Gleymd bók, minnistæður vitnisburður
Höfundur býr í Cagayan á Filippseyjum.
Augu allra beindust að mér. Gæti ég komið kirkjunni til varnar með mínum einfalda vitnisburði?
Fyrir einu ári setti ég mér markmið um að bæta minn andlega lærdóm. Ég hafði með mér kirkjubækur, bæklinga, kennslubækur og ritningar hvert sem ég fór, þar með talið í skólann, því mig hungraði í orð Guðs. Úr þessari viðleitni minni dró þó þegar ég varð önnum kafin fyrir próflestur.
Dag einn leiddi kennarinn umræðuna og bað alla þá nemendur sem ekki voru kaþólskir að standa upp. Ég var eini Síðari daga heilagur í námsbekknum. Sex aðrir nemendur stóðu líka upp.
Við vorum síðan spurð: Í hvað kirkju eruð þið? Hver stofnaði hana? Hvernig var kirkjan ykkar stofnuð?
Ég var síðust til að svara. Ég fann til óöryggis yfir því að hafa ekki haft með mér kirkjubækurnar og reyndi að rifja upp það sem ég hafði lært. Ritningarvers í Biblíunni kom upp í huga minn:
„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta“ (Okv 3:5–6).
Ég stóð frammi fyrir hinum í bekknum ákveðin og óttalaus. Ég byrjaði á því að segja að ég væri meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég sagði sögu hins unga drengs, Josephs Smith, sem sá Guð. Ég fann brjóst mitt brenna og tár féllu af hvörmum mér. Ég sagði að kirkjan hefði verið stofnuð 6. Apríl 1830 og bar vitni um að spámaður Guðs hefði verið kallaður og prestdæmið endurreist. Ég vitnaði um að ég vissi að allt þetta væri sannleikur.
Hinar mörgu stundir sem ég hafði lagt í trúarnámið urðu fyrirhafnarinnar virði. Það hafði gert mér kleift að vera verndari trúarinnar og miðla fagnaðarerindinu. Nokkrum vikum síðar var ég stolt yfir því að fjórir bekkjarfélagar mínir komu með mér kirkju.
Þessi upplifun kenndi mér mikilvægi vitnisburðar. Í fyrstu velti ég fyrir mér ástæðu þess að Drottinn hafði ekki sent mér hugboð um að hafa með mér bækurnar þennan dag. Þær hefðu hjálpað mér að svara betur spurningum kennarans. Mér varð hins vegar ljóst að við þurfum ekki að læra allt um kirkjuna utanbókar eða reiða okkur á tilvísanir – við ættum að læra fagnaðarerindið, lifa eftir og miðla því, og reiða okkur á heilagan anda. Þótt ég hefði ekki haft bækurnar, þá hafði ég vitnisburð minn.