Bækur og lexíur
Kafli 33: Trúboðsverk


Kafli 33

Trúboðsverk

The resurrected Jesus Christ standing with the apostles outside the city of Jerusalem. Christ is dressed in white robes and has His arms extended as He speaks to the eleven apostles. Christ is commanding the apostles to preach the gospel to all nations. The city Jerusalem is visible in the background.

Kirkja Drottins er trúboðskirkja

  • Á hvern hátt er trúboðsverk hluti af áætlun Guðs fyrir börn sín?

Drottinn opinberaði Adam áætlun fagnaðarerindisins: „Og þannig var fagnaðarerindið prédikað allt frá upphafi“ (HDP Móse 5:58). Síðar voru réttlátir synir Adams sendir til að boða öðrum fagnaðarerindið: „Þeir kölluðu alla menn hvarvetna til iðrunar. Og mannanna börnum var kennd trú.“ (HDP Móse 6:23).

Allir spámennirnir hafa verið trúboðar. Hverjum þeirra var boðið á sínum tíma að prédika fagnaðarboðskapinn. Alltaf þegar prestdæmið hefur verið á jörðu, hefur Drottinn þarfnast trúboða til að boða börnum hans eilífar reglur fagnaðarerindisins.

Kirkja Drottins hefur alltaf verið trúboðskirkja. Þegar frelsarinn var á jörðu vígði hann postula og hina sjötíu og veitti þeim vald og fól þeim að boða fagnaðarerindið. Mest af boðun þeirra var til þeirra eigin þjóðar, Gyðinganna (sjá Matt 10:5–6). Eftir upprisuna sendi Jesús postulana til að boða öðrum þjóðum fagnaðarerindið. Hann bauð postulunum: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Mark 16:15).

Páll postuli var mikill trúboði sem sendur var til Þjóðanna. Eftir að hann snerist til trúar á kirkjuna, eyddi hann því sem eftir var ævinnar við að boða fagnaðarerindið meðal þeirra. Oft var hann húðstrýktur, grýttur og fangelsaður í trúboðsstarfi sínu. Samt hélt hann áfram að prédika fagnaðarerindið (sjá Post 23:10–12; 26).

Trúboðsstarfið hófst á ný þegar kirkja Drottins var endurreist með spámanninum Joseph Smith. Nú hefur postulunum og hinum sjötíu verið falin meginábyrgð á boðun fagnaðarerindisins og þeim falið að sjá um að það sé prédikað um allan heim. Drottinn sagði við Joseph Smith: „Vilji minn er, að þú boðir fagnaðarerindi mitt land úr landi og borg úr borg. … Gef öllum vitnisburð þinn á hverjum stað“ (K&S 66:5, 7). Í júní 1830 hóf Samuel Harrison Smith, bróðir spámannsins, fyrstu trúboðsferðina fyrir kirkjuna.

Síðan þá hafa yfir ein milljón trúboða verið kallaðir og sendir til að boða fagnaðarerindið. Boðskapurinn sem þeir flytja heiminum er sá, að Jesús Kristur sé sonur Guðs og frelsari okkar. Þeir bera því vitni að fagnaðarerindið hafi verið endurreist á jörðu með spámanni Guðs. Trúboðunum er falin sú ábyrgð að boða fagnaðarerindið öllu fólki, skíra það og kenna því að fara í öllu eftir því sem Drottinn hefur boðið (sjá Matt 28:19–20). Trúboðar Síðari daga heilagra fara á eigin kostnað til allra heimshluta og prédika fagnaðarboðskapinn.

Fagnaðarerindið verður boðað um allan heim

  • Hvaða mismunandi leiðir hefur Drottinn undirbúið fyrir okkur til að deila fagnaðarerindinu?

Okkur hefur verið sagt í síðari tíma opinberun, að við verðum að færa hverri þjóð og hverjum lýð í heiminum hið endurreista fagnaðarerindi (sjá K&S 133:37). Drottinn gefur okkur aldrei boðorð án þess um leið að greiða okkur veg til að gera það sem okkur hefur verið boðið (sjá 1 Ne 3:7). Drottinn hefur greitt okkur veg til að kenna fagnaðarerindið þeim þjóðum sem eitt sinn voru okkur lokaðar. Ef við höldum áfram að biðja og sýna trú mun Drottinn opna aðrar þjóðir fyrir trúboðsstarfi.

