ljósið.

Hvers vegna veldur kynferðisofbeldi slíkum skaða?

Fórnarlömb slíks ofbeldis hafa sagt mér að líf þeirra sé fyllt depurð, sjálfsefa og öðrum djúpum og sárum tilfinningum. Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) hefur hjálpað okkur að skilja af hverju kynferðisofbeldi veldur slíkum sársauka:

„Kynferðisofbeldi er siðlaust og hræðilegt. Það er óskiljanlegt. Það lítilsvirðir og smánar allar sómatilfinningar, sem ættu að vera ríkjandi í öllum körlum og konum. Það er óvirðing við allt heilagt og guðlegt. Það eyðileggur líf barna. Það er vítavert og verðskuldar verstu fordæmingu.

Vei sé hverjum þeim karli eða konu sem beitir börn kynferðisofbeldi. Með slíkum verknaði mun gerandinn ekki aðeins valda afar alvarlegum skaða. Hann verður líka fordæmdur frammi fyrir Drottni.“1

Getnaðarkrafturinn er helgur og guðlegur kraftur sem himneskur faðir hefur falið börnum sínum. Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Getnaðarkrafturinn er andlega mikilvægur. … Himneskur faðir og ástkær sonur hans eru skaparar og hafa treyst hverju okkar fyrir hluta af sköpunarkrafti þeirra.“2 Það er því engin furða að misnotkun þessa helga kraftar „verðskuldi verstu fordæmingu“ og valdi „afar alvarlegum skaða.“

Að skilja sársaukann

looking out a window

Teikning © nuvolanevicata/iStock/Getty Images

Kynferðisofbeldi er hverskyns ósamþykkt athöfn, hvort heldur það á sér stað snerting eður ei, þar sem einn einstaklingur misnotar annan til að fullnægja eigin kynferðisþörf. Allt of oft upplifa fórnarlömb kynferðisofbeldis næstum óbærilega hugarangist, ásamt tilfinningum um óverðugleika og skömm. Þrautir og þjáningar fórnarlambsins magnast oft upp við athugasemdir annarra, sem eiga sér rætur í skilningi á kynferðisofbeldi og áhrifum þess. Sum fórnarlambanna eru sögð ljúga eða þeim talið trú um að þau beri á einhvern hátt sjálf ábyrgð á ofbeldinu. Sumum þeirra er ranglega talið trú um að þau verði að iðrast, líkt og það felist synd í því að vera í stöðu fórnarlambs.

Mörgum sem ég hef unnið með, sem orðið hafa fyrir kynferðsofbeldi á barns- eða unglingsaldri, er sagt að „jafna sig á þessu,“ „róta ekki við fortíðinni“ eða „bara að gleyma og fyrirgefa.“ Slíkar yfirlýsingar – einkum þegar þær koma frá nánum vinum, fjölskyldumeðlimum eða kirkjuleiðtogum – geta leitt til aukinnar smánar og launungar, fremur en lækningar og friðar. Á sama hátt og á við um alvarlega líkamlega áverka eða opin sár, þá hverfa ekki sárar tilfinningar einfaldlega með því að lokað sé á þær. Hugarangistin sem hófst með ofbeldinu eykst miklu fremur, og hún, ásamt hinum sáru tilfinningum, veldur hugsanabrenglun, sem að endingu leiðir til óheilnæmrar hegðunar. Oftar en ella, þá átta fórnarlömb slíks ofbeldis sig ekki á því að um ofbeldi sé að ræða, en geta þó þróað með sér óheilnæma hegðun og sárar tilfinningar.

Hanna (nafni er breytt) upplifði kynferðislegt ofbeldi á barnsaldri. Líkt og á við um önnur slík fórnarlömb, þá óx hún úr grasi í þeirri trú að hún væri einskis nýt og hræðileg manneskja. Hún varði mestum hluta ævinnar í að þjóna öðrum, til að reyna að vinna bug á þeirri tilfinningu að vera ekki „nógu góð“ til að vera elskuð af himneskum föður eða einhverjum öðrum. Í samböndum sínum óttaðist hún, að ef einhver kæmist að því hver hún í raun væri, þá yrð hún talin eins hræðileg manneskja, og hún sjálf trúði. Hún upplifði mikinn höfnunarkvíða, sem vakti henni ótta við að takast á við eitthvað nýtt í lífinu eða bara eitthvað einfalt, eins og að hringja í einhvern. Hún bjó yfir listamannshæfileikum en gaf þá upp á bátinn, því hún óttaðist að geta ekki tekist á við gagnrýni.

