Ritningar
Kenning og sáttmálar 132


132. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Nauvoo, Illinois, skráð 12. júlí 1843, og fjallar um hinn nýja og ævarandi sáttmála, og einnig eilíft gildi hjónabandssáttmálans, sem og reglu fjölkvænis. Þó að opinberunin væri skráð á árinu 1843, eru vísbendingar um að sumar af reglum í þessari opinberun hafi verið kunnar spámanninum allt frá árinu 1831. Sjá Opinber yfirlýsing 1.

1–6, Upphafning fæst fyrir hinn nýja og ævarandi sáttmála; 7–14, Atriði og skilmálar þessa sáttmála tilgreind; 15–20, Himneskt hjónaband og áframhald fjölskyldueiningar gerir mönnum kleift að verða guðir; 21–25, Hinn krappi og þröngi vegur liggur til eilífra lífa; 26–27, Lögmál gefið varðandi guðníðslu gegn heilögum anda; 28–39, Fyrirheit um eilífa aukningu og upphafningu eru gefin spámönnum og heilögum á öllum öldum; 40–47, Joseph Smith er veitt vald til að binda og innsigla á jörðu og á himni; 48–50, Drottinn innsiglar honum upphafningu hans; 51–57, Emmu Smith er ráðlagt að vera trú og staðföst; 58–66, Lögmál varðandi fjölkvæni gefin.

1 Sannlega, svo segir Drottinn við þig þjón minn Joseph, þar eð þú hefur beðið um að fá að vita og skilja hvernig ég, Drottinn, réttlætti þjóna mína Abraham, Ísak og Jakob, sem og þjóna mína Móse, Davíð og Salómon, með tilliti til þeirrar reglu og kenningar, að þeir höfðu margar eiginkonur og hjákonur —

2 Sjá og tak eftir, ég er Drottinn Guð þinn og mun svara þér í þessu máli.

3 hjarta þitt þess vegna undir að meðtaka og hlýða þeim leiðbeiningum, sem ég er í þann veg að gefa þér, því að allir þeir, sem fá þetta lögmál sér opinberað, verða að hlýða því.

4 Því að sjá, ég opinbera þér nýjan og ævarandi sáttmála, og haldir þú ekki þann sáttmála, ert þú fordæmdur. Því að enginn, sem hafnar þessum sáttmála, fær leyfi til að ganga inn í dýrð mína.

5 Því að allir þeir sem æskja blessunar af minni hendi skulu halda það lögmál, sem sú blessun er bundin, ásamt skilyrðum þess, eins og ákveðið var áður en heimurinn var grundvallaður.

6 Og hvað hinn nýja og ævarandi sáttmála varðar, var hann ákveðinn til fyllingar dýrð minni, og sá sem meðtekur fyllingu hans verður og skal halda það lögmál, ella sé hann dæmdur, segir Drottinn Guð.

7 Og sannlega segi ég yður, að skilyrði þessa lögmáls eru sem hér segir: Allir sáttmálar, samningar, bönd, skyldur, eiðar, heit, framkvæmdir, sambönd, tengsl eða vonir, sem ekki eru gjörð, stofnað til og innsigluð, bæði um tíma og alla eilífð, einnig á helgasta hátt, með heilögum anda fyrirheitsins, af þeim sem smurður er, með opinberun og boðorðum fyrir meðalgöngu míns smurða, sem ég hef útnefnt á jörðu til að hafa þetta vald (og ég hef útnefnt þjón minn Joseph til að hafa þetta vald á síðustu dögum, og á jörðu er aldrei nema einn á hverjum tíma, sem fengið hefur þetta vald, svo og lykla þessa prestdæmis) — allt þetta hefur ekkert gildi, áhrif eða afl í upprisunni frá dauðum eða eftir hana, því að öllum samningum, sem ekki eru gjörðir í þessum tilgangi, lýkur við dauða mannanna.

8 Sjá, hús mitt er hús reglu, segir Drottinn Guð, en ekki hús glundroða.

9 Mun ég taka á móti fórn, segir Drottinn, sem ekki er færð í mínu nafni?

10 Eða mun ég taka við úr yðar hendi, því sem ég hef ekki útnefnt?

11 Og mun ég útnefna yður nokkuð, segir Drottinn, sem ekki er eftir lögmáli, já, eins og ég og faðir minn vígði yður til handa, áður en heimurinn varð?

12 Ég er Drottinn Guð yðar, og ég gef yður þetta boðorð — að enginn komi til föðurins nema fyrir mig eða mitt orð, sem er lögmál mitt, segir Drottinn.

