Kafli 28
Þjónusta
Hvernig við getum þjónað
-
Hugleiðið á hvern hátt fólk hefur þjónað ykkur og fjölskyldu ykkar.
Jesús sagði: „[Ég er] meðal yðar sem þjónninn“ (Lúk 22:27). Sem trúir fylgjendur Jesú verðum við einnig að þjóna öðrum.
Þjónusta er að hjálpa öðrum sem þarfnast hjálpar. Kristileg þjónusta sprettur af fölskvalausri elsku til frelsarans og elsku og umhyggju fyrir þeim sem hann veitir okkur tækifæri og leiðsögn til að þjóna. Elska er meira en tilfinning; þegar við elskum aðra, viljum við hjálpa þeim.
Öll verðum við að vera fús til að þjóna, burtséð frá tekjum okkar, aldri, heilsu eða félagslegri stöðu. Sumir halda að aðeins hinir fátæku og lægra settu eigi að þjóna. Aðrir telja að aðeins hinir ríku eigi að veita þjónustu. Jesús kenndi annað. Þegar móðir tveggja lærisveina hans bað hann um að heiðra syni sína í ríki hans svaraði Jesús: „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ (Matt 20:26–27).
Hægt er að þjóna á marga vegu. Við getum hjálpað öðrum fjárhagslega, félagslega, líkamlega og andlega. Við getum til dæmis gefið peninga, mat eða annað til þeirra sem þurfandi eru. Við getum hjálpað hinum þurfandi með því að gefa örlátlega í föstufórn. Við getum verið vinir aðkomumannsins. Við getum unnið í garðinum fyrir aldraða manneskju eða annast um einhvern sem er sjúkur. Við getum kennt fagnaðarerindið þeim sem þarfnast sannleikans, eða hughreyst hinn sorgmædda.
Við getum hjálpað í smáu sem stóru. Við ættum aldrei að láta það bregðast að rétta hjálparhönd, aðeins vegna þess að við höfum ekki af miklu að miðla. Ekkja ein sagði frá tveimur börnum sem komu til hennar þegar hún var nýaðflutt. Börnin færðu henni matarkörfu og miða sem á stóð: „Ef þig vantar einhvern til sendiferða, erum við til reiðu.“ Ekkjan gladdist vegna þessa vináttuvottar og gleymdi honum aldrei.
Stundum verðum við þó að fórna miklu til að þjóna öðrum. Frelsarinn fórnaði lífi sínu til að þjóna okkur.
-
Hugsið um fólk í ykkar fjölskyldu eða samfélagi sem er í neyð efnahagslega, félagslega, líkamlega eða andlega. Ígrundið hvað þið getið gert til að þjóna því.
Hvers vegna frelsarinn vill að við þjónum öðrum
-
Hvers vegna vill frelsarinn að við þjónum öðrum?
Það er fyrir þjónustu karla og kvenna, pilta og stúlkna, að verk Guðs vinnst. Spencer W. Kimball forseti útskýrði: „Guð tekur eftir okkur og vakir yfir okkur. En það er yfirleitt fyrir tilstilli annarra sem hann mætir þörfum okkar“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 82).
Öll höfum við að einhverju marki orðið að treysta á hjálp annarra. Þegar við vorum smábörn voru það foreldrarnir sem fæddu okkur, klæddu og önnuðust. Án þeirrar umönnunar hefðum við dáið. Þegar við uxum upp mótaðist kunnátta okkar og viðhorf einnig af öðrum. Mörg höfum við þarfnast hjúkrunar í veikindum eða peninga á neyðarstundum. Sum biðjum við Guð að blessa hina þjáðu, en gerum síðan ekkert þeim til hjálpar. Við verðum að hafa í huga að Guð vinnur í gegnum okkur.
Þegar við hjálpum öðrum, þjónum við Guði. Benjamín, mikill og góður konungur á tímum Mormónsbókar, kenndi þegnum sínum þessa reglu með fordæmi sínu. Hann þjónaði þeim alla ævi, vann fyrir lífsviðurværi sínu í stað þess að láta fólkið sjá fyrir sér. Í innblásinni ræðu skýrði hann frá því hvers vegna hann hefði yndi af því að þjóna. Hann sagði:
„Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.
Og ef ég, sem þér nefnið konung yðar, erfiða í þjónustu yðar, ættuð þér þá ekki að starfa í þjónustu hver annars?“ (Mósía 2:17–18).
-
Hvað getum við gert til að vera reiðubúin að sinna þörfum annarra?
Við meðtökum blessanir með þjónustu
-
Hvaða blessanir hljótum við með þjónustu við aðra?
Þegar við þjónum öðrum hljótum við mikilsverðar blessanir. Með þjónustu eykst kærleiksandi okkar. Það dregur úr eigingirni okkar. Þegar við hugsum um erfiðleika annarra virðast okkar eigin erfiðleikar ekki eins alvarlegir. Við verðum að þjóna öðrum til að öðlast eilíft líf. Guð hefur sagt að þeir sem lifa með honum verði að elska öll börn hans og þjóna þeim (sjá Matt 25:34–40).
