Kafli 11
Líf Krists
Sagt var fyrir um líf Krists löngu fyrir fæðingu hans
Hver einasta persóna sem til jarðar kemur er háð því að Jesús Kristur uppfylli það loforð sem hann gaf á himni, að vera frelsari okkar. Án hans mundi sáluhjálparáætlunin hafa mistekist. Vegna þess að þjónusta hans var nauðsynleg, hafa allir spámenn frá Adam til Krists vitnað um að hann myndi koma (sjá Post 10:43). Allir spámenn eftir Krist hafa vitnað um að hann kom. Öll þurfum við að kynna okkur líf frelsarans og fylgja honum af trúmennsku alla ævi.
Adam lærði að nafn frelsarans yrði Jesús Kristur (sjá HDP Móse 6:51–52). Enok sá að Jesús mundi deyja á krossinum og verða reistur upp (sjá HDP Móse 7:55–56). Nói og Móse báru einnig vitni um hann (sjá HDP Móse 1:11; 8:23–24). Um 800 árum áður en frelsarinn fæddist á jörðu sá Jesaja líf hans fyrir. Þegar Jesaja sá þjáningar þær og sorg sem frelsarinn mundi líða fyrir syndir okkar, sagði hann:
„Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann; harmkvælamaður og kunnugur þjáningum . …
En vorar þjáningar, voru það sem hann bar. …
Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. …
Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar“ (Jes 53:3–5, 7).
Nefí sá einnig í sýn fæðingu frelsarans og starf. Hann sá fagra mey og engill sagði: „Sjá, mærin sem þú sérð er móðir Guðssonarins að hætti holdsins“ (1 Ne 11:18). Síðan sá hann meyna halda á barni í örmum sér. Engillinn sagði: „Sjá Guðslambið – já son hins eilífa föður“ (1 Nephi 11:21).
Um 124 árum áður en Jesús fæddist sá Benjamín konungur, annar spámaður Nefíta, einnig fyrir líf frelsarans:
„Því að sjá. Sá tími kemur og er ekki langt undan, að Drottinn alvaldur, sem ríkjum ræður, sem var og er frá allri eilífð til allrar eilífðar, mun í veldi stíga niður af himni, dveljast í musteri úr leir meðal mannanna barna, ferðast um meðal þeirra og gjöra máttug kraftaverk, svo sem að gjöra sjúka heila, reisa látna upp frá dauðum, veita lömuðum mátt, blindum sýn, daufum heyrn og lækna hvers kyns sjúkdóma.
„Og hann mun stökkva brott djöflum og illum öndum, sem dveljast í hjörtum mannanna barna.
Og sjá, hann mun líða freistingar, líkamlegan sársauka, hungur, þorsta og þreytu, meira en maðurinn fær þolað, nema fjörtjón hljótist af. Því að sjá. Blóð drýpur úr hverri svitaholu, svo mikil verður angist hans vegna ranglætis og viðurstyggðar þjóðar hans.
Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs, faðir himins og jarðar, skapari alls frá öndverðu, og móðir hans mun kölluð verða María“ (Mósía 3:5–8).
-
Hverjir eru sumir fornir spádómar um Jesú Krist?
Hann var hinn eingetni föðurins
-
Hvað erfði Jesús Kristur frá föður sínum? Hvað erfði Jesús Kristur frá móður sinni?
Söguna af fæðingu og lífi frelsarans er að finna í Nýja testamentinu, í bókum Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Af frásögnum þeirra lærum við að Jesús var fæddur af meyju er nefnd var María. Hún var heitbundin Jósef þegar engill Drottins birtist henni. Engillinn sagði henni að hún ætti að verða móðir Guðssonarins. Hún spurði hvernig slíkt væri mögulegt (sjá Lúk 1:34). Hann sagði henni: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs“ (Lúk 1:35). Þannig varð Guð faðirinn bókstaflega faðir Krists.
