Bækur og lexíur
Kafli 20: Skírn


Kafli 20

Skírn

A Hispanic missionary baptizing a Hispanic man in a large font or pool.

Boðorðið um að láta skírast

  • Hvers vegna verðum við að skírast?

Á okkar dögum, eins og á dögum Jesú, eru sérstakar reglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins sem við verðum að læra og hlýða. Regla fagnaðarerindis er sönn trú eða kenning. Helgiathöfn er trúarsiður eða helg framkvæmd. Fyrstu tvær reglur fagnaðarerindisins eru trú á Jesú Krist og iðrun. Skírnin er fyrsta helgiathöfn fagnaðarerindisins. Ein af fyrirmælum Drottins til postula sinna voru: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður“ (Matt 28:19–20).

Við verðum að skírast til fyrirgefningar synda okkar

Þegar við leggjum trú okkar á Jesú Krist, iðrumst og látum skírast, eru syndir okkar fyrirgefnar fyrir friðþægingu Jesú Krists.

Í ritningunum lærum við að Jóhannes skírari hafi í óbyggðunum „prédikað iðrunarskírn til fyrirgefningar synda“ (Mark 1:4). Postulinn Pétur kenndi: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar“ (Post 2:38). Eftir að Páll snerist til trúar sagði Ananías við hann: „Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum“ (Post 22:16).

Við verðum að skírast til að verða þegnar kirkju Jesú Krists

„Allir þeir, sem auðmýkja sig fyrir Guði og þrá að láta skírast, sem … [hafa] sannlega iðrast allra synda sinna … skulu teknir með skírn inn í kirkju hans“ (K&S 20:37).

Við verðum að láta skírast áður en við getum meðtekið gjöf heilags anda

Drottinn sagði: „Viljir þú snúa til mín og … iðrast allra þinna brota [synda] og láta skírast, já, í vatni, í nafni míns eingetna sonar … munt þú meðtaka gjöf heilags anda“ (HDP Móse 6:52).

Við verðum að láta skírast til að sýna hlýðni

Jesús Kristur var syndlaus, samt lét hann skírast. Hann sagði að skírn sín væri nauðsynleg „til að fullnægja öllu réttlæti“ (Matt 3:15). Spámaðurinn Nefí sagði Drottin hafa sagt við sig: „Fylgið mér þess vegna og gjörið það sem þér hafið séð mig gjöra af hjartans einlægni og án þess að hræsna fyrir Guði eða hafa blekkingar í frammi, heldur með sönnum ásetningi, með því að iðrast synda yðar og vitna fyrir föðurnum, að þér [séuð] fúsir til að taka á yður nafn Krists með skírn“ (2 Ne 31:12–13).

Við verðum að láta skírast til að komast inn í himneska ríkið

Jesús sagði: „Hver, sem trúir á mig og hefur hlotið skírn … mun erfa Guðs ríki. En hver, sem ekki trúir á mig og ekki hefur hlotið skírn, mun fordæmdur verða“ (3 Ne 11:33–34). Skírnin er hliðið að þeim vegi sem liggur til himneska ríkisins (sjá 2 Ne 31:17–18).

Rétta aðferðin við skírn

  • Hvernig eigum við að skírast?

Aðeins er til ein rétt skírnaraðferð. Jesús opinberaði spámanninum Joseph Smith, að sá sem hefði rétt prestdæmisvald til að framkvæma skírn, „skal stíga niður í vatnið ásamt þeim, sem til skírnar er kominn … þá skal dýfa honum eða henni niður í vatnið, og stíga síðan upp úr vatninu“ (K&S 20:73–74). Niðurdýfing er nauðsynleg. Páll postuli kenndi að niðurdýfingin í vatnið og að koma upp úr því aftur væri táknrænt fyrir dauða, greftrun og upprisu. Eftir skírnina hefjum við nýtt líf. Páll sagði:

„Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?

Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.

Því ef vér erum orðnir samgrónir honum fyrir líkingu dauða hans, munum vér einnig verða það fyrir líkingu upprisu hans“ (Róm 6:3–5).

Skírn með niðurdýfingu af þeim sem rétt vald hefur er eina viðurkennda skírnaraðferðin.