Þegar við skoðum líf þeirra sem þjóna af óeigingirni, sjáum við að þeir hljóta meira en þeir gefa. Einn slíkur var Síðari daga heilagur að nafni Páll, sem missti báða fætur í slysi. Sumir hefðu ef til vill orðið bitrir og einskis nýtir, en Páll kaus heldur að hugsa um aðra. Hann lærði iðn og aflaði nægra tekna til að kaupa hús. Hann og eiginkona hans gerðu það að heimili fyrir mörg heimilislaus og óvelkomin börn. Sum voru illa bækluð. Allt fram í andlát sitt, tuttugu árum síðar, þjónaði hann þessum börnum og öðrum. Fyrir það var hann elskaður og dáður og hugsanir hans viku frá bækluðum fótleggjunum. Hann komst nærri Guði.
Spencer W. Kimball forseti sagði: „Við verðum fyrirferðarmeiri þegar við þjónum öðrum – reyndar verður auðveldar fyrir okkur að ‘finna’ okkur sjálf vegna þess að það er svo miklu meira að finna!“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball, 85–86).
Tækifæri til að þjóna
Sum okkar þjóna aðeins þeim sem þeim þykir gaman að vera með og forðast hina. Jesús bauð okkur samt að elska alla og þjóna þeim. Við fáum mörg tækifæri til að þjóna (sjá Mósía 4:15–19).
Við getum þjónað fjölskyldu okkar. Eiginmenn og eiginkonur ættu að vera vakandi fyrir þörfum hvor annars. Foreldrar eiga ekki aðeins að þjóna börnum sínum með því að fæða þau og klæða, heldur einnig með því að kenna þeim, leika við þau og vinna með þeim. Börnin geta hjálpað til við húsverkin og hjálpað hvert öðru.
Eiginmenn og eiginkonur þjóna hvort öðru og hjálpa. Þau geta hjálpast að við að annast börnin, og þau geta stutt hvort annað í leik og í starfi. Foreldrar geta fórnað ýmsu til að geta sent barn sitt í trúboð. Eldri drengur getur hughreyst yngri systur sem er myrkfælin eða hjálpað henni að læra að lesa. Spámenn okkar hafa sagt að fjölskyldan sé þýðingarmesta eining þjóðfélagsins. Við verðum að þjóna fjölskyldu okkar vel (sjá Mósía 4:14–15).
Við fáum mörg tækifæri til að þjóna nágrönnum okkar, vinum okkar, og jafnvel ókunnugum. Ef nágranni á í erfiðleikum með uppskeruna vegna veðurs, getum við hjálpað. Ef móðir er sjúk, getum við gætt barna hennar eða hjálpað til við húsverkin. Ef ungur maður hefur fallið frá kirkjunni, getum við leitt hann til baka. Ef barn verður fyrir aðkasti, getum við sýnt því vináttu og haft áhrif á aðra svo að þeir sýni því góðvild. Við þurfum ekki að þekkja þá sem við þjónum. Við ættum að leita leiða til að þjóna eins mörgum börnum himnesks föður og við getum.
Ef við búum yfir sérstökum hæfileikum, eigum við að nota þá í þjónustu annarra. Guð blessar okkur með hæfileikum og getu til að bæta líf annarra.
Við fáum tækifæri til að þjóna í kirkjunni. Einn tilgangur kirkjustofnunarinnar er að veita okkur tækifæri til að hjálpa hvert öðru. Kirkjuþegnar þjóna á ýmsan hátt, við trúboðsstörf, leiðtogastörf, með heimsóknum til kirkjuþegna, kennslu í kirkjunni og öðrum kirkjustörfum. Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er engin lærð klerkastétt og því verða leikmenn að vinna öll störf innan hennar.
-
Hvernig getum við veitt fjölskyldu okkar nægan tíma, þegar litið er til hinna mörgu tækifæra til þjónustu í kirkjunni og í samfélaginu?
Jesús Kristur er hin fullkomna fyrirmynd um þjónustu
-
Hverjar eru nokkrar eftirlætis frásagnir ykkar í ritningunum þar sem frelsarinn setur gott fordæmi um þjónustu?
Frelsarinn sýndi fullkomið fordæmi varðandi þjónustu. Hann sagðist ekki hafa komið til jarðar til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og láta líf sitt fyrir okkur (sjá Matt 20:28).
Jesús Kristur ann okkur heitar en við fáum skilið. Þegar hann var á jörðu þjónaði hann hinum fátæku, fáfróðu, syndugu og útskúfuðu. Hann kenndi fagnaðarerindið öllum sem vildu hlusta, mettaði fjölda hungraðra sem kom til að hlýða á hann, læknaði marga og reisti upp frá dauðum.
Hann er skapari jarðarinnar og frelsari okkar, samt vann hann mörg lítillát þjónustustörf. Skömmu fyrir krossfestinguna komu hann og lærisveinarnir saman. Eftir að hafa kennt þeim tók hann mundlaug og líndúk og þvoði fætur þeirra (sjá Jóh 13:4–10; sjá einnig myndina í þessum kafla). Á þeim tíma var það heiðursvottur að lauga fætur gesta og var það venjulega unnið af þjóni. Jesús gerði þetta sem kærleiksvott og þjónustu. Þegar við þjónum öðrum fúslega og í kærleiksanda líkjumst við Kristi meira.
-
Hvað getum við lært af fordæmi frelsarans hvað þjónustu varðar?
Viðbótarritningargreinar
-
Mósía 2 (ræða Benjamíns konungs um þjónustu)
-
K&S 81:5 (styðja, lyfta, styrkja)
-
Kól 3:23–24 (þjóna öðrum eins og þið munduð þjóna Drottni)
-
Al 17–18 (Ammon þjónaði konunginum)
-
Gal 5:13 (þjóna hvert öðru í kærleika)