Bækur og lexíur
Kafli 16: Kirkja Jesú Krists fyrr á tímum


Kafli 16

Kirkja Jesú Krists fyrr á tímum

Christ with the twelve men chosen by Him to be His Apostles. Christ has His hands upon the head of one of the men (who kneels before Him) as He ordains the man to be an Apostle. The other eleven Apostles are standing to the left and right of Christ.

Nokkur atriði sem einkenna kirkju Jesú Krists

„Vér höfum trú á sama skipulagi og var í frumkirkjunni, þ.e. postulum, spámönnum, hirðum, fræðurum, guðspjallamönnum og svo framvegis“ (TA 1:6).

Jesús stofnaði kirkju sína þegar hann var á jörðu. Hún nefndist Kirkja Jesú Krists (sjá 3 Ne 27:8), og meðlimirnir kölluðust heilagir (sjá Ef 2:19–20).

Opinberun

Þegar Jesús stofnaði kirkju sína leiðbeindi hann og stjórnaði sjálfur leiðtogum hennar. Hann hlaut aftur á móti leiðsögn frá föður sínum á himnum. (Sjá Hebr 1:1–2.) Þannig var Kirkju Jesú Krists stjórnað af Guði en ekki mönnum. Jesús kenndi fylgjendum sínum, að opinberun væri sá „klettur“ sem hann mundi byggja kirkju sína á (sjá Matt 16:16–18).

Áður en Jesús sté upp til himna eftir upprisu sína, sagði hann við postulana: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Matt 28:20). Trúr orðum sínum hélt hann áfram að leiðbeina frá himnum. Hann sendi heilagan anda, sem vera átti þeim huggari og opinberari (sjá Lúk 12:12; Jóh 14:26). Hann talaði til Sáls í sýn (sjá Post 9:3–6). Hann opinberaði Pétri, að ekki ætti aðeins að kenna Gyðingum fagnaðarerindið heldur öllum heiminum (sjá Post 10). Hann opinberaði Jóhannesi margan dýrðlegan sannleik, sem skráður er í Opinberun Jóhannesar. Nýja testamentið greinir frá hvernig Jesús leiddi kirkju sína, opinberaði vilja sinn og upplýsti lærisveinana á margan annan hátt.

Vald frá Guði

Ekki er hægt að framkvæma helgiathafnir fagnaðarerindisins né kenna reglur þess án prestdæmisins. Faðirinn veitti Jesú Kristi þetta vald (sjá Hebr 5:4–6), og Jesús vígði síðan postula sína og veitti þeim kraft og vald prestdæmisins (sjá Lúk 9:1–2; Mark 3:14). Hann áminnti þá: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður.“ (Jóh 15:16).

Til þess að regla héldist í kirkju Jesú veitti hann postulunum tólf mestu ábyrgðina og valdið. Hann gerði Pétur að yfirpostula og veitti honum lykla til að innsigla blessanir bæði á jörðu og himni (sjá Matt 16:19). Jesús vígði einnig aðra embættismenn til að vinna ákveðin skyldustörf. Eftir að hann sté upp til himna var sami háttur hafður á tilnefningu og vígslu. Fleiri voru vígðir til prestdæmisins af þeim sem þegar höfðu fengið það valdsumboð. Jesús kunngjörði með heilögum anda að hann samþykkti þær vígslur (sjá Post 1:24).

Skipulag kirkjunnar

Kirkja Jesú Krists var vandlega skipulögð eining. Henni var líkt við byggingu sem hafði „að grundvelli postulana og spámennina, en Krist sjálfan að hyrningarsteini“ (Ef 2:20).

Jesús tilnefndi aðra prestdæmisleiðtoga til að aðstoða postulana í þjónustustarfi þeirra. Hann sendi embættismenn sem kölluðust „hinir sjötíu“, tvo og tvo saman, til að boða fagnaðarerindið (sjá Lúk 10:1). Aðrir embættismenn kirkjunnar voru guðspjallamenn (patríarkar), hirðar (ráðandi leiðtogar), æðstu prestar, öldungar, biskupar, prestar, kennarar og djáknar (sjá kafla 14 í þessari bók). Allir voru þessir embættismenn nauðsynlegir til að vinna trúboðsstarf, framkvæma helgiathafnir, leiðbeina kirkjumeðlimum og veita þeim innblástur. Þessir embættismenn hjálpuðu meðlimunum að verða „einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs“ (Ef 4:13).

