Síðurnar okkar
Guð sér okkur fyrir verkfærum
Frændi minn er listamaður sem býr til lítil tréskip og setur þau í glerflöskur. Það er mjög tímafrekt að búa þau til og krefst mikillar einbeitingar.
Dag einn virti ég fyrir mér öll verkfærin hans og varð ljóst að hvert þeirra gegndi ákveðnu hlutverki í smíði skipanna. Þegar ég fylgdist með honum við smíðina, þá undraðist ég færni hans við að nota verkfærin til að búa til þessi litlu skip. Sagan um skipsmíði Nefís rifjaðist upp fyrir mér (sjá 1 Ne 17–18). Hann byggði það að fyrirmælum Drottins, en ekki manna. Guð sér okkur fyrir verkfærum til eigin skipasmíðar, að hans hætti. Ritningarnar, trú og elska til Guðs eru verkfæri sem ég þarf að nota til að smíða mitt eigið lífsins skip, svo það standist storm og sjó. Ég læri dag hvern að verða betri lærisveinn Drottins.
María Mercedes G., Monagas, Venesúela
Einmanaleiki
Það var á köldu vori í Danmörku. Ég hafði nýlega hafið trúboðið mitt og átti ekki nægilega sterkan vitnisburð. Ég var aðeins 19 mánaða trúskiptingur og var afskaplega óframfærinn í ókunnugu landi, átti í erfiðleikum með tungumálið og rataði ekki um götur borgarinnar. Bænir mínar, sem áður höfðu verið litaðar af þakklæti, urðu að sárum ásökunum: „Guð, afhverju hefur þú yfirgefið mig?“
Morgun einn ákallaði ég hann í bæn. Í stað þess að segja „afhverju“ af særðu hjarta, þá bað ég um vitnisburð um sannleika fagnaðarerindisins og að efi minn mætti hverfa.
Þegar ég hafði beðið, lauk ég upp ritningunum. Ég lenti á 5. Mósebók 31:6: „Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“
Hjarta mitt fylltist gleði er mér varð ljós bænheyrslan. Guð hafði alltaf verið með mér. Hann hafði einungis beðið eftir einlægri bæn í stað stöðugra ásakana um að hann hefði yfirgefið mig.
Guð mun aldrei yfirgefa mig, jafnvel þótt allt kunni að virðst vonlaust. Við getum upplifað sólargeisla hans fyrir tilstilli bænar og ritninga hans.
Clayton E., Texas, Bandaríkjunum