2017
Stríð er í algleymingi
April 2017


Stríðið er í algleymingi

Stríðið, sem hófst á himnum, hefur viðhaldist allt fram á okkar tíma. Í raun þá verður baráttan stöðugt ofsafengnari eftir því sem hinir heilögu undirbúa komu frelsarans.

clouds

Ljósmynd eftir Katarina Stefanovic © iStock/Getty Images; Moment/Getty Images

Sérhverjum þeim sem fylgist með heimsfréttum er ljóst að við lifum á tíma er menn „spyrja hernað og ófriðartíðindi“ (K&S 45:26). Til allrar hamingju, þá er sérhver hér á jörðu uppgjafarhermaður. Við höfum átt í baráttu við herskara illskunnar allt frá því að stríð braust út í fortilverunni, fyrir fæðingu okkar hér.

Við höfðum enn ekki hlotið efnislíkama og því var stríðið á himnum ekki háð með sverðum, byssum eða sprengjum. Rimmurnar voru þó alveg jafn ofsafengnar eins og þær geta verið í hverju öðru nútíma stríði og milljarðar féllu í valinn.

Stríðið í fortilverunni var háð með orðum, hugmyndum, kappræðum og fortölum (sjá Op 12:7–9, 11). Herbragð Satans var að vekja ótta. Honum var ljóst að skilvirkasta leiðin til að eyðileggja trú væri að vekja ótta. Hann gæti hafa borið fyrir sig álíka rökum og þessum: „Þetta er of erfitt.“ „Það er ómögulegt að komast hreinn til baka.“ „Áhættan er allt of mikil.“ „Hvernig er hægt að vera viss um að Jesú Kristi sé treystandi?“ Hann var afar afbrýðissamur út í frelsarann.

Til allrar hamingju, þá fékk áætlun Guðs sigrað lygar Satans. Áætlun Guðs fól í sér siðferðislegt sjálfræði og mikla fórn. Jehóva, sem við þekkjum sem Jesú Krist, bauð sig fram sem þá fórn – að þjást fyrir allar okkar syndir. Hann var fús til að gefa líf sitt í þágu bræðra sinna og systra, svo að þeir sem iðruðust gætu snúið aftur hreinir og orðið að lokum eins og himneskur faðir þeirra. (Sjá HDP Móse 4:1–4; Abraham 3:27.)

Jehóva hafði líka þá yfirburði að ávinna sér hjörtu barna Guðs með áhrifaríkum vitnisburðum fylgjenda sinna, sem Míkael erkiengill fór fyrir (sjá Op 12:7, 11; K&S 107:54). Í fortilverunni var Adam þekktur sem Míkael og Satan sem Lúsífer, sem hefur merkinguna „ljósberi.“1 Það kann að hljóma undarlega að myrkrarprinsinn hafi borið slíkt nafn (sjá HDP Móse 7:26), en ritningarnar kenna að áður en Satan féll hafi hann verið „[engill] Guðs, sem vald hafði í návist Guðs“ (sjá K&S 76:25–28).

Hvernig var það mögulegt að andi með slíka þekkingu og reynslu félli svo djúpt? Það var sökum drambsemi hans. Lúsífer gerði uppreisn gegn föður okkar á himni, því hann óskaði sjálfum sér ríki Guðs.

Í hinni sígildu ræðu sinni „Varist dramb,“ kennir Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) að Lúsífer hafi „óskað sjálfum sér meiri heiðurs öllum öðrum“ og að „hann hafði í eigin drambi þráð að steypa Guði af stóli.“2 Þið hafið líka heyrt á það minnst að Satan hafi viljað að engu gjöra sjálfræði mannsins, en það var þó ekki eina ástæða þess að hann fyrirbauð sér eigin hylli. Honum var varpað af himni fyrir uppreisn gegn föðurnum og syninum (sjá K&S 76:25; HDP Móse 4:3).

