2017
Máttur Guðs
April 2017


Uns við hittumst á ný

Máttur Guðs

Úr aðalráðstefnuræðu sem ber heitið „The Doctrine of the Priesthood,” Ensign, maí 1982, 32–34; starfsetning færð í nútímahorf.

Trúin er máttur og máttur er prestdæmið.

Enoch and the city of Zion

Borg Síons uppnumin, eftir Del Parson

Guð er Guð af því að í honum felst öll trú, allur máttur og allt prestdæmi. Lífið sem hann lifir nefnist eilíft líf.

Við getum líkst honum upp að því marki sem við fáum tileinkað okkur trú hans, mátt hans og iðkað prestdæmi hans. Þegar við síðan höfum orðið eins og hann er, í fullri og sannri merkingu þeirra orða, þá munum við líka öðlast eilíft líf.

Trú og prestdæmi eru samofin. Trúin er máttur og máttur er prestdæmið. Eftir að við höfum öðlast trú, þá hljótum við prestdæmið. Við vöxum síðan í trú, fyrir tilstilli prestdæmisins, hljótum allan mátt og verðum eins og Drottinn.

Tími okkar hér í jarðlífinu er reynslutími helgaður prófraunum. Við njótum þeirra forréttinda meðan við erum hér að fullkomna trú okkar og vaxa að prestdæmismætti. …

Hið heilaga prestdæmi nýttist mönnum betur til fullkomnunar á tíma Enoks, en á nokkrum öðrum tíma. Þá var það kunnugt sem regla Enoks (sjá K&S 76:57). Það var fyrir þann mátt sem hann og fólk hans varð numið upp. Það var numið upp því það hafði trú og iðkaði mátt prestdæmisins.

Það var við Enok sem Drottinn gerði eilífan sáttmála um að allir þeir sem hlytu prestdæmið myndu hafa mátt, fyrir trú, til að ríkja yfir og stórna öllu á jörðu, til að standast her þjóða og koma fram fyrir Drottin íklæddir dýrð og upphafningu.

Melkísedek var maður sem hafði álíka trú „og fólk hans var réttlátt og hlaut stað á himni og leitaði borgar Enoks“ (Joseph Smith Translation, Genesis 14:34). …

Hver er þá kenning prestdæmisins? Hvernig ber okkur að lifa sem þjónar Drottins?

Sú kenning felst í því að Guð faðir okkar er dýrðleg, fullkomin og upphafin vera, sem hefur allan mátt, allan kraft og öll yfirráð, þekkir alla hluti og er óendanlegur í öllum eiginleikum og lifir í fjölskyldueiningu.

Hún felst í því að okkar eilífi faðir nýtur sinnar háleitu dýrðarstöðu og fullkomnunar og máttar, af því að trú hans er fullkomin og prestdæmi hans ótakmarkað.

Hún felst í því að þetta prestdæmi er einmitt auðkenni máttar Guðs, og ef við viljum líkjast honum, þá verðum við að iðka prestdæmi hans eða mátt eins og hann gerir það. …

Hún felst í því að við höfum mátt, fyrir trú, til að ríkja yfir og stjórna öllu, bæði stundlegu og andlegu, til að gera kraftaverk og fullkomna líf, til að standa í návist Guðs og vera eins og hann er, af því að við höfum öðlast trú hans, fullkomnun hans og mátt hans eða, með öðrum orðum, fyllingu prestdæmis hans.

Í þessu felst því kenning prestdæmisins og ekkert er eða getur orðið þessu meira. Þetta er sá máttur sem við getum öðlast fyrir trú og réttlæti.

Vissulega er máttur í prestdæminu – máttur sem við leitumst við að nota, máttur sem við biðjum af einlægni að megi hvíla á okkur og niðjum okkar að eilífu.