Kafli 38
Eilíft hjónaband
Hjónaband er vígt af Guði
Hjónaband milli karls og konu er lífsnauðsynlegur hluti af áætlun Guðs. „Hver sá, sem bannar hjónabönd, er ekki vígður af Guði, því að hjónabandið hefur Guð vígt manninum til handa“ (K&S 49:15). Frá upphafi hefur hjónabandið verið lögmál fagnaðarerindisins. Því er ætlað að vara að eilífu, ekki aðeins meðan dauðlegt líf varir.
Guð gaf Adam og Eva saman áður en nokkur dauði var í heiminum. Hjónaband þeirra var eilíft. Þau kenndu börnum sínum og barnabörnum lögmál eilífs hjónabands. Með árunum tók ranglæti að sá sér í hjörtum fólks og valdið til að framkvæma þessa helgiathöfn var tekið af jörðu. Með endurreisn fagnaðarerindisins hefur eilíft hjónaband verið endurreist á jörðu.
-
Hvers vegna er mikilvægt að vita að hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði?
Eilíft hjónaband er nauðsynlegt til upphafningar
-
Hver er kenning Drottins um hjónaband, og að hvaða leyti er hún frábrugðin skoðunum heimsins?
Margir í þessum heimi telja giftingu aðeins þjóðfélagssið, löggildan samning milli karls og konu um að búa saman. En í augum Síðari daga heilagra er hjónabandið þó miklu meira. Upphafning okkar er háð hjónabandinu, ásamt öðrum reglum og helgiathöfnum, svo sem trú, iðrun, skírn og meðtöku gjafar heilags anda. Við trúum, að hjónabandið sé helgasta sambandið sem til er milli karls og konu. Þetta helga samband hefur áhrif á hamingju okkar nú og um alla eilífð.
Himneskur faðir hefur gefið okkur lögmál eilífs hjónabands, svo að við getum orðið lík honum. Drottinn hefur sagt:
„Í hinni himnesku dýrð eru þrír himnar eða stig,
og til þess að ná því æðsta verður maðurinn að ganga inn í þessa prestdæmisreglu [það er hinn nýja og eilífa hjúskaparsáttmála].
Og gjöri hann það eigi, getur hann ekki náð henni“ (K&S 131:1–3).
Eilífa hjónavígslu verður að framkvæma með réttu valdi í musterinu
-
Hvers vegna verður hjónavígslan að vera framkvæmd með réttu valdi í musteri til þess að hún sé eilíf?
Eilífa hjónavígslu verður sá að framkvæma sem hefur innsiglunarvaldið. Drottinn hefur lofað: „Kvænist maður eftir … hinum nýja og ævarandi sáttmála … af þeim sem smurður er … skal [það] í fullu gildi, þegar þau eru farin úr heiminum“ (K&S 132:19).
Eilífa hjónavígslu verður ekki aðeins að framkvæma með réttu prestdæmisvaldi, hún verður einnig að fara fram í einu af musterum Drottins. Musterið er eini staðurinn þar sem framkvæma má þessa helgiathöfn.
Í musterinu krjúpa hjónaefni Síðari daga heilagra við eitt hinna helgu altara, að viðstaddri fjölskyldu sinni og vinum sem hafa fengið musterisgjöf. Þau gera hjúskaparsáttmála sinn frammi fyrir Guði. Þau eru lýst eiginmaður og eiginkona um tíma og alla eilífð. Það framkvæmir sá sem hefur hið heilaga prestdæmi Guðs og sérstakt vald til að framkvæma þessa helgiathöfn. Hann starfar undir handleiðslu Drottins og heitir hjónunum blessunum upphafningar. Hann veitir þeim leiðsögn um það sem þau verða að gera til að hljóta þær blessanir. Hann minnir þau á, að allar blessanir eru háðar hlýðni við lögmál Guðs.
Ef við erum gefin saman af öðrum en prestdæmishöfum í musterinu, er giftingin aðeins fyrir þetta líf. Eftir dauðann eiga hjónin engan rétt hvort til annars né til barna sinna. Eilíf hjónavígsla gerir okkur mögulegt að verða áfram fjölskylda eftir þetta líf.
Blessanir eilífs hjónabands
-
Hverjar eru blessanir eilífs hjónabands í þessu lífi og í eilífðinni?
Við Síðari daga heilög lifum fyrir eilífðina, ekki aðeins fyrir líðandi stund. Blessanir eilífs hjónabands geta samt orðið okkar nú jafnt og um eilífð. Sumar þessara blessana eru eftirfarandi:
-
Við vitum að hjónaband okkar getur varað að eilífu. Dauðinn fær aðeins aðskilið okkur um stundarsakir. Ekkert fær aðskilið okkur að eilífu nema okkar eigin óhlýðni. Sú vitneskja fær okkur til að leggja harðar að okkur til þess að hjónaband okkar sé hamingjusamt og farsælt.