Jesús er sá eini á jörðu sem fæðst hefur af dauðlegri móður og ódauðlegum föður. Þess vegna kallast hann hinn eingetni sonur. Frá föður sínum erfði hann guðlegan kraft. Frá móður sinni erfði hann dauðleikann og var háður hungri, þorsta, þreytu, sársauka og dauða. Enginn gat tekið líf frelsarans án vilja hans. Hann hafði vald til að fórna því og vald til að reisa líkama sinn upp aftur eftir dauðann (sjá Jóh 10:17–18).
Hann lifði fullkomnu lífi
-
Hvaða merkingu hefur líf frelsarans fyrir okkur?
Frá æsku var Jesús hlýðinn öllu sem himneskur faðir krafðist af honum. Undir handleiðslu Maríu og Jósefs ólst Jesús upp á líkan hátt og önnur börn. Hann elskaði og virti sannleikann. Lúkas segir okkur: „En sveinninn óx og styrktist, fullur visku, og náð Guðs var yfir honum“ (Lúk 2:40; sjá einnig K&S 93:12–14).
Þegar Jesús var 12 ára gamall vissi hann að hann hafði verið sendur til að gera vilja föður síns. Hann fór með foreldrum sínum til Jerúsalem. Þegar þau sneru heim á leið uppgötvuðu þau að hann var ekki með samferðafólki þeirra. Þau sneru aftur til Jerúsalem og leituðu hans. „Eftir þrjá daga fundu þau hann í musterinu. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, og þeir hlustuðu á hann og spurðu hann spurninga“ (ÞJS Lúk 2:46). „En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum“ (Lúk 2:47).
Jósef og Maríu létti að finna hann, en „brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“ Jesús svaraði henni og sagði: „Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi [himnesks] föður míns?“ (Lúk 2:48–49).
Til þess að uppfylla þjónustuverk sitt varð Jesús að gjöra vilja föður síns á himnum. „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér,“ sagði hann, „heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér, … ég gjöri ætíð það sem er honum þóknanlegt“ (Jóh 8:28–29).
Þegar Jesús var þrítugur kom hann til Jóhannesar skírara, til að láta skírast í ánni Jórdan. Jóhannes var tregur til að skíra Jesú vegna þess að hann vissi að Jesús var honum fremri. Jesús bað Jóhannes að skíra sig „til að fullnægja öllu réttlæti.“ Jóhannes skírði Jesú, dýfði honum algerlega niður í vatnið. Jafnskjótt og Jesús var skírður talaði faðir hans frá himnum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Heilagur andi kom niður, eins og sýnt er með merki dúfunnar (sjá Matt 3:13–17).
Skömmu eftir að Jesús var skírður fastaði hann í 40 daga og 40 nætur til að vera með Guði. Eftir það kom Satan að freista hans. Jesús stóðst af einurð allar freistingar Satans og skipaði síðan Satan að víkja burt frá sér (sjá Matt 4:1–11; sjá einnig ÞJS Matt 4:1, 5–6, 8–9, 11). Jesús Kristur var áfram syndlaus, hin eina fullkomna vera, sem nokkru sinni hefur gengið um á jörðinni (sjá Hebr 4:15; 1 Pét 2:21–22).
-
Hvaða frásagnir úr lífi frelsarans hafa sérstaklega mikla þýðingu fyrir ykkur?
Hann kenndi okkur hvernig við eigum að elska og þjóna hvert öðru.
-
Hvernig kenndi frelsarinn okkur hvernig við eigum að elska og þjóna hvert öðru?
Eftir föstu sína og eftir að Satan hafði freistað hans, hóf Jesús þjónustustarf sitt. Hann kom ekki aðeins til jarðar til að deyja fyrir okkur, heldur einnig til að kenna okkur hvernig við eigum að lifa. Hann kenndi að það eru tvö meginboðorð: Fyrst að elska Guð af öllu hjarta, huga og styrk; og annað að elska aðra eins og við elskum sjálf okkur (sjá Matt 22:36–39). Líf hans sýnir hvernig við eigum að hlýða þessum tveimur boðorðum. Ef við elskum Guð munum við treysta honum og hlýða eins og Jesús gerði. Ef við elskum aðra hjálpum við þeim að mæta líkamlegum og andlegum þörfum sínum.
