Bækur og lexíur
Kafli 13: Prestdæmið


Kafli 13

Prestdæmið

Two Fijian men administering to a young girl lying in a bed.

Hvað er prestdæmið?

Prestdæmið er eilífur kraftur og eilíft vald Guðs. Guð skapaði himnana og jörðina með prestdæminu og ríkir yfir þeim. Með þeim krafti er alheiminum haldið í fullkominni reglu. Með þeim krafti kemur hann til vegar verki sínu og dýrð, sem er „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mansins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Okkar himneski faðir veitir verðugum karlkyns meðlimum kirkjunnar prestdæmiskraft sinn. Prestdæmið gerir þeim kleift að starfa í nafni Guðs að sáluhjálp mannkynsins. Með því geta þeir fengið valdsumboð til að boða fagnaðarerindið, þjónusta helgiathafnir sáluhjálpar og stjórna ríki Guðs á jörðu.

  • Hugsið um gildi þess að Guð leyfir verðugum mönnum og piltum að hafa prestdæmi sitt.

Hvers vegna þurfum við prestdæmið á jörðu?

Við verðum að hafa prestdæmisvald til að starfa í nafni Guðs þegar við framkvæmum helgiathafnir fagnaðarerindisins, svo sem skírn, staðfestingu, veitingu sakramentis og musterishjónavígslur. Hafi maðurinn ekki prestdæmið mun Drottinn ekki viðurkenna þá helgiathöfn sem hann framkvæmir, hversu einlægur sem hann kann að vera (sjá Matt 7:21–23; TA 1:5). Þessar mikilvægu helgiathafnir verða þeir að framkvæma sem hafa prestdæmið á jörðu.

Menn þurfa prestdæmið til að stjórna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og starfi hennar hvar sem er í heiminum. Þegar Kristur var á jörðu valdi hann postula og vígði þá, svo að þeir gætu leitt kirkju hans. Hann gaf þeim kraft og valdsumboð prestdæmisins til að starfa í nafni sínu (sjá Mark 3:13–15; Jóh 15:16).

Önnur ástæða þess að prestdæmið þarf að vera á jörðu er sú, að við fáum skilið vilja Drottins og unnið að markmiðum hans. Guð opinberar vilja sinn ráðandi prestdæmisfulltrúa sínum á jörðu, spámanninum. Spámaðurinn, sem er forseti kirkjunnar, þjónar sem talsmaður Guðs til allra meðlima kirkjunnar og allra íbúa jarðar.

  • Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir mann að hafa rétt valdsumboð þegar hann framkvæmir helgiathöfn?

Hvernig meðtaka menn prestdæmið?

Drottinn hefur séð svo um að prestdæmið veitist sonum hans á jörðu á skipulegan hátt. Verðugur karlmeðlimur kirkjunnar meðtekur prestdæmið með „handayfirlagningu þeirra sem vald hafa, til að prédika fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir þess“ (TA 1:5).

Þannig meðtóku menn prestdæmið áður fyrr, jafnvel á dögum Móse: „Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron“ (Hebr 5:4). Aron meðtók prestdæmið frá Móse, prestdæmisleiðtoga sínum (sjá 2 Mós 28:1). Aðeins þeir sem hafa prestdæmið geta vígt aðra, og þeir gjöra svo aðeins ef þeim er veitt valdsheimild til þess af þeim sem hafa lykla fyrir þá vígslu (sjá kafla 14 í þessari bók).

Menn geta ekki keypt eða selt kraft og vald prestdæmisins. Ekki geta þeir heldur tekið sér það vald sjálfir. Í Nýja testamentinu lesum við um mann að nafni Símon, en hann var uppi þegar postular Krists voru stjórnendur kirkjunnar. Símon snerist til trúar og var skírður inn í kirkjuna. Hann var leikinn töframaður og því trúði fólk því að hann hefði vald Guðs. En Símon hafði ekki prestdæmið og hann vissi það.

Símon vissi að postularnir og aðrir prestdæmisleiðtogar kirkjunnar höfðu hinn sanna kraft Guðs. Hann sá þá nota prestdæmið við verk Drottins og vildi hljóta þennan kraft sjálfur. Hann bauðst til að kaupa prestdæmið (sjá Post 8:9–19). En Pétur, aðalpostulinn, sagði: „Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé“ (Post 8:20).

  • Hvers vegna er mikilvægt að „enginn [taki] sér sjálfum þennan heiður [prestdæmið]?“

Hvernig nota menn prestdæmið réttilega?

Prestdæmið á að nota til að blessa líf barna himnesks föður hér á jörðu. Prestdæmishafar eiga að stjórna með ást og góðvild. Þeir ættu ekki að þvinga fjölskyldu sína eða aðra til hlýðni við sig. Drottinn hefur sagt að ekki sé hægt að beita krafti prestdæmisins nema í réttlæti (sjá K&S 121:36). Þegar við reynum að nota prestdæmið til að hljóta auðlegð eða frægð, eða í öðrum eigingjörnum tilgangi, „sjá, þá draga himnarnir sig í hlé. Andi Drottins tregar, og þegar hann hefur vikið á brott, er úr sögunni prestdæmi eða vald þess manns“ (K&S 121:37).

Þegar maðurinn notar prestdæmið „með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást“ (K&S 121:41), getur hann gert margt undursamlegt fyrir fjölskyldu sína og aðra. Hann getur skírt, staðfest og þjónustað sakramentið þegar honum er veitt vald til þess af þeim sem hafa lykla fyrir þær helgiathafnir. Hann getur blessað hina sjúku. Hann getur veitt fjölskyldumeðlimum sínum prestdæmisblessanir sem hvetja og vernda, þegar þeir þarfnast þess sérstaklega. Hann getur einnig hjálpað öðrum fjölskyldum með slíkum störfum og blessunum, sé hann beðinn um það.

Menn nota vald prestdæmisins þegar þeir stjórna í kirkjunni í köllun sinni sem greinarforsetar, biskupar, sveitarforsetar eða stiku- og trúboðsforsetar. Menn og konur sem starfa í kirkjunni, sem embættismenn og kennarar, vinna undir stjórn prestdæmisins og eftir leiðbeiningum heilags anda.

Hvaða blessanir fást þegar við notum prestdæmið réttilega?

Drottinn hefur lofað réttlátum prestdæmishöfum, sem nota prestdæmið öðrum til blessunar, miklum blessunum:

„Þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.

Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð þín skulu verða ævarandi yfirráð og streyma til þín án þvingana alltaf og að eilífu“ (K&S 121:45–46).

David O. McKay forseti, lofaði hverjum þeim sem nota prestdæmið réttilega: „Líf (hans) verður ljúfara, dómgreind hans skarpari til skjótrar ákvörðunar milli þess sem rétt er eða rangt, tilfinningar hans næmar og heitar, en andi hans þó sterkur og hughraustur til varnar því sem rétt er. Hann mun finna að prestdæmið er ótæmandi uppspretta hamingju – lind hins lifandi vatns er sprettur upp til eilífs lífs.“ (Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay [2003], 116).

  • Hvaða blessanir hafið þið hlotið með prestdæminu?

Viðbótarritningargreinar

  • K&S 84; 107 (opinberanir varðandi prestdæmið, þar á meðal eiður og sáttmáli prestdæmisins í K&S 84:33–40)

  • K&S 20:38–67 (skyldur prestdæmisins útskýrðar)