2017
Upprisa Jesú Krists og sannleikur um líkamann
April 2017


Upprisa Jesú Krists og sannleikur um líkamann

Jesús Kristur kenndi okkur mikilvægan sannleika um líkamann með upprisu sinni.

Resurrected Christ with Thomas

Hluti af Tómas hinn efagjarni, eftir Carl Heinrich Bloch

Bakgrunnur © janniwet/iStock/Getty Images

Hann sagði: „‚Það er fullkomnað.‘ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann“ (Jóh 19:30). Á þeirri stundu yfirgaf andi Jesú Krists líkamann – líkama sem hafði þolað þjáningar, svo hann gæti friðþægt fyrir syndir allra manna og liðsinnt þeim í veikleika þeirra (sjá Alma 7:12–13). Sá líkami, sem þá var aðeins skelin tóm, var tekinn af krossinum, vafinn líni og loks settur í gröfina. Á þriðja degi, komu konurnar að gröfinni til að búa þann líkama undir gröfina.

En líkaminn var horfinn.

Að sjá gröfina tóma, var aðeins upphaf þess sem koma skildi. María Magdalena, postularnir, ásamt mörgum öðrum, urðu vitni að nokkru undursamlegu: Hinum upprisna, fullkomna Jesú Kristi, áþreifanlegum í mannsmynd.

Frelsarinn gætti þess vandlega að þeir sem sáu hann eftir upprisuna, hefðu fullan skilning á því hverkonar líkama hann hafði. Hann bauð til að mynda postulunum að þreifa á líkama sínum, svo þeir gætu fullvissað sig sjálfa um að hann hefði efnislíkama, en væri ekki aðeins andi (sjá Lúk 24:36–40).1 Hann neytti jafnvel matar með þeim (sjá Lúk 24:42–43).

Þegar postularnir því framfylgdu því boði sínu um að prédika fagnaðarerindi Jesú Krists, þá upplifðu þeir andstreymi og ofsóknir, sem oft mátti rekja til þess að þeir kenndu að Jesús Kristur væri upprisinn og að allt mannkyn myndi rísa upp af þeim sökum (sjá Post 4:1–3).

Upprisa Jesú Krists er engu síður mikilvæg nú í þeim boðskap sem kirkjan boðar heiminum, en hún var á þeim tíma. Líkt og spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postula og spámanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, reis upp á þriðja degi og sté upp til himna. Og allt annað sem varðar trúarbrögð okkar er aðeins viðauki við þetta.“2

Upprisan veitir svör við grundvallarspurningum um eðli Guðs og manns og samband okkar við Guð, um tilgang lífsins og þá von sem við eigum í Jesú Kristi. Hér eru nokkur sannleikskorn sem upprisa Jesú Krists staðfestir.

Himneskur faðir hefur dýrðlegan líkama

First Vision

Fyrsta sýnin, eftir Gary L. Kapp

Sú hugmynd að Guð sé að formi til eins og maður, á sér vissulega rætur í Biblíunni,3 og er sú ímynd að auki almenn meðal fólks, en margar trúarlegar kenningarhefðir segja svo ekki vera, að Guð „sé formlaus, án ástríðna og líkama,“4 og í því ljósi sé líkaminn (og efnið almennt) í eðli sínu illur eða ímyndaður, því andi, hugur eða hugmyndir séu kjarni tilverunnar eða hins endanlega raunveruleika.

Hve dásamlega einfaldur og byltingakenndur var þá ekki raunveruleikinn sem opinberaðist um eðli Guðs með syni hans Jesú Kristi.

Í þjónustu sinni, sagði frelsarinn: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn“ (Jóh 14:9). Það átti jafnvel enn betur við eftir upprisu hans og hann hafði hlotið fullkominn og ódauðlegan líkama, sem staðfesti að „faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig“ (K&S 130:22).