13 Og allt, sem í heiminum er, hvort sem það er vígt af mönnum, hásætum, hátignum eða valdi eða öðru sem nefna mætti, sem ekki er af mér eða eftir mínu orði, segir Drottinn, skal rifið niður og ekki standa eftir dauða mannanna, hvorki í upprisunni né eftir hana, segir Drottinn Guð yðar.

14 Því að allt sem varir er af mér, en allt sem ekki er af mér mun skjálfa og tortímast.

15 Ef maðurinn þess vegna kvænist í heiminum og hann kvænist henni hvorki af mér né eftir mínu orði, og hann gjörir sáttmála við hana og hún við hann, sem gildir svo lengi sem hann er í heiminum, er sáttmáli þeirra og hjónaband ekki í gildi, þegar þau eru látin og farin úr heiminum, og eru þau þess vegna ekki bundin neinu lögmáli, þegar þau eru farin úr heiminum.

16 Þegar þau eru því farin úr heiminum, kvænast þau hvorki né giftast, heldur eru þau útnefnd englar á himni, en þeir englar eru þjónustuenglar, til þjónustu þeim, sem verðugir eru dýrðar í enn ríkari og eilífari mæli.

17 Því að þessir englar fóru ekki eftir lögmáli mínu og geta þess vegna ekki bætt við sig, heldur verða aðskildir og einhleypir, án upphafningar, í sínu frelsaða ásigkomulagi, um alla eilífð, og verða þaðan í frá ekki guðir, heldur englar Guðs um alla eilífð.

18 Og sannlega segi ég yður enn fremur, að giftist maður konu og gjöri við hana sáttmála um tíma og alla eilífð, að sé sá sáttmáli hvorki af mér né eftir orði mínu, sem er lögmál mitt, og ekki innsiglaður með heilögum anda fyrirheitsins, af þeim sem ég hef smurt og útnefnt þetta vald, þá er hann hvorki gildur né bindandi, þegar þau eru farin úr heiminum, vegna þess að þau eru hvorki bundin af mér, segir Drottinn, né orði mínu. Þegar þau eru farin úr heiminum er ekki hægt að taka á móti honum, vegna þess að englarnir og guðirnir eru útnefndir þar, og fram hjá þeim geta þau ekki gengið. Þau geta þess vegna ekki erft dýrð mína, því að hús mitt er hús reglu, segir Drottinn Guð.

19 Og sannlega segi ég yður enn fremur, að kvænist maður eftir mínu orði, sem er lögmál mitt, og eftir hinum nýja og ævarandi sáttmála, og hann er innsiglaður þeim með heilögum anda fyrirheitsins, af þeim sem smurður er, þeim sem ég hef falið þetta vald og lykla þessa prestdæmis, og við þau verður sagt: Þér skuluð koma fram í fyrstu upprisunni, og verði það eftir fyrstu upprisuna, þá í næstu upprisu, og skuluð erfa hásæti, ríki, hátignir og völd, yfirráð, alla hæð og dýpt — þá skal það skráð í lífsbók lambsins, að hann skuli ekki morð fremja, þar sem saklausu blóði er úthellt, og ef þér haldið sáttmála minn og fremjið ekki morð, þar sem saklausu blóði er úthellt, þá skal við þau breytt í öllu eins og þjónn minn hefur veitt þeim, um tíma og um alla eilífð, og skal í fullu gildi, þegar þau eru farin úr heiminum. Og þau munu komast fram hjá englum og guðum, sem þar eru settir, til upphafningar sinnar og dýrðar í öllu, eins og innsiglað hefur verið á höfuð þeim, og sú dýrð skal vera fylling og áframhald niðjanna alltaf og að eilífu.

20 Þá verða þau guðir, vegna þess að þau eiga sér engan endi. Þess vegna verða þau frá eilífð til eilífðar, vegna þess að þau halda áfram. Þá verða þau ofar öllu, vegna þess að allt er þeim undirgefið. Þá verða þau guðir, vegna þess að þau hafa allt vald, og englarnir verða þeim undirgefnir.

21 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér haldið ekki lögmál mitt, getið þér ekki öðlast þessa dýrð.

22 Því að þröngt er hliðið og mjór er vegurinn, sem liggur að upphafningu og áframhaldandi lífum, og fáir eru þeir, sem finna hann, vegna þess að þér takið ekki á móti mér í heiminum, né heldur þekkið þér mig.

23 En ef þér takið á móti mér í heiminum, munuð þér þekkja mig og hljóta upphafningu yðar, að þar sem ég er, þar skuluð þér og vera.

