Leiðsögn kirkjuleiðtoga
Hvernig finna má sannan frið
Úr aðalráðstefnuræðu í apríl 2013.
Góðir einstaklingar hafa ætíð haft þá himnesku þrá að friður ríki á jörðu. Við megum aldrei gefast upp á því að ná því markmiði. Joseph F. Smith (1838–1918) kenndi þó þetta: „Sá andi friðar og kærleika getur aldrei komið í heiminn … fyrr en mannkynið hefur meðtekið sannleika og boðskap Guðs … og viðurkennt guðlegan kraft hans og valdsumboð.“
Við vonumst eftir og biðjum einlæglega fyrir friði á jörðu, en slíkur friður verður að veruleika fyrir einstaklinga og fjölskyldur og er fyrirheit og ávöxtur réttlætis. Þessi friður er gjöf sem okkur er lofað fyrir ætlunarverk og fórnardauða frelsarans.
Friður er ekki einungis öryggi eða fjarvera stríðs, ofbeldis, átaka eða ósættis. Friður hlýst af þeirri vitneskju að frelsarinn veit hver við erum og veit að við eigum trú á hann, elskum hann og höldum boðorð hans, þrátt fyrir og jafnvel einkum í okkar mestu þrautum og þrengingum (sjá K&S 121:7–8).
„Hvar finn ég helgan frið? Hvar er mín hvíldin þráð, er engin virðist veita grið? („Where Can I Turn for Peace?“ Hymns, nr. 129). Frelsarinn er svarið. Hann er uppspretta og höfundur friðar. Hann er „Friðarhöfðinginn“ (Jes 9:6).
Að sýna auðmýkt frammi fyrir Guði, að biðja ávallt, iðrast synda sinna, fara ofan í skírnarvatnið með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda og verða sannur lærisveinn Jesú Krists, eru afgerandi dæmi um réttlæti sem leiðir til varanlegs friðar.
Kirkjan er skjól þar sem fylgjendur Krists geta meðtekið frið. Sumt af unga fólkinu í heiminum segist vera andlegt en ekki trúað. Að vera andlegur er fyrsta skrefið. Hinsvegar er það innan kirkjunnar sem við finnum stuðning vina, hljótum kennslu og erum endurnærð af hinu góða orði Guðs. Enn mikilvægara er þó að það er prestdæmisvaldið innan kirkjunnar sem sér okkur fyrir helgiathöfnum og sáttmálum sem binda fjölskyldur saman og gerir okkur öllum kleift að snúa aftur til Guðs föðurins og Jesú Krists í himneska ríkið. Þessar helgiathafnir færa okkur hugarró vegna þess að þær eru sáttmálar við Drottinn.
Það er í musterunum sem margar af þessum helgiathöfnum eru framkvæmdar og veita okkur einnig friðsælt skjól frá heiminum. Þeir sem koma á musterislóðir eða í opin hús mustera upplifa líka slíkan frið.
Frelsarinn er uppspretta hins sanna friðar. Friður verður umbun réttláts lífernis, þrátt fyrir erfiðleika lífsins, sökum friðþægingar og náðar frelsarans (sjá Jóh 14:26–27; 16:33).