Af hverju börðumst við gegn djöflinum? Við börðumst sökum hollustu. Við elskuðum og studdum föður okkar á himnum. Við vildum verða eins og hann. Lúsífer hafði annað í huga. Hann vildi setja sig sjálfan í stöðu föðurins (sjá Jes 14:12–14; 2 Ne 24:12–14). Hugsið ykkur hve miklum sárindum sviksemi Satans olli okkar himnesku foreldrum. Í ritningunum má lesa að „himnarnir [hafi grátið] yfir honum“ (K&S 76:26).

Eftir hatramma baráttu, voru það Míkael og herskarar hans sem höfðu sigur. Tveir þriðji herskara himna kusu að fylgja föðurnum (sjá K&S 29:36). Satan og fylgjendum hans var varpað af himni, en þó ekki strax í ysta myrkur. Þeir voru fyrst sendir til þessarar jarðar (sjá Op 12:7–9), þar sem Jesús Kristur skildi fæðast og framkvæma friðþægingu sína.

Af hverju var fylgjendum Satans leyft að koma til jarðar? Þeir komu til að skerpa á andstæðum fyrir þá sem gangast undir prófraunir (sjá 2 Ne 2:11). Mun þeim að lokum varpaði í ysta myrkur? Já. Eftir þúsund ára ríkið, mun Satan og fylgjendum hans varpað eilíflega burtu.

Satan veit að dagar hans eru senn taldir. Við síðari komu Jesú Krists verða Satan og englar hans bundnir í þúsund ár (sjá Op 20:1–3; 1 Ne 22:26; K&S 101:28). Því nær dregur þeim tíma, því ógnvænlegri verður barátta hina illu afla við að fanga eins margar sálir og mögulegt er.

Jóhannes opinberara var sýnt stríðið á himni, sem var hluti af mikilli sýn sem hann hlaut. Honum var sýnt hvernig Satan var varpað niður á jörðu, til að freista mannkyns. Hann brást þannig við í orði: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma“ (Op 12:12).

Hvernig ver þá Satan tíma sínum, meðvitaður um að tími hans er naumur? Páll postuli ritaði: „Djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt“ (1 Pét 5:8).

family kneeling in prayer

Hvað knýr Satan áfram? Hann mun aldrei hljóta líkama, eignast eiginkonu eða börn og aldrei njóta fyllingu gleðinnar og því reynir hann að gera alla karla og konur „jafn [vansæl] og hann er sjálfur“ (2 Ne 2:27).

Djöfullinn leggur til atlögu við alla menn, en einkum þá sem mesta möguleika hafa á eilífri hamingju. Hann er augljóslega afbrýðissamur út í alla sem eru á vegi upphafningar. Ritningarnar kenna að Satan „[eigi] í stríði við Guðs heilögu og [umlyki] þá á alla vegu“ (K&S 76:29).

Stríðið, sem hófst á himnum, hefur viðhaldist allt fram á okkar tíma. Í raun þá verður baráttan stöðugt ofsafengnari eftir því sem hinir heilögu undirbúa komu frelsarans.

Brigham Young (1801–77) spáði: „Að kirkjan mundi breiðast út, dafna, vaxa og stækka og að máttur Satans mundi vaxa að sama skapi og fagnaðarerindinu yxi ásmegin meðal þjóða heimsins.“3

Ég tel að við myndum öll samþykkja að þessi spádómur væri að uppfyllast, er við sjáum hið illa hafa áhrif á samfélög heimsins. Young forseti kenndi að við þyrftum að ígrunda brögð óvinarins til að fá sigrað hann. Ég segi hér frá fjórum þrautreyndum herbrögðum Satans og hvernig sjá má í gegnum þau.

Herbrögð Satans

1. Freisting. Djöfullinn er óskammfeilinn við að læða ranglátum hugmyndum í huga okkar. Mormónsbók kennir að Satan hvísli að okkur óhreinum og óvinsamlegum hugsunum og sái efasemdum í huga okkar. Hann ýtir stöðugt undir ánetjandi hvatir og eigingirni og ágirnd. Hann vill þó ekki að við vitum hvaðan þessar hugmyndir koma, svo hann hvíslar: „Ég er ekki djöfullinn, því að enginn djöfull er til“ (2 Ne 28:22).

