Kafli 43
Tákn síðari komunnar
Jesús Kristur mun koma aftur til jarðar
-
Hver eru sum táknanna um síðari komuna?
Frelsarinn sagði Joseph Smith: „Ég mun opinbera mig frá himni í veldi og mikilli dýrð … og dvelja í réttlæti meðal manna á jörðu í þúsund ár, og hinir ranglátu munu ekki standa“ (K&S 29:11; sjá einnig kafla 44 og 45 í þessari bók). Jesús hefur sagt okkur að ákveðin tákn og atburðir muni gera okkur viðvart þegar tími síðari koma hans er í nánd.
Í þúsundir ára hafa fylgjendur Jesú horft fram til síðari komunnar sem tíma friðar og gleði. En áður en frelsarinn kemur munu íbúar jarðar verða fyrir miklum raunum og hörmungum. Himneskur faðir okkar vill að við verðum undir þá erfiðleika búin. Hann ætlar okkur einnig að vera andlega reiðubúin þegar Drottinn kemur í dýrð sinni. Því hefur hann gefið okkur tákn, og þau tákn eru atburðir sem sýna okkur hvenær síðari koma frelsarans er í nánd. Guð hefur á liðnum öldum opinberað spámönnum sínum þau tákn. Hann hefur sagt, að allir trúir fylgjendur Krists muni vita hver táknin séu og vera vakandi fyrir þeim (sjá K&S 45:39). Ef við erum hlýðin og trú munum við lesa ritningarnar og þekkja þessi tákn.
Sum tákn síðari komu Jesú Krists eru þegar orðin að veruleika eða eru nú að koma fram. Önnur munu uppfyllast í framtíðinni.
Ranglæti, styrjaldir og umbrot
Mörg þessara tákna eru hræðileg og ógnvekjandi. Spámennirnir hafa varað við því, að á jörðunni verði mikil umbrot, ranglæti, styrjaldir og þjáningar. Spámaðurinn Daníel sagði þetta verða slík hörmungartíð, sem aldrei hafi áður verið (sjá Dan 12:1). Drottinn sagði: „Kærleikur manna mun kólna og misgjörðir verða miklar“ (K&S 45:27). „Og allt verður í uppnámi,“ og „allir verða slegnir ótta “ (K&S 88:91). Við megum búast við jarðskjálftum, sjúkdómum, hungursneyðum, stórviðrum, þrumum og eldingum (sjá Matt 24:7; K&S 88:90). Haglél munu eyðileggja uppskeru jarðar (sjá K&S 29:16).
Jesús sagði lærisveinum sínum að styrjöld myndi yfirtaka jörðina. „Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. … Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki“ (Matt 24:6–7). Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Látið ekki hugfallast er við greinum ykkur frá örðugum tíðum, því þær munu brátt verða, sverðið, hungursneyðin og farsóttin nálgast. Mikil eyðing mun verða á yfirborði þessa lands. Gerið því ekki ráð fyrir að nokkur stafkrókur í spádómum allra hinna helgu spámanna muni ekki koma fram, og enn eiga margir spádómar eftir að uppfyllast“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 252).
Mörg þessi tákn eru að koma fram. Ranglætið er alls staðar. Þjóðir eiga sífellt í styrjöldum. Jarðskjálftar og aðrar hörmungar verða. Margir hafa þjáðst vegna tortímandi stórviðra, þurrka, hungursneyða og sjúkdóma. Við megum vera viss um að þessar hörmungar versna enn áður en Drottinn kemur.
Ekki verða þó allir atburðir fyrir síðari komuna ógnvekjandi. Margt gleðilegt gerist einnig.
Endurreisn fagnaðarerindisins
Drottinn sagði: „Ljós [mun] tendrast þeim sem í myrkri sitja og það verður fylling fagnaðarerindis míns“ (K&S 45:28). Spámenn til forna sögðu fyrir um endurreisn fagnaðarerindisins. Jóhannes postuli sá engil endurreisa fagnaðarerindið (sjá Op 14:6–7). Til uppfyllingar þeim spádómi færðu engillinn Moróní og aðrar himneskar verur Joseph Smith fagnaðarerindi Jesú Krists.
Mormónsbók kemur fram
Drottinn sagði Nefítum frá öðru tákni: Afkomendur þeirra fengju Mormónsbók (sjá 3 Ne 21). Á tímum Gamla testamentisins sáu spámennirnir Jesaja og Esekíel fyrir komu Mormónsbókar (sjá Jes 29:4–18; Esek 37:16–20). Þeir spádómar eru nú að koma fram. Mormónsbók er komin og verið er að færa hana öllum heiminum.
