Boðskapur Æðsta forsætisráðsins
Hinn réttláti mun lifa fyrir trú
Rabbíinn og sápugerðarmaðurinn
Til er gömul frásögn frá Gyðingum um sápugerðarmann, sem ekki trúði á Guð. Dag einn, er hann var á gangi með rabbía, sagði hann: „Það er nokkuð sem ég fæ ekki skilið. Trúarbrögð hafa verið við lýði um aldir. Ilskan, spillingin, óheiðarleikinn, óréttlætið, þjáningarnar, hungrið og ofbeldið eru þó hvarvetna yfirgnæfandi. Svo virðist sem trúarbrögð hafi alls ekki haft bætandi áhrif á heiminn. Ég spyr þig því: „Hvaða gagn er að þeim?“
Rabbíinn var þögull um stund og hélt ferð sinni áfram með sápugerðarmanninum. Loks komu þeir að leikvelli þar sem börn voru að leik í svaði, þakin óhreinindum.
„Það er nokkuð sem ég fæ ekki skilið,“ sagði rabbíinn. „Sjáðu börnin þarna. Sápa hefur verið við lýði um aldir, en samt eru börnin skítug. Hvaða gagn er að sápu?“
Sápugerðarmaðurinn svaraði: „Já, en rabbí, það er varla sanngjarnt að kenna sápunni um það að börnin séu óhrein. Það verður að nota sápuna til að eitthvert gagn sé að henni.“
Rabbíinn brosti og sagði: „Nákvæmlega.“
Hvernig ber okkur að lifa?
Páll postuli vitnaði í spámann Gamla testamentisins og útskýrði merkingu orðanna að vera trúaður. Hann ritaði: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú“ (Róm 1:17).
Þessi einfalda staðhæfing gæti hugsanlega vakið skilning á því hvernig sum trúarbrögð geta verið brothætt og áhrifalaus og önnur haft áhrifamátt til að breyta lífi manna.
Við verðum þó fyrst að skilja hvað trú er áður en við fáum skilið merkingu þess að lifa fyrir trú.
Trú er meira en átrúnaður. Hún er að treysta Guði fullkomlega og sýna það í verki.
Hún er meira er óskhyggja.
Hún er meira en að kinka bara samþykkjandi kolli og halda síðan að sér höndum. Þegar sagt er að „hinn réttláti mun lifa fyrir trú,“ þá merkir það að við njótum handleiðslu og leiðsagnar í gegnum trú okkar. Verk okkar verða að samræmast trú okkar – og þá ekki af hugsunarlausri hlýðni, heldur af fullvissu og einlægri elsku til Guðs og hinni ómetanlegu visku sem hann hefur opinberað börnum sínum.
Verk þurfa að fylgja trú, ella er hún lífvana (sjá Jakbr 2:17). Þá er alls ekki um trú að ræða. Slíkt fær engum manni umbreytt, hvað þá öllum heimi.
Karlar og konur trúar reiða sig á sinn miskunnsama himneska föður – jafnvel á óvissutímum, jafnvel þegar efasemdir og andstreymi herja á og varna þeim sýn og skilningi.
Trúaðir karlar og konur ganga veg lærisveinsins af alvöru og keppa að því að fylgja fordæmi þeirra ástkæra frelsara, Jesú Krists. Trú hvetur vissulega og innblæs okkur til að samstilla hjörtu okkar himni og vera virk í því að hjálpa og lyfta öðrum og blessa samferðafólk okkar.
Trúarbrögð án verka eru eins og sápa sem ekki er tekin úr umbúðum sínum. Hún getur búið yfir mörgum möguleikum, en er í raun gagnslaus allt þar til hún fær uppfyllt tilgang sinn. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er fagnaðarerindi verka. Kirkja Jesú Krists kennir sönn trúarbrögð sem búa yfir von, trú og kærleika, ásamt því að liðsinna samferðafólki okkar bæði andlega og stundlega.
Fyrir nokkrum mánuðum vorum ég og eiginkona mín, Harriet, í fjölskylduferð með nokkrum barna okkar á Miðjarðarhafssvæðinu. Við fórum í nokkrar flóttamannabúðir og kynntumst fjölskyldum frá stríðshrjáðum löndum. Fólkið var ekki okkar trúar, en það var samt bræður okkar og systur og hafði mikla þörf fyrir liðsinni. Það snerti hjörtu okkar þegar við sáum með eigin augum hvernig kirkjumeðlimir okkar sýna virka trú við að liðsinna og líkna samferðafólki sínu og vekja því von, burt séð frá trúarbrögðum, þjóðerni eða menntun.
Trú gædd stöðugum verkum fyllir hjartað af góðvild, hugann af visku og skilningi og sálina af frið og kærleika.
Trú okkar megnar að blessa og hafa réttlát áhrif á aðra og okkur sjálf.
Trú okkar megnar að fylla heiminn af velvilja og friði.
Trú okkar megnar að breyta illvilja í elsku og óvinum í vini.
Hinir réttlátu munu því lifa fyrir trú; þeir munu treysta Guði og ganga á hans vegum.
Það er þesskonar trú sem fær breytt einstaklingum, fjölskyldum, þjóðum og heiminum öllum.