Hvernig getum við staðið gegn slíkri afdráttarlausri freistingu? Eitt af því sem best dugar, er einfaldlega að senda Satan í burtu. Það myndi Jesús gera.

Frásögn Nýja testamentisins um frelsarann á fjalli freistingar er afar upplýsandi. Eftir hverja freistingu, sem djöfullinn lagði fyrir hann, þá notaði Jesú tvennskonar varnartækni: Í fyrsta lagi, þá bauð hann Satan að fara í burtu; síðan vitnaði hann í ritningarnar.

Svo dæmi sé tekið, þá bauð Jesús: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum“ (Matt 4:10). Í næsta versi segir: „Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum“ (Matt 4:11). Viðspyrna frelsarans var afar árangursrík?

Í ævisögu Hebers J. Grant forseta (1856–1945) er að finna frásögn um það hvernig Grant forseti spornaði gegn djöflinum. Þegar Grant forseta varð ljóst að Satan væri að hvísla að honum, í þeirri tilraun að sá efasendum í hjarta hans, sagði hann einfaldlega upphátt: „Djöfull, þegi þú.“4

Þið eigið rétt á að segja Satan að fara burtu þegar freistingin kemur yfir ykkur. Ritningarnar kenna: „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður“ (Jakbr 4:7).

Annað það sem frelsarinn gerði sér til varnar, var að vitna í ritningarnar. Það er afar máttugt að læra ritningarvers utanbókar, líkt og Jesús gerði. Ritningavers geta verið okkar andlega vopnabúr.

Þegar ykkar er freistað, getið þið hugsað um boðorð eins og: „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan,“ „elskið óvini yðar,“ eða „lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust“ (2 Mós 20:8; Lúk 6:27; K&S 121:45). Máttur ritninganna skelfir ekki aðeins Satan, heldur eru þær sem dyr fyrir anda Drottins að hjarta ykkar og varnarhjúpur gegn freistingum.

2. Lygar og blekkingar. Ritningarnar opinbera að Satan sé „faðir] lyginnar“ (2 Ne 9:9). Trúið ekki orðum hans, er hann hvíslar eitthvað álíka þessu: „Þú gerir aldrei neitt rétt, þér verður ekki fyrirgefið, þú breytist aldrei, öllum er sama um þig, þú hefur enga hæfileika.“

Önnur lygi sem hann notar oft, er þessi: „Þú þarft að prófa allt hið minnsta einu sinni – bara til að upplifa það. Eitt skipti skaðar ekki.“ Litla ljóta leyndarmálið er þó það að hann vill ekki að þið vitið að syndin er ánetjandi.

Enn önnur áhrifarík lygi sem Satan mun reyna að beita á ykkur, er þessi: „Allir aðrir gera þetta. Það er þá í lagi.“ Það er alls ekki í lagi! Segið því djöflinum að þið viljið ekki enda uppi í jarðneska ríkinu – jafnvel þótt allir aðrir séu á leið þangað.

father teaching his family

Þótt Satan muni ljúga að ykkur, þá getið þið reitt ykkur á að andinn segi ykkur sannleikann. Þess vegna er gjöf heilags anda svo mikilvæg.

Djöfullinn hefur fengið viðurnefnið „hinn mikli blekkingarmeistari.“5 Hann reynir að líkja eftir hverri sannri reglu sem Drottinn setur fram.

Hafið í huga að falsanir eru ekki sama og andstæður. Andstæðan við hvítt er svart, en sé hvítt falsað, gæti það verið beinhvítt eða grátt. Falsanir eru eftirlíkingar hins ósvikna og eru gerðar til að blekkja hina grandvaralausu. Þær eru brenglaðar útgáfur af því sem gott er, og eru einskis virði, á sama hátt og falsaðir peningaseðlar. Ég skal útskýra þetta betur.

Ein falsímynd Satans af trú er hjátrú. Falsímynd hans af ást er losti eða girnd. Hann falsar prestdæmið með því að kynna prestaslægð og líkir eftir kraftaverkum Guðs með seiði og göldrum.

