Kafli 9
Spámenn Guðs
Spámenn eru fulltrúar Guðs á jörðu
-
Hvaða kraft og gjafir hefur spámaður?
„Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína“ (Amos 3:7).
Margt fólk lifir í myrkri, í óvissu um vilja Guðs. Það álítur að himnarnir séu lokaðir og að fólk verði að mæta hættum heimsins einsamalt. Hversu gæfusamir eru Síðari daga heilagir! Við vitum að Guð hefur samskipti við kirkjuna með spámanni sínum. Með þakklátu hjarta, syngja hinir heilögu um allan heim sálminn, „Vorn spámann vér þökkum þér Drottinn, sem þekkir og leiðir oss hér“ (Sálmar, nr. 7).
Spámaður er maður kallaður af Guði til að vera fulltrúi hans á jörðu. Þegar spámaður talar fyrir Guð, er það eins og Guð væri að tala (sjá K&S 1:38). Spámaður er einnig sérstakt vitni um Krist, sem ber vitni um guðleika hans og kennir fagnaðarerindi hans. Spámaður kennir sannleika og túlkar orð Guðs. Hann kallar hina óréttlátu til iðrunar. Hann tekur á móti opinberunum og leiðbeiningum frá Drottni okkur til heilla. Hann kann að sjá inn í framtíðina og segja fyrir um óorðna atburði svo að heimurinn sé varaður við.
Spámaður getur komið úr hvaða stöðu sem er í lífinu. Hann getur verið ungur eða gamall, hámenntaður eða óskólagenginn. Hann getur verið bóndi, lögfræðingur eða kennari. Spámenn til forna gengu í kyrtli og báru staf í hendi. Nútíma spámenn ganga í jakkafötum og bera skjalatösku í hendi. Hvað er það þá sem auðkennir sannan spámann? Sannur spámaður er alltaf valinn af Guði og kallaður með réttu prestdæmisvaldi (sjá TA 1:5).
Síðari daga heilagir styðja Æðsta forsætisráðið og postulana tólf sem spámenn. Þegar við tölum um „spámann kirkjunnar,“ eigum við samt sem áður við forseta kirkjunnar, sem er forseti hins háa prestdæmis.
Í aldanna rás hefur Guð kallað spámenn til að leiða mannkynið
-
Með hvaða hætti hafa spámenn leiðbeint börnum Guðs fram að þessu?
Það hafa verið spámenn á jörðinni frá dögum Adams. Reynsla þessara miklu manna örvar okkur og innblæs. Móse, Gamla testamentis spámaður, leiddi þúsundir af þjóð sinni út úr Egyptalandi og þrældómi til fyrirheitna landsins. Hann ritaði fimm fyrstu bækur Gamla testamentisins og skráði boðorðin tíu. Nefí, spámaður í Mormónsbók, ferðaðist frá Jerúsalem til meginlands Ameríku 600 árum fyrir fæðingu Krists. Sá mikli leiðtogi og landnemi gaf okkur margar mikilvægar heimildir í Mormónsbók. Jóhannes skírari var valinn til að búa heiminn undir komu Drottins Jesú Krists. Með Joseph Smith, síðari daga spámanni, endurreisti Drottinn kirkjuna. Joseph Smith þýddi einnig Mormónsbók, þá enn ungur maður.
-
Hvað hafið þið lært af lífi og kenningum spámanna?
Við höfum lifandi spámann á jörðu í dag
-
Hvers vegna þurfum við lifandi spámann á jörðu í dag?
Við höfum spámann lifandi á jörðu í dag. Sá spámaður er forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann hefur rétt á opinberunum fyrir kirkjuna í heild. Hann hefur „lykla ríkisins,“ sem merkir að hann hefur vald til að stjórna kirkjunni í heild og ríki Guðs á jörðu, þar með talið stjórn á helgiathöfnum prestdæmisins (sjá Matt 16:19). Engin persóna önnur en valinn spámaður og forseti getur meðtekið vilja Guðs fyrir alla meðlimi kirkjunnar. Drottinn sagði: „Á jörðu er aldrei nema einn á hverjum tíma, sem fengið hefur þetta vald, svo og lykla þessa prestdæmis“ (K&S 132:7). Forseti kirkjunnar nýtur aðstoðar ráðgjafa sinna í Æðsta forsætisráðinu og meðlima Tólfpostularáðsins, sem einnig eru spámenn, sjáendur og opinberarar.