Í yfir 50 ár lét hún daglega stjórnast af vanmætti, ótta, reiði, óvissu, skömm, einmanaleika og einangrun.

Friður í stað sársauka

Frelsarinn upplifði „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar.“ Það gerði hann svo að hann „[mætti] vita í holdinu, hvernig fólki hans [yrði] best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:11–12). Hann þjáðist ekki einungis fyrir syndir okkar, heldur líka okkur til lækningar, þegar syndir einhvers annars veldur okkur þjáningum.

Ef frelsarinn væri hér í dag, gæti ég séð hann fyrir mér tárfella af samúð og blessa þá sem hafa upplifað kynferðislegt ofbeldi, líkt og hann tárfelldi með Nefítunum og blessaði þá (sjá 3 Ne 17). Þótt hann sé ekki hér í eigin persónu, þá getur andi hans verið með okkur og hann hefur séð okkur fyrir leið til lækningar, til að finna frið og fyrirgefningu.

reaching through a ladder

Mörgum sem skaðast hafa á þennan hátt finnst hugmyndin fjarstæðukennd, að mögulegt sé að sigrast á sársaukanum og finna frið. Oft er sársauki þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi hulin öðrum svo árum skiptir. Sársaukinn er falinn að baki brosi, óaðfinnanlegu lífi og fúsleika til að hjálpa öðrum, en hann er þó stöðugur og raunverulegur.

Við skulum gera samanburð á lækningu sem er tilfinningalegs eðlis og líkamlegs eðlis. Gerum ráð fyrir að þið hefðuð fótbrotnað á yngri árum. Frekar en að fara til læknis og láta setja brotið, þá staulist þið áfram og látið ykkur hafa það, uns mesti sársaukinn er horfinn, en finnið samt alltaf einhvern sársauka í hverju skrefi sem þið takið. Árum síðar viljið þið losna algjörlega við sársaukann og farið því til læknis. Læknirinn verður að setja beinið í réttar skorður, hreinsa burtu allan örvef, setja fótinn í gifsi og senda ykkur í endurhæfingu til að styrkja fótinn.

Lækningarferli ofbeldis er af líkum toga, þar sem fórnarlambið verður fyrst að gera sér ljóst að sársaukinn er raunverulegur og að til séu úrræði til hjálpar. Ferlið felst í því að viðurkenna athæfið og horfast réttilega í augu við sársaukann, óttann og vonbrigðin, viðukenna tilvist þessara tilfinninga og staðfesta þær Oft er gagnlegt að vinna með fagfólki í þessu lækningarferli. (Spyrjið prestdæmisleiðtoga ykkar að því hvort Fjölskylduþjónusta SDH sé fyrir hendi á ykkar svæði.)

Hvort sem fórnarlamb kynferðisofbeldis hefur aðgang að fagfólki eður ei, þá er best að biðjast fyrir, læra um líf og friðþægingu frelsarans og eiga reglubundin viðtöl við prestdæmisleiðtoga. Þeir geta létt byrðarnar og hlotið innblástur til að hjálpa fórnarlambi kynferðisofbeldis að skilja guðlegt gildi sitt og samband sitt við himneskan föður og frelsarann. Líkt og systir Carole M. Stephens, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, kenndi: „Lækningarferlið kann að vera tímafrekt Það krefst þess að þið leitið handleiðslu með bæn og viðeigandi hjálpar, þar með talið leiðsagnar réttilega vígðra prestdæmishafa. Þegar ykkur lærist að eiga hreinskilin samskipti, setjið þá viðeigandi mörk og hugsanlega leitið ykkur faglegrar ráðgjafar. Mikilvægt er að viðhalda andlegu heilbrigði í gegnum allt ferlið.!“3

Líf Hönnu var orðið svo óbærilegt að hún var knúin til að leita sér hjálpar. Hún vissi, sökum vitnisburðar síns, að hún gæti fundið frið og sátt í lífi sínu, en upplifði það stöðugt og ekki reglubundið. Hún baðst fyrir og ræddi við biskup sinn og hlaut handleiðslu um ráðgjöf, þar sem hún fékk þau úrræði sem þurfti til að leiða sannleikann út úr myrkrinu og miðla þeirri ömurlegu byrði sem hún hafði rogast ein með. Með því að gera þetta, tókst henni að sigrast á sársaukanum og finna þann frið sem frelsarinn lofaði (sjá Jóh 14:27). Friðinum og sáttinni fylgdi síðan þrá og geta til að fyrirgefa.