-
Við vitum að fjölskyldusambönd okkar geta varað um eilífð. Vegna þeirrar vitneskju vöndum við okkur sérlega við kennslu og uppeldi barna okkar. Við sýnum þeim meiri þolinmæði og aukna ástúð. Árangurinn ætti að verða hamingjusamara heimili.
-
Vegna þess að við höfum verið gefin saman að vígðum hætti Guðs, eigum við rétt á ríkulegri leiðsögn andans í hjónabandi okkar, ef við höldumst verðug.
Blessanir þær sem við njótum um eilífð eru meðal annars:
-
Við getum lifað á æðsta stigi hins himneska ríkis Guðs.
-
Við getum orðið upphafin eins og Guð og hlotið fyllingu gleðinnar.
-
Hvaða áhrif hafa eilífðarsjónarmið á það hvað okkur finnst um hjónaband og fjölskyldu?
Við verðum að búa okkur undir eilíft hjónaband
-
Hvað getum við gert til að hjálpa ungu fólki að búa sig undir eilíft hjónaband?
Spencer W. Kimball forseti kenndi: „Giftingin er sennilega mikilvægasta ákvörðunin og hefur víðtækustu áhrifin, því hún snýst ekki aðeins um stundarhamingju, heldur eilífa gleði. Hún hefur ekki aðeins áhrif á hjónin sjálf, heldur einnig fjölskyldu þeirra og einkum börn þeirra og barnabörn og alla niðja frá þeim talið. Við val á félaga fyrir lífstíð og til eilífðar ætti vissulega að gera vandaða áætlun og umhugsun og bænir og föstu ætti að viðhafa til að vera viss um að af öllum ákvörðunum, sé þessi ekki röng“ (Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 193).
Eilíft hjónaband ætti að vera markmið allra Síðari daga heilagra. Það gildir einnig um þá sem hlotið hafa borgaralega vígslu. Undirbúningur að eilífu hjónabandi krefst mikillar íhugunar og bæna. Aðeins kirkjuþegnum, sem lifa réttlátlega, er leyfð innganga í musterið (sjá K&S 97:15–17). Við getum ekki skyndilega ákveðið einn daginn að við viljum giftast í musterinu og síðan farið í musterið næsta dag og gengið í hjónaband. Við verðum fyrst að uppfylla ákveðin skilyrði.
Áður en við getum farið í musterið verðum við að hafa verið virkir og verðugir þegnar kirkjunnar í það minnsta í eitt ár. Karlmenn verða að hafa meðtekið Melkísedeksprestdæmið. Við verðum að eiga viðtal við greinarforseta eða biskup. Ef við reynumst verðug fáum við hjá honum musterismeðmæli. Ef við reynumst ekki verðug mun hann veita okkur ráðleggingar og hjálpa okkur að ná settu marki og verða verðug musterisins.
Eftir að við höfum fengið meðmæli frá biskupi eða greinarforseta, verðum við að fara í viðtal hjá stikuforseta eða trúboðssforseta. Fyrir okkur eru lagðar spurningar sem þessar í viðtali fyrir musterismeðmæli:
-
Trúir þú á og átt vitnisburð um Guð, eilífan föður, son hans, Jesú Krist, og heilagan anda? Átt þú traustan vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi?
-
Styður þú forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem spámann, sjáanda og opinberara? Viðurkennir þú hann sem þann eina á jörðu sem vald hefur til þess að nota alla prestdæmislyklana?
-
Lifir þú eftir skírlífislögmálinu?
-
Greiðir þú fulla tíund?
-
Heldur þú Vísdómsorðið?
-
Ert þú heiðvirð/ur í samskiptum þínum við aðra?
-
Reynir þú í einlægni að halda sáttmálana sem þú hefur gert, sækja sakramentissamkomur og prestdæmisfundi, og lifa í samræmi við lögmál og boðorð fagnaðarerindisins?
Þegar beðið er um musterismeðmæli skal hafa hugfast að það eru heilög forréttindi að ganga inn í musterið. Það er alvarlegur hlutur, sem ekki má taka léttilega.
Við verðum í einlægni að leitast við að hlýða hverjum þeim sáttmála sem við gerum í musterinu. Drottinn segir að ef við erum trú og staðföst munum við komast fram hjá englum til upphafningar okkar. Við munum líkjast okkar himneska föður (sjá K&S 132:19–20). Musterishjónavígsla er hverrar fórnar virði. Hún er leiðin til að öðlast ómælanlegar og eilífar blessanir.
-
Hvað getum við gert til að hvetja ungt fólk til að setja markmið um að giftast í musterinu? Hvernig getum við hjálpað því að undurbúast?
Viðbótarritningargreinar
-
1 Mós 1:26–28 (við eigum að margfaldast og uppfylla jörðina)
-
1 Móse 2:21–24 (fyrsta hjónavígslan var framkvæmd af Guði)
-
Matt 19:3–8 (það sem Guð hefur sameinað)
-
K&S 132 (eilíft eðli hjúskaparlögmálsins)
-
K&S 42:22–26 (halda skal hjúskapareiða)
-
Jakob 3:5–7 (hjón eiga að vera trú hvort öðru)