Hjónaband karls og konu er vígt af Guði, en hjónaband samkynhneigðra er einungis fölsun. Ávextir þess eru hvorki börn, né upphafning. Þótt falsanir hans blekki marga, þá verða þær aldrei að einhverju ósviknu. Þær geta aldrei fært varanlega hamingju.

Guð varaði okkur við fölsunum í Kenningu og sáttmálum: Hann sagði: „Það, sem ekki byggir upp, er ekki frá Guði, og er myrkur“ (K&S 50:23).

3. Illdeilur. Satan er faðir illdeilna. Frelsarinn kennir: „[Hann] egnir menn til deilna og reiði hvern gegn öðrum“ (3 Ne 11:29).

Djöflinum hefur í gegnum aldir lærst af eigin reynslu að andi Drottins hörfar þar sem sundrung og illdeilur ríkja. Satan hefur stuðlað að illdeilum systkina, allt frá því að hann lokkaði Kain til að drepa Abel. Hann magnar upp hverskyns vanda milli hjóna, deildarmeðlima og trúboðsfélaga. Hann hefur unun af því að sjá gott fólk þrefa og þræta. Hann reynir að vekja upp fjölskylduþrætur áður en farið er í kirkju á sunnudögum, áður en fjölskyldukvöld hefjast á mánudagskvöldum og hvenær sem hjón hyggjast fara saman í musterið. Tímasetningar hans eru fyrirsjáanlegar.

Þegar upp koma illdeilur á heimili ykkar eða vinnustað, hættið þá strax því sem þið eruð að gera og reynið að stilla til friðar. Engu skiptir hver forsprakkinn er.

Aðfinnslusemi er oft ástæða illdeilna. Joseph Smith kenndi: „Djöfullinn skjallar okkur oft með sjálfsréttlæti, er við nærumst á brestum annarra.“6 Ef þið hugsið málið, þá ætti ykkur að verða ljóst að sjálfsréttlæti er aðeins falsímynd hins sanna réttlætis.

Satan hefur unun af því að útbreiða sundrungu í kirkjunni. Hann er sérfræðingur í því að benda á bresti kirkjuleiðtoga. Joseph Smith varaði við því að fyrsta skrefið til fráhvarfs væri að missa trú á leiðtoga kirkjunnar.7

Nær allt ritað efni sem andstætt er kirkjunni er byggt á lygi um manngerð Josephs Smith. Óvinurinn leggur hart að sér að ófrægja Joseph, því boðskapur endurreisnarinnar er grundvallaður á frásögn spámannsins um það sem átti sér stað í Lundinum helga. Djöfullinn leggur meira á sig nú en áður við að fá meðlimi til þess að efast um vitnisburði sína um endurreisnina.

Á fyrri hluta okkar ráðstöfunar, þá urðu margir prestdæmisbræður ótrúir spámanninum, en iðruðust þess síðar. Einn þeirra var Lyman E. Johnson, sem var vikið úr kirkjunni fyrir rangláta breytni. Hann harmaði það síðar að hafa yfirgefið kirkjuna og sagði: „Ég gæfi hægri hönd mína, ef ég fengi trúað að nýju. Áður var ég fullur gleði og hamingju. Draumar mínir voru dásamlegir. Ég var glaðvær í anda, er ég vaknaði að morgni. Ég var hamingjusamur daga og nætur og naut friðar, gleði og þakkargjörðar. Nú er ekkert nema myrkur, sársauki, sorg og mikil vansæld. Allt frá þeim tíma, hef ég ekki notið hamingjustundar.“8

Íhugið þessi orð. Þau eru öllum meðlimum kirkjunnar til aðvörunar.

Ég snérist til trúar á kirkjuna. Ég lét skírast þegar ég var 23 ára, einhleypur ungur maður, og sótti læknaskóla í Arisóna í Bandaríkjunum. Ég veit af eigin raun hvernig Satan bregður fæti fyrir trúarnema, dregur úr þeim kjark og letur þá frá því að leita sannleikans.

Öll unglingsár mín fylgdist ég með fordæmi vina minna sem voru Síðari daga heilagir. Ég hreifst af því hvernig þeir höguðu lífi sínu. Ég einsetti mér að kynna mér betur kirkjuna, en hélt því leyndu að ég væri að læra um mormóna. Ég ákvað að kynna mér sjálfur efnið, til að forðast þrýsting vina minna.

