Frá Síðari daga heilögum
Ekki spila þetta lag
Fyrir nokkru bjuggu ég og fjölskylda mín í Veracruz, Mexíkó, þar sem börnin mín sóttu grunnskóla. Á hverjum morgni, er ég hjálpaði börnunum mínum þremur að taka sig til fyrir skólann, hlustuðum við á útvarpið – vinsælustu stöðina í borginni – á skemmtilegan dagskrárlið, sem ungur maður var stjórnandi að.
Við fórum að taka eftir mjög grípandi lagi. Þegar ég lagði eyrun betur við texta lagsins, varð mér ljóst að hann var grófur og tvíræður, en þó ekki beinlínis dónalegur.
Ég sagði ákveðin við börnin: „Við getum ekki hlustað á slíkt orðbragð.“ Þau hafa kannski ekki einbeitt sér að texta lagsins, en höfðu þó næga athygli til að raula með.
Þau sáu mig lækka niður í viðtækinu og spurðu hvað ég væri að gera. „Ég ætla að biðja stjórnanda þáttarins að taka lagið af dagskrá.“ Undrun þeirra fékk mig til að ganga skrefið til fulls.
Þau trúðu því ekki og varla ég sjálf, en ég tók upp símann og hringdi í útvarpsstöðina. Ég átti ekki von á því að mér yrði svarað, en mér til undrunar þá var svarað næstum samtímis og heyrði ég sömu röddina og ég hafði heyrt í þættinum.
Ég sagði honum að ég væri ekki sátt við þetta lag, því margar fjölskyldur væru að hlusta á þáttinn á sama tíma. Hann spurði hvaða lag ég leggði til að kæmi í stað hins og hann var svo prúðmannlegur í framkomu að ég bað þess einungis að laginu yrði ekki útvarpað þegar börnin væru heima.
Ég komst aldrei að því hvort símtalinu hefði verið útvarpað, en var þakklát fyrir að þáttarstjórnandinn hafði hlustað á mig. Næstu daga tók ég eftir því að mér hafði orðið að beiðni minni.
Þetta atvik staðfesti fyrir mér að við þurfum að sýna hugrekki þegar við getum látið að okkur kveða og gert það sem nauðsynlegt er til að vernda börnin okkar frá neikvæðum áhrifum. Ef við gerum það, getur heilagur andi verið okkur stöðugur förunautur.