24 Þetta er hin eilífu líf — að þekkja hinn eina, vitra og sanna Guð, og Jesú Krist, sem hann hefur sent. Ég er hann. Tak þess vegna á móti lögmáli mínu.

25 Vítt er hliðið og breiður vegurinn, sem liggur til dauða, og margir eru þeir, sem inn um það ganga, vegna þess að þeir taka ekki á móti mér og fara ekki eftir lögmáli mínu.

26 Sannlega, sannlega segi ég yður, að ef maður kvænist samkvæmt orði mínu, og þau eru innsigluð með heilögum anda fyrirheitsins, samkvæmt útnefningu minni, og hann eða hún drýgir einhverja synd eða brot gegn hinum nýja og ævarandi sáttmála á einhvern hátt, og alls kyns guðlast, en fremja ekki morð þar sem saklausu blóði er úthellt, munu þau samt koma fram í hinni fyrstu upprisu og ganga inn til upphafningar sinnar. En þau skulu tortímast í holdinu og verða ofurseld hirtingu Satans fram að degi endurlausnarinnar, segir Drottinn Guð.

27 Guðníðsla gegn heilögum anda, sem hvorki verður fyrirgefin í heiminum né utan hans, er það, að þér fremjið morð þar sem þér úthellið saklausu blóði og samþykkið dauða minn, eftir að þér hafið meðtekið hinn nýja og ævarandi sáttmála minn, segir Drottinn Guð. Og sá, sem ekki hlítir þessu lögmáli, getur engan veginn gengið inn í dýrð mína, heldur skal fordæmdur verða, segir Drottinn.

28 Ég er Drottinn Guð yðar, og mun gefa yður lögmál míns heilaga prestdæmis, eins og faðirinn og ég vígðum það, áður en heimurinn varð.

29 Allt sem Abraham meðtók, meðtók hann með opinberun og boði, með mínu orði, segir Drottinn, og hann hefur gengið inn til upphafningar sinnar og situr í hásæti sínu.

30 Abraham fékk fyrirheit varðandi niðja sína og ávöxt lenda sinna — þeirra lenda sem þú, já, þjónn minn Joseph, ert af kominn — sem haldast skyldu svo lengi sem þeir væru í heiminum. Og hvað varðar Abraham og hans niðja, þá skyldu þeir haldast utan heimsins, bæði í heiminum og utan heimsins skyldu þeir haldast, jafn óteljandi og störnurnar, og ekki gætir þú fremur talið þá en sandkornin á ströndinni.

31 Þetta fyrirheit er einnig yðar vegna þess að þér eruð af Abraham komin og fyrirheitið var gefið Abraham. Og með þessu lögmáli heldur verk föður míns áfram og með því gjörir hann sig dýrðlegan.

32 Farið því og vinnið verk Abrahams, gangið undir lögmál mitt og þér skuluð hólpin verða.

33 En gangist þér ekki undir lögmál mitt, getið þér ekki hlotið fyrirheit föður míns, sem hann gaf Abraham.

34 Guð bauð Abraham, og Sara gaf Abraham Hagar fyrir konu. Og hvers vegna gjörði hún það? Vegna þess að þetta var lögmálið, og af Hagar eru margir komnir. Þetta var þess vegna meðal annars uppfylling fyrirheitanna.

35 Var Abraham þannig undir fordæmingu? Sannlega segi ég þér, nei, því að ég, Drottinn, bauð það.

36 Abraham var boðið að fórna syni sínum Ísak. Engu að síður var ritað: Þú skalt ekki morð fremja. Abraham neitaði samt sem áður ekki, og það var talið honum til réttlætis.

37 Abraham tók sér hjákonur og þær ólu honum börn, og það var talið honum til réttlætis, vegna þess að honum voru gefnar þær og hann hélt lögmál mitt. Og Ísak og Jakob gjörðu ekkert utan það, sem þeim var boðið að gjöra, og vegna þess að þeir gjörðu ekkert annað en þeim var boðið, hafa þeir gengið inn til upphafningar sinnar, samkvæmt fyrirheitunum, og sitja í hásætum, og eru ekki englar heldur guðir.

38 Davíð tók sér einnig margar eiginkonur og hjákonur og einnig Salómon og Móse þjónar mínir, sem og margir aðrir þjóna minna, allt frá upphafi sköpunarinnar til þessa tíma, og í engu syndguðu þeir nema í því, sem þeir meðtóku ekki frá mér.

