2017
Friðþæging frelsarans: Undirstaða sanns kristindóms
April 2017


Friðþæging frelsarans: Undirstaða sanns kristindóms

Úr ræðu sem heitir „Friðþægingin,“ sem flutt var á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta, í Trúboðsskólanum í Provo, 24. júní 2008.

Við verðum öll reist upp og gerð ódauðleg sökum friðþægingar Jesú Krists.

Ljósmynd
Savior in Gethsemane painting

Getsemane, eftir J. Kirk Richards

Spámaðurinn Joseph Smith (1805–44) var spurður: „Hverjar eru grundvallarreglur trúar ykkar?“ Hann svaraði: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“1

Ég ætla að ræða um þessa staðhæfingu spámannsins Josephs. Kjarni alls þess sem við trúum er frelsari okkar og friðþægingarfórn hans – „lítillæti Guðs“ (1 Ne 11:16), sem felst í því að faðirinn sendi son sinn til jarðar, til að framkvæma friðþæginguna. Megin tilgangur lífs Jesú Krists var að framkvæma friðþæginguna. Friðþægingin er undirstaða kristindómsins.

Hvers vegna er friðþægingin megin trúarkenning kirkjunnarog í lífi okkar?

Trúaratriðin 1:3

Í þriðja trúaratriðinu segir: „Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“

Í þessu samhengi merkir „hólpin“ að ná æðstu dýrðargráðu himneska ríkisins. Allir sem til jarðar koma, munu hljóta upprisu, en til að öðlast eilíft líf, allar blessanir eilífrar framþróunar, þá verða menn að hlíta lögmálum, taka á móti helgiathöfnum og gera sáttmála fagnaðarerindisins.

Hvers vegna var það Jesús Kristur, og aðeins hann, sem gat friðþægt fyrir syndir heimsins? Hann uppfyllti öll skilyrðin til þess.

Guð elskaði hann og treysti honum

Jesús fæddist himneskum foreldrum í fortilverunni. Hann var frumburður okkar himneska föður. Hann var útvalinn frá upphafi. Hann var hlýðinn föður sínum. Í ritningunum segir oft frá þeirri gleði sem himneskur faðir nýtur sökum sonar síns.

Í Matteusarguðspjalli segir: „Og rödd kom af himnum: Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á“ (Matt 3:17).

Í Lúkasarguðspjalli segir: „Og rödd kom úr skýinu og sagði: Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!“ (Lúk 9:35).

Við musterið í landi Gnægtarbrunns, eftir upprisu frelsarans, heyrði fólkið þar rödd föðurins segja: „Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á“ (3 Ne 11:7).

Ég kemst einkum við í hjarta er ég les um þjáningar Jesú í Getsemanegarðinum og faðirinn sendi sínum eingetna syni, af mikilli elsku og samúð, engil til að hugga hann og styrkja (sjá Lúk 22:43).

Jesús notaði sjálfræði sitt til að hlýða

Ljósmynd
Christ before the crowd

Ecce Homo, eftir J. Kirk Richards

Jesús þurfti að vera fús til að gefa okkur líf sitt.

Á stórþingi himins, steig Lúsífer fram, „[hin] árborna morgunstjarna,“ (Jes 14:12; K&S 76:26–27) og sagði:

„Sjá, hér er ég, send mig, ég mun vera sonur þinn og ég mun endurleysa allt mannkyn, svo að ekki glatist ein sál, og vissulega mun ég gjöra það. Veit mér þess vegna heiður þinn.

En sjá, minn elskaði sonur, sem var minn elskaði og útvaldi frá upphafi, sagði við mig – Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu“ (HDP Móse 4:1–2; sjá einnig Abraham 3:27).

Sökum hinnar miklu elsku, sem sonurinn bar til hvers okkar og föður síns, sagði hann: „Send mig.“ Þegar hann sagði „send mig,“ þá notaði hann eigið sjálfræði.

„Eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.

„Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. …

Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum“ (Jóh 10:15, 17–18).

Ef frelsarinn hefði viljað, hefði englasveit getað tekið hann af krossinum og borið hann rakleiðis til heimkynna föður hans. Hann notaði hins vegar eigið sjálfræði til að fórna sér fyrir okkur, til að ljúka hlutverki sínu í jarðlífinu og standast allt til enda, fullvinna friðþæginguna.

Jesús var fús til að koma til jarðar og hann uppfyllti skilyrðin. Þegar hann svo kom, sagði hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig“ (Jóh 6:38).

Jesús var forvígður

Pétur kenndi að Jesús hafi verið „útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð“ (sjá 1 Pét 1:19–21).

