Bækur og lexíur
Kafli 45: Þúsund ára ríkið


Kafli 45

Þúsundáraríkið

Ljósmynd
A male lion and lamb lying peacefully next to each other in a grassy field. Rolling hills are in the background. There are clouds in the sky. The image portrays the peace among animal life that will exist during the Millennium.

Fólk á jörðu í Þúsundáraríkinu

  • Hverjir verða á jörðu í Þúsundáraríkinu

Þúsund ár friðar, ástar og gleði munu hefjast á jörðu við síðari komu Jesú Krists. Þetta þúsund ára tímabil er nefnt Þúsundáraríkið. Ritningarnar og spámennirnir hjálpa okkur að skilja hvernig lífið á jörðunni verður í Þúsundáraríkinu.

Vegna tortímingar hinna ranglátu við síðari komu frelsarans, mun einungis réttlátt fólk lifa á jörðinni við upphaf Þúsundáraríkisins. Það verða þeir sem lifað hafa dyggðugu og heiðarlegu lífi. Það fólk mun erfa annað hvort yfirjarðneska eða himneska ríkið.

Í Þúsundáraríkinu munu dauðlegir menn enn lifa á jörðu og halda áfram að eignast börn eins og þeir gera nú (sjá K&S 45:58). Joseph Smith sagði að ódauðlegar verur muni iðulega heimsækja jörðina. Þessar upprisnu verur munu aðstoða við stjórnsýslu og önnur störf (sjá Teachings of the Prophet Joseph Smith, Joseph Fielding Smith valdi [1976], 268).

Fólk mun enn hafa sitt sjálfræði, og um skeið munu margir hafa frelsi til að halda áfram með sín trúarbrögð og hugmyndir. Að lokum munu þó allir viðurkenna að Jesús Kristur er frelsarinn.

Í Þúsundáraríkinu mun Jesús Kristur „sjálfur ríkja hér á jörðu“ (TA 1:10). Joseph Smith útskýrði að Jesús mun „ríkja yfir hinum heilögu og koma niður og leiðbeina“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 258).

Verk kirkjunnar í Þúsundáraríkinu

  • Hvaða tvö mikil verk verða unnin í Þúsundáraríkinu?

Það verða tvö mikil verk fyrir þegna kirkjunnar að vinna í Þúsundáraríkinu: musterisverk og trúboðsverk. Musterisverk felur í sér helgiathafnir sem nauðsynlegar eru til upphafningar. Það felur í sér skírn, handayfirlagningu til veitingar á gjöf heilags anda og helgiathafnir musterisins – musterisgjöfin, musterishjónavígsla og innsiglun fjölskyldueininga.

Margir hafa dáið án þess að taka á móti þessum helgiathöfnum. Menn á jörðu verða að framkvæma þessar helgiathafnir fyrir þá. Það verk er nú verið að vinna í musterum Drottins. Því verki verður ekki lokið við upphaf Þúsundáraríkisins en því mun ljúka á tímum þess ríkis. Upprisnar verur munu hjálpa okkur að leiðrétta mistök, sem gerð hafa verið við rannsóknir á þeim sem dáið hafa. Þær munu hjálpa okkur að finna þær upplýsingar sem á vantar til að fullkomna skýrslurnar (sjá Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, í samantekt Bruce R. McConkie, 3 bindi. [1954–56], 2:167, 251–52).

Annað mikilvægt starf í Þúsundáraríkinu verður trúboðsstarf. Fagnaðarerindið verður boðað öllum mönnum af miklum krafti. Að lokum verður engin þörf á að kenna öðrum grundvallarreglur fagnaðarerindisins, „því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir – segir Drottinn“ (Jer 31:34).

  • Hvernig getum við búið okkur núna undir starfið í Þúsundáraríkinu?

Aðstæður í Þúsundáraríkinu

  • Á hvern hátt mun lífið í Þúsundáraríkinu verða frábrugðið lífinu á jörðu nú?