Við ættum að gera þá hluti sem spámennirnir segja okkur að gera. Wilford Woodruff forseti sagði að spámanni yrði aldrei leyft að leiða kirkjuna afvega:
„Drottinn mun aldrei leyfa mér eða neinum öðrum manni sem kallaður er sem forseti þessarar kirkju að leiða ykkur afvega. Það er ekki í dæminu. Það er ekki í huga Guðs. Ef ég mundi reyna það, mundi Drottinn fjarlægja mig úr stöðu minni“ (Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff [2004], 199).
-
Með hvaða hætti hefur hinn lifandi spámaður haft áhrif á kirkjuna?
Við ættum að styðja spámann Drottins
-
Hvað getum við gert til að fylgja og styðja spámanninn?
Margt fólk á auðvelt með að trúa á spámenn fyrri tíma. En það er mun meira um vert að trúa á lifandi spámann og fylgja honum. Við lyftum hendi og styðjum forseta kirkjunnar sem spámann, sjáanda og opinberara.
Hvernig getum við stutt spámanninn? Við ættum að biðja fyrir honum. Byrðar hans eru þungar og hann þarfnast styrktar frá bænum hinna heilögu.
Við ættum að nema orð hans. Við getum hlustað á ráðstefnuræður hans. Við getum einnig gerst áskrifendur að Ensign eða Líahóna svo að við getum lesið ráðstefnuræður hans og annan boðskap sem frá honum kemur.
Við ættum að fylgja innblásnum kenningum hans fullkomlega. Við ættum ekki að velja að fylgja hluta af innblásinni ráðgjöf hans og kasta frá okkur því sem er óþægilegt eða erfitt. Drottinn bauð okkur að fylgja innblásnum kenningum spámanns síns:
„[Þér skuluð] gefa gaum að öllum orðum hans [spámannsins] og fyrirmælum, sem hann gefur yður þegar hann meðtekur þau, gangandi í fullum heilagleika frammi fyrir mér –
Því að hans orði skuluð þér taka á móti með fullkominni þolinmæði og trú“ (K&S 21:4–5).
Drottinn mun aldrei leyfa forseta kirkjunnar að leiða okkur afvega.
-
Hvað hefur forseti kirkjunnar kennt eða lagt áherslu á nýlega?
Miklar blessanir fylgja hlýðni við spámanninn
Ef við hlýðum, lofar Drottinn: „Hlið heljar [munu] eigi á yður sigrast. Já, og Drottinn Guð mun dreyfa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar“ (K&S 21:6). Þegar við gerum það sem spámaðurinn leiðbeinir um, mun blessunum af himni ofan rigna yfir okkur.
Til að standast, verður hin sanna kirkja að hafa „að grundvelli postulana og spámennina, en Krist sjálfan að hyrningarsteini“ (Ef 2:20). Við erum blessuð í þessum ótrygga heimi að hafa spámann, með hverjum Drottinn opinberar vilja sinn.
-
Hver er reynsla ykkar af því að hlýða ráðgjöf spámannsins?
Viðbótarritningargreinar
-
4 Mós 12:6 (Guð talar með spámönnum)
-
1 Sam 9:9 (spámaður kallaður sjáandi)
-
Amos 3:7 (Guð opinberar leyndardóma sína spámönnum)
-
Mósía 8:16–18 (sjáandi getur vitað um hið liðna og hið ókomna)
-
Lúk 1:70 (Guð talar með spámönnum)
-
K&S 45:10, 15 (Guð talar í dag eins og til forna)
-
1 Ne 22:2 (með andanum fá spámenn þekkingu sína)
-
K&S 68:3–5 (þegar þjónar Drottins tala knúnir af heilögum anda, er það hugur, vilji og rödd Drottins)
-
K&S 107:65–67, 91–92 (skyldur forseta kirkjunnar)
-
K&S 43:1–7 (aðeins spámaðurinn hefur valdsumboð til að meðtaka opinberanir fyrir kirkjuna)