Hið líkamlega eðli himnesks föður var þar með opinberað. Líkt og Joseph Smith útskýrði síðar: „Það sem er án líkama eða forms, er ekkert. Það er enginn annar Guð á himnum, en sá Guð sem hefur líkama af holdi og beinum.“5

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, orðaði það svona: „Ef það að hafa líkama er ekki aðeins ónauðsynlegt heldur ekki ákjósanlegt hjá Guðdóminum, hvers vegna endurleysti lausnari mannkyns þá sinn eigin líkama úr greipum dauðans, og tryggði að hann yrði aldrei framar aðgreindur frá anda sínum um tíma og eilífð? Hver sá sem hafnar hugmyndinni um líkamlegan Guð hafnar bæði dauðlegum og upprisnum Kristi.6

Himneskur faðir er almáttugur, alvitur og býr yfir fullkomnum kærleika

Hinir óviðjafnanlegu guðlegu eiginleikar himnesks föður opinberast glögglega í þeirri staðreynd sem upprisa Jesú Krists er. Líkt og öldungur D. Todd Christofferson, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Þar sem raunveruleiki upprisu Krists er okkur gefinn, þá eiga efasemdir um almætti, alvisku og góðvild Guðs föðurins ‒ sem gaf sinn eingetna son til endurlausnar heimsins ‒ ekki við rök að styðjast.“7

Máttur, þekking og góðvild Guðs eru sannreynd af Jesú Kristi með upprisunni, sem staðfesta visku og elsku áætlunar himnesks föður og getu hans (og sonar hans) til að uppfylla hana.

Við erum börn Guðs

Líkt og Biblían kennir, þá skapaði Guð „manninn eftir sinni mynd … karl og konu“ (1 Mós 1:27). Upprisa Jesú Krists undirstrikar þennan sannleika. Í raun þá undirstrikaði Jesús Kristur samband okkar við himneskan föður stuttu eftir upprisu sína, er hann sagði: „Ég stíg upp til föður míns og og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar“ (Jóh 20:17; skáletrað hér).

Frelsarinn opinberaði að Guð og menn væru ekki svo ólíkir í grundvallaratriðum. Í grunninn er líkami okkar líkur anda okkar,8 og andi okkar er skapaður í mynd Guðs, því það er hin eðlislæga tenging foreldra og barna.

Líkaminn er virkjandi og göfgandi gjöf

sleeping infant

Ljósmynd: David Stoker

Frelsarinn sýndi með upprisu sinni að líkamleg, holdi klædd tilvera, væri ómissandi þáttur eilífrar tilveru Guðs og barna hans. Drottinn opinberaði Joseph Smith: „Frumefnin eru eilíf, og andi og frumefni, óaðskiljanlega samtengd, taka á móti fyllingu gleðinnar“ (K&S 93:33). Andi og efni verða því óaðskiljanlega samtengd, svo úr verði einn ódauðlegur, óspillanlegur, dýrðlegur og fullkominn líkami – eini líkaminn sem býr yfir þeim eiginleika að geta tekið á móti þeirri gleðifyllingu sem Guð býr yfir.

Á móti má benda á að menn sem hafa notið efnislíkama og eru síðan aðskildir honum er þeir deyja og fara í andaheima „[líta] á hina löngu fjarveru anda sinna frá líkömum [sínum] sem fjötra“ (K&S 138:50; sjá einnig K&S 45:17).

Okkar jarðneski líkami er líka nauðsynlegur þáttur í áætlun himnesks föður og guðleg gjöf. Þegar andi okkar kemur til þessarar jarðar frá fortilverunni, þá mun honum „bætast“ (Abraham 3:26) efnislíkami. Líkt og spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Við komum til þessarar jarðar til að hljóta líkama og sýna hann hreinan frammi fyrir Guði í himneska ríkinu. Hin mikla sæluregla felst í því að eiga líkama. Djöfullinn hefur ekki líkama og í því felst refsing hans.“9

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Efnislíkaminn gerir okkur mögulegt að upplifa fleiri og fjölbreyttari víddir en við fengum upplifað í ástandi okkar í fortilverunni. Sambönd okkar við aðra, eigin hæfni til að þekkja og breyta samkvæmt sannleika og hlíta reglum og helgiathöfnum fagnaðarerindis Jesú Krists, eflast með efnislíkama okkar. Í skóla jarðlífsins upplifum við ljúfleika, góðvild, kærleika, hamingju, sorg, vonbrigði, sársauka og jafnvel erfiðleika líkamlegra annmarka, til að búa okkur undir eilífðina. Það eru einfaldlega lexíur og upplifanir sem okkur er nauðsynlegt að læra af, ‚að hætti holdsins,‘ líkt og ritningarnar orða það (1 Ne 19:6; Alma 7:12–13).”10

