Búa sig undir nýtt ferðalag
Höfundur býr í Paraná, Brasilíu.
Ég þurfti, líkt og Nefí, sem sigldi út í hið óþekkta, að iðka trú á Drottin varðandi það að stofna fjölskyldu.
Á þeim vikum sem leið fram að giftingu minni og musterisinnsiglun, tók ég að kvíða örlítið öllu því sem ég þurfti að gera áður en ég stofnaði til fjölskyldu. Þrátt fyrir gleði þessarar stundar, þá olli það mér streitu að koma skipulagi á okkar nýja líf, koma fjármálunum í rétt horf, finna geymslurými fyrir eigur okkar og allt annað sem féll undir mínar nýju ábyrgðarskyldur sem eiginkona. Ég vildi vera viss um að við hæfum hjónabandið okkar á réttan hátt og tryggja að hið miklvæga í lífinu yrði sett á oddinn, líkt og að halda boðorðin og verja saman tíma sem eiginmaður og eiginkona, þrátt fyrir annasamt líf.
Þegar nær dró giftingardeginum, furðaði ég mig á stöðugum martröðum sem ég fékk, um allskyns vandamál sem herjað gætu á fjölskyldu. Það sem fjölskylda mín var kærleiksrík en þjökuð og átti í stöðugum og heitum erjum, þá höfðu þessir slæmu draumar meiri áhrif á mig fyrir vikið. Þá gerðist það nótt eina, eftir slæma drauma, að ég vaknaði í svitabaði og ákvað að fara eftir leiðsögn systur Neill F. Marriott, annars ráðgjafa í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins, sem hún gaf í ræðu sinni „Gefa Guði hjarta okkar“ (Aðalráðstefna, okt. 2015, 31). Ég lauk aftur augum og bað: „Kæri himneski faðir, hvað get ég gert til þess að þessi neikvæðu hlutir hafi ekki áhrif á fjölskyldu mína?“
Svarið var svo eindregið og ákveðið að það var eins og einhver hefði opnað dyr að huga mínum og komið hugsuninni þar fyrir. Hin hljóða og kyrrláta rödd blés mér í brjóst: „Gerðu bara það sem af þér er vænst. Vertu ætíð trúföst.“ Andinn hvíslaði að mér ákveðinni leiðsögn og mér fannst að allt yrði í lagi, ef ég færi eftir henni.
Ég brosti og fann brjóst mitt fyllast kærleika. Allur kvíði hvarf þegar í stað, því ég vissi að um sannleika væri að ræða. Ég hafði áður fundið fyrir heilögum anda en aldrei svo áþreifanlega og þessa nótt. Ég fann kærleika himnesks föður og frelsara okkar umlykja mig og vissi að huggun og hjálpræði fjölskyldu minnar væru þeim jafn mikilvæg og mér.
Frásögn í ritningunum kom í huga minn, til ennfrekari staðfestingar – þegar Drottinn bauð Nefí að smíða skip og sagði: „En svo bar við, að Drottinn talaði til mín og sagði: Smíða skalt þú skip á þann hátt sem ég sýni þér, svo að ég geti flutt fólk þitt yfir þessi vötn“ (1 Ne 17:8; skáletrað hér).
Nefí og fjölskylda hans höfðu verið í óbyggðunum í mörg ár og þolað allskyns erfiðleika. Hann hefði getað kviðið því að takast á við ferð yfir hafið og látið óttann verða yfirsterkari trúnni. Hann gerði það þó ekki. Hann tók á móti fyrirmælum Guðs og hlýddi. Hann trúði að loforð hans yrðu uppfyllt. Drottinn sagði Nefí ekki frá því að stormar myndu geysa eða að öldurótið kæmi yfir skipið. Hann sagði Nefí hinsvegar að honum myndi takast að leiða fjölskyldu sína heila á húfi yfir hafið, til fyrirheitna landsins, ef hann færi eftir leiðsögn sinni.
Mér varð ljóst að ég hafði líka ferðast um óbyggðir í mörg ár, en hafði nú hafið frammi fyrir mér, reiðubúin í nýja ferð: Hjónabandið. Ég hafði verið kölluð – og ég held að sú sé raunin með allar fjölskyldur Síðari daga heilagra – til að smíða skip eftir fyrirmælum Guðs.
Eftir að ég og eiginmaður minn gengum í hjónaband, urðu erfiðleikar á vegi okkar. Ég veiktist og við áttum fullt í fangi með að koma lagi á fjármálin okkar og tileinka okkur allar hinar góðu venjur sem við höfðum einsett okkur að gera.
Leiðsögnin sem ég hafði hlotið þessa nótt var þó stöðugt með mér. Við reyndum dag hvern að læra og varðveita orð Guðs í hjörtum okkar, að fylgja hinu góða fordæmi okkar kæru leiðtoga – þar með talið Krists – og bæta okkur sjálf. Ég hlaut sterkari vitnisburð um bænina og upplifði sannlega elsku föðurins til okkar. Ég tók að treysta meira og óttast minna. Okkur varð ljóst að erfiðleikar okkar höfðu leitt til framfara. Í dag finnst okkur heimilið okkar vera sem brot af himni.
Við erum enn rétt að byrja ferð okkar, en að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu er það allra besta sem ég hef gert. Hjarta mitt fyllist gleði þegar ég hugsa um musterishelgiathöfnina sem við tókum á móti og vitum að var innsigluð með valdi Guðs. Því meiri skilning sem ég hlít um mikilvægi fjölskyldunnar í áætlun himnesks föður og helgi sáttmálans sem við gerðum, því dýpri verður þrá mín til að hjálpa öðrum fjölskyldum að taka á móti þessari sömu helgiathöfn.
Ég lærði að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því sem á eftir að gerast, „því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar“ (2 Tím 1:7). Við þurfum einfaldlega að vera hlýðin, fara eftir fyrirmælum ritninganna og orðum nútíma spámanna og biðjast fyrir um aukna leiðsögn. Ef við getum það, getum við siglt yfir haf þessara síðustu daga, í trausti þess að ástvinir okkar verði öruggir, hvað svo sem kann að dynja á okkur.