Þetta var mörgum árum fyrir Alnetið, svo ég fór á bókasafnið. Ég fann þar Mormónsbók og rit sem nefndist Dásemdarverk og undur, eftir öldung LeGrand Richards (1886–1983), í Tólfpostulasveitinni. Ég tók að lesa þessar bækur af mikilli áfergju og fannst þær áhugavekjandi.

Þegar andi minn þráði að læra meira, tók Satan að hvísla að mér. Hann sagði að ég yrði líka að lesa það sem gagnrýnendur kirkjunnar rituðu, til þess að gæta alls hlutleysis. Ég fór aftur í bókasafnið og tók að skoða hvað í boði væri. Auðvitað fann ég bók sem ófrægði spámanninn Joseph.

Við lestur þessa ófræingarefnis um mormóna varð ég ráðvilltur. Ég glataði þeim anda og ljúfu áhrifum sem höfðu verið með mér við könnunina. Ég varð vonsvikinn og hugðist hætta leit minni að sannleikanum. Ég var að biðja um bænheyrslu meðan ég var að lesa þetta ófræingarefni!

Mér til undrunar þá hringdi í mig gömul skólavinkona, sem þá var í Brigham Young háskólanum. Hún bauð mér að heimsækja sig í Utah og lofaði að ég myndi njóta útsýnisins á leiðinni. Hún hafði ekki hugmynd um að ég hefði verið að læra um kirkjuna í einrúmi.

Ég samþykkti boð hennar. Vinkona mín lagði til að við færum til Salt Lake City til að skoða Musteristorgið. Hún varð hissa á áhuganum sem ég lét í ljós. Hún hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði mikinn áhuga á að læra sannleikann um Joseph Smith og endurreisnina.

Systurtrúboðarnir á Musteristorginu voru afar hjálpsamar. Án þess að gera sér grein fyrir því, svöruðu þær mörgum spurningum mínum. Vitnisburður þeirra hafði þau áhrif að ég tók að „efast um efasemdir mínar,“9 og trú mín styrktist. Áhrif einlægs vitnisburðar verða ekki ofmetin.

Vinkona mín gaf mér vitnisburð sinn og hvatti mig til að biðjast fyrir og spyrja Guð hvort kirkjan væri sönn. Í hinni löngu ökuferð aftur til Arisóna, tók ég að biðja í trú – í fyrsta sinn „í hjartans einlægni, með einbeittum huga“ (Moró 10:4). Á ákveðnum tímapunkti þeirrar ferðar, virtist sem allur bíllinn fylltist ljósi. Mér lærðist þarna að myrkur hopar fyrir ljósi.

Eftir að ég hafði einsett mér að skírast, lagði djöfullinn upp sína síðustu ráðagerð. Hann hafði áhrif á fjölskyldu mína, sem gerði allt hvað hún gat til að letja mig frá þessari ákvörðun og neitaði að vera við skírnina.

Ég lét engu að síður skírast og hjörtu þeirra milduðust smám saman. Þau hófu að hjálpa mér við ættarsögu mína. Fáeinum árum síðar, skírði ég yngri bróður minn. Vinkonan, sem bauð mér að heimsækja sig í Utah, er nú eiginkona mín.

4. Uppgjöf og úrtölur. Satan notar þessa aðferð með góðum árangri á hina trúföstustu meðal hinna heilögu, ef allt annað bregst. Þegar ég finn fyrir uppgjafaanda, þá hjálpar það mér að vita hver það er sem reynir að draga úr mér mátt. Það verður mér nægur hvati til að kætast að nýju – bara til að skaprauna djöflinum.