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að auki: „Allar verur sem eiga efnislíkama hafa vald yfir þeim sem eiga hann ekki.“11 Satan getur freistað okkar, en ekki neytt okkur. „Djöfullinn hefur aðeins vald yfir okkur að svo miklu leyti sem við leyfum honum það.“12

Sú gjöf að hljóta fullkominn, upprisinn líkama, gerir okkur kleift að komast varanlega undan illum áhrifum Satans. Ef engin upprisa væri, „yrðu andar vorir þegnar þess … sem … varð djöfullinn og aldrei rís aftur. Og andar vorir hefðu hlotið að verða honum líkir og vér að verða að djöflum, englum djöfulsins, og verða útilokaðir úr návist Guðs vors og hefðum dvalið með föður lyginnar í sömu vansæld og hann sjálfur“ (2 Ne 9:8–9).

Andinn og líkaminn eru ekki andstæðingar

Andinn og líkaminn tilheyra ekki tveimur ólíkum og ósamræmanlegum tilverusviðum í meginatriðum, þótt þetta sér af tvennum toga. Líkt og Joseph Smith uppgötvaði: „Ekkert er til án efnis. Allur andi er efni, en hann er fíngerðari og tærari og aðeins hægt að greina hann með tærari augum– Við getum ekki séð hann, en þegar líkamar okkar eru hreinsaðir munum við sjá, að hann er allur efni (K&S 131:7–8).

Christ appears to the Nephites

Hluti af Kristur birtist í Vesturálfu, eftir Arnold Friberg

Í sínu upprisna ástandi, þá kom Jesús Kristur fram í fullkominni sameiningu anda og líkama, sem sýnir að „andinn og líkaminn eru sál mannsins“ (K&S 88:15). Í þessu lífi keppum við að því að vera „andlega [sinnuð],“ fremur en „holdlega [sinnuð]“ (2 Ne 9:39), að „[losa] sig úr viðjum hins náttúrlega manns“ (Mósía 3:19) og að „hafa taumhald á ástríðum [okkar] (Alma 38:12). Það merkir þó ekki að andinn og líkaminn séu andstæðingar. Líkt og Jesús Kristur sýndi okkur, þá ber ekki að fyrirlíta eða upphefja líkamann, heldur temja hann og umbreyta.

Það hefur ákveðinn tilgang að íklæðast dauðlegum líkama

Sú hugmynd að þetta líf sé prófraun, verður auðskiljanlegri þegar við hugleiðum það sem við vitum um fortilveruna og eftirlífið. Við lifðum sem andar áður en við komum til jarðar og himneskur faðir ætlar okkur þau örlög að verða eins og hann er og dvelja ævarandi í ódauðlegum líkama. Þessi sannleikur felur í sér að reynslutími okkar í þessum dauðlega líkama er ekki geðþóttalegur, heldur hefur hann raunverulegan tilgang og merkingu.

Líkt og Öldungur Christofferson útskýrði: „Í því felst að með vali okkar sýnum við Guði (og okkur sjálfum) getu okkar og staðfestu til að lifa eftir himneskum lögmálum hans, án þess að vera í návist hans, í efnislíkama, gæddum öllum sínum eiginleikum, ástríðum og löngunum. Gætum við tamið holdið, svo það yrði fremur verkfæri andans, heldur en húsbóndi hans? Gæti okkur verið treystandi fyrir guðlegum krafti, bæði um tíma og eilífð, þar með talið kraftinum til að skapa líf? Gætum við hvert fyrir sig sigrast á hinu illa? Þeir sem það gerðu ‚mun bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu‘ [Abraham 3:26] – mikilvægur þáttur þeirrar dýrðar, er að hljóta upprisinn, ódauðlegan og dýrðlegan efnislíkama.“13

Upplifanir okkar í hinum jarðneska líkama, sem til að mynda tengjast samböndum okkar við aðra, gegna mikilvægu hlutverki, því þær eru eftirmynd þess sem koma skal. Líkt og Joseph Smith lærði: „Að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar, en þar við bætist eilíf dýrð, dýrð, sem við njótum ekki nú“ (K&S 130:2).

