Ritningar
Kenning og sáttmálar 50


50. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, í maí 1831. Í sögu Josephs Smith segir, að nokkrir öldunganna hafi ekki skilið hvernig ýmsir andar birtast, sem á jörðunni eru, og að þessi opinberun hafi verið gefin sem svar við sérstakri fyrirspurn hans um málið. Svokölluð andleg fyrirbæri voru ekki óalgeng meðal meðlimanna, sumir staðhæfðu, að þeir sæju sýnir og fengju opinberanir.

1–5, Margir falskir andar eru á jörðunni; 6–9, Vei sé hræsnurum og þeim, sem útilokaðir eru frá kirkjunni; 10–14, Öldungar eiga að boða fagnaðarerindið með andanum; 15–22, Andinn þarf að upplýsa bæði prédikara og áheyrendur; 23–25, Það sem ekki uppbyggir er ekki af Guði; 26–28, Hinir staðföstu eru eigendur alls; 29–36, Bænum hinna hreinsuðu er svarað; 37–46, Kristur er góði hirðirinn og klettur Ísraels.

1 Hlýðið á, ó, þér öldungar kirkju minnar og ljáið eyra röddu lifanda Guðs, og gefið gaum að vísdómsorðum sem yður munu gefin, í samræmi við fyrirspurn yðar og einhug varðandi kirkjuna og anda þá, sem hafa farið um heiminn.

2 Sjá, sannlega segi ég yður, að til eru margir andar, sem eru falskir andar, sem farið hafa um jörðina og blekkja heiminn.

3 Og Satan hefur einnig leitast við að véla yður, svo að hann geti yfirbugað yður.

4 Sjá, ég Drottinn, hef virt yður fyrir mér og séð viðurstyggð í þeirri kirkju, sem játar nafn mitt.

5 En blessaðir eru þeir, sem trúir eru og standa stöðugir, hvort heldur er í lífi eða dauða, því að þeir munu erfa eilíft líf.

6 En vei þeim, sem eru svikarar og hræsnarar, því að þá, segir Drottinn, mun ég leiða fyrir dóm.

7 Sjá, sannlega segi ég yður, að hræsnarar eru meðal yðar, sem blekkt hafa suma og þannig gefið andstæðingnum vald. En sjá, slíkir skulu endurheimtir —

8 En hræsnararnir skulu afhjúpaðir og útilokaðir, annaðhvort í lífi eða dauða, já, að mínum vilja. Og vei sé þeim, sem útilokaðir eru frá kirkju minni, því að þeir eru ofurseldir heiminum.

9 Sérhver maður skal þess vegna gæta sín, svo að hann gjöri aðeins það, sem er sannleikur og réttlæti fyrir mér.

10 Og komið nú, segir Drottinn, með andanum, við öldunga kirkju sinnar, og ræðumst við, svo að þér megið skilja —

11 Ræðumst við eins og maður ræðir við mann, augliti til auglitis.

12 Þegar maðurinn rökræðir, skilja mennirnir hann, vegna þess að hann talar eins og maður, og þannig mun einnig ég, Drottinn, rökræða við yður, svo að þér megið skilja.

13 Þess vegna spyr ég, Drottinn, yður þessarar spurningar: Til hvers voruð þér vígðir?

14 Til að boða fagnaðarerindi mitt með andanum, já, huggaranum, sem sendur var til að kenna sannleikann.

15 Og síðan veittuð þér viðtöku öndum, sem þér gátuð eigi skilið, og meðtókuð þá sem væru þeir frá Guði. Er það réttlætanlegt?

16 Sjá, þér skuluð svara þeirri spurningu sjálfir. Engu að síður mun ég vera yður miskunnsamur. Sá sem er veikur yðar á meðal skal síðan gjörður styrkur.

17 Sannlega segi ég yður, sá sem ég hef vígt og sent til að prédika orð sannleikans með huggaranum, í anda sannleika, prédikar hann það með anda sannleikans eða á einhvern annan hátt?