39 Eiginkonur og hjákonur Davíðs gaf ég honum með hendi Natans þjóns míns, og annarra spámanna, sem höfðu lykla þessa valds. Og í engu af þessu syndgaði hann gegn mér nema í máli Úría og eiginkonu hans, og þess vegna hefur hann fallið frá upphafningu sinni og hlotið sinn hlut, og hann mun ekki erfa hann utan heimsins, því að ég hef gefið hann öðrum, segir Drottinn.

40 Ég er Drottinn Guð þinn og ég gaf þér, þjónn minn Joseph, útnefningu, og endurreisi alla hluti. Bið hvers sem þú æskir, og það skal veitast þér samkvæmt orði mínu.

41 Og þar sem þú hefur spurst fyrir um hórdóm, segi ég þér sannlega, sannlega, að ef maður tekur sér konu í hinum nýja og ævarandi sáttmála, og ef hún er með öðrum manni, sem ég hef ekki útnefnt henni með heilagri smurningu, hefur hún drýgt hór og henni mun tortímt.

42 Sé hún ekki í hinum nýja og ævarandi sáttmála, og sé með öðrum manni, hefur hún drýgt hór.

43 Og sé eiginmaður hennar með annarri konu, og hann er undir eiði, hefur hann rofið eið sinn og drýgt hór.

44 Og hafi hún ekki drýgt hór, heldur er saklaus og hefur ekki rofið eið sinn, og hún veit það, og ég opinbera þér það, þjónn minn Joseph, þá hefur þú í krafti míns heilaga prestdæmis vald til að gefa hana þeim, sem ekki hefur drýgt hór, heldur verið trúr. Því að hann skal settur yfir marga.

45 Því að ég hef afhent þér lykla og vald prestdæmisins, og með því endurreisi ég alla hluti og kunngjöri þér allt á sínum tíma.

46 Og sannlega, sannlega segi ég þér, að hvað sem þú innsiglar á jörðu mun innsiglað verða á himni, og hvað sem þú bindur á jörðu í mínu nafni og eftir mínu orði, segir Drottinn, mun eilíflega bundið á himnum, og allar þær syndir, sem þú fyrirgefur á jörðu, munu eilíflega fyrirgefnar á himnum, og allar þær syndir, sem þú geymir á jörðu, munu geymdar á himni.

47 Og sannlega segi ég þér enn fremur, að hvern sem þú blessar mun ég blessa, og hverjum sem þú bölvar mun ég bölva, segir Drottinn, því að ég, Drottinn, er Guð þinn.

48 Og sannlega segi ég þér enn fremur, þjónn minn Joseph, að hvað sem þú gefur á jörðu, og hverjum sem þú gefur einhvern á jörðu, eftir orði mínu og samkvæmt lögmáli mínu, því mun fylgja kraftur minn og blessanir, en ekki bölvun, segir Drottinn, og það mun verða án fordæmingar á jörðu og á himni.

49 Því að ég er Drottinn Guð þinn og mun vera með þér, já, allt til enda veraldar og um alla eilífð. Því að sannlega innsigla ég þér upphafningu þína og fyrirbý þér hásæti í ríki föður míns, hjá Abraham föður þínum.

50 Sjá, ég hef séð fórnir þínar og mun fyrirgefa þér allar syndir þínar. Ég hef séð fórnir þínar í hlýðni þinni við það, sem ég hef sagt þér. Far þess vegna, og ég mun finna þér undankomuleið, eins og ég tók á móti fórn Abrahams á syni hans Ísak.

51 Sannlega segi ég þér: Fyrirmæli gef ég þernu minni, Emmu Smith, eiginkonu þinni, sem ég hef gefið þér, að hún láti kyrrt liggja og taki ekki þátt í því, sem ég bauð þér að leggja fyrir hana, því að ég gjörði það, segir Drottinn, til að reyna ykkur öll, eins og ég gjörði við Abraham, svo að ég gæti krafist gjafa af þinni hendi, með sáttmála og fórnum.

52 Og lát þernu mína, Emmu Smith, taka á móti öllum þeim, sem gefnar hafa verið þjóni mínum Joseph, og eru dyggðugar og hreinar í augum mínum, og þeim, sem ekki eru hreinar en hafa sagst vera það, mun tortímt, segir Drottinn Guð.

53 Því að ég er Drottinn Guð þinn, og þú skalt hlýða rödd minni, og þjóni mínum Joseph gef ég að verða yfir mikið settur, því að hann hefur verið trúr yfir litlu, og héðan í frá mun ég styrkja hann.