Jesús varði lífi sínu í þjónustu annarra. Hann læknaði þá af sjúkdómum. Hann veitti blindum sýn, daufum heyrn og lömuðum mátt. Eitt sinn þegar hann var að lækna sjúka var orðið framorðið og fólkið hungrað. Í stað þess að senda það burt, blessaði hann fimm brauðhleifa og tvo fiska og gat á undursamlegan hátt mettað fimm þúsund manns (sjá Matt 14:14–21). Hann kenndi að alltaf þegar við finnum einhvern hungraðan, kaldan, nakinn eða einmana, ættum við að hjálpa honum eins og við best getum. Þegar við hjálpum öðrum erum við að þjóna Drottni (sjá Matt 25:35–46).
Jesús elskaði aðra af öllu hjarta. Oft var hjarta hans svo fullt af samúð að hann grét. Hann elskaði litlu börnin, hina öldnu, auðmjúku og hræsnislausu, sem trúðu á hann. Hann elskaði þá sem syndgað höfðu og af mikilli samúð kenndi hann þeim að iðrast og láta skírast. Hann kenndi: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh 14:6).
Jesús unni jafnvel þeim sem syndguðu gegn honum og ekki vildu iðrast. Á síðustu ævistundum sínum, þegar hann hékk á krossinum, bað hann til fðurins fyrir hermönnunum sem krossfestu hann og sagði: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lúk 23:34). Hann kenndi: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður“ (Jóh 15:12).
-
Með hvaða hætti getum við sýnt Drottni að við elskum hann?
Hann skipulagði hina einu sönnu kirkju
-
Hvers vegna skipulagði frelsarinn kirkju sína og vígði postula?
Jesús vildi að fagnaðarerindi hans yrði boðað öllum íbúum jarðar og því valdi hann tólf postula til að vitna um sig. Þeir voru fyrstu leiðtogar kirkju hans. Þeir fengu vald til að starfa í hans nafni og gera það sem þeir höfðu séð hann gera. Þeir sem fengu valdsumboð frá þeim gátu einnig kennt, skírt og framkvæmt aðrar helgiathafnir í hans nafni. Eftir dauða hans héldu þeir verki hans áfram uns menn voru orðnir svo ranglátir að þeir drápu postulana.
Hann leysti okkur frá syndum og frelsaði okkur frá dauða.
-
Gefið ykkur tíma til að ígrunda atburði friðþægingarinnar, þegar þið nemið þennan hluta.
Undir lok jarðneskrar þjónustu sinnar bjó Jesús sig undir að færa hina endanlegu fórn fyrir allar syndir mannkyns. Hann hafði verið dæmdur til dauða vegna þess að hann bar fólkinu vitni um að hann væri sonur Guðs.
Nóttina fyrir krossfestingu sína fór Jesús í garð sem nefnist Getsemane. Brátt fylltist hann djúpri hryggð og grét meðan hann bað. Síðari daga postula Orson F. Whitney auðnaðist að sjá þjáningar frelsarans í sýn. Hann sá frelsarann gráta og sagði: „Ég varð svo hrærður við þá sýn, að ég grét einnig, af hreinni samúð. Af öllu hjarta þjáðist ég með honum. Ég elskaði hann af allri sál minni og þráði heitar en nokkuð annað að vera hjá honum“ (“The Divinity of Jesus Christ,“ Improvement Era, jan. 1926, 224–25; sjá einnig Ensign, des. 2003, 10). Jesús „gekk lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“ (Matt 26:39).