Við eigum von í Jesú Kristi

women at the tomb

Þrjár Maríur við gröfina, eftir William-Adolphe Bouguereau, Superstock.com

Upprisa Jesú Krists hefur, æ frá því að gröfin var sýnd tóm, vakið okkur von, því með upprisu hans getum við vænst okkar eigin, þar sem „sérhvað það sem okkur er ávant verður okkur bætt, … að því tilskildu að við verðum ætíð trúföst.“14

Postular frelsarans til forna gátu af eldmóð borði vitni um upprisu hans, því þeir höfðu séð og þreifað á líkama hans. Hér liggur þó mun meira að baki. Á sama hátt og Jesús Kristur hafði læknað líkamlegan hrumleika, til að sýna fram á að hann hefði máttinn til fyrirgefa syndir (sjá Lúk 5:23–25), þá varð upprisa hans – hin áþreifanlega sönnun um mátt hans til að sigrast á líkamlegum dauða – fullvissa fylgjenda hans um að hann hefði máttinn til að sigrast á andlegum dauða. Loforðin sem hann gaf með kenningum sínum – um fyrirgefningu synda, frið í þessu lífi, eilíft líf í ríki föðurins – urðu raunveruleg og trú þeirra varð óhagganleg.

„Ef Kristur er ekki upprisinn, er trú [okkar] fánýt“ (1 Kor 15:17). Þar sem hann reis upp frá dauðum, þá getum við átt „von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, [um] að vera [reist] til eilífs lífs, og það vegna trúar [okkar] á hann, í samræmi við fyrirheitið“ (Moró 7:41).

Í sínu jarðneska lífi bauð Jesús Kristur öðrum að fylgja sér. Eftir dauða hans og upprisu, urðu örlögin jafnvel enn ljósari. Ef við, fyrir hlýðni við lögmál og helgathafnir fagnaðarerindisins, tileinkum okkur „himneskan anda“ hið innra, þá er okkur mögulegt að „hljóta þann sama líkama og var náttúrlegur líkami“ og verða „[lífguð] með hluta hinnar himnesku dýrðar, [og] hljóta þá sömu, jafnvel fyllingu hennar“ (K&S 88:28–29). Hann hefur sýnt veginn. Hann er vegurin. Það er fyrir mátt hans – fyrir friðþægingu hans og upprisu – að við getum hlotið þessa himnesku fyllingu, sem felur í sér fyllingu gleði í upprisnum líkama.

Heimildir

  1. Þegar Jesús Kristur birtist fólkinu í Vesturheimi, bauð hann því – sem skipti þúsundum – að koma „hver af öðrum“ og þreifa á höndum hans, fótum og síðu, svo það fengi bæði fundið og séð hinn upprisna Drottin (sjá 3 Ne 11:14–15; 18:25).

  2. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 49.

  3. Sjá 1 Mós 1:27; 2 Mós 33:11; Post 7:56.

  4. Þótt álíka hugmyndir séu að finna í eldri játningum kristinna, þá er þessa áveðnu túlkun að finna í 39. trúargrein biskupakirkjunnar.

  5. Teachings: Joseph Smith, 42.

  6. Jeffrey R. Holland, „Hinn eini sanni Guð og Jesús Kristur sá sem [hann hefur] sent,“ Aðalráðstefna, okt. 2007, 44.

  7. D. Todd Christofferson, „Upprisa Jesú Krists,“ Aðalráðstefna, apríl 2014, 115.

  8. Jafnvel opinberunin um Jesú Krist í fortilverunni var vitnisburður um þessa staðreynd, þar sem sýnt var að andalíkami hans varð í formi manns (sjá Eter 3:16).

  9. Teachings: Joseph Smith, 211.

  10. David A. Bednar, „Vér trúum, að vér eigum að vera skírlíf,“ Aðalráðstefna, apríl 2013, 44.

  11. Teachings: Joseph Smith, 211.

  12. Teachings: Joseph Smith, 214.

  13. D. Todd Christofferson, „Af hverju hjónaband og fjölskylda,“ Aðalráðstefna, apríl 2015, 33.

  14. Teachings: Joseph Smith, 51.