Frá Síðari daga heilögum
Bjargað í anddyrinu
Eiginmaður minn vinnur oft á sunnudögum, svo ég þarf að fara með syni okkar fjóra einsömul í kirkju. Einn sunnudaginn, meðan á sakramentinu stóð, fóru tveir yngstu synir mínir í hár saman. Ef ég vakti áhuga annars þeirra á bók, þá vildi hinn líka fá hana. Ég reyndi snarl, leikföng og litabók, án þess að ná nokkrum árangri. Ég var buguð vegna drengjanna, sem virtust engan vegin geta setið rólegir í eina klukkustund.
Ég dró upp úr töskunni minni lítið leikfang og rétti það hinum ársgamla syni mínum. Þegar í stað kvað við öskur frá, Tyson, hinum þriggja ára gamla syni mínu, sem stuggaði við yngri bróður sínum og reyndi að ná í leikfangið. Mér fannst auðmýkjandi að halda á tveimur öskrandi litlum slagsmálagaurum fram í anddyrið.
Heit tár tóku að streyma niður vanga mína. Af hverju þurfti þetta að vera svona erfitt? Ég gerði það sem himneskur faðir vildi að ég gerði, með því að fara með fjölskyldu mína í kirkju, ekki satt? Mér var um megn að halda því áfram. Það var þreytandi og vandræðalegt að takast á við áflog drengjanna minna einsömul á sakramentissamkomum. Ég vildi aldrei aftur fara í kirkju.
Ég velti mér upp úr þessum hugsunum, þar sem ég sat, í um 15 sekúndur og sá þá systur sem ég þekkti lítið sem ekkert, koma fram í anddyrið á eftir mér. Hún hét systir Beus. Hún sat yfirleitt einsömul, því eiginmaður hennar þjónaði í biskupsráðinu og börnin hennar voru vaxin úr grasi. Hún sagði: „Þú ert alltaf hér einsömul! Ég sé að þú leggur þig alla fram. Gæti Tyson setið hjá mér?“ Ég vissi hreinlega ekki hverju svara skildi. Ég kinkaði bara kolli þegar hún tók í hönd hans og leiddi hann nú glaðan og hamingjusaman aftur inn í salinn.
Ég þerraði tárin, tók upp litla barnið mitt og gekk auðmjúk aftur inn í salinn, til að njóta þess sem eftir var af samkomunni í friði og spekt.
Þegar við gengum inn í salinn næsta sunnudag, leitaði Tyson uppi hina nýju vinkonu sína. Á kvöldin sagði hann í bæn sinni: „Himneskur faðir, þakka þér fyrir systur Beus. Ég elska hana svo mikið!“
Þrjú ára hafa liðið síðan þetta gerðist og Tyson leitar enn oft að systur Beus í salnum. Á síðasta ári var hún kölluð sem kennari Tysons í Barnafélaginu. Hann var þá hamingjusamasti drengur á jörðu.
Ég er afar þakklát fyrir systur Beus og hve fúslega hún elskar og þjónar öðrum. Ég veit að við getum blessað aðra þegar við þjónum eins og frelsarinn gerði.