Drottinn hefur einnig „upplýst huga merkra manna til uppgötvana sem útbreiða verk Drottins enn frekar á þann veg sem heimurinn hefur aldrei áður þekkt“ (Russell M. Nelson, í “Computerized Scriptures Now Available,“ Ensign, apr. 1988, 73). Fréttablöð, tímarit, sjónvarp, útvarp, gervihnettir, tölvur, Alnetið og skyld tækni stuðla nú að því að fagnaðarerindið berst til milljóna manna Við sem höfum fyllingu fagnaðarerindisins þurfum að nýta okkur þessar uppgötvanir til þess að uppfylla þetta boðorð Drottins: „Því að sannlega verður hljómurinn að berast frá þessum stað til alls heimsins og til ystu marka jarðarinnar – fagnaðarerindið verður að boða hverri [manneskju]“ (K&S 58:64).

  • Með hvaða hætti hafið þið séð tækninni beitt til að miðla fagnaðarerindinu á árangursríkan hátt?

Trúboðsverk er mikilvægt

  • Hvers vegna er mikilvægt fyrir hverja manneskju að heyra og skilja fagnaðarerindið?

„Það er æðsta áhugaefni okkar sem kirkju – að frelsa og upphefja sálir mannanna barna“ (Ezra Taft Benson, í Conference Report, apr. 1974, 151; eða Ensign, maí 1974, 104). Trúboðsstarfið er nauðsynlegt til þess að allir íbúar heims fái tækifæri til að heyra og meðtaka fagnaðarerindið. Þeir þurfa að læra sannleikann, snúa sér til Guðs og fá fyrirgefningu synda sinna.

Mörg systkina okkar á jörðu eru blinduð af fölskum mannasetningum og „[er aðeins] haldið frá sannleikanum vegna þess að [þau] vita ekki hvar hann er að finna“ (K&S 123:12). Með trúboðsstarfinu getum við fært þeim sannleikann.

Drottinn hefur boðið: „Vinnið í víngarði mínum í síðasta sinn – kallið í síðasta sinn á íbúa jarðar“ (K&S 43:28). Þegar við kennum systkinum okkar fagnaðarerindið erum við að greiða veginn fyrir síðari komu frelsarans (sjá K&S 34:6).

Við ættum öll að vera trúboðar

  • Hvernig getum við með virkum hætti leitað tækifæra til að deila fagnaðarerindinu með öðum? Með hvaða hætti getum við búið okkur sjálf undir slík tækifæri?

Hver og einn kirkjuþegn er trúboði. Við ættum að vera trúboðar, þótt við séum ekki formlega kölluð og sett í embætti. Við berum þá ábyrgð að kenna öllum börnum föðurins á himnum fagnaðarerindið með orðum okkar og gjörðum. Drottinn hefur sagt: „Hverjum manni sem fengið hefur viðvörun ber að aðvara náunga sinn“ (K&S 88:81). Spámaður hefur sagt, að við ættum að sýna náungunum að okkur sé annt um þá, áður en við aðvörum þá. (Sjá Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 262). Þeir þurfa að finna vináttu okkar og umhyggju.

Synir Mósía tóku fúslega að sér að boða fagnaðarerindið. Þegar þeir snerust til trúar á kirkjuna fylltust þeir samúð með öðrum. Þeir vildu boða óvinum sínum, Lamanítum, fagnaðarerindið, „því að þeir máttu ekki til þess hugsa, að nokkur mannssál færist. Já, jafnvel hugsunin ein um að nokkur sál yrði að þola óendanlega kvöl kom þeim til að nötra og skjálfa“ (Mósía 28:3). Um leið og fagnaðarerindið fyllir líf okkar gleði munum við finna þess háttar ást og umhyggju fyrir bræðrum okkar og systrum. Okkur mun langa til að deila boðskap fagnaðarerindisins með öllum sem vilja hlusta.

Við getum miðlað fagnaðarerindinu á margan hátt. Hér eru nokkrar ábendingar:

  1. Við getum sýnt vinum okkar og öðrum þá gleði sem það veitir okkur að lifa eftir sannleika fagnaðarerindisins. Þannig lýsir ljós okkar heiminum (sjá Matt 5:16).