Biblían segir okkur ekki allt varðandi prestdæmið og skipulag og stjórn kirkjunnar. Samt hefur nægilegt af Biblíunni varðveist til að sýna fegurð og fullkomnun kirkjuskipulagsins. Postulunum var boðið að fara út um allan heim og prédika (sjá Matt 28:19–20). Þeir gátu ekki verið um kyrrt í einhverri einni borg til að annast nýja trúskiptinga. Því voru prestdæmisleiðtogar kallaðir á staðnum og vígðir, og postularnir voru yfir þá settir. Postularnir og aðrir kirkjuleiðtogar heimsóttu og rituðu bréf til hinna ýmsu greina. Þannig geymir Nýja testamentið bréf rituð af Páli, Pétri, Jakobi, Jóhannesi og Judasi, og í þeim var ráðgjöf og leiðbeiningar til prestdæmisleiðtoga staðanna.

Nýja testamentið sýnir að þessu skipulagi kirkjunnar var ætlað að haldast. Að Júdasi látnum voru postularnir t.d. aðeins ellefu. Skömmu eftir að Jesús sté upp til himna, hittust postularnir ellefu til að velja einhvern í stað Júdasar. Með opinberun frá heilögum anda völdu þeir Matthías (Sjá Post 1:23–26). Jesús ætlaði tólf postulum að stjórna kirkjunni. Það virðist augljóst að skipulagið átti að haldast eins og hann hafði sett það.

Frumreglur og helgiathafnir

Postularnir kenndu tvær grundvallarreglur: Trú á Drottin Jesú Krist og iðrun. Eftir að nýir trúskiptingar höfðu öðlast trú á Jesú Krist sem son Guðs og lausnara sinn og höfðu iðrast synda sinna, tóku þeir á móti tveimur helgiathöfnum: Skírn með niðurdýfingu og veitingu á gjöf heilags anda með handayfirlagningu (sjá Post 19:1–6). Þetta voru frumreglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins. Jesús hafði kennt: „Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda“ (Jóh 3:5).

Helgiathafnir framkvæmdar fyrir hina dánu

Jesús hafði séð svo um að allir gætu heyrt fagnaðarerindið, annað hvort á jörðu eða eftir dauðann. Milli dauða síns og upprisu vitjaði Jesús anda þeirra sem dáið höfðu. Hann skipulagði trúboðsverk á meðal hinna dánu. Hann útnefndi réttláta sendiboða og veitti þeim vald til að kenna fagnaðarerindið öllum öndum látinna manna. Það gaf þeim möguleika á að meðtaka fagnaðarerindið (sjá 1 Pét 3:18–20; 4:6; K&S 138). Lifandi kirkjuþegnar framkvæmdu síðan helgiathafnir í þágu hinna látnu (sjá 1 Kor 15:29). Helgiathafnir eins og skírn og staðfestingu verður að framkvæma á jörðu.

Andlegar gjafir

Allir trúfastir kirkjuþegnar áttu rétt á að hljóta gjafir andans. Þær veittust þeim í samræmi við þarfir þeirra, hvers og eins, hæfni og störf. Meðal þeirra gjafa voru trú, sem fól í sér kraft til að lækna og til að læknast, spádómur og sýnir. (Gjafir andans eru ræddar nánar í kafla 22.) Andlegar gjafir eru allaf til staðar í hinni sönnu kirkju Jesú Krists (sjá 1 Kor 12:4–11; Moró 10:8–18; K&S 46:8–29). Jesús sagði lærisveinum sínum að þessi tákn, eða þessar andlegu gjafir, fylgdu ávallt þeim sem trúa (sjá Mark 16:17–18). Margir af lærisveinum hans unnu kraftaverk, spáðu eða sáu sýnir fyrir kraft heilags anda.

