Kafli 36
Fjölskyldan getur verið eilíf
Mikilvægi fjölskyldna
-
Hvers vegna sendi himneskur faðir okkur til jarðar sem meðlimi í fjölskyldum?
„Hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði. … Fjölskyldan er kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, júní 1996, 10).
Eftir að himneskur faðir gaf Adam og Evu saman í hjónaband, bauð hann þeim að eignast börn (sjá 1 Mós 1:28). Hann hefur opinberað að einn tilgangur hjónabands sé að sjá andabörnum hans fyrir dauðlegum líkama. Foreldrar eru félagar okkar himneska föður. Hann vill að hvert og eitt andabarna sinna öðlist efnislíkama og upplifi jarðlífið. Þegar maður og kona ala börn inn í þennan heim, eru þau að hjálpa himneskum föður að framfylgja áætlun sinni.
Hvert nýtt barn ætti að vera velkomið í fjölskyldu sína og því ætti að fagna. Sérhvert þeirra er barn Guðs. Við ættum að gefa okkur tíma til að njóta barna okkar, leika við þau og kenna þeim.
David O. McKay forseti sagði: „Af öllu hjarta trúi ég því að besti staðurinn til undirbúnings eilífs lífs sé heimilið“ (“Blueprint for Family Living,“ Improvement Era, apr. 1963, 252). Á heimilinu, hjá fjölskyldum okkar, getum við lært sjálfsstjórn, fórnfýsi, tryggð og gildi starfsins. Við getum lært að elska, miðla og þjóna hvert öðru.
Feður og mæður bera þá ábyrgð að fræða börn sín um himneskan föður. Þau ættu að sýna með góðu fordæmi að þau elski hann og hlýði þess vegna boðum hans. Foreldrar ættu einnig að kenna börnum sínum að biðja og hlýða boðorðunum (sjá Okv 22:6).
-
Hvers vegna er heimilið besti staðurinn til að búa sig undir eilíft líf?
-
Hvernig getum við hjálpað unglingum kirkjunnar að skilja heilagleika fjölskyldunnar og hjúskaparsáttmálans?
Hin eilífa fjölskylda
Fjölskyldur geta verið saman að eilífu. Til þess að njóta þeirrar blessunar verðum við að giftast í musterinu. Þegar fólk giftist utan musterisins lýkur hjónabandi þeirra þegar annað þeirra deyr. Þegar við erum gefin saman í musterinu með valdsumboði Melkísedeksprestdæmisins, erum við gefin saman um tíma og eilífð. Ef við hlýðum boðorðum Drottins, mun fjölskylda okkar verða saman að eilífu sem eiginmaður, kona og börn. Dauðinn getur ekki aðskilið okkur.
Kærleiksrík fjölskyldutengsl
-
Hvernig getum við komið á meiri samhæfingu á heimili okkar?
Hjónin ættu að vera hugsunarsöm og góð hvort við annað. Þau ættu aldrei að segja neitt sem særir tilfinningar hins. Þau ættu einnig að gera allt sem þau geta til þess að gera hvort annað hamingjusamt.
Þegar foreldrar taka að þekkja Guð og keppast við að líkjast honum, munu þau kenna börnunum að elska hvert annað. Í Mormónsbók útskýrði Benjamín konungur:
„Þér munuð ekki leyfa að börn yðar … sláist og munnhöggvist hvert við annað, …
heldur munuð þér kenna þeim að ganga á vegi sannleika og hófsemi. Þér munuð kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru“ (Mósía 4:14–15).
Sem fjölskylda getum við hjálpað hvert öðru að öðlast sjálfstraust með því að veita hvert öðru hvatningu og einlægt hrós. Hvert barn ætti að finna að það er mikils virði. Foreldrar þurfa að sýna að þeir hafi áhuga á því sem barnið gerir og sýna því ást og umhyggju. Börn eiga á sama hátt að sýna að þau elski foreldra sína. Þau eiga að vera hlýðin og reyna að lifa þannig að þau heiðri foreldra sína með lífi sínu.