Í síðari tíma opinberun lýsti frelsarinn því hversu mikil þjáning hans í raun hefði verið, sagðist hafa skolfið af „þjáningu, og blóð draup úr hverri svitaholu, og ég þjáðist bæði á líkama og í anda“ (K&S 19:18). Hann þjáðist „að hætti holdsins,“ tók á sig sjálfan sársauka, veikindi, vanmátt og syndir (sjá Al 7:10–13). Engin dauðleg vera fær skilið hversu þung þessi byrði var. Enginn annar hefði getað þolað slíka líkamlega og andlega kvöl. „Hann sté neðar öllu … svo að hann gæti í öllu og með öllu verið ljós sannleikans“ (K&S 88:6).
En þjáning hans var enn ekki fullnuð. Næsta dag var Jesús barinn, auðmýktur og hrækt var á hann. Hann var látinn bera sinn eigin kross og þar næst var hann negldur á hann og honum lyft upp. Hann var píndur á einn þann grimmilegasta hátt sem maðurinn hefur nokkru sinni upp hugsað. Eftir þjáningar á krossinum hrópaði hann í kvöl: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Mark 15:34). Á beiskustu stundu lífs hans hafði faðirinn tekið anda sinn frá honum, svo að Jesús gæti lokið þjáning sinni fyrir syndir allra manna og sigrað að fullu öfl syndar og dauða. (sjá James E. Talmage, Jesus the Christ, 3. útg. [1916], 660–61).
Þegar frelsarinn vissi að faðirinn hafði þegið fórn hans, hrópaði hann hárri röddu: „Það er fullkomnað“ (Jóh 19:30). „Faðir í þínar hendur fel ég anda minn“ (Lúk 23:46). Hann laut höfði og gaf sjálfviljugur upp anda sinn. Frelsarinn var látinn. Kröftugur jarðskjálfti skók jörðina.
Nokkrir vinir tóku líkama frelsarans og lögðu í gröf eina og þar lá hann fram á þriðja dag. Þann tíma fór andi hans og skipulagði trúboðsstarf meðal annarra anda sem þörfnuðust fagnaðarerindis hans (sjá 1 Pét 3:18–20; K&S 138). Á þriðja degi, sunnudegi, sneri hann aftur í líkama sinn og reis upp. Hann varð fyrstur til að sigra dauðann. Spádómurinn hafði verið uppfylltur: „Að hann ætti að rísa upp frá dauðum“ (Jóh 20:9).
Skömmu eftir upprisu sína birtist frelsarinn Nefítum og stofnaði kirkju sína í Ameríku. Hann kenndi fólkinu og blessaði það. Þessa hrífandi frásögn er að finna í 3. Nefí 11 til 28.
Fórn hans sýndi ást hans á föður sínum og á okkur.
Jesús kenndi: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það sem ég býð yður“ (Jóh 15:13–14). Hann leið fúslega og af auðmýkt hörmungar Getsemane og þjáningar krossins svo að við gætum fengið allar blessanir sáluhjálparáætlunarinnar. Til þess að fá þessar blessanir, verðum við að koma til hans, iðrast synda okkar og elska hann af öllu okkar hjarta. Hann sagði:
„Og þetta er fagnaðarerindið, sem ég hef gefið yður – að ég kem í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.
„Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum, og á sama hátt og mennirnir hefðu lyft mér mundi faðirinn lyfta mönnunum upp til að verða dæmdir af verkum sínum, …
Því að þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna. …
Hvers konar menn ættuð þér því að vera? Sannlega, sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:13–15, 21, 27; leturbreyting hér).
-
Hverjar eru tilfinningar ykkar er þið ígrundið fórn frelsarans fyrir ykkur?
Viðbótarritningargreinar og aðrar heimildir
-
2 Ne 25:12 (hinn eingetni föðurins í holdinu)
-
HDP Móse 6:57 (Jesús Kristur nefndur sem hinn eingetni)
-
Matt 10:1–8; Lúk 9:1–2 (postular vígðir með krafti og valdi)
-
Matt 26–28; Mark 14–16; Lúk 22–24; Jóh 18–20 (Jesús í garðinum; svikinn, krossfestur og upprisinn)
-
„Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna,“ Ensign, apr. 2000.