Spámenn allra ráðsályktana hafa sagt fyrir um komu Jesú Krists og hlutverk hans. Enos, sem hafði mikla trú, sá í dásamlegri sýn fæðingu, dauða, uppstigningu og síðari komu frelsarans.

„Og sjá, Enok leit komudag mannssonarins, já, í holdinu. Og sál hans fagnaði og hann sagði: Hinum réttláta er lyft upp, og lambinu er slátrað frá grundvöllun veraldar. …

Og Drottinn sagði við Enok: Lít á. Og hann leit og sá að mannssyninum var lyft upp á krossinum, að hætti manna–

Og hann heyrði háa raust og himnarnir huldust og öll sköpunarverk Guðs treguðu og jörðin stundi og björgin klofnuðu og hinir heilögu risu upp og voru krýndir dýrðarkórónum til hægri handar mannssyninum. …

Og Enok sá mannssoninn stíga upp til föðurins. …

Og svo bar þar við, að Enok sá þann dag, er mannssonurinn kemur á síðustu dögum, til að dvelja í réttlæti á jörðunni í þúsund ár“ (HDP Móse 7:47, 55–56, 59, 65).

Um 75 árum fyrir fæðingu Krists vitnaði Amúlek: „Sjá, ég segi ykkur, að ég veit, að Kristur mun koma meðal mannanna barna til að taka á sig lögmálsbrot fólks síns, og hann mun friðþægja fyrir syndir heimsins, því að Drottinn Guð hefur sagt það“ (Alma 34:8).

Jesús bjó yfir sérstökum eiginleikum

Ljósmynd
Mary at the tomb

HVAR HAFA ÞEIR LAGT HANN?, eftir J. Kirk Richards

Jesús Kristur var sá eini sem gat framkvæmt friðþæginguna – þar sem hann var fæddur af jarðneskri móður og hafði mátt lífsins frá föður sínum (sjá Jóh 5:26). Sökum þess að hann hafði mátt lífsins, þá sigraði hann dauðann, gerði mátt grafarinnar að engu og varð frelsari okkar og málsvari og meistari upprisunnar – dyrnar að sáluhjálp og ódauðleika fyrir okkur öll. Við verðum öll reist upp og gerð ódauðleg sökum friðþægingar Jesú Krists.

Jesús var fús til að friðþægja fyrir erfðasyndina

Í öðru trúaratriðinu segir: „Vér trúum, að mönnum verði refsað fyrir eigin syndir, en ekki fyrir brot Adams.“

Við völdum að iðka trú með því að nota sjálfræði okkar. Við getum iðrast af kostgæfni, en án friðþægingarinnar væri það ekki mögulegt.

Í HDP Mósebók er okkur kennt: „Þess vegna breiddist sú sögn út á meðal fólksins, að sonur Guðs hefði friðþægt fyrir erfðasyndina, og því geta syndir foreldranna ekki komið yfir börnin, því að þau eru hrein frá grundvöllun veraldar“ (HDP Móse 6:54).

Í 2. Nefí er að finna undursamlega kennslu:

„Því að þegar dauðinn hefur orðið hlutskipti allra manna til að uppfylla hina miskunnsömu áætlun skaparans mikla, hlýtur og verður máttur til upprisu að vera til, og upprisan hlýtur að koma til mannsins vegna fallsins, en fallið kom vegna lögmálsbrots, og vegna þess að maðurinn varð fallinn, útilokaðist hann úr návist Drottins.

Þess vegna hlýtur algjör friðþæging að vera til – ef ekki væri til algjör friðþæging, gæti þessi forgengileiki ekki íklæðst óforgengileika. Fyrsti dómurinn, sem kveðinn var upp yfir manninum, hlyti þess vegna að hafa haft óendanlegt gildi. Og ef svo er, hlyti þetta hold að leggjast niður í móður jörð til að rotna og molna þar og rísa ekki upp aftur“ (2 Ne 9:6–7).

Jesús var eini fullkomni maðurinn

Í Kenningu og sáttmálum segir frelsarinn: „Faðir, sjá þjáningar og dauða hans, sem enga synd drýgði, og þú hafðir velþóknun á. Sjá blóð sonar þíns, sem úthellt var, blóð hans, sem þú gafst, svo að þú mættir sjálfur dýrðlegur verða“ (K&S 45:4).

Jesús var eini maðurinn sem var fullkominn, án syndar. Fórn í Gamla testamentinu var blóðfórn – með tilvísun í fórn Drottins okkar og frelsara á krossinum, til að gera friðþægingarfórnina að veruleika. Þegar blóðfórnir voru færðar í fornum musterum, þá fórnuðu prestar flekklausu lambi, sem í alla staði var fullkomið. Í ritningunum er frelsarinn oft sagður vera „Guðs lamb,“ sökum flekkleysis hans (sjá t.d. Jóh 1:29, 36; 1 Ne 12:6; 14:10; K&S 88:106).