  • Hvers vegna þarfnast kirkja Jesú Krists þessara sex einkenna?

Kirkja Jesú Krists í Ameríku

Eftir upprisu sína vitjaði Jesús íbúa Ameríku og skipulagði kirkju sína meðal þeirra, kenndi fólkinu í þrjá daga og kom síðan aftur um nokkurt skeið þar á eftir (sjá 3 Ne 11–28). Síðan yfirgaf hann þau og sté upp til himna. Í rúm 200 ár lifðu þau réttlátu lífi og voru meðal þeirra hamingjusömustu sem Guð hefur skapað (sjá 4 Ne 1:16).

Fráhvarf frá hinni sönnu kirkju

  • Hvað merkir hugtakið fráhvarf?

Illir menn hafa alltaf reynt að eyðileggja verk Guðs. Það gerðist á meðan postularnir voru enn á lífi og stjórnuðu hinni ungu, uppvaxandi kirkju. Sumir meðlimanna kenndu hugmyndir úr hinni gömlu heiðingjatrú sinni eða Gyðingatrú í stað hins einfalda sannleika sem Jesús kenndi. Sumir gerðu beina uppreisn. Þar að auki voru ofsóknir utan frá gegn kirkjunni. Kirkjuþegnar voru pyntaðir og drepnir vegna trúar sinnar. Einn af öðrum voru postularnir drepnir eða á annan hátt brottkallaðir af jörðinni. Vegna ranglætis og fráhvarfs var postullegt valdsumboð og prestdæmislyklar einnig tekið af jörðinni. Skipulagið sem Jesús Kristur hafði á komið var ekki lengur fyrir hendi og ringulreið tók við. Sífellt fleiri villur slæddust inn í kenningar kirkjunnar og brátt varð upplausn hennar algjör. Það tímabil, sem hin sanna kirkja var ekki lengur á jörðu, kallast fráhvarfið mikla.

Fljótlega tók heiðinn átrúnaður að ná tökum á huga hinna svokölluðu kristnu manna. Rómverski keisarinn gerði þessa fölsku kristni að ríkistrú. Sú kirkja var mjög frábrugðin þeirri kirkju sem Jesús skipulagði. Hún kenndi að Guð væri vera án forms eða efnis.

Þetta fólk missti skilninginn á ást Guðs til okkar. Það vissi ekki að við erum börn hans. Það skildi ekki tilgang lífsins. Mörgum helgiathöfnum var breytt vegna þess að prestdæmið og opinberun voru ekki lengur á jörðinni.

Keisarinn valdi sína eigin leiðtoga og nefndi þá stundum sömu nöfnum og prestdæmisleiðtogar hinnar sönnu kirkju Krists gengu undir. Nú voru engir postular eða aðrir prestdæmisleiðtogar með vald frá Guði og það voru engar andlegar gjafir. Spámaðurinn Jesaja sá þetta ástand fyrir og spáði: „Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa“ (Jes 24:5). Þetta var ekki lengur kirkja Jesú Krists; þetta var kirkja mannanna. Jafnvel nafni hennar hafði verið breytt. Í Ameríku varð einnig fráhvarf (sjá 4 Ne).

Sagt fyrir um endurreisnina

  • Hvaða spádómar í Gamla og Nýja testamentinu sögðu fyrir um endurreisnina?

Guð hafði séð fráhvarfið fyrir og undirbúið endurreisn fagnaðarerindisins. Pétur postuli ræddi um þetta við Gyðingana: „Og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús. Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli“ (Post 3:20–21).

Opinberarinn Jóhannes hafði einnig séð þann tíma fyrir, þegar fagnaðarerindið yrði endurreist. Hann sagði: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ (Op 14:6).

  • Hvers vegna var endurreisnin nauðsynleg?

  • Íhugið þær blessanir sem þið njótið vegna þess að Kirkja Jesú Krists hefur verið endurreist á jörðinni.

Viðbótarritningargreinar