Kafli 5
Sköpunin
Áætlun Guðs fyrir okkur
-
Hvers vegna þurftum við að koma til jarðarinnar?
Þegar við lifðum sem andabörn hjá himneskum foreldrum okkar, sagði faðirinn okkur frá áætlun sinni um að við yrðum líkari honum. Við hrópuðum af gleði þegar við heyrðum áætlun hans (sjá Job 38:7). Við tókum nýrri reynslu fagnandi. Til þess að þetta gæti gerst, urðum við að yfirgefa návist föður okkar og hljóta dauðlegan líkama. Við þurftum annan stað til að lifa á, þar sem við gætum búið okkur undir að líkjast honum. Okkar nýja heimili var kallað jörð.
-
Hvers vegna haldið þið að við höfum hrópað af gleði þegar við kynntumst sáluhjálparáætluninni?
Jesús skapaði jörðina
Jesús Kristur skapaði þennan heim og allt sem í honum er. Hann skapaði einnig marga aðra heima. Hann gerði svo með krafti prestdæmisins, undir leiðsögn okkar himneska föður. Guð faðirinn sagði: „Og ótal heima hef ég skapað … og ég skapaði þá með syninum, sem er minn eingetni“ (HDP Móse 1:33). Við höfum aðra vitnisburði um þennan sannleika. Joseph Smith og Sidney Rigdon sáu Jesú Krist í sýn. Þeir vitnuðu, „að með honum, fyrir hann, og af honum eru og voru heimarnir skapaðir, og íbúar þeirra eru getnir synir og dætur Guðs“ (K&S 76:24).
Sköpunin framkvæmd
-
Hver er tilgangur sköpunarinnar?
Jörðin og allt sem á henni er var skapað andlega áður en það var skapað efnislega (sjá HDP Móse 3:5). Við skipulag sköpunar hinnar efnislegu jarðar, sagði Kristur við þá sem með honum voru: „Við munum fara niður, … því að þar er rúm og við munum gjöra jörð, sem þessir [andabörn föður okkar á himnum] geta dvalið á“ (Abr 3:24).
Undir leiðsögn föðurins mótaði Kristur og skipulagði jörðina. Hann aðgreindi ljós frá myrkri og gjörði dag og nótt. Hann mótaði sól, tungl og stjörnur. Hann aðgreindi vötnin frá þurrlendinu til að gjöra höf, ár og vötn. Hann gjörði jörðina fagra og frjósama. Hann gjörði grös, tré, blóm og aðrar plöntur af öllum toga. Þessar plöntur höfðu að geyma fræ sem nýjar plöntur gátu vaxið upp af. Síðan skapaði hann dýrin – fiska, nautgripi, skordýr og fugla af öllu tagi. Þessi dýr höfðu þann eiginleika að geta fjölgað sinni eigin tegund.
Nú var jörðin tilbúin fyrir hina mestu allrar sköpunar – mannkynið. Anda okkar yrði gefinn líkami af holdi og blóði svo að hann gæti lifað á jörðu. „Og ég, Guð, sagði við minn eingetna, sem með mér var frá upphafi: Vér skulum gjöra mann eftir vorri eigin mynd, líkan oss, og svo varð“ (HDP Móse 2:26). Og þannig var fyrsti maðurinn, Adam, og fyrsta konan, Eva, mótuð og þeim gefnir líkamar sem voru í líkingu líkama okkar himnesku foreldra. „Hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu“ (1 Mós 1:27). Þegar Drottinn lauk sköpunarverki sínu, var hann ánægður og vissi að verkið var gott, og hann hvíldist um stund.“
Sköpunarverk Guðs sýna ást hans
-
Hvernig sýna sköpunarverk Guðs að hann elskar okkur?
Við lifum nú í þessum fagra heimi. Hugsið um sólina, sem veitir okkur varma og ljós. Hugsið um regnið, sem lætur jurtirnar vaxa og lætur okkur finna að heimurinn er hreinn og ferskur. Hugsið um hversu gott það er að heyra fuglana syngja eða vin þinn hlæja. Hugsið um hversu dásamlegur líkami okkar er – hvernig við getum unnið og leikið og hvílst. Þegar við hugleiðum alla þessa sköpun, fer okkur að skiljast hversu vitrar, máttugar og elskuríkar verur Jesús Kristur og okkar himneski faðir eru. Þeir hafa sýnt okkur mikla ást með því að leggja okkur til allt sem við þörfnumst.
Líf plantna og dýralíf var einnig gjört okkur til gleði. Drottinn sagði: „Já, allt, sem af jörðu kemur, hvert á sínum þroskatíma, er ætlað manninum til heilla og gagns, bæði til að þóknast auganu og gleðja hjartað – Já, til fæðu og klæðis, til bragðs og ilms, til að styrkja líkamann og lífga sálina“ (K&S 59:18–19). Þrátt fyrir að skapaðar verur Guðs séu margar, þekkir hann þær þó allar og elskar þær. Hann sagði: „En á öllu hef ég tölu, því að það er mitt og ég þekki það“ (HDP Móse 1:35).
-
Hvert er sumt af því sem þið metið mikils varðandi sköpunarverk Guðs?
Viðbótarritningargreinar
-
1 Mós 1; 2:1–7; Abr 3:22–23; 4–5; HDP Móse 1:27–42; 2–3 (frásagnir af sköpuninni)
-
Hebr 1:1–3; Kól 1:12–17; K&S 38:1–3 (Jesús skaparinn)
-
K&S 59:18–20; HDP Móse 2:26–31; K&S 104:13–17; Matt 6:25–26 (sköpunin sýnir ást Guðs)