  2. Við getum unnið bug á meðfæddri feimni með því að sýna öðrum vinsemd og gera þeim greiða hvenær sem tækifæri gefst. Við getum sýnt þeim einlægan áhuga, að við hugsum ekki aðeins um eigin hag.

  3. Við getum útskýrt fagnaðarerindið fyrir vinum okkar og öðrum.

  4. Við getum boðið vinum sem hafa áhuga á að fræðast um fagnaðarerindið inn á heimili okkar til að fá kennslu trúboðanna. Ef vinir okkar utan kirkjunnar búa of langt í burtu, getum við beðið trúboða á því svæði um að heimsækja þá.

  5. Við getum kennt börnum okkar mikilvægi þess að deila fagnaðarerindinu með öðrum og getum búið þau andlega og fjárhagslega undir trúboðsstarf. Við getum einnig búið okkur sjálf undir að þjóna í fastatrúboði á eftirlaunaaldri okkar.

  6. Við getum greitt tíund okkar og gefið í trúboðssjóð. Þær gjafir eru notaðar til trúboðsstarfa.

  7. Við getum lagt af mörkum í trúboðssjóð deildar, greinar eða í almennan trúboðssjóð til að styðja fjárhagslega einhverja þá trúboða sem fjölskyldur þeirra geta ekki stutt.

  8. Við getum unnið ættfræðistörf og musterisverk og hjálpað þannig áum okkar að öðlast blessanir fagnaðarerindisins.

  9. Við getum boðið fólki utan kirkjunnar á fjölskyldukvöld og skemmtanir kirkjunnar, ráðstefnur og samkomur.

  10. Við getum gefið eintök af kirkjutímaritunum. Við getum einnig deilt boðskap fagnaðarerindisins með þeirri tækni sem er að finna á opinberum vefsetrum kirkjunnar: LDS.org, kirkjajesukrists.is og Mormon.org.

Himneskur faðir mun hjálpa okkur að verða góðir trúboðar, þegar við þráum að deila fagnaðarerindinu með öðrum og biðjum um leiðsögn. Hann mun hjálpa okkur að finna leiðir til að deila fagnaðarerindinu með þeim sem umhverfis okkur eru.

  • Hugsið um fólk sem þið getið deilt fagnaðarerindinu með. Ákveðið hvernig þið farið að því. Íhugið að setja markmið um að deila fagnaðarerindinu með því fólki á ákveðnum degi.

Drottinn heitir okkur blessunum fyrir trúboðsverk

Drottinn sagði spámanninum Joseph Smith að trúboðar myndu hljóta miklar blessanir. Í þeirri opinberun sagði Drottinn við þá sem voru að koma heim úr trúboði sínu: „Þér eruð blessaðir, því að vitnisburður sá, sem þér hafið gefið, er skráður á himni, fyrir englana að líta, og þeir gleðjast yfir yður“ (K&S 62:3). Hann hefur einnig sagt að þeir sem vinna að sáluhjálp annarra fái syndir sínar fyrirgefnar og muni færa sinni eigin sál hjálpræði (sjá K&S 4:4; 31:5; 84:61).

Drottinn hefur sagt okkur:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“ (K&S 18:15–16).

  • Hvenær hafið þið upplifað gleði trúboðsstarfsins?

Viðbótarritningargreinar

  • K&S 1:17–23 (Joseph Smith boðið að prédika)

  • K&S 24:12 (Drottinn styrkir þá sem reyna alltaf að kunngera fagnaðarerindi hans)

  • K&S 38:41 (deila fagnaðarerindinu með mildi og hógværð)

  • K&S 34:4–6; Post 5:42 (boða skal fagnaðarerindið)

  • K&S 60:1–2 (Drottinn aðvarar þá sem eru hræddir við að prédika fagnaðarerindið)

  • K&S 75:2–5 (þeir sem kunngera fagnaðarerindið og eru trúfastir munu blessaðir með eilífu lífi)

  • K&S 88:81–82 (öllum þeim sem fengið hafa viðvörum ber að aðvara náunga sinn)

  • Matt 24:14 (boða skal fagnaðarerindið áður en endirinn kemur)

  • Abr 2:9–11 (fagnaðarerindið og prestdæmið skal veitast öllum þjóðum)