Pétur úrskýrði að við værum endurleyst „með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs“ (1 Pét 1:19).

Jesús afmáði syndir heimsins

Eftirfarandi vers útskýra glögglega að frelsarinn greiddi gjaldið fyrir syndir okkar með friðþægingu sinni.

„Vér fórum allir villir vegar sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörðir vor allra koma niður á honum“ (Mósía 14:6).

„En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. …

Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.

Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir. …

Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu“ (Róm 5:8, 10–11, 19).

„Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora“ (Matt 8:17).

„En Guð hættir ekki að vera Guð, og miskunnsemin krefst hins iðrandi, og miskunnsemin kemur með friðþægingunni, og friðþægingin gjörir upprisu dauðra að veruleika. Og upprisa dauðra leiðir menn aftur í návist Guðs. Og á þennan hátt eru þeir endurreistir til návistar hans til að verða dæmdir af verkum sínum, samkvæmt lögmálinu og réttvísinni.

Og þannig gjörir Guð að veruleika hin miklu og eilífu áform sín, sem fyrirbúin voru frá grundvöllun veraldar. Og þannig kemur sáluhjálp og endurlausn mannanna fram, en einnig tortíming þeirra og vansæld“ (Alma 42:23, 26).

Jesús stóðst allt til enda

Ljósmynd
Christ on the cross

Dimmur dagur á Golgata, eftir J. Kirk Richards

Jesús Kristur þoldi, þrautir og þjáningar og fórnir og raunir Getsemane og angist krossins á Golgata. Allt þar til hann gat sagt: „Það er fullkomnað“ (Jóh 19:30). Hann hafði fullkomnað verk sitt í jarðlífinu og staðist allt til enda og þannig gert friðþæginguna að veruleika.

Í garðinum sagði hann: „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“ (Matt 26:39).

Í Kenningu og sáttmálum er okkur kennt:

„Þjáning [mín] varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaðí ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar–

Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og ég tæmdi hann og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn” (K&S 19:18–19).

Jesús sagði við föður sinn: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna“ (Jóh 17:4).

Á krossinum, „þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann“ (Jóh 19:30).

Jesús kom til jarðar og varðveitti guðleika sinn, svo hann gæti framkvæmt friðþæginguna og staðist allt til enda.

Hafa hann í huga með sakramentinu

Á okkar tíma minnumst við friðþægingar frelsarans með brauði og vatni – sem eru tákn um líkama hans og blóð – og innleitt var í þeim tilgangi við Síðustu kvöldmáltíð Drottins með postulum sínum.

„Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.

Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt“ (Lúk 22:19–20).

Í Jóhannesarguðspjalli 11:25–26 lesum við:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“

Við lesum líka: „Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs“ (Jóh 6:51).

Orðin „heiminum til lífs“ merkja eilíft líf.

Við þurfum að undirbúa okkur sjálf og fjölskyldu okkar í hverri viku til að meðtaka sakramentið verðuglega og endurnýja sáttmála okkar af iðrandi hjarta.

Faðirinn og sonurinn elska okkur

Ljósmynd
Resurrected Christ

Efast ekki, Tómas, eftir J. Kirk Richards

Faðirinn sendi son sinn til jarðar – lítillækkun Guðs – og leyfði að hann yrði krossfestur og þyldi allt sem yfir hann kæmi. Í Jóhannesarguðspjalli lesum við:

„Jesús segir … ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann“ (Jóh 14:6–7).

„Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar“ (1 Jóh 4:10).

Friðþæging merkir sáttargjörð eða sáttargjald.

Lokaorð

Allir sem til jarðar koma og hljóta dauðlegan líkama, munu reistir upp, en við verðum að verðskulda með eigin verkum blessanir upphafningar, fyrir trúfesti okkar, sjálfræði, hlýðni og iðrun. Miskunn verður útdeilt af réttvísi, að skilyrðum iðrunar.

Við höfum tekið á okkur nafn Jesú Krists í skírninni og einsett okkur að fylgja honum sem frelsara okkar. Við tökum á okkur lögmál hlýðni. Við lofum að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Við endurnýjum sáttmála okkar er við meðtökum sakramentið.

Okkur er lofað að andi hans verði ætíð með okkur, ef við endurnýjum sáttmála okkar. Ef við leyfum að andi hans verði með okkur og leiði okkur í lífinu, þá getum við komist aftur í návist himnesks föður og sonar hans, Jesú Krists, sem er sæluáætlun þeirra fyrir okkur – sáluhjálparáætlunin.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 49.

Prenta