18 Og sé það á einhvern annan hátt, er það ekki frá Guði.

19 Og enn fremur, sá er meðtekur orð sannleikans, meðtekur hann það fyrir anda sannleikans eða á einhvern annan hátt?

20 Sé það á einhvern annan hátt, er það ekki frá Guði.

21 Hvers vegna skiljið þér þá ekki og vitið, að sá sem meðtekur orðið með anda sannleikans, meðtekur það eins og andi sannleikans flytur það?

22 Þess vegna skilja hvor annan, sá sem prédikar og sá sem meðtekur, og báðir uppbyggjast og fagna saman.

23 Og það, sem ekki byggir upp, er ekki frá Guði, og er myrkur.

24 Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.

25 Og sannlega segi ég yður enn, og ég segi það svo að þér megið þekkja sannleikann og getið rekið myrkrið frá yður:

26 Sá, sem Guð hefur vígt og sent út, hann er útnefndur til að vera mestur, enda þótt hann sé sístur og þjónn allra.

27 Hann er þar af leiðandi eigandi alls, því að allt er honum undirgefið, bæði á himni og á jörðu, lífið og ljósið, andinn og krafturinn, sem sendur er að vilja föðurins með syni hans Jesú Kristi.

28 En enginn maður er eigandi alls nema hann sé hreinsaður og laugaður af allri synd.

29 Og séuð þér hreinsaðir og laugaðir af allri synd, skuluð þér biðja hvers sem þér óskið í nafni Jesú, og það skal gjört.

30 En vitið þetta: Yður mun gefið hvers biðja skal. Og þegar þér eruð nefndir til forystu, verða andarnir yður undirgefnir.

31 Þess vegna ber svo við, að ef þér verðið varir við anda, sem þér skiljið eigi og þér meðtakið ekki þann anda, þá skuluð þér spyrja föðurinn í nafni Jesú. Og staðfesti hann ekki þann anda, megið þér vita, að hann er eigi frá Guði.

32 Og yður mun gefið vald yfir þessum anda og þér skuluð með hárri röddu lýsa því yfir, að hann sé ekki frá Guði —

33 Hvorki með niðrandi ásökunum, svo að þér verðið eigi yfirbugaðir, né heldur með raupi eða fögnuði, svo að þér verðið eigi hremmdir.

34 Sá er meðtekur frá Guði skal gefa Guði heiðurinn. Og hann skal gleðjast yfir því, að Guð telur hann verðugan þess að meðtaka.

35 Og með því að gefa þessu gaum og gjöra það, sem þér hafið meðtekið og munuð síðar meðtaka — og faðirinn gefur yður ríkið og kraft til að sigrast á öllu, sem ekki er vígt af honum —

36 Og sjá, sannlega segi ég yður: Blessaðir eruð þér, sem nú hlýðið á þessi orð mín af munni þjóns míns, því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar.

37 Lát þjón minn Joseph Wakefield, sem er mér þóknanlegur, og þjón minn Parley P. Pratt, fara út á meðal safnaðanna og styrkja þá með hvatningarorðum —

38 Og einnig þjón minn John Corrill, eða alla þjóna mína, sem vígðir eru þessu embætti, og lát þá vinna í víngarðinum og lát engan hindra þá við að gjöra það, sem ég hef útnefnt þeim —

39 Þess vegna er þjónn minn Edward Partridge ekki réttlættur í þessu. Lát hann eigi að síður iðrast, og honum skal fyrirgefið.

40 Sjá, þér eruð lítil börn og þolið ekki allt nú. Þér verðið að vaxanáð og þekkingu á sannleikanum.

41 Óttist ei, litlu börn, því að þér eruð mín. Og ég hef sigrað heiminn, og þér eruð af þeim, sem faðirinn hefur gefið mér —

42 Og enginn þeirra, sem faðir minn hefur gefið mér, skal glatast.

43 Og faðirinn og ég erum eitt. Ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Og þar eð þér hafið tekið á móti mér, eruð þér í mér og ég í yður.

44 Ég er þess vegna mitt á meðal yðar, og ég er góði hirðirinn og klettur Ísraels. Sá, sem byggir á þessu bjargi, mun aldrei falla.

45 Og sá dagur kemur, er þér munuð heyra raust mína og sjá mig og vita að ég er.

46 Verið þess vegna á verði, svo að þér verðið viðbúnir. Já, vissulega. Amen.