Gamla fjölskyldualbúmið: Áhrifamáttur ættarfrásagna
Höfundurinn býr í New York, Bandaríkjunum.
Arfleifð áa minna lifir áfram í gegnum mig og hefur stöðug áhrif á líf mitt til hins betra.
Á sumarmorgni einum, fyrir Síðari heimstyrjöldina, reis langafi minn úr rekkju – fyrir sólarupprás, eins og hann ætíð gerði. Hann fór út fyrir húsið, horfði yfir grænan dalinn og þorpið sitt í Rúmeníu, settist niður í blauta grasdöggina og varð djúpt hugsi – um það sem hvílt hafði á honum þá um hríð. Hann var lærður, góðhjartaður og skarpskyggn maður, sem var virtur og elskaður af öllum í þorpinu.
Eftir að sólin hafði risið, fór hann inn fyrir og játaði fyrir eiginkonu sinni að honum hefði leikið forvitni á því að vita hvernig jarðarför hans yrði háttað og lét þá ósk í ljós að hafa alvöru jarðarfararæfingu. Hann ákvað dagsetningu, keypti kistu, réð prest og sálusorgara og varð sér úti um allt annað sem hefðbundið var fyrir slíka athöfn í Rétttrúnaðarkirkjunni. Svo kom að því að æfingadagur jarðarfararinnar rann upp. Borð voru sett upp í miðju þorpsins fyrir erfidrykkjuna, fjölskyldan var öll íklædd svörtu, presturinn kom, langafi minn lagðist í kistuna og hagræddi púðanum, til að hafa góða yfirsýn, og athöfnin hófst. Þegar útförinni var lokið var öllum í þorpinu boðið að þiggja veitingar og langafi minn fékk uppfyllt þann draum sinn að dansa í eigin jarðarför. Hann lifði 20 árum lengur og mátaði sig oft við kistuna.
Ekki bara nöfn og dagsetningar
Ég kynntist aldrei langafa mínum en þessi frásögn, sem er arfleifð langafa og langömmu til mín, hefur ætíð verið mér afar kær. Afi minn og amma sögðu mér og systkinum mínum dag hvern frá áum okkar – um uppruna þeirra, persónuleika, gildismat, drauma og vonir. Að loknum öllum sunnudagsmálsverðum, tóku afi og amma fram ættaralbúmið og á hverri síðu lifnuðu sögurnar við og hjörtu sex kynslóða tengdust kærleiksböndum. Þarna voru ekki aðeins gamlar ljósmyndir með nöfnum og dagsetningum á bakhliðinni. Á bak við hvert andlit var faðir eða móðir, sonur eða dóttir, bróðir eða systir og á þennan hátt var arfleifð þeirra, ásamt öðrum ættarvenjum, yfirfærð til mín.
Styrkur á örðugum tímum
Þegar ég varð 19 ára höfðu foreldrar mínir og flestir nánir ættingar látist og margar eigur þeirra, sem ég hafði erft, höfðu glatast eða þeim verið stolið. Það var þó eitt sem stóðst tímans tönn, náttúruhamfarir eða jafnvel dauða – brúin sem hvert ættmenni byggði og tengdi fortíð, nútíð og framtíð. Sá þráður sem tengir saman hjörtu áa minna hefur veitt mér styrk til að sigrast á erfiðum aðstæðum, og allt vegna kostgæfni þeirra.
Þegar foreldrar mínir og afi og amma dóu, upplifði ég svo djúpa sorg að mér fannst ég ekki hafa nægan þrótt til að halda áfram að takast á við lífið. Ég naut þeirrar blessunar að upplifa þrótt að handan og það gerði mér kleift að öðlast sterkan vitnisburð um sáluhjálparáætlunina, um lífið eftir dauðann og svo síðar, um helgiathafnir musterisins, sem eru svo nauðsynlegar fyrir sáluhjálp okkar. Ég kynntist aldrei langöfum eða langömmum mínum eða flestum frændum og frænkum mínum, en ætíð er ég tek fram fjölskyldualbúmið með ljósmyndunum af þeim, þá sé ég mig sjálfan í augum þeirra. Ég er sá sem ég er vegna allra þeirra sem á undan mér komu. Lífsreynsla þeirra og viska hefur mótað persónuleika minn og séð mér fyrir lífsins leiðsögn.
Ein dýrmætasta gjöf fjölskyldu minnar til mín, allt frá bernskuárum, er þekking mín á ættarsögu minni og sannfæringin um að með mér tengjast fortíð og framtíð. Ég veit líka að ég kom til jarðar til að búa til mína eigin sögu – til að upplifa og kanna lífið og varðveita eigin sögu. Það er þessi þekking á ættarsögu minni sem eflir mig í öllum lífsins þrautum.
Ég hugsa oft um ættingja mína hinu megin hulunnar og fórnir þeirra til að ég gæti átt betra líf. Ég hugsa um helgiathafnir musterisins, sem gera okkur kleift að vera einhvern daginn saman sem fjölskylda. Ég hugsa líka um friðþægingu frelsarans, sem gerði allt þetta mögulegt. Hann reiddi fram gjaldið, svo við mættum lifa. Við elskum og tilbiðjum hann af þakklæti í dag og alla daga.