Spámaðurinn Joseph Smith sagði að í Þúsundáraríkinu mundi „jörðin verða endurnýjuð og meðtaka sína paradísardýrð“ (TA 1:10).

Satan bundinn

Í þúsundáraríkinu verður Satan bundinn. Það táknar, að hann mun ekkert vald hafa til að freista þeirra sem lifa á þeim tíma (sjá K&S 101:28). „Börn þeirra munu vaxa upp syndlaus til sáluhjálpar“ (K&S 45:58). „Fyrir því mun hann ekki verða leystur í mörg ár, því að hann hefur ekkert vald yfir hjörtum fólksins, þar eð það lifir í réttlæti og hinn heilagi Ísraels situr við völd“ (1 Ne 22:26).

Friður á jörðu

Í Þúsundáraríkinu verða engar styrjaldir. Menn lifa í sátt og samlyndi. Öll hergögn verða nýtt til nytsamlegra hluta. „Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar“ (Jes 2:4; sjá einnig Jes 11:6–7; K&S 101:26).

Réttlát stjórnvöld

John Taylor forseti kenndi: „Drottinn mun verða konungur allrar jarðarinnar, og allt mannkyn bókstaflega undir hans stjórn, og allar þjóðir undir himnunum verða að viðurkenna valdsumboð hans og beygja sig undir veldissprota hans. Þeir sem þjóna honum í réttlæti munu eiga samskipti við Guð, og við Jesú; þeir munu njóta þjónustu engla, og þekkja fortíð, nútíð, og framtíð. Og aðrir, sem ef til vill hlýða ekki til fulls lögmálum hans, eða hafa ekki fyllstu þekkingu á sáttmálum hans, munu samt sem áður verða að sýna fyllstu hlýðni við stjórn hans. Því að þetta verður stjórn Guðs á jörðu, og hann mun framfylgja lögum sínum, og krefjast hlýðni frá þjóðum jarðar sem er hans lögmæti réttur“ (Teachings of Presidents of the Church: John Taylor [2001], 225).

Enginn dauði

Enginn dauði eins og við þekkjum hann verður í Þúsundáraríkinu. Þegar menn ná háum aldri deyja þeir hvorki né verða greftraðir. Þess í stað breytast þeir úr dauðlegu ástandi sínu í ódauðlegt ástand „á einu augabragði“ (sjá K&S 63:51; 101:29–31).

Allt opinberað

Nokkur sannleikur hefur enn ekki opinberast okkur. Allir hlutir verða opinberaðir í Þúsundáraríkinu. Drottinn hefur sagt að hann muni „á þeim degi opinbera allt – Það sem liðið er og það sem hulið er og enginn maður þekkti, það sem jörðina varðar, upphaf hennar, tilgang hennar og endi – Það dýrmætasta, það sem er ofar og það sem er neðar, það sem er í jörðu og á jörðu og á himnum“ (K&S 101:32–34).

Önnur störf í Þúsundáraríkinu

Á margan hátt verður lífið líkt því sem það er nú, að öðru leyti en því að allt gerist í réttlæti. Menn munu eta og drekka og klæðast (sjá Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 333). Menn halda áfram að sá og uppskera og reisa hús (sjá Jes 65:21).

  • Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar varðandi aðstæðurnar sem verða munu í Þúsundáraríkinu?

Ein lokaorrusta eftir Þúsundáraríkið

  • Hver verða lokaörlög jarðarinnar?

Við lok áranna þúsund mun Satan leystur verða í skamman tíma. Sumir munu snúa frá himneskum föður. Satan mun safna saman herjum sínum og Míkael (Adam) safna saman herskörum himna. Í þessari miklu orrustu verður Satan og fylgjendum hans varpað burt að eilífu. Jörðinni mun breytt í himneskt ríki (sjá K&S 29:22–29; 88:17–20, 110–15).

Viðbótarritningargreinar

Prenta