Þörfin á að fyrirgefa

Oft reynist fórnarlambi kynferðisofbeldis erfitt að hlusta á þá hugmynd að fyrirgefa og misskilur hana. Fórnarlambinu finnst það ekki metið að réttu, ef það telur fyrirgefningu felast í því að ofbelsismaðurinn sé laus allra mála og athæfi hans sé úr sögunni. Þótt okkur sé boðið að fyrirgefa (sjá K&S 64:10), þá verður lækningin, í þeim tilvikum þar sem skaðinn er mikill, að öllu jöfnu að hefjast áður en fórnarlambið getur fyllilega fyrirgefið ofbeldismanninum.

Þeir sem þjást af sársauka kynferðisofbeldis, gætu fundið huggun í þessari leiðsögn í Mormónsbók: „Ég, Jakob, vil ávarpa yður, hina hjartahreinu. Lítið til Guðs með staðföstum huga, biðjið til hans í sterkri trú og hann mun ljá yður huggun í þrengingum yðar, tala máli yðar og láta réttvísina koma yfir þá, sem leitast við að tortíma yður“ (Jakob 3:1). Fela má Drottni þörfina fyrir réttlæti og skaðabætur, svo hann geti létt af okkur sársaukanum og veitt okkur frið.

Að því kom að Hanna komst að því að hún gat létt af sér réttlætisþörfinni og falið hana frelsaranum og í staðin fundið þann frið sem hún hafði ekki áður upplifað. Áður hafði henni kviðið að fara á fjölskyldusamkomur sem ofbeldismaðurinn yrði viðstaddur á. Sökum fúsleika hennar nú til að takast á við tilfinningalegan sársauka á leið hennar til lækningar, þá kvíðir henni ekki lengur að vera í návist hans og hefur jafnvel samúð með honum á hans efstu árum.

Létta af sér óþarfa byrðum

reaching up

Öldungur Richard G. Scott (1928–2015), í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Fullnaðarlækning mun hljótast fyrir trú ykkar á Jesú Krist og mátt hans og getu, fyrir tilverknað friðþægingarinnar, til að lækna ósanngjörn og óverðskulduð sár. …

Hann elskar ykkur. Hann gaf líf sitt, svo þið gætuð létt af ykkur óþarfa byrðum. Hann mun hjálpa ykkur að gera það. Ég veit að hann hefur máttinn til að lækna ykkur.“4

Óvinurinn vill reyra fólk fast í þrautir og þjáningar, því hann er vansæll (sjá 2 Ne 2:27). Vel er mögulegt að létta af sér sársauka og finna frið með hjálp frelsara okkar, Jesú Krists, á þann eina hátt sem honum er mögulegt að gera, og við getum notið gleði. „Adam féll svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“ (2 Ne 2:25). Erfiðleikar verða bærilegri ef við lifum í gleði, sem gerir okkur kleift að læra og vaxa og verða líkari föður okkar á himnum.

Ég finn til auðmýktar og blessunar í lífi mínu, fyrir að hafa unnið með þeim sem hafa skaðast af kynferðisofbeldi og séð kraftaverk lækningar, sem sannlega hlýst aðeins með frelsaranum. Ef þið upplifið slíkan sársauka, leitið ykkur þá hjálpar fyrir tilstilli bænar. Þið þurfið ekki að bera þessa þungu byrði einsömul. Ég veit að hann læknar, því ég hef ótal sinnum orðið vitni að því.

Heimildir

  1. Gordon B. Hinckley, „Save the Children,“ Ensign, nóv. 1994, 54; skáletrað hér.

  2. David A. Bednar, „We Believe in Being Chaste,“ Liahona, maí 2013, 42.

  3. Carole M. Stephens, „The Master Healer,“ Liahona, nóv. 2016, 11.

  4. Richard G. Scott, „To Be Free of Heavy Burdens,“ Liahona, nóv. 2002, 88.