54 Og ég býð þernu minni, Emmu Smith, að hlýða þjóni mínum Joseph og halda sér fast að honum og engum öðrum. En vilji hún ekki hlýða þessu boði, mun henni tortímt, segir Drottinn, því að ég er Drottinn Guð þinn og mun tortíma henni, ef hún hlýðir ekki lögmáli mínu.

55 En vilji hún ekki hlýða þessu boði, skal þjónn minn Joseph gjöra allt fyrir hana, já, sem hann hefur sagt. Og ég mun blessa hann og margfalda og gefa honum hundraðfalt í þessum heimi, af feðrum og mæðrum, bræðrum og systrum, húsum og landi, eiginkonum og börnum, og kórónum eilífra lífa í hinum eilífu heimum.

56 Og sannlega segi ég enn: Þerna mín fyrirgefi þjóni mínum Joseph brot hans, og þá munu henni fyrirgefin brot hennar, þau sem hún hefur brotið gegn mér, og ég, Drottinn Guð þinn, mun blessa hana og margfalda og láta hjarta hennar fagna.

57 Og ég segi enn fremur: Þjónn minn Joseph skal ekki láta eigur sínar af hendi; svo að óvinur komi ekki og tortími honum, því að Satan leitast við að tortíma; því að ég er Drottinn Guð þinn, og hann er þjónn minn. Og sjá og tak eftir, ég er með honum, eins og ég var með Abraham föður þínum, allt til upphafningar hans og dýrðar.

58 Nú, varðandi lögmál prestdæmisins, þá er margt sem því tilheyrir.

59 Sannlega, sé maður kallaður af föður mínum, eins og Aron, með minni eigin rödd og með rödd hans, sem sendi mig, og ég hef veitt honum lyklana að valdi þessa prestdæmis, og gjöri hann alla hluti í mínu nafni og samkvæmt lögmáli mínu og eftir orði mínu, mun hann ekki drýgja synd, og ég mun réttlæta hann.

60 Enginn maður skal þess vegna ásaka þjón minn Joseph, því að ég mun réttlæta hann. Því að hann skal færa þá fórn, sem ég krefst af honum fyrir brot hans, segir Drottinn Guð yðar.

61 Og enn fremur varðandi lögmál prestdæmisins — ef einhver maður giftist hreinni mey og þráir að giftast annarri, og hin fyrsta veitir samþykki sitt og hann kvænist hinni síðari, og þær eru hreinar meyjar og hafa ekki bundist neinum öðrum manni, þá er hann réttlættur. Hann getur ekki drýgt hór, því að þær eru honum gefnar. Hann getur ekki drýgt hór með því, sem tilheyrir honum og engum öðrum.

62 Og séu honum gefnar tíu meyjar eftir þessu lögmáli, getur hann ekki drýgt hór, því að þær tilheyra honum og þær eru honum gefnar. Þess vegna er hann réttlættur.

63 En verði ein eða einhver hinna tíu meyja með öðrum manni eftir að hún er gift, hefur hún drýgt hór og henni mun tortímt, því að þær eru gefnar honum til að margfalda og uppfylla jörðina, samkvæmt mínu boðorði, og til að uppfylla fyrirheitið, sem faðir minn gaf áður en grundvöllur heimsins var lagður, og þeim til upphafningar í hinum eilífu heimum, svo að þær geti fætt mannssálirnar, því að með því heldur verk föður míns áfram, svo að hann megi dýrðlegur verða.

64 Og sannlega, sannlega segi ég yður enn fremur, að ef maður, sem hefur lykla þessa valds, og á sér eiginkonu og kennir henni lögmál prestdæmis míns varðandi þessa hluti, þá skal hún trúa og veita honum þjónustu, ella mun henni tortímt, segir Drottinn Guð þinn, því að ég mun tortíma henni. Því að ég mun vegsama nafn mitt á öllum þeim, sem meðtaka lögmál mitt og hlýða því.

65 Ef hún þess vegna meðtekur ekki þetta lögmál, skal það vera mér lögmætt, að hann taki á móti öllu því, sem ég, Drottinn Guð hans, mun gefa honum, vegna þess að hún trúði ekki og veitti honum ekki þjónustu samkvæmt orði mínu, og verður hún þá brotleg, en hann undanþeginn lögmáli Söru, sem þjónaði Abraham samkvæmt lögmálinu, þegar ég bauð Abraham að taka sér Hagar fyrir konu.

66 Og sannlega, sannlega segi ég þér nú varðandi þetta lögmál, ég mun opinbera þér fleira síðar. Lát þetta því nægja í bili. Sjá, ég er Alfa og Ómega. Amen.