Fyrir nokkrum árum flutti Benson forseti ræðu sem hét „Lát ei hugfallast.“ Í þeirri hnitmiðuðu ræðu aðvaraði hann: „Satan reynir af auknum mætti að sigra hina heilögu með hugarvíl, uppgjöf, úrtölum, örvilnun og dapurleika.“10 Benson forseti brýndi fyrir meðlimum kirkjunnar að vera á verði og setti fram tólf raunhæfar ábendingar um hvað við gætum gert til að láta ekki bugast.

family walking on Boston Massachusetts Temple grounds

Hann lagði til að við þjónuðum öðrum; værum vinnusöm og forðuðumst iðjuleysi; tileinkuðum okkur góðar heilsufarsvenjur, svo sem líkamsæfingar og neyslu náttúrulegra matvæla; bæðum um prestdæmisblessun; hlustuðum á upphefjandi tónlist; teldum blessanir okkar; og settum okkur markmið. Við ættum þó framar öllu að biðja ávallt, svo við fáum sigrað Satan (sjá K&S 10:5).11

Satan skelfur þegar hann sér

hinn veikasta meðal heilagra á hnjánum.12

Mikilvægt er að vita að hin illu öfl eru takmörkunum háð. Guðdómurinn setur þau mörk og Satan er ekki heimilt að fara þar yfir. Ritningarnar staðhæfa til að mynda að „Satan er ekki gefið vald til að freista lítilla barna“ (K&S 29:47).

Annað sem er af mikilvægum toga, er að Satan þekkir ekki hugsanir okkar, nema við gerum honum þær ljósar. Drottinn útskýrði: „Enginn nema Guð þekkir hugsanir þínar og áform hjarta þíns“ (K&S 6:16).

Ef til vill er það ástæða þess að Drottinn hefur gefið okkur boðorð líkt og þessi: „Kvarta ekki“ (K&S 9:6) og „þú skalt ekki tala illa um náunga þinn“ (K&S 42:27). Ef ykkur tekst að hemja tungu ykkar (sjá Jakbr 1:26), þá munuð þið ekki gefa djöflinum of miklar upplýsingar. Þegar hann heyrir möglað og kvartað og gagnrýnt, þá skráir hann það vandlega hjá sér. Ykkar neikvæðu orð afhjúpa óvininum veikleika ykkar.

Ég hef þó góðar fréttir fyrir ykkur. Herskarar Guðs eru fjölmennari en herskarar Lúsífers. Þið gætuð litið umhverfis ykkur og dregið þessa ályktun: „Heimurinn er að verða stöðugt ranglátari. Satan hlýtur að standa uppi sem sigurvegari.“ Látið ekki blekkjast af þessu. Sannleikurinn er sá að við erum fjölmennari en óvinurinn. Hafið í huga að tveir þriðju hlutar barna Guðs völdu að fylgja áætlun föðurins.

Bræður og systur, verið viss um að þið heyið baráttu ykkar Drottins megin. Verið viss um að þið hafið í hendi ykkar sverð andans.

Ég bið þess að þið getið við ævilok tekið undir þessi orð Páls postula: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ (2 Tím 4:7).

Heimildir

  1. Leiðarvísir að ritningunum, „Lúsífer,” scriptures.lds.org.

  2. Ezra Taft Benson, „Beware of Pride,“ Ensign, maí 1989, 5.

  3. Discourses of Brigham Young, valið af John A. Widtsoe (1954), 72.

  4. Sjá Francis M. Gibbons, Heber J. Grant: Man of Steel, Prophet of God(1979), 35–36.

  5. Sjá t.d. Dieter F. Uchtdorf, „Þið skiptið hann máli,“ Aðalráðstefna, okt. 2011, 24; Gordon B. Hinckley, „The Times in Which We Live,“ Liahona, jan. 2002, 86.

  6. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 454.

  7. Sjá Teachings: Joseph Smith, 318.

  8. Lyman E. Johnson, í Brigham Young, Deseret News, 15. ágúst 1877, 484.

  9. Dieter F. Uchtdorf, „Komið og gangið til liðs við okkur,“ Aðalráðstefna, okt. 2013, 23.

  10. Ezra Taft Benson, „Do Not Despair,“ Ensign, nóv. 1974, 65.

  11. Sjá Ezra Taft Benson, „Do Not Despair,“ 65–67.

  12. William Cowper, í samantekt Roberts Andrews, The Concise Columbia Dictionary of Quotations (1987), 78.