Fagnaðarerindið boðað um allan heim
Annað tákn um komu Jesú er að „þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“ (Matt 24:14; sjá einnig JS – M 1:31). Allir munu heyra fyllingu fagnaðarerindisins á eigin tungu (sjá K&S 90:11). Allt frá endurreisn kirkjunnar hafa trúboðar boðað fagnaðarerindið. Trúboðsstarfið hefur aukist og nú prédika tugir þúsunda trúboða í mörgum löndum heims og á mörgum tungumálum. Fyrir síðari komuna mun Drottinn opna leið til þess að hægt verði að færa öllum þjóðum sannleikann.
Koma Elía
Spámaðurinn Malaki spáði því, að áður en Kristur kæmi í annað sinn myndi spámaðurinn Elía verða sendur til jarðar. Elía myndi endurreisa innsiglunarvaldið, svo að hægt yrði að innsigla fjölskyldur saman. Hann myndi einnig vekja með mönnum áhuga og umhyggju fyrir áum sínum og afkomendum. (Sjá Mal 4:5–6; K&S 2.) Spámaðurinn Elía kom til Josephs Smith í apríl 1836. Síðan þá hefur áhugi á ættfræði og fjölskyldusögu aukist. Við getum einnig framkvæmt innsiglun og aðrar helgiathafnir í musterunum fyrir lifendur og látna.
Afkomendur Lehís munu verða mikil þjóð
Drottinn sagði, að þegar koma sín væri í nánd myndu Lamanítar verða réttlát og virt þjóð. Hann sagði: „Áður en hinn mikli dagur Drottins kemur [munu] Lamanítar blómgast sem rós“ (K&S 49:24). Mikill fjöldi afkomenda Lehís eru nú að taka á móti blessunum fagnaðarerindisins.
Bygging Nýju Jerúsalem
Þegar koma Jesú nálgast munu hinir trúföstu heilögu reisa réttláta borg, borg Guðs, sem nefnd verður Nýja Jerúsalem. Jesús Kristur mun sjálfur ríkja þar. (Sjá 3 Ne 21:23–25; HDP Móse 7:62–64; TA 1:10.) Drottinn sagði að borgin yrði reist í Missouri-fylki í Bandaríkjunum (sjá K&S 84:2–3).
Þetta eru aðeins nokkur af þeim táknum sem Drottinn hefur gefið okkur. Ritningarnar lýsa mörgum fleiri.
-
Hvaða merki sjáið þið um að táknin séu að uppfyllast?
Að þekkja tákn tímanna getur hjálpað okkur
-
Hvernig getum við verið róleg og friðsæl, jafnvel þótt táknin séu hræðileg og ógnvekjandi?
Talandi um síðari komu sína, sagði Drottinn: „Daginn og stundina veit enginn maður, né englar himins“ (K&S 49:7). Hann kenndi þetta með dæmisögunni um fíkjutréð. Hann sagði, að þegar fíkjutréð færi að laufgast mættum við vita að sumarið kæmi brátt. Þegar við sæjum táknin sem um getur í ritningunum mættum við á sama hátt vita að koma hans væri í nánd. (Sjá Matt 24:32–33.)
Drottinn gefur þessi tákn okkur til hjálpar. Við getum komið reglu á líf okkar og búið okkur og fjölskyldur okkar undir það sem koma skal.
Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hörmungunum, heldur getum við horft fram til komu frelsarans með gleði. Drottinn sagði: „Verið eigi áhyggjufullir, því að þegar allt þetta verður, megið þér vita, að fyrirheitin, sem yður voru gefin, munu uppfyllast“ (K&S 45:35). Hann sagði, að þeim sem réttlátir væru við komu hans yrði ekki tortímt, „heldur munu þeir standast daginn. Og þeir hljóta jörðina í arf … og börn þeirra munu vaxa upp syndlaus til sáluhjálpar. … Því að Drottinn verður mitt á meðal þeirra og dýrð hans mun hvíla á þeim, og hann verður konungur þeirra og löggjafi“ (K&S 45:57-59).
Viðbótarritningargreinar
-
1 Kor 15:22–28 (endirinn kemur; dauðinn að engu gjörður)
-
Matt 16:1–4 (að greina tákn tímanna)
-
Matt 24; K&S 29:14–23; 45:17–57; 88:87–94; JS – M 1 (tákn um síðari komuna)
-
1 Þess 5:1–6 (fylgjast með táknunum og undirbúast)
-
K&S 38:30 (vera viðbúin svo við þurfum ekki að óttast)
-
K&S 68:11 (við getum þekkt táknin)