2017
Þau sáu hann
April 2017


Þau sáu hann

Þessir einstaklingar sáu í raun hinn upprisna frelsara, en þið getið líka verið vitni Krists, á ykkar hátt.

Jesus and Mary in front of the tomb

Hann er risinn,eftir Greg K. Olsen, óheimilt að afrita

Hvernig haldið þið að það hafi verið að sjá hinn upprisna frelsara í eigin persónu? Hundruð manna á tíma Jesú þurfti ekki að ímynda sér hvernig það væri – þau sáu hann. Í ritningunum eru margar frásagnir um að hinn upprisni Drottinn hafi birst fólki, bæði í Nýja testamentinu og Mormónsbók. Þessir einstaklingar urðu vitni að einu mesta kraftaverki sögunnar: Að Jesús Kristur sigraði dauðann og gerði okkur öllum mögulegt að lifa aftur. Frekar ótrúlegt, ekki satt?

Hvað felst í því að vera vitni um Krist? Við skulum skoða nokkrar þessara frásagna í ritningunum og íhuga hvernig við getum líka verið vitni um Krist, án þess að hafa séð hann persónulega.

María Magdalena

María Magdalena var fyrsta vitnið. Sunnudagsmorguninn eftir krossfestinguna, kom hún að gröfinni, ásamt nokkrum öðrum konum, til að smyrja líkama Drottins. Þegar María komst að því að gröfin var tóm, grét hún. Einhver kom aftan að henni og spurði: „Kona, hví grætur þú?“ Ímyndið ykkur undrun hennar þegar hún komst að því að um Jesú var að ræða, upprisinn frá dauðum. (Sjá Jóh 20:1–18.)

Lærisveinarnir tveir á veginum til Emmaus

Christ on the road to Emmaus

Vegurinn til Emmaus, eftir Jon McNaughton

Kleópas og annar lærisveinn voru á gangi á veginum til Emmaus þegar ókunnugur maður slóst í hóp með þeim. Þeir þekktu ekki þennan nýja félaga sinn en þegar að kvöldverði kom, braut hinn ókunnugi maður brauð. Þá lukust augu þeirra upp og þeim varð ljóst að frelsarinn hafði ferðast með þeim allan tímann. „Brann ekki hjartað í okkur … ?” spurðu þeir hvor annan og íhuguðu fullvissuna sem þeir höfðu fundið um að hann hefði í raun verið með þeim. (Sjá Lúk 24:13–34.)

Postularnir tíu

Resurrected Christ with Apostles

Sjá hendur mínar og fætur, eftir Harry Anderson

Lærisveinarnir tveir, sem höfðu ferðast til Emmaus með Kristi, fóru aftur til Jerúsalem og sögðu tíu postulanna frá upplifun sinni. Meðan þeir töluðu, þá birtist þeim sjálfur frelsarinn og sagði: „Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef.“ (Sjá Lúk 24:36–41, 44–49.)

Tómas postuli

Christ with Thomas

málverk af Tómasi eftir Brian Call

Tómas postuli var ekki með þeim er frelsarinn birtist hinum postulunum, svo hann trúði ekki að Kristur hefði risið upp. Viku síðar birtist Kristur postulunum aftur. Að þessu sinni var Tómas með þeim og þar sem hann sá Krist, þá trúði hann að Kristur væri upprisinn. Frelsarinn ávítaði Tómas fyrir að trúa aðeins eftir að hafa séð: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ (Sjá Jóh 20:24–29.)

Ellefu postular við Tíberíuvatn

Apostles on the Sea of Tiberias

Hinn upprisni Kristur við Tíberíuvatn, eftir David Lindsley

Dag einn, stuttu eftir upprisuna, réru nokkrir postulanna út á Tíberíuvatn til fiskjar, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Morguninn eftir birtist frelsarinn og bauð þeim að kasta netinu út hægra megin við bátinn. Eftir að hafa gert það, fylltist netið af fiski, svo þeir áttu fullt í fangi með að draga það inn. Eftir að hafa neytt matar saman, útskýrði frelsarinn mikilvægi þess að þjóna öðrum og sagði: „Gæt sauða minna.“ Postularnir helguðu sig einmitt þessu allt sitt líf – að upplýsa fólkið um Krist – og í sumum tilvikum fórnuðu þeir jafnvel eigin lífi fyrir málstaðinn. (Sjá Jóh 21:1-22.)

Nefítarnir í Ameríku

Christ among the Nephites

Einn hirðir, eftir Howard Lyon

Þegar hann var krossfestur varð mikil eyðilegging í Ameríku af völdum jarðskjálfta, elda og fleiri náttúruhamfara og þrír myrkir dagar mörkuðu dauða frelsarans. Síðar steig Kristur niður af himni og vitjaði um 2.500 manna, sem komið höfðu saman við musterið í Gnægrarbrunni. Hann bauð fólkinu að þreifa á örum sára sinna, á höndum sínum, fótum og síðu, prédikaði fyrir því og blessaði börn Nefítanna, eitt af öðru, Fleiri komu saman daginn eftir og frelsarinn vitjaði fólksins og kenndi því. Að því kom að lærisveinarnir skipulögðu kirkju Krists og Nefítar hlutu svo máttugt vitni, að bæði þeir og Lamanítar snérust til trúar á Drottin. (Sjá 3 Ne 11–18; sjá einnig 3 Ne 8–10; 4 Ne 1.)

Vitni fyrr og nú

Kristur birtist líka mörgum öðrum, þar á meðal nokkrum konum sem komið höfðu til grafarinnar til að hjálpa Maríu Magdalenu að smyrja líkama Krists, yfir 500 manna hópi og Jóhannesi og Páli. (Sjá Matt 28:9; Post 9:4–19; 1 Kor 15:6–7; sjá einnig 3 Ne 19; 26:13.)

Okkur gefst kannski ekki kostur á að sjá frelsarann, líkt og þessi vitni gerðu, en við getum samt verið vitni um Krist. Þið getið sjálf leitað frelsarans, líkt og María gerði er hún fór til grafarinnar, með því að læra meira um hann. Þið getið líka iðkað trú á hann með því að halda boðorðin og fara eftir leiðsögn spámannanna. Þið getið líka borið kennsl á blessanir frelsarans í lífi ykkar, líkt og lærisveinarnir tveir á veginum til Emmaus gerðu. Ígrundið merkingu þess að vera vitni um Krist þessa páska. Þetta fólk var sjónarvottar, því það sá hinn upprisna Krist – en það er ekki aðeins á þann hátt sem við getum upplifað hann í lífi okkar.