-
Hvað geta foreldrar gert til að hvetja syni sína og dætur til að reynast hvert öðru góðir vinir? Hvað geta bræður og systur gert til að hlú að vináttunni sín á milli?
-
Hvað geta eiginmenn og eiginkonur gert til að stuðla að hamingju hvors annars?
Hvernig við eignumst farsæla fjölskyldu
-
Hvað gerið þið til að styrkja ykkar eigin fjölskyldu og stuðla að farsæld hennar?
Harold B. Lee forseti kenndi: „Það mikilvægasta sem við munum nokkru sinni vinna í verki Drottins verður unnið innan veggja heimilis okkar“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Harold B. Lee [2001], 134).
Satan veit hversu mikilvægar fjölskyldur eru í áætlun himnesks föður. Hann reynir að tortíma þeim með því að koma í veg fyrir að við nálgumst Drottin. Hann mun freista okkar til að gera það sem sundrar fjölskyldunni.
Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa lýst yfir: „Farsælt hjónaband og fjölskyldulíf byggist og varðveitist á reglum trúar, bænar, iðrunar, fyrirgefningar, virðingar, kærleika, umhyggju, vinnu og heilbrigðrar dægrastyttingar“ (Vonarstjarnan, júní 1996, 10).
Öll viljum við eiga hamingjusama og farsæla fjölskyldu. Eftirtalin atriði hjálpa okkur að ná því marki:
-
Flytjið fjölskyldubænir kvölds og morgna (sjá 3 Ne 18:21). Biðjið saman sem hjón.
-
Kennið börnunum fagnaðarerindið vikulega á fjölskyldukvöldi.
-
Nemið ritningarnar reglubundið sem fjölskylda.
-
Gerið ýmislegt saman sem fjölskylda, vinnið til dæmis að verkefnum, skemmtiferðum og ákvarðanatöku.
-
Lærið að vera góð, þolinmóð, umburðarlynd og kærleiksrík (sjá Moró 7:45–48).
-
Sækið kirkjusamkomur reglulega (sjá K&S 59:9–10).
-
Fylgið ráðleggingum Drottins í K&S 88:119: „Komið reglu á hús yðar, já, hús föstu, hús trúar, hús fræðslu, hús dýrðar, hús reglu, hús Guðs.“
-
Skráið sögu fjölskyldunnar, vinnið musterisverk saman og meðtakið helgiathafnir innsiglunar í musterinu.
Fjölskyldan er grunneining Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Kirkjan er hér til að hjálpa fjölskyldum að öðlast eilífar blessanir og upphafningu. Skipulagi og starfsáætlun kirkjunnar er ætlað að styrkja okkur, hvert einstakt, og hjálpa okkur að lifa sem fjölskyldur að eilífu.
-
Hvað geta fjölskyldur gert til að vinna sig í gegnum erfiða tíma?
-
Hvað hafið þið séð sem bendir til þess að fjölskyldubænir, ritninganám fjölskyldunnar, fjölskyldufundir, matmálstími fjölskyldu og fjölskyldukvöld komi raunverulega að gagni?
Viðbótarritningargreinar og aðrar heimildir
-
HDP Móse 2:27–28 (karl og kona sköpuð og blessuð)
-
1 Mós 2:24 (maðurinn haldi sig að konu sinni)
-
K&S 49:15–16 (Guð vígði hjónabandið manninum til handa)
-
Ef 6:4 (ala börn upp í réttlæti)
-
K&S 132:15–21 (eilíft hjónaband)
-
K&S 88:119–26 (leiðbeiningar varðandi farsæla fjölskyldu)
-
K&S 93:40–50 (Drottinn býður foreldrum að ala upp börn sín í ljósi og sannleika)
-
„Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ (fáanleg á LDS.org, kirkjajesukrists.is og í mörgum ritum kirkjunnar, þar á meðal í Ensign, nóv. 1995, bls. 102; Til styrktar æskunni: Að rækja skyldur okkar við Guð [birgðanúmer 36550], bls. 44; og Sannir í trúnni: Trúarhugtök [birgðanúmer 36863], bls. 36–38)