  • Hvers vegna er valdsumboð til að framkvæma skírn mikilvægt?

  • Á hvern hátt er skírn með niðurdýfingu lík greftrun og upprisu frelsarans?

Skírn við ábyrgðaraldur

  • Hver ætti að skírast?

Allir sem náð hafa átta ára aldri og eru ábyrgir gjörða sinna eiga að láta skírast. Sumar kirkjur kenna að skíra eigi lítil börn. Það er ekki í samræmi við kenningar frelsarans. Þegar Jesús talaði um lítil börn sagði hann: „Slíkra er himnaríki“ (Matt 19:14).

Spámaðurinn Mormón sagði það háðung gagnvart Guði að skíra lítil börn, því þau væru ekki fær um að syndga. Á sama hátt er ekki krafist skírnar af þeim sem eru andlega ófærir um að þekkja rétt frá röngu (sjá Moró 8:9–22).

Allir aðrir eiga að skírast. Við verðum að taka á móti skírnarathöfninni og reynast trú þeim sáttmálum, sem við gerum á þeirri stundu.

  • Hvað munduð þið segja við vin sem álítur að ungbörn þarfnist skírnar?

Við gerum sáttmála þegar við látum skírast

Margar ritningargreinar fræða okkur um skírn. Í einni þeirra segir spámaðurinn Alma að trú og iðrun séu skref sem búa okkur undir skírn. Hann sagði okkur gera sáttmála við Drottin þegar við látum skírast. Við lofum að gera ákveðna hluti og Guð lofar að blessa okkur í staðinn.

Alma sagði að við yrðum að þrá að kallast lýður Guðs. Við verðum að vera fús til að hjálpa hvert öðru og hughreysta. Við verðum að standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar. Er við gerum þetta og látum skírast, mun Guð fyrirgefa syndir okkar. Alma sagði við þá sem trúðu orðum hans um fagnaðarerindið:

„Sjá, hér eru Mormónsvötn … og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gert sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir yður?“ (Mósía 18:8, 10). Fólkið klappaði höndum saman af gleði og hrópaði að það þráði að láta skírast. Alma skírði þau í Mormónsvötnum (sjá Mósía 18:7–17).

Alma sagði að í skírninni gerðum við sáttmála við Drottin um að:

  1. Koma í hjörð Guðs.

  2. Bera hver annars byrðar.

  3. Standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar.

  4. Þjóna Guði og halda boðorð hans.

Þegar við látum skírast og höldum skírnarsáttmálann heitir Drottinn okkur að:

  1. Fyrirgefa syndir okkar (sjá Post 2:38; K&S 49:13).

  2. Úthella anda sínum enn ríkulegar yfir okkur (sjá Mósía 18:10).

  3. Veita okkur daglega leiðsögn og hjálp heilags anda (sjá Post 2:38; K&S 20:77).

  4. Láta okkur koma fram í fyrstu upprisunni (sjá Mósía 18:9).

  5. Gefa okkur eilíft líf (sjá Mósía 18:9).

  • Hvað haldið þið að það merki að bera hver annars byrðar? að standa sem vitni Guðs alltaf og alls staðar?

Skírn gefur okkur nýtt upphaf

Með skírn hefjum við nýjan lífsmáta. Þess vegna köllum við hana endurfæðingu. Jesús sagði að án þess að fæðast af vatni og anda, getum við ekki komist í ríki Guðs (sjá Jóh 3:3–5). Sú regla var greinilega útskýrð fyrir Adam:

„Eins og þér fæddust í heiminn af vatni og blóði og anda, sem ég hef gjört, og urðuð þannig að lifandi sál, já, eins verðið þér að endurfæðast inn í himnaríki af vatni og anda og verða hreinsaðir með blóði, já, blóði míns eingetna“ (HDP Móse 6:59).

Páll postuli sagði að eftir skírnina ættum við að byrja nýtt líf: „Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni til að lifa nýju lífi“ (Róm 6:4). Ein mesta blessun skírnarinnar er að hún gerir okkur mögulegt að hefja að nýju ferðina í átt að eilífu takmarki okkar.

  • Hvernig var skírn ykkar nýtt